Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kærleiki Jesú

Í Á guðfræðivefnum hefur Guðmundur Guðmundsson, prestur þjóðkirkjunnar, birt nokkra pistla sem bera yfirskriftina Eftirfylgdin. Í fjórða pistlinum fjallar hann um 13. og 25. kafla Matteusarguðspjalls. Í kafla sem Guðmundur kallar Mannsonurinn kemur, Mt. 25:31-46 lætur hann þessi orð falla:

Hér erum við vitni að fórnandi ást hans fyrir hinum minnstu sem birtist svo í krossferli hans. Þessi dæmisaga fjallar um kærleikann sem nær lengst svo vitnað sé í líkinguna af hendinni.

Kíkjum nánar á kærleika Jesú í þessum versum sem Guðmundur fjallar um:

Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. ... Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: "Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín." Þá munu þeir svara: "Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?" Hann mun þá svara þeim: "Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér." Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs. - [Matt 25:31-33, 41-46]

Fyrst að Guðmundur kýs að fjalla líka um þrettánda kafla Matteusarguðspjalls er við hæfi að benda á svipaðan “kærleika” þar:

Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. [Matt 13:40-42]

Þetta kalla kirkjunnar menn kærleika, að kvelja og brenna fólk að eilífu. Kirkjunnar menn segja að guðinn sem ætlar að gera þetta sé algóður. Þeir kalla Jesú Nýja testamentisins mesta siðfræðing sögunnar og frábæra fyrirmynd, þennan heimsendaspámann sem trúir því að algóð vera muni kvelja fólk að eilífu. Hvernig getur þannig maður verið góð fyrirmynd? Hvernig er ekki hægt að líta á þannig manneskju sem annað hvort hræðilegt skrímsli eða þá heilaþveginn ofsatrúarmann? Hvernig getur trú sem getur afbakað orðið “kærleika” þannig að það getur átt við mesta illvirki sem hugsanlegt er verið siðbætandi trú?

Prestunum er þó vorkunn, þeir vita betur. Þeir vita vel að þetta er viðbjóðsleg hugmynd og minnast aldrei á helvíti. Þeir einblína á að “Jesú bjargi okkur”, en minnast aldrei á að hann sé að bjarga okkur frá helvíti. Prestarnir, eins og við hin, nota ókristilegt siðferði sitt til þess að komast að því að þessi boðskapur Jesú sé ósiðlegur. Ég kalla þetta siðferði ókristilegt því að varla getur það siðferði verið kristilegt sem er í andstöðu við Krist.

En fyrst að prestarnir geta komist að þeirri niðurstöðu að þetta lýsi ekki kærleika, ættu þeir að hætta að nota við Jesú sem eitthvað kennivald í siðferðismálum. Því hvers vegna ættum við að notast við þetta kennivald þegar hann hefur svo augljóslega rangt fyrir sér þegar kemur að helvíti? Hvers vegna ættum við að taka mark á orðum manns sem hefur það brenglað gildismat að telja það hæfa algóðri veru að kvelja fólk að eilífu?


Sjá einnig: Kenning kirkjunnar, Þjóðkirkjan lýgur, Helförin hin síðari

Hjalti Rúnar Ómarsson 23.11.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Pjása - 29/11/05 00:03 #

[Athugasemd Vantrúar: Hér skrifar Lárus Páll Birgisson undir fölsku nafni]

Ég held að þú sért ekki alveg að skilja þessar biblíutilvitnanir Hjalti. Lest kannki heldur meira úr textanum en efni standa til.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 29/11/05 00:18 #

Endilega bentu mér á að hvaða leyti ég skil þessa kafla ekki og/eða að hvaða leyti ég les meira úr textanum en efni standa til.


Asta - 29/11/05 00:22 #

Það er þetta sem mér hefur alltaf þótt erfitt með biblíuna. Það má á víst ekki að skilja hana eins og hún kemur fyrir heldur á einhvern allt annan hátt. Það má alla vega ekki nota sjálfstæða hugsun, eða lesa hana með gagnrýnu auga, því þá er maður að misskilja eitthvað. Eg skil þessar tilvitnanir svipað og Halti Rúnar og mér finnst alltaf fróðlegt að sjá hvernig fólk getur túlkað hlutina mismunadi. Eg get ekki séð svo mikinn mun á Jesu og Hitler. Jafn valdasjúkir báðir tveir.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 29/11/05 01:06 #

