Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Grænsápa eða bara lygi?

Í Blaðinu þann 25. nóvember er viðtal við Sigurjón Árna Eyjólfsson héraðsprest í Reykjavík um breytta réttindastöðu samkynhneigðra. Sumt af því sem hann segir þar slær mig óþægilega.

Það er alvitað að nútímaguðfræði gengur mest út á að fegra Biblíuna og gera höfundum hennar upp aðrar skoðanir en þeir höfðu. Allt fer þetta fram undir þeim merkjum að ritið verði að túlka í ljósi þess sem svokallaður Kristur á að hafa sagt og kennt, jafnvel þau ritningarvers sem lýsa fullkomlega afdráttarlausri afstöðu, eins og þessum um kynlíf tveggja karla. Gegnum aldirnar hefur þetta ekki verið neitt álitamál og kirkjan því fordæmt þessa kynhegðun einum rómi.

En núna eru runnir upp nýjir tímar, tímar umburðarlyndis fyrir ólíkum lífsstíl. Menn segja sem svo: „Meðan um er að ræða fullorðið fólk sem gefur upplýst samþykki sitt fyrir athöfnunum þá kemur mér ekkert við hvað fólk er að aðhafast inni á svefnherbergjum sínum. Kynlíf er enda skemmtilegt og ég vona bara að sem flestir lifi sem mestu af því.“

Það eru meira að segja til Þjóðkirkjuprestar sem hugsa svona. Þetta eru frjálslyndir karakterar í takt við tímann, fullir af nútímalegri réttlætiskennd. Og það má gefa sér að þeim svíði ósveigjanleiki svartstakkanna sem ríkja yfir stofnuninni. Verst er að þessir réttsýnu og nútímalegu prestar hafa sorglega rangt fyrir sér í einu efni, nefnilega því að Biblían er ekki umburðarlynd þegar kemur að kynlífi tveggja karla.

Nefndur Sigurjón Árni reynir í þessu blaðaviðtali að fegra þátt Biblíunnar og gengur jafnvel svo langt að halda því fram að hún hafi ekkert sérstakt að segja í þessum efnum:

„Veistu, Biblían segir voða lítið um samkynhneigð,“ segir Sigurjón. „Hvað varðar Gamla testamentið má rekja flestar yrðingarnar þar um þessi mál og önnur keimlík til tilrauna Ísraelsmanna til þess að skilgreina sérstöðu sína sem þjóðar, eftir fall Jerúsalem og útlegðina. Frjósemisátrúnaður í nágrannaríkjum Ísraels á þeim tíma fólst m.a. í heimsóknum til hofskækna og -karla og þessu töldu Ísraelsmenn nauðsynlegt að hafna. Þjóðin var að móta sig sem trúarsamfélag, sem dæmi má nefna umskurnina og lögmálið - viss hreinleikamerki sem höfð voru í hávegum. Með því að veita þeim háan sess greinu Gyðingar sig frá umhverfinu og nágrönnum sínum sem höfðu aðra siði.“

Gott og vel. Það er grænsápulykt af þessu, en kannski er þetta bara rétt mat á tilurð versanna í Gamla testó. En svo segir Sigurjón Árni:

„Nýja testamentið er öðru marki brennt hvað þetta varðar. Jesú talar ekkert um samkynhneigð. Í bréfum Páls Postula er að vísu að finna umfjöllun um samkynhneigð, en það er frekar eins og hann fjalli um hana í frjamhjáhlaupi - er ekki meginstef. Orðið „samkynhneigð“ kemur fyrir í vissum lastalistum hans, en það er jafnvel spurning hvort það er rétt þýðing á því gríska orði sem Páll notar.“

Svona til að byrja með þá er rétt að geta þess að orðið samkynhneigð kemur hvergi fyrir í Biblíunni, enda ekki nema um 25 ára gamalt í íslensku máli. Aftur á móti má velta fyrir sér hvort setningarhlutinn „eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars“ sé rétt þýddur.

