Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Verndum bernskuna

Í ljósi nýlegra greinaskrifa um kristniboð í grunnskólum er rétt að minna á alræmdasta dæmið á Íslandi. Í febrúar í ár voru sýndar í fréttatíma myndir af nemendum í Holtaskóla sem voru látnir fara með kristilegar bænir í upphafi hvers einasta skóladags. Áhugavert er að líta til baka á ummæli talsmanna Þjóðkirkjunnar og athuga hvort það sem kirkjan segist vilja beri saman við það sem hún gerir.

Í Kastljósinu 21. febrúar ræddu Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, verkefnisstjóri Biskupsstofu, og Sigurður Hólm Gunnarsson, varaformaður Siðmenntar, um þetta ákveðna mál. Þar sagði Steinunn að foreldrar bæru ábyrgð á trúaruppeldi barna, ekki skólarnir og að bænahald ætti ekki heima í grunnskólum. Hún endaði á því að segja: “Það er frá okkur [Þjóðkirkjunni] alveg skýrar línur að kristinfræðikennsla er fræðsla. Boðun og trúarleg iðkun fer fram á heimilum og í kirkju.” 1 Karl Sigurbjörnsson, æðsti klerkur Þjóðkirkjunnar, hefur tekið undir það að kristnifræði eigi ekki að vera trúboð.

Í skýrslu starfshóps þjóðkirkjunnar um tengsl kirkju og skóla voru þetta tvær af grunnforsendum samstarfs kirkju og skóla:

  1. Skólinn fræðir um kristna trú og önnur trúarbrögð. Slík fræðsla verður mikilvægari eftir því sem íslenskt þjóðfélag verður fjölbreyttara í trú og lífsskoðun. Mikilvægt er að takast á við slík viðfangsefni í skólanum sem nær til allra.
  2. Tileinkun trúar eða lífsskoðunar fer fram á heimilum, í kirkjum eða trúfélögum.

Í fræðslustefnu Þjóðkirkjunnar stendur:

“Gæta þarf að ólíkum hlutverkum þessara tveggja stofnana. Skólanum er ætlað að fræða um trú og lífsgildi. Hlutverk kirkjunnar er að boða kristna trú og lífsgildi þannig að þeir sem henni tilheyra tileinki sér boðskapinn.”

Þannig að kirkjan segist augljóslega ekki styðja trúboð í skólum. Hvernig stendur kirkjan sig í að standa við þetta? Í fræðslustefnunni kemurfram að meðal markmiða kirkjunnar sé að “Sóknir og stofnanir Þjóðkirkjunnar eigi samstarf við leikskóla/skóla um heimsóknir og fræðslu, sálgæslu, áfallahjálp og kærleiksþjónustu.”

Ég ætla ekki að minnast á trúboðsheimsóknir presta í leikskóla, sem vantrúarseggurinn Matti hefur orðið fyrir barðinu á. Þjóðkirkjan kallar þessar heimsóknir ekki trúboðsstarfsemi: “Kvartað hefur verið undan heimsóknum presta og starfsfólks kirkna í leikskóla og talið að um trúboðsstarfsemi væri að ræða.” (sjá hér). Það er vissulega hægt að kalla það fræðslu að “fræða” krakkana um að guð sé til og að maður geti talað við hann, að Jesús hafi risið upp frá dauðum og elski þau, en það er samt trúboð þrátt fyrir að maður kalli það fræðslu eða því orwellíska nafni “kærleiksþjónustu”.

Nei, ég ætla ekki að fjalla um heimsóknir presta í leikskóla, heldur grunnskóladjákna, sem sinnir “kærleiksþjónustu” í Varmárskóla. Djákninn kallar þessa "kærleiksþjónustu" Vinaleið, en hvað gerir djákni í grunnskóla? Því er svarað í bæklingi Djáknafélags Íslands sem einhver djákninn afhenti mér á Kirkjudögum í sumar:

Djáknar í grunnskólum

Hlutverk djákna í grunnskólanum er að vera fulltrúi kirkjunnar og veita nemendum kristilega sálgæslu og stuðning ásamt því að auka skilning nemenda gagnvart öðrum manneskjum....Djákninn er fulltrúi kirkjunnar og sem slíkur leitast hann við að skapa tengsl á milli skóla, kirkju og heimilis. Hann fræðir um kristindóm og kirkju og styður við kristilegt trúarlíf nemenda og starfsfólks skólans. ...