Ætli helvíti sé ekki bara myndlíking í augum Pjásu.


pjása - 30/11/05 03:53 #

[Athugasemd Vantrúar: Hér skrifar Lárus Páll Birgisson undir fölsku nafni]

Jú sjáðu til Hjalti þú ert ansi slyngur að finna "neikvæða" texta í Biblíunni máli þínu til stuðnings. Gallinn er hinsvegar sá að þú virðist líta framhjá heildarmynd sögunnar, tilgangnum og boðskapnum.
En þetta er svosem ekkert nýtt fyrirbæri. Menn hafa öldum saman notað biblíutilvitnanir til að réttlæta málstað sinn óháð því hvort hann samræmist kenningum Jesú eða ekki.

Annað áttu líkt með slíkum "bókstafstrúar" mönnum og það er að draga út tiltekin vers í kafla og sleppa öðru sem gæti þó breytt heilmiklu varðandi boðskapinn.

Skoðum nú fyrra dæmið sem þú nefnir, án þess að búta það niður í henntugar stærðir matt 25.31-46:

Þegar Mannssonurinn kemur

31Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. 32Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. 33Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. 34Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims. 35Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, 36nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.'

37Þá munu þeir réttlátu segja: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? 38Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? 39Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?' 40Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.'

41Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. 42Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, 43gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.'

44Þá munu þeir svara: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?' 45Hann mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.' 46Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs."

Og nú blasir málið svolítið öðruvísi við Hjalti. Hér er nefnilega komið samhengi í textann sem þú svo snyrtilega reyndir að leyna með upptalningu þinni á allri refsingunni sem engin algóð vera gæti hugsanlega tekið að sér að útbítta.

En þessi texti stendur ekki einn og sér. Hann stendur í fullu samhengi við versin sem á undan komu þe. 1.-30. vers sem eru, án efa, líkingarmál. Því er ekki betur séð en að textinn sem þú svo fagmannlega hlutar í sundur sé í raun líking af líkingu af líkingu.

Eins má gera athugasemd við þá niðurstöðu sem þú gefur þér, að Jesú sé í raun hið mesta illmenni ef hann aðhyllist svona hugsunargang.
Ég get ekki séð að svo sé. Hér er gerður skýr greinarmunur á góðu og illu. Hafrarnir og sauðirnir tákna tvo hópa fólks. Annar hópurinn gerði náunganum gott, gaf honum að eta þegar hann var svangur, að drekka þegar hann var þyrstur osfr. Þessi hópur vann óeigingjarnt starf í kærleika fyrir fólk sem minna má sín. Hinn hópurinn gerði ekki neitt fyrir neinn.

Ef Jesú er svona vondur eins og Hjalti meinar, hví er þá boðskapurinn ávallt sá að elska náungann og ástunda kærleika?

Nú má vera að Hjalti eigi erfitt með að skilja sögurnar hans Jesú og líkingarmál hans enda um ævafornan texta að ræða. En það breytir ekki þeirri staðreynd að ályktanir hans um boðskap Jesú eru annaðhvort fordómar eða hrein óskhyggja.

Hvergi nokkurstaðar gefur Jesú okkur heimild til að vera vond hvert við annað. Kærleikur, friður og umburðarlyndi ráða ríkjum í boðskap hans.

Hvað varðar "refsingu" Guðs sem Hjalta þykir nú bera vott um lélegt siðgæði þá má eins spyrja hvort að dómari sem dæmir glæpamann til refsingar sé vondur.
Hjalti vill nefnilega, samkvæmt pistlinum að ofan, fyrra menn ábyrgð á sínum vondu verkum. Þeim má ekki refsa samkvæmt siðferði Hjalta.
En mundu það Hjalti að illvirkjarnir voru dæmdir til refsingar vegna sinn eigin illsku en ekki Guðs.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 30/11/05 18:38 #

Pjása, ég vil ekki fyrra menn ábyrgð á sínum vondu verki og það má alveg refsa fólki samkvæmt mínu siðferði. Það sem þú virðist ekki skilja er að refsingin er eilíf. Það er viðbjóðslegt, enginn á skilið eilífa refsingu og sá sem heldur að algóð vera muni refsa sumu fólki eilíflega hefur skrýtna skilgreiningu á "gott". Ertu ekki sammála því?