En skoðum þessi orð í samhengi. Er þarna verið að minnast á þessar athafnir í framhjáhlaupi? Og hvers konar sekt hvílir á þeim mönnum sem svona hluti fremja, samkvæmt Páli?:

Þeir þekktu Guð, en hafa samt ekki vegsamað hann eins og Guð né þakkað honum, heldur hafa þeir gjörst hégómlegir í hugsunum sínum, og hið skynlausa hjarta þeirra hefur hjúpast myrkri. Þeir þóttust vera vitrir, en urðu heimskingjar. Þeir skiptu á vegsemd hins ódauðlega Guðs og myndum, sem líktust dauðlegum manni, fuglum, ferfætlingum og skriðkvikindum.

Þess vegna hefur Guð ofurselt þá fýsnum hjartna þeirra til saurlifnaðar, til þess að þeir svívirtu líkami sína hver með öðrum. Þeir hafa skipt á sannleika Guðs og lyginni og göfgað og dýrkað hið skapaða í stað skaparans, hans sem er blessaður að eilífu. Amen.

Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.

Þar eð þeir hirtu ekki um að varðveita þekkinguna á Guði, ofurseldi Guð þá ósæmilegu hugarfari, svo að þeir gjörðu það sem ekki er tilhlýðilegt, fylltir alls konar rangsleitni, vonsku, ágirnd, illsku, fullir öfundar, manndrápa, deilu, sviksemi, illmennsku. Þeir eru rógberar, bakmálugir, guðshatarar, smánarar, hrokafullir, gortarar, hrekkvísir, foreldrum óhlýðnir, óskynsamir, óáreiðanlegir, kærleikslausir, miskunnarlausir, þeir eru menn, sem þekkja réttdæmi Guðs og vita að þeir er slíkt fremja eru dauðasekir. Samt fremja þeir þetta og gjöra að auki góðan róm að slíkri breytni hjá öðrum. [Leturbreyting mín - BB]

Sigurjón Árni tekur stórt upp í sig þegar hann fullyrðir að þessi hatursáróður geðsjúklingsins Páls postula sé settur fram í einhverju framhjáhlaupi, já nánast varla minnst á kynlíf með fólki af sama kyni. Af hverju getur Sigurjón Árni ekki bara viðurkennt það að Páll postuli úthúðar hommum og lesbíum í Rómverjabréfinu? Af hverju má Biblían aldrei vera fordómafullt rit, skrifað af illa upplýstum skælingjum í árdaga? Af hverju í ósköpunum er svona mikilvægt að hún hafi alltaf vitrænustu útlistunina á öllum málum og síðasta orðið? Af hverju þarf að grípa til fegrana sem jaðra við lygar til að komast hjá að hallmæla Biblíunni?

Birgir Baldursson 08.12.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Snæbjörn - 08/12/05 00:11 #

Þú veist alveg hvers vegna.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/12/05 00:13 #

Ójá. Spurningar mínar eru retorískar. Nauðsynlegt að velta þessari lyga- og blekkingastétt aðeins upp úr eigin saur.


cybercat - 08/12/05 05:37 #

Heyrðu mig. Settu nafnið Jón Valur í stað Páll Postuli. Hvað færðu út? Svo er samkynheigð ekki lífsstíll, hún er úrval tegundanna. Það er ekki hægt að segja að stokkendur hafi annan lífsstíl en himbrimar. Oki?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/12/05 13:18 #

Heyrðu mig. Settu nafnið Jón Valur í stað Páll Postuli. Hvað færðu út?

Væntanlega að Jón Valur sé geðsjúklingur. En af hverju ætti ég að gera það? Hefur Jón Valur fengið ofskynjanir þar sem „andaverur“ tala til hans? Og hefur hann í kjölfarið byrjað að boða trú á það sem hann upplifði?

Samkynhneigð er meðfæddur eiginleiki sem leiðir til þess sem kallað er „alternative lifestyle“. Hneigðin sjálf er ekki lífsstíll heldur leiðir til hans, skilurðu?


cybercat - 08/12/05 15:37 #

Neibb. Ég skil bara alls ekki neitt. Hvað ertu að fara? Mér kemur ekki við hvort Jón sé geðbilaður. En hann hefur mikinn og vaxandi áhuga á hommum. Ég er gay, og vil ekki alla þessa athygli frá bældum karlmanni, hvað þá Jesúíta. En elskan, alternate lifestyle er bara þumalskrúfur og tognunarbekkir. Þar hefur Kaþólska kirkjan verið í fararbroddi með nýjustu tækni og vísindi öldum saman. Þetta veit Jón, vinur Gústa Gay á Sögu. (Annars er hann barasta fokinn út kallinn.) :oÞ


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/12/05 02:02 #

Þú ert hálf óskiljanlegur. Meira segja öfgamenn á borð við Gunnar í Krossinum tala um að það sé ekki hneigðin sem hann og Biblían fordæmi, heldur kynlífið, hinn alternatívi lífsstíll. Sama á við um Þjóðkirkjuna, nema hvað ýmsir frjálslyndir prestar á þeim bænum eru fullkomlega sáttir við að til séu elskendur af þessari gerð.