Djákninn sér um bæna- og helgistundir í skólanum. [feitletrun mín - bæklingur Djáknafélags Íslands í tilefni 10 ára afmælis félagsins, bls 6]

Þórdís, grunnskóladjákninn, hefur skrifað grein um starf sitt og þar segir hún að Vinaleiðin sé “... opin[n] og almenn”, með því á hún við “...að allir nemendur skólans geta nýtt sér þessa þjónustu að vild og að ekki þarf leyfi foreldra til að nemandi komi í sálgæsluviðtal.” Þórdís lýsir þar næst útliti skrifstofu Vinaleiðar: á veggjum er meðal annars bænavers og “[f]aðir vor er í ramma á vegg og sjö boðorð voru í einlægni skrifuð á blátt blað. Auglýsingamiðar um fundartíma alls barnastarfs kirkjunnar í Lágafellssókn og Jesúmyndir eru í körfu þar sem allir hafa góðan aðgang að og geta fengið miða og mynd.”

Einnig lýsir hún starfi djáknans innan skólans sem er að mestu leyti svipað því sem fram kemur í bæklingnum:

djákni er fulltrúi þjóðkirkjunnar og kristinnar trúar

djákni veitir kristilega sálgæslu og stuðning

djákni er tengiliður milli skóla, heimila og kirkju

djákni hefur bæna- og helgistundir fyrir nemendur og starfsfólk skólanna bæði í skólunum og í kirkjum safnaðarins

djákni ... ræðir við börnin um kristin gildi, lífið og dauðann, svarar spurningum sem upp koma við andlát aðstandenda, stöðvar einelti o.s.fr.”

Nú spyrja kannski sumir hvað þessi “kristilega sálgæsla” sé. Ég leyfi mér að vitna í glæru frá námskeiði í sálgæslufræði við Háskóla Íslands. Þar stendur að meðal marmkiða kristinnar sálgæslu sé “að sætta og byggja upp brotin samskipti milli manna og milli manns og Guðs”

Betra yfirlit er þó að finna í erindi biksupsritarans Þorvaldi Karil Helgasyni í endurmenntunarnámskeiði í "sálgæslufræði" við Háskóla Íslands:

Sálgæslan er ein af meginstoðum kirkjulífsins, sá andi sem svífur yfir vötnunum og hefur áhrif bæði á tilbeiðslu, prédikun, boðun og fræðslu. Hún hefur það víðtæka markmið að veita manneskju leiðsögn á vegi trúarþroska og trúarstyrkingar, í ljósi sögu manneskjunnar og á lífsgöngu hennar, sérstaklega hvað varðar spurninguna um tilgang lífs og dauða, spurningar er snerta innstu þræði mannlífsins ...

Í kristinni sálgæslu er umfram allt verið að auka sem mest tengingu við grunn kristinnar trúar, vísa í táknmál trúarinnar, og ekki hvað síst með skírskotun í hjálpræðissöguna, til lífs, dauða og upprisu Krists. ...

Sálfæðin spyr meira hvaða tengingar má lesa í lífi einstaklingsins sjálfs, sögu hans, en sálgæslan leitar út fyrir í túlkun sinni, að tengja sögu einstaklingsins við sögu Krists, hina ósýnilegu sögu trúarinnar. ...[leturbreyting upprunaleg]

Sálfræðin spyr hvernig lifir manneskjan og hvernig ég sem fræðimaður get skilið hana. Sálgæslan spyr hver er tilgangur lífsins, hvers vegna er manneskjan til og hvert stefnir hún. Sálgæslan leitast við út frá kristinni trú og lífssýn að styðja manneskjuna við að þroskast bæði andlega og sálarlega. ...[leturbreyting upprunaleg]

Það fer enginn að segja mér að þegar ofsatrúaður starfsmaður kirkjunnar er með börn í "sálgæslu" sé ekki verið að stunda trúboð í skólum. Vill biskupsstofa ekki reyna að ná stjórn yfir starfsmönnum kirkjunnar og segja þeim að hætta að boða trú og að bænahald eigi ekki heima í skólunum? Hvernig getur kirkjan séð samræmi í því að vera á móti trúboði í skólum og siga prestum og djáknum á leik- og grunnskólabörn? Kirkjan ætti að hlýða eigin kalli og vernda bernskuna gegn trúboði kirkjunnar og starfsmönnum hennar.