En skoðum þessa “líking af líkingu af líkingu” sem ég á greinilega svo erfitt með að skilja.

Lítum á samhengið sem þú ásakar mig um að reyna að leyna. Tilefnið af þessari ræðu Jesú í Matt. 24 og 25 er þessi spurning lærisveinanna: ,,Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?`` Þannig að hann er að tala um endalok veraldar og koma hans (Mannssonarins). Ef þú lest kafla 24 þá sérðu að hann lítur á heimsendi sem raunverulegan atburð, með öllu tilstandandi, stríði, jarðskjálftum, hrapi stjarnanna.

Fyrsta versið í tilvitnuninni byrjar á “Þegar Mannsonurinn kemur í í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.” Koma Mannssonarins þýðir heimsendir, þannig að hann er að segja að þetta muni gerast við heimsendi. Það er auðvitað eitthvað líkingamál í þessum spádómi, hann líkir guði við konung og þeim góðu og vondu við sauði og hafra, en boðskapurinn er skýr. Við endi veraldar munu þeir vondu fara í eilífa refsingu í eldi. Hvað annað getur þetta þýtt?

Kíkjum líka á aðra staði þar sem hann fjallar komu Mannsonarins. Augljósasta dæmið er Matt. 13 sem ég vitnaði í í greininni og þú hefur ekki minnst á. Þar er Jesú að útskýra dæmisögu. Er þetta “líking af líkingu af líkingu”?

Matt 13:36-43

Þá skildi hann við mannfjöldann og fór inn. Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: Skýrðu fyrir oss dæmisöguna um illgresið á akrinum. Hann mælti: Sá er sáir góða sæðinu, er Mannssonurinn, akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda. Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar. Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur, hann heyri.

Síðan endurtekur hann þetta skömmu seinna:

Matt 13:49-50

Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

Ég er hvorki að taka þetta úr samhengi né að afbaka það sem textinn segir, heldur eiga kristnir Íslendingar erfitt með að sætta sig við það að Jesús hafi boðað eilífa refsingu fyrir vondu trúleysingjana.


Kalli - 30/11/05 19:14 #

Því má kannski við bæta hér að glæpur hafranna er aðgerðaleysi. Eilífur bruni fyrir að hjálpa ekki.

Enn fremur:

Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn.

Sem hneykslunum valda? Ég get skilið að þeir sem ranglæti fremja skuli enda í „eldsofninum“ – þó mér finnist þetta óþarfa refsigleði, ranglæti eru misstór, og sérstaklega við enda veraldar. En það að þeir sem hneykslunum valda skuli brenna... hneykslanlegt.


pjása - 01/12/05 05:13 #

[Athugasemd Vantrúar: Hér skrifar Lárus Páll Birgisson undir fölsku nafni]

Ok, ég skil hvað þú ert að fara Hjalti. Ég er ekki sammála þér en ég skil hvernig hægt sé að komast að þessari niðurstöðu.

Það er reyndar eitt vafaatriði sem ég er að reyna að átta mig á og það er hugmynd þín um eilífa refsingu hina ranglátu. Þú minnir okkur réttilega á það að Jesú er að tala um heimsendinn í þessu samhengi, þe. að dómurinn kemur við hinn meinta heimsenda. Ef svo ólíklega vildi til að heimsendir komi nú einhvertíma, þegar við eigum síst von á, er þá ekki óhætt að segja að allir menn muni farast í þesskonar tradigíu?

Ef svarið er já er þá ekki eðlilegt að álykta sem svo að að "dómurinn" sem fellur yfir réttláta og rangláta sé eilífur þar sem dauðinn er svo sannarlega eilífur líka?

Hvað varðar 13. kaflann þá er hann að tala um sama hlutinn. Hann nefnir reyndar hvergi að það séu trúleysingjarnir sem hljóti þessi skelfilegu örlög heldur þeir ranglátu þannig að þetta er nú örlítill misskilningur hjá þér.

En ég á erfitt með að skilja að einhver trúi þeirri túlkun sem þú leggur upp með þó vissulega sé hægt að túlka hlutina á þennan hátt. Ég held að flestir sem lesi þennan texta skilji hann á mun einfaldari hátt án þess að þurfa að snúa honum við til að gott verði vont og vont gott.

Ef við setjum dæmið upp þannig að hinir ranglátu hljóti sömu örlög og hinir réttlátu þá er virkilega komið tilefni til að spyrja hvernig siðferðismálum Guðs sé háttað.