Ég skil ekki alveg hvað þú ert að blanda Jóni Val inn í þessa umræðu og hvaða dylgjur eru þetta? Gústi Gay hú?


cybercat - 09/12/05 03:50 #

Oki. Nú kviknar ljósið eins og hjá biskupnum. Hinn alternatívi lífsstíll homma er sumsé það sem Karl biskup varaði gagnkynhneigða við að stunda, með öðrum orðum anal intercourse. Alveg rétt hjá honum, minn maður. En það stunda miklu fleiri gagnkyhneigðir endaþarmsmök en hommar, enda hommar ekki nema 5% af mannkyninu. Hvað er þá alternatív? Ekki allir hommar stunda svona kynlíf. Ekki ég. Sorrý.

Það sem hommum finnst skrýtnast við álit gagnkynhneigðra á þeirra kynlífi er það, að gagnkyhneigðir vilja ekki skilja að um sama atferlið er að ræða að öllu leiti, jafnt hjá báðum. Það sem þú kallar hneigð heitir ást og umhyggja í minni orðabók, og hvor hópurinn skyldi vera meira alternatív varðandi það atriði?

Jón Valur var audda dreginn alveg saklaus og hreinn inn í þessa umræðu. Samþykki það með tungu innarlega í gómi. :o)


cybercat - 09/12/05 05:25 #

Bæ ðe vei. Ég kíkti á þennan vef af því mér var lofað að sjá skopmyndasögu með biskupnum yfir íslandi að söguhetju. Ég finn hana hvergi. :o(


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/12/05 07:43 #

Það að laðast að líkamsgerð eigin kyns er hneigð. Þessi hneigð getur alveg verið til staðar án þess að ást spili þar neitt inn í, rétt eins og hjá gagnkynhneigðum, ekki satt? Eða ertu að segja að það sé undantekningarlaust ást á milli tveggja karlmana sem sænga saman? Hættu nú þessum útúrsnúningum og skoðaðu myndasöguna (sem ekki er hýst hér, heldur vísuðum við aðeins í hana).


cybercat - 09/12/05 16:12 #

Oki doki. Hoppaðu þá uppí hjá biskupnum, elskan. Hann er alveg drop dead gorgeous. :OÞ Takk fyrir linkinn.


Benna - 09/12/05 21:50 #

Ég datt hér inná þessa líka fínu síðu fyrir algera tilviljun. Og las allskonar hluti sem oft var vit í þó sjaldnast virðist skrifað með virðingu fyrir annara skoðunum.... þessi grein er engin undan tekning þar á. Ég verð nú að fá að vera sammálaprestinum að sumu leiti. Þegar ég les þetta sé ég alls ekki jafn mikið um homma og lesbíur og þú greinilega gerir. “til þess að þeir svívirtu líkami sína hver með öðrum” þarna held ég að Páll (ég ættla svo sem ekki að mótmæla þvá að hann hafi kanski verið soldið tæpur á því) hafi átt við kynlíf eins og það leggur sig, hverir svo sem stunda það. Við skulum ekki gleyma að börn fæðast jú “syndug” og þaðan er skýrnin upphaflega. Svo breita konur eðlilegum mökum í óeðlileg, hvort sem þar er átt við að þær leggist hjá hvor annari eða bara fái leið á trúboða stellingunni veit ég ekki þá mér finnist hið síðar nefnda líklegra. Karlmenn fremja skömm hvor á öðrum, ég er nú ekki viss um að það hafi verið mikið umburðar lindi fyrir ást karlmanna hvor á öðrum en var reindar bara ekki mikið umburðarlindi fyrir ást yfir höfuð á umræddum tíma. Skömmin samt sem áður er bara kynlífið....

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.