Sjá atvinnutrúmenn kannski ekki muninn á trúboði og fræðslu? Eða er kirkjan kannski sátt við þessa hræsni og er þessi fáránlegi nafnaleikur, að kalla trúboð “fræðslu” og “kærleiksþjónustu”, bara almannatengslabragð?


1Fjölmiðlaumfjöllun um trúboð í skólum dregin saman - Skoðun.is

Sjá einnig: Leikskólar hunsa siðareglur, Hryðjuverkamenn hugans, Kristinfræði?.

Hjalti Rúnar Ómarsson 21.11.2005
Flokkað undir: ( Skólinn , Stjórnmál og trú , Vinaleið )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/05 01:07 #

Vert er að taka fram, svo það sé á hreinu að um trúboð er að ræða í leikskólum, að leikskólapresturinn kennir krökkunum að fara með bænir. Þau spenna greipar, loka augunum og tala við gvuð.


Hulda Guðmundsd - 21/11/05 10:07 #

Kærleiksþjónusta á vegum kirkjunnar er ekki "almannatengslabragð" - hún er umhyggja fyrir náunganum, grundvölluð á kærleika sem kristnar manneskjur reyna að tjá með miskunnsemi og samtöðu með öllum manneskjum. Markmið sálgæslunnar er að hjálpa fólki til að nýta möguleika sína og krafta til að takast á við lífsvanda sinn á skapandi hátt. Þá er reynt að draga úr og ryðja burt þeim innri hindrunum sem birtast svo oft í brotnum samskiptum og valda því að grundvallarþarfir manneskjunnar eru vannærðar. Aðferð sálgæslunar er fyrst og fremst hið opna eyra - þ.e, að auðskýna skilning, hlýju og nærfærni og leggja eyrun við tjáningu tilfinninga og greiða þannig fyrir hughreinsun "kaþarsis".

Í október 2004 var eftirfarandi haft eftir umboðsmanni barna í Morgunblaðsgrein,um þau mörgu erindi sem honum höfðu borist frá börnum:

"Mörg erindanna séu þó ákaflega dapurleg og sýni mikla vanlíðan hjá mörgu ungu fólki, sem á erfitt með að ná eyrum hinna fullorðnu, jafnvel sinna nánustu, þegar erfiðleikar af ýmsum toga steðja að. Lýsir umboðsmaður áhyggum að þessu í skýrslunni. Flest þeirra 239 erinda sem umboðsmaður fékk í fyrra vörðuðu fjölskylduna í samfélaginu..."

Í pistli þínum, Hjalti Rúnar, víkur þú á neikvæðan hátt að "Vinaleið" sem er kærleiks og sálgæsluþjónustu djákna sem starfar í Varmárskóla. Um þetta starf sagði Viktor A. Guðlaugsson skólastjóri eftirfarandi í bréfi dags. 13. ágúst 2003:

"Vinaleiðin er nú orðin fastur hluti af stoðkerfi skólans og þar fá fjölmargir nemendur stuðningsviðtöl og aðstoð vegna ýmissa persónulegra mála sem í raun geta verið af jafn fjölþættum toga og einstaklingarnir eru margir. Starfsemin var í upphafi takmörkuð við nemendur í yngri deild skólans en starfsemin hefur þróast og nær nú einnig til nemenda í yngstu bekkjum unglingadeildarinnar. Það er mat skólans að þessi starfsemi sé góð viðbót við aðra stoðþjónustu sem veitt er í skólanum og reynsla okkar af þjónustunni er með ágætum. Staf Vinaleiðarinnar er kennurum og starfsmönnum skólans kærkomið og gott samstarf er milli fagaðila innan skólans. Við höfum einnig fengið mjög jákvæð viðbrögð frá foreldrum sem vita vel af þessu satrfi og kunna að meta það."

Hvers vegna þarf hér á þessum miðli að níða niður það sem vel er gert? Það er sífellt verið að tala um "trúboð" þegar starf á borð við Vinaleiðina er fyrst og fremst kærleikur í verki til handa þeim sem virðast svo oft fara á mis við slíkt í sínu daglega lífi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/11/05 11:35 #

Er það ekki ágætlega rökstutt í greininni, Hulda? Þarf að tyggja þetta ofan í ykkur?