Segjum sem svo að himnaríki sé leikvöllur þar sem góðu börnin fá að hanga eftir dauðann. Í "kærleíka" sínum ákveður Guð nú að allir fái að kíkja í garðinn, ekki bara góðu börnin, þá fyllist garðurinn af vondum börnum sem stríða og hrekkja. Er þetta dæmi um góðan stjórnanda?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 01/12/05 13:35 #

Frábært að þú skiljir hvernig hægt sé að komast að minni niðurstöðu, en ég vil endilega sjá þig koma með einhver rök fyrir því að þetta sé allt ein alsherjar myndlíking, þegar ekkert bendir til þess. Hvað er Jesús td að segja í 13 kafla þegar hann talar um að við heimsendi muni hann senda engla sína og henda vondu trúleysingjunum (veit að það stendur ranglátu, en ef það er eitt sem kristnir menn eru sammála um þá er það að þeir trúlausu séu í þeim hópi) í eldsofninn sinn? Hvað getur þetta annað þýtt en að hann muni einmitt gera þetta? Textinn hefur enga vitræna merkingu aðra en þá að hann sé einmitt að segja að þetta muni gerast.

Ég er ekki viss hvort að allir eigi að farast í heimsendi, þeas hvort hinir trúuðu eiga að sleppa við það. En það er ekki “eðlilegt álykta sem svo að að "dómurinn" sem fellur yfir réttláta og rangláta sé eilífur þar sem dauðinn er svo sannarlega eilífur líka”. Hann er ekki að tala um að þeir muni bara deyja og að það sé hinn eilífi dómur, hann talar um eilífan eld og eilífa refsingu annars vegar og eilíft líf hins vegar.

Endilega útskýrðu fyrir mér hvernig þú reynir að túlka þessa kafla á annan hátt heldur en ég, og flestir kristnir menn sögunnar hafa túlkað hann.

Pjása, enn og aftur, ég er ekki að segja að allir eigi að hljóta sömu örlög. Ég er að segja að eilíf refsing sé aldrei réttlætanleg. Ertu ekki sammála því? Svo ég noti leikskólalíkinguna þína: Væri það ekki viðbjóðslegt ef “Guð” myndi taka vondu börnin og setja þau að eilífu í skammarkrókinn, eða þá í eldsofninn?


Kalli - 01/12/05 13:40 #

Má ekki líka horfa á þetta frá því Lúterska sjónarmiði að það sé mönnum ekki í sjálfsvald sett hvort þeir komist í himnaríki því menn hafi ekki frjálsan vilja? Þá er það val Guðs í upphafi sem stjórnar því hverjir brenna og hverjir fá verðlaunin eftir jarðvistina.

Ef við tökum þetta aðeins lengra þýðir það að Guð, skv. hugmyndum Lúters, skapar menn til að pynda þá.


Sirrý - 04/12/05 05:02 #

Ég held að Biblían sé góð skáldsaga sem sumir hafa þörf fyrir að lesa og skilja á sinn eigin hátt. Ekkert hefur 'substance' ef ekki er gagnrýnt. Benda má þó á að ef Biblían er gagnrýn, er þá ekki rétt að líta á aðrar trúr og trúarrit, sem 'dictatera' fyrir manni hvað er rétt og hvað er rangt, og þá gagnrýna allar trúr. Gagnrýni er heilbrigð. Ég lifi mínu lífi eftir fílósófiu Spíritista sem allir eiga það sameigninlegt að vitneskja er fyrir lífi, eftir þetta líf. Aldrei er minnst á 'syndina' sem er orð sem mér leiðist ógurlega og ekkert er svo slæmt í þeirri trú sem ég fylgi. Ekki er heldur trúað á helvíti og heimsenda. Það er merkilegt að mannfjöldinn skuli fylgja trú, eins og kristinni trú sem er svona svakalega gagnrýnin.

Allt er gott í hófi, sé það jákvætt og uppbyggjandi, gagnrýni líka. Það væri óskandi að Íslendingar væru aðeins opnari fyrir t.d. Ásatrú Búddatrú, Bahai, Islam, Gyðingatrú, Spíritisma, Wiccan eða hverri þeirri trú sem er önnur en kristin trú.

(afsakið slangrið, ég hef ekki verið búsett á Ísl. í um 15 ár)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.