Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Illmennið guð

Nú til dags virðist það vera í tísku að tala um samræður á milli vísinda og trúarbragða, eins og trúarbrögðin hafi eitthvað gáfulegt til málanna að leggja annað en kreddurnar sínar. Raunin er sú að trúarbrögð hafa ekkert gáfulegt til málanna að leggja en vísindin geta upplýst okkur um ýmislegt varðandi trúarhugmyndir.

Þekkingaraðferðirnar trú og vísindi eru í eðli sínu í mótsögn. Þú getur ekki bæði aflað þér einhverrar vitneskju með því að beita hinni vísindalegu aðferð og með því að hafa fullvissu án raka, að minnsta kosti ekki á sama sviðinu.

Guðfræðingar, eins og aðrir trúmenn, hafa áttað sig á þessu og beita tveimur aðferðum við að bregðast við síaukinni þekkingu sem við öflum okkur með hinni vísindalegu aðferð. Bókstafstrúmennirnir sem segja að trúin hafi alltaf rétt fyrir sér og þegar vísindin komist að niðurstöðu sem er ósammála trúnni þá er eitthvað að vísindunum. Sem betur fer eru fáir bókstafstrúarmenn á Íslandi, en hinn hópurinn er heldur stærri. Þeir viðurkenna yfirburði vísindanna yfir öllu því sem vísindin geta rannsakað en hafa hopað með trúnna yfir á það órannsakanlega.

Ef við tökum sköpunarsöguna í upphafi biblíunnar sem dæmi þá trúir fyrri hópurinn því að hún sé sönn, að þetta hafi raunverulega gerst, þrátt fyrir niðurstöður vísindanna. Síðari hópurinn, sem líklega allir þjóðkirkjuprestar falla í, telja söguna augljóslega ekki vera sanna í neinum skilningi sem hægt er að kanna vísindalegan, heldur er hún, samkvæmt þeim, sönn á einhvern óskiljanlegan, andlegan hátt. Hvorugur hópurinn hefur þurft að breyta neinu hvað varðar tilvist guðs, enda er hún órannsakanleg. Því að allt getur passað við tilvist óskilgreinds óskiljanlegs anda. En samt geta niðurstöður vísindanna sagt okkur ýmislegt um þennan guð ef hann er til.

Niðurstöðurnar eru þær að milljónum árum áður en maðurinn varð til höfðu aðrar tegundir verið að þróast í milljónir ár. Sumar þessar tegundir eru svo viðbjóðslegar og valda svo miklum mannlegum þjáningum að maður hlýtur að velta því fyrir sér hvað guð hafi verið að hugsa öll þessi milljón ár sem hann var að láta þau þróast. Í raun virðist vera um einbeittan brotavilja að ræða, hann kom þessu jú öllu af stað og stjórnar öllu. Sá guð sem gerði þetta væri svo mikið illmenni að helstu fjöldamorðingjar sögunnar blikna í samanburði við hann.

Þessi milljón ár hefur hann fullkomnað eitur snákanna, tennur hákarlanna og kjálka krókódílanna. Hann hefur búið til sníkjudýr sem geta ekki lifað án þess að komast í hýsil og valda honum ólýsanlegum þjáningum. Hann lét Gíneu-orminn valda fórnarlambinu óbærilegum hita í sárinu sem dýrið veldur, til þess að fórnarlambið myndi kæla sárið í vatni og þar með koma eggjum sníkjudýrsins út í drykkjarvatnið. Á þessum milljónum árum hefur hann fullkomnað malaríuna og holdsveikina þannig að ónæmiskerfið getur nánast engar varnir veitt.

Það myndi ofbjóða manni ef einhver kallaði þessa veru ekki alilla, en trúmenn segja ekki einungis að þessi vera sé góð, nei, hún er algóð! Ef einhver manneskja hefði jafn viðurstyggilega afreksskrá og þessi guð, þá held ég að enginn myndi vilja kalla þann einstakling manneskju. Jafnvel hörðustu andstæðingar dauðarefsinga myndu sjálfir sprauta eitrinu í æðar þess einstaklings, án nokkurrar eftirsjár.

En sumir trúmenn reyna, þrátt fyrir að allt bendi til þess að þessi guð þeirra sé mesta illmenni sem hugsanlegt er, að halda í algæsku guðs. Þeir halda því þá fram að allar þessar viðurstyggilegu lífverur séu þarna vegna einhvers óskiljanlegs tilgangs guðs.

En hvernig í ósköpunum þessir trúmenn þá vitað að guð sé góður ef að hann er óskiljanlegur? Það er óhugsandi. En ímyndum okkur að við vissum að einhver maður hefði sprengt upp leikskóla. Myndi nokkrum manni detta það í hug að halda því fram að hann væri góður vegna þess að hann hefði hugsanlega einhverja ástæðu fyrir því að sprengja leikskólann? Ef við getum ekki sagt að guð sem hafði yfirumsjón með framleiðslunni á öllu því versta sem finnst í lífríkinu sé illur þá getum við ekki sagt að neitt sé gott eða illt. Orðin myndu missa alla merkingu.

Bókstafstrúarmenn vita af þessum afleiðingum og hafa kosið að neita vísindunum. Frjálslyndir guðfræðingar og trúað fólk sem samþykkir niðurstöður vísindanna veit annað hvort ekki af þessum afleiðingum eða neitar að horfast í augu við þær. Að minnsta kosti er ljóst að ef að guð er til og þróunarkenningin rétt, þá er guð illmenni.


Sjá einnig: Guð elskar þig, Guð er ekki til, Hin góða sköpun guðs

Hjalti Rúnar Ómarsson 19.12.2005
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.