Í kristinni sálgæslu er umfram allt verið að auka sem mest tengingu við grunn kristinnar trúar, vísa í táknmál trúarinnar, og ekki hvað síst með skírskotun í hjálpræðissöguna, til lífs, dauða og upprisu Krists. ... [feitletrun mín - BB]


Árni Árnason - 21/11/05 14:19 #

Þessi spurning kemur upp aftur og aftur í þessu sambandi. Er þetta fólk svona heimskt , eða er það vísvitandi að villa á sér heimildir?

Til þess að hið fyrra stæðist þyrfti það að vera alveg víðáttuheimskt, því að framferði þess er TRÚÚÚÚboð hreint, tært og ómengað, þó að þau reyni að kalla það einhverjum öðrum nöfnum, svo sem eins og "kærleiksþjónustu". ( mellur gætu allt eins réttlætt sína þjónustu með þessari nafngift )

Ef þetta fólk er vísvitandi að segja eitt og gera annað, er það á mannamáli kallað ómerkilegheit og sviksemi.

Sannleikurinn er sá að andi hins "heilaga hryllings" er enn við lýði þó að á hófsamari nótum sé. Þetta fólk er svo gegnsýrt af bábiljutrú sinni að það verður gersamlega blint fyrir því að geti gert nokkuð rangt, ef það á að heita í nafni trúarinnar ( lesist kirkjunnar)

Nær væri að vorkenna því en ásaka það. Það er löggjafans að stoppa þetta rugl.


Páll - 21/11/05 14:19 #

ha ha ég man þegar ég var í 5.bekk þá komu einhverjir gaurar frá kirkjuni og gáfu okkur nýja testamenntið.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/05 14:31 #

Kærleiksþjónusta á vegum kirkjunnar er ekki "almannatengslabragð" -
Þú ert að misskilja. Ég er að kalla það almannatengslabragð að kalla trúboð "kærleiksþjónustu" og/eða "fræðslu".
Hvers vegna þarf hér á þessum miðli að níða niður það sem vel er gert?
Af því að það er ekki vel gert. Það er sjálfsagt að hafa einhvern sem getur hlustað á vanda barnsins. En það á ekki að vera starfsmaður einhvers trúfélags.
Það er sífellt verið að tala um "trúboð" þegar starf á borð við Vinaleiðina er fyrst og fremst kærleikur í verki til handa þeim sem virðast svo oft fara á mis við slíkt í sínu daglega lífi.
Lestu lýsingu biskupsritara á sálgæslu, lestu hvernig þið djáknarnir lýsið starfi skóladjáknans, lestu hvernig Þórdís lýsir skrifstofunni.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/05 14:37 #

Páll, þú ert að tala um siðlaust trúboð Gideons


Páll - 21/11/05 14:55 #

já meinti það.


Hulda Guðmundsd. - 21/11/05 16:12 #

Hjalti - Þú segir um starf Þórdísar í Vinaleið: "Af því að það er ekki vel gert. Það er sjálfsagt að hafa einhvern sem getur hlustað á vanda barnsins. En það á ekki að vera starfsmaður einhvers trúfélags." Er þér fullkomlega sama þótt þú vegir með þessum hætti að STARFSHEIÐRI Þórdísar? Hvernig leyfir þú þér svona dónaskap? Og þér til upplýsingar þá er Þórdís starfsmaður skólans, sem hluti af stoðþjónustukerfi hans og vinnur að nauðsynlegri aðhlynningu barna sem oft vantar alúð og hlýju frá sínu nærumhverfi.

Hvað segir þú svo um "trúboð" Landsvirkjunar? Er það hafið yfir gagnrýni?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/05 16:22 #

Er þér fullkomlega sama þótt þú vegir með þessum hætti að STARFSHEIÐRI Þórdísar?

Mig langar að skjóta inn örlítilli athugasemd. Ef Þórdís stundar eitthvað í starfi sínu sem túlka má sem trúaráróður er starfsheiður hennar, að mínu hógværa mati, enginn.

Hulda, gerðu það hættu þessu viðkvæmnisþvaðri og færðu almennileg rök fyrir máli þínu. Það eru ekki rök að saka aðra í sífellu um dónaskap, sér í lagi þegar hann er hvergi að finna.

