Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Opið bréf til Péturs Péturssonar

Í ljósi ábendinga frá Jóni Val hef ég ákveðið að senda Pétri Péturssyni þetta opna bréf:


Sæll Dr. Pétur Pétursson

Ef að bréf sem Jón Valur Jensson birtir sem athugasemd við grein mína á Vantru.is er frá þér, þá vil ég byrja á því að biðja þig afsökunar fyrir að gefa til kynna að þú hafi vísvitandi farið með rangt mál. Um leið og hann kom með ábendinguna strikaði ég yfir þau ummæli.

Ástæðan var sú að ég taldi útilokað að þú gætir misskilið grundvallaratriði í könnun sem þú stendur sjálfur að. Könnun sem þú hefur verið að kynna undanfarið og sem er samanburðarhæf við eldri könnun sem þú varst meðhöfundur að. Könnunin, sem ég vísa í í greininni sýnir, svo ekki verður um villst, að þú fórst ítrekað með rangt mál í útvarpsþættinum.

Þú sagðir einu sinni í þættinum að um það bil ¾ Íslendinga segist vera kristnir og tvisvar að “langflestir” Íslendingar geri það. Einnig hefur Jón Valur þetta eftir þér: “Og bls. 38 í skýrslu Gallúp frá 2004, þar kemur fram að 76,3% merkja við valmöguleikann: "Ég játa kristna trú."”

Í greininni vísaði ég á blaðsíðu 28 (ekki 38!). í nýbirtri könnun þinni Trúarlíf Íslendinga: Viðhorfsrannsókn Febrúar-Mars 2004. Þar kemur fram að fjöldi þeirra sem játuðu kristna trú var 440 og að fjöldi þeirra sem tóku þátt í könnuninni væru 862. Það gefur okkur um það bil 51%. Þau 76,3% sem þú vitnar í eru hlutfall þeirra sem játa kristna trú af trúmönnum, ekki hlutfall allra sem tóku þátt í könnuninni.

Í Trúarlífi Íslendinga 1993 var sambærileg tala 37,1% (Tafla II, 15 bls 26) Mér finnst skrítið að þú hafir ekki séð neitt athugavert við þessa 40% aukningu á fólki sem játar kristna trú.

Þú sagðir að 85% trúi á “guð almáttugan”. Í greininni vísaði ég á blaðsíðu 30 í könnuninni Trúarlíf Íslendinga: Viðhorfsrannsókn Febrúar-Mars 2004. Þar kemur fram að 26,2% svöruðu spurningunni “Hvaða fullyrðing(ar) um guð lýsa eða koma næst því að lýsa þinni skoðun?” með “Ekki er til annar guð en sá sem manneskjan hefur búið til”. Auk þess sögðu 19,7% að engin vissa væri fyrir tilvist guðs. Þessir hópar skarast eitthvað, en ljóst er að það er rangt að 85% trúi á guð almáttugan. Mér finnst skrítið að þú skulir vitna í 14 ára gamla grein þegar þú ert nýbúinn að kynna nýja könnun sem sýnir að þessi tala er röng.

Í öll skiptin ertu að tala um núverandi ástand og þá er eðlilegast að miða við nýjustu könnunina en ekki 14 ára gamla könnun.

Vonandi muntu fara yfir þessar leiðréttingar og koma þeim á framfæri. Bæði Morgunblaðið og Blaðið fóru rangt með niðurstöður könnunarinnar.

Þetta bréf verður einnig birt á Vantrúarvefnum.

Kveðja, Hjalti Rúnar Ómarsson.

Hjalti Rúnar Ómarsson 09.11.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


G2 (meðlimur í Vantrú) - 09/11/05 10:08 #

Ég held að Pétur sé að nota þessa könnun til að kynna nýtt námskeið við guðfræðideildina:

Tölfræði í ljósi Krists.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.