Ég vil beina til þín einni einfaldri spurningu og fer fram á að þú svarir henni á afgerandi hátt:

Finnst þér réttlætanlegt að prestur Þjóðkirkjunnar fari í leikskóla og kenni börnum að fara með bænir.

Já eða nei.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/05 16:27 #

Hvað segir Þórdís sjálf?

djákni [í skólum] er fulltrúi þjóðkirkjunnar og kristinnar trúar
Hún segir líka þetta:
Hluti af starfi mínu sem djákni í Lágafellssókn felst í kærleiksþjónustu við grunnskólana í Mosfellsbæ. Þetta er ný þjónusta sem ég kalla Vinaleið.
(tekið héðan) Þórdís segist vera þarna á vegum þjóðkirkjunnar. Er hún þá að vega að sínum eigin starfsheiðri? Er hún þá ekki með dónaskap?
Hvað segir þú svo um "trúboð" Landsvirkjunar? Er það hafið yfir gagnrýni?
Hér erum við ekki að ræða um það, heldur trúboð þjóðkirkjunnar.


Lára G. - 21/11/05 17:25 #

[athugasemd færð á spjallið - ítreka að við krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng ]


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/05 17:29 #

Skemmdi barnatrúin ykkur svona að þið þolið ekki kristna siðfræði og "kærleika" í grunnskólum landsins?

djísus, fer fólk á námskeið til að læra að snúa svona út úr?


Dipsí - 21/11/05 17:55 #

Býður djáknámið upp á að slíkur gangi inn í störf t.d. námsráðgjafa, sálfræðinga o.s.frv?

Af hverju er djákni að stunda þessa iðju? Er skortur á félagsfræði- eða sálfræðimenntuðum?

Ef að þetta er rétt :

Vinaleiðin er nú orðin fastur hluti af stoðkerfi skólans og þar fá fjölmargir nemendur stuðningsviðtöl og aðstoð vegna ýmissa persónulegra mála sem í raun geta verið af jafn fjölþættum toga og einstaklingarnir eru margir.

Hvernig kemur þá einhver djákni þar að? Hefði ég haldið að fyrst þetta er svona mikilvægt, að þá sé réttast að fá manneskju með sérhæfingu í slíkum hlutum.

Er verið að búa til djobb? Get ég gengið í störf djáknans eða hvað er það í menntun hans sem gerir hann hæfari en mig til að gegna slíku starfi?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/05 18:20 #

Lára, það er fínt að hafa einhvern sem börnin geta talað við, en það ætti ekki að gera það í samstarfi við eitt trúfélag og það á alls ekki að vera að boða trú. Eins og Dipsí bendir á væri eðlilegra ef sérfræðingar utan kirkjunnar sæu um þetta.

Kannski hjálpar það þér að skilja þetta ef þú ímyndar þér að í staðinn fyrir trúmál værum við að tala um stjórnmál.

Skemmdi barnatrúin ykkur svona að þið þolið ekki kristna siðfræði og "kærleika" í grunnskólum landsins?
Ég man nú ekki eftir að hafa barnatrú, þannig að hún hefur varla skemmt mig. En persónur okkar eru ekki til umræðu hér heldur málefnið.


Hulda Guðmundsd. - 23/11/05 10:46 #

Dipsí spyr: "Er verið að búa til djobb? Get ég gengið í störf djáknans eða hvað er það í menntun hans sem gerir hann hæfari en mig til að gegna slíku starfi?"

Þú skalt snúa þér til Háskóla Íslands til að kynna þér hvernig samsetning á djáknanáminu er.

Dipsí spyr líka: "Býður djáknámið upp á að slíkur gangi inn í störf t.d. námsráðgjafa, sálfræðinga o.s.frv? Af hverju er djákni að stunda þessa iðju? Er skortur á félagsfræði- eða sálfræðimenntuðum?"

Djáknanámið er ekki eins saman sett og nám sálfræðinga eða námsráðgjafa, það felur í sérstaka þætti m.a. á sviði sálgæslu, sem þú skalt kynna þér hjá Háskóla Íslands. Djákninn sem starfar í Varmárskóla fer ekki inn á svið sálfræðings og/eða námsráðgjafa, heldur starfar við hlið þeirra og í samráði við þá aðila.


Dipsí - 23/11/05 11:37 #

ókei Hulda.

Ég gerði nú heiðarlega tilraun til að kynna mér djáknanámið á vefsíðu guðfræðideildar hjá Háskólanum og þar eru 3 einingar í sálgæslufræði.

Þetta er svona svipað og ef ég tæki eina önn í rafvirkjun og færi svo að vinna sem rafvirki. Þá mundi fólk nú rísa upp og segja að ég væri að ganga inn í lögvernduð störf annarra en kannski mundi ég sleppa með það ef ég kallaði mig kristilegan rafvirkja, nú eða kærleiks-rafvirkja?

Ef hinsvegar djákninn er ekki að sinna störfum þeim sem sálfræðingar/námráðgjafar/félagsfræðingar sinna, þá er bara trúin ein eftir, þ.e. djákninn er að stunda trúboð. Það er því verið að búa til djobb sem hefur engan tilgang annan en trúboðið.

Ég vil gjarnan fá svipað starf í Varmárskóla þar sem ég tel mig geta leiðbeint börnum í erfiðleikum í samráði við fagaðila, með þeim kærleika sem felst í trúleysi mínu. Heldurðu að mér nægi ekki að taka þessar 3 einingar í sálgæslufræði bara?

Þess má geta að ég er tæknifræðingur að mennt, hef því reynslu af að leysa vandamál sem krefjast reikningskunnáttu, það er ekkert lengra frá sálrænum vandamálum barna en hin guðfræðilegu vandamál sem djákninn hefur æfingu í að leysa með sögu og trúarlífsnámi sínu.


Bjarni - 24/11/05 13:34 #

Mig langar aðeins að blanda mér inn í annars mjög fróðlega umræðu hér. Áður en ég set í gang langar mig að benda á að í Mbl. í morgun er svargrein Sigruðar Hólm, varaformanns SIðmenntar, vð gein Huldu og er ágætis lesning.

Það sem kom mér mest á óvart í umræðunni, hér að ofan, er hvernig sálgæslan er skilgreind. Ég tel að sálgæsla sé á starfssviði sálfræðinga og geðlækna. Prestar hafa hinsvegar eignað sér sálgæsluna undanfarin ár. Það kemur mér á ávart að sálgæslan er skilgreind sem kristileg sem eingöngu eflir skoðun mína á því að við áfallahjálp eiga i prestar að halda sig til hlés.

Kristileg sálgæsla djákna auk heimsókna presta í leikskóla er í mínum huga TRÚBOÐ. Skilningsleysi þeirra sem ekki sjá að það er ekki bara kennsla í kristinfræði sem viðgengst í grunnskólum heldur stundum grímulaust trúboð hræðir mig. Að geta ekki skilið að það er til fólk sem ekki trúir eða er annarar trúar sem hefur aðra skoðun um trúboðið sýnir skort á umburðarlyndi gagnvart öðrum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/11/05 13:39 #

Áður en ég set í gang langar mig að benda á að í Mbl. í morgun er svargrein Sigruðar Hólm, varaformanns SIðmenntar, vð gein Huldu og er ágætis lesning.

Einnig er hægt að lesa grein Sigurðar á heimasíðu hans.


Gilgames - 25/11/05 12:30 #

Kæru trúaðir og trúlausir

Mér finnst trúlausir hér á spjallsíðunni gera of mikið úr kennslu kristinfræði í grunnskólum sem "trúboði".

Þetta er svo léleg kennsla í kristnum fræðum og fræðum um önnur trúarbrögð af tveimur gildum ástæðum. 1. Kennararnir eru ekki nægilega menntaðir í þessum fræðum, enda eru fræðin ruglingsleg og mótsagnakennd. 2. Kennararnir eru flest allir með sama grunninn og við sjálf höfðum út úr þessu námi í grunnskóla, þ.e. trúleysi.

Kristinfræðikennsla hefur svipuð forvarnaráhrif og bólusetning gegn inflúensu, þ.e. þeir sem fá kristinfræðikennslu eiga síður von á því að "veikjast", eða verða trúaðir. Þetta ættu t.d. læknar og hjúkrunarfræðingar að geta skilið.

Trúboð er hins vegar miklu sterkara í þeim bókmenntum sem öll börn komast óhindrað í á bókasöfnum. Sumir hafa t.d. orðið harðir sósíalistar á því að lesa á unglingsárum "Bréf til Láru". Aðrir hafa orðið harðir zíonistar á því að lesa "Ég lifi" eftir Martin Gray. Margir hafa orðið trúaðir á því að lesa bækur eins og "Lifðu lífinu lifandi", "Anna frá Stóru-Borg" og fleiri slíkar sögur af raunum fólks sem bjargast fyrir "guðs náð" og "verndarhendi guðs almáttugs" og refsar jafnvel illgjörðarmönnum.

Ég legg til að við sýnum Huldu svolítið meiri kærleik, því hann er aðalsmerki trúleysingja. Það er merki um óendanlegan kærleik og ódrepandi umburðarlyndi 90% vestrænna manna að umbera ríkjandi siði sem þessi 10% trúaðra fá að hafa á öllum torgum, í öllum skólum, í öllum bókmenntum, í öllum fjölmiðlum og á öllum heimilum.


Dipsí - 25/11/05 12:48 #

Ekki alveg sammála Gilgames þarna.

Kristinfræðikennsla gengur út frá því að tilvera yfirnáttúrulegrar veru sé sjálfsagður hlutur. Kennari sem börn líta upp til kennir krökkum að biðja til guðs eins og tilvera hans sé óumdeilanleg.

Það er það versta sem kemur út úr kristinfræðikennslunni að mínu mati. Að hugur saklausra barna skuli vera mengaður með þessum hugmyndum áður en þau hafa þroska til að geta ákveðið sig sjálf.

Sá sem les bréf til láru ætti hinsvegar að vera kominn á aldur til að geta gert upp hug sinn, það er ekki svo með kristinfræðikennslu 6 ára barna t.d. Fyrir utan þá einföldu staðreynd að bókmenntaverkinu er ekki haldið að fólki sem heilögum sannleika alla skólagöngu þess.

Það er ekki kristna trúin per se sem málið snýst um í mínum huga, heldur sú staðreynd að velflestir íslendingar hafa þá hugmynd í kollinum að eitthvað yfirnáttúrulegt afl hljóti að vera til. Það er afleiðing heilaþvottar sem stundaður er af kristinfræðikennurum í grunnskóla.

Trúarklúbbar eru ekkert annað en áhugaklúbbar fólks um tiltekna trú eða trúarskoðanir. Öll slík kennsla á því heima eftir skóla með borðtenniskennslu og slíku. Áhugamál ákveðinna hópa eiga einfaldlega ekki heima í skólakerfinu sem ætti frekar að snúast um að kenna krökkum eitthvað sem nýtist þeim í lífinu, s.s. lestur, skrift, reikning og álíka fög sem nýtast við hið daglega líf.


Eggert egg - 25/11/05 12:56 #

Áfram Hulda, you go girl :)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/11/05 13:00 #

Tekur Eggert Egg undir með Huldu?

Áhugavert að sjá trúmenn standa saman þó búið sé að hrekja allt sem Hulda hefur sett fram. Skiptir engu máli að hún hefur rangt fyrir sér? Skiptir sannleikurinn ekki nokkru máli?.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/11/05 14:32 #

Ég vil ítreka spurningu mína til Huldu þar sem hún virðist hafa farið framhjá henni:

Finnst þér réttlætanlegt að prestur Þjóðkirkjunnar fari í leikskóla og kenni börnum að fara með bænir.


Árni - 26/11/05 01:58 #

Kærleiksþjónusta á vegum kirkjunnar er ekki "almannatengslabragð" - hún er umhyggja fyrir náunganum, grundvölluð á kærleika sem kristnar manneskjur reyna að tjá með miskunnsemi og samtöðu með öllum manneskjum.

Já, Bandaríkjamenn eru komnir ansi langt í þessari kærleiksþjónustu og varpa nú umhyggjunni fyrir náunganum yfir hvert landið á fætur öðru. Halldór Ásgríms og Davíð Oddsson tóku það að sér fyrir hönd þjóðarinnar að hoppa um borð í "kærleikslestina", enda er kærleiksþjónustan svo skammt á veg komin hér á landi að fullorðið fólk virðist ekki bera neitt skynbragð á þennan "Kristna kærleika".

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.