Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kynslóð í hlekkjum hugarfarsins: Ríkiskirkjuvírusinn

Það var ekki fyrr en 1874 að Íslendingum leyfðist að hafa aðra trú en þá evangelísku ríkistrú sem konungurinn í Danmörku taldi þeim fyrir bestu. Eitt af öflugustu stjórntækjum konungs var hjörð presta sem njósnuðu um landsmenn ásamt því að halda utan um ævi hvers einstaklings frá vöggu til grafar. Þannig var þjóðkirkjufyrirkomulag gestapó og áróðursráðuneyti konungs sem hélt utan um samfélagið og tryggði honum fullkomin völd. Það skal engan undra að afar okkar og ömmur eða uppalendur þeirra sem næst stóðu þessum tíma skuli vera bæði guðhrædd og beygð. Þessi kynslóð var einfaldlega forrituð með ríkiskirkjuvírusnum frá barnæsku til grafar.

Þau sem nutu uppeldis þessarar kynslóðar eru nú við stjórnvölinn. Fjölmargir af þessari kynslóð standa í fæturna og vilja aðskilnað ríkis og kirkju. Hins vegar hafa margir borið alvarlegan skaða af kirkjuáróðrinum. Þessi kynslóð stundaði sunnudagaskólann af kappi enda lítið um aðra afþreyingu á þeim tíma. Prestar höfðu þannig opin veiðileyfi á þessa kynslóð frá barnæsku og í skólanum með þeim afleiðingum að hún er illa sýkt af ríkiskirkjuvírusnum. Til að bæta gráu ofan á svart fékk þessi kynslóð að kynnast guðhræðslu og undirgefni uppalenda sinna. Þessi hræðsla og undirgefni heitir í daglegu tali „barnatrú“. Jafnvel meintir efahyggjumenn þessarar kynslóðar voru beygðir og hræddir við ríkiskirkjuna. Nokkra hefur maður séð enda ævina í kirkjulegri jarðaför vegna þess að aðstandendur þeirra kunnu ekkert á annað en ríkisjarðaför með sóknarpresti. Þannig hefur þetta fyrirkomulag kæft alla samfélagsgerðina.

Ekki er langt síðan (mars, 2005) að ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokkana sammæltust um aðskilnað ríkis og kirkju. En útreið ungs fólks í stjórnmálaflokkum sem borið hafa fram tillögu þessa efnis er ekki stjórnmálaflokkunum til sóma. Ungt fólk hefur mátt þola mikla mótspyrnu og jafnvel dólgsleg vinnubrögð á landsfundum af ákveðnum eldri ríkiskirkjuvinum. Þeir hafa jafnvel gengið svo langt að láta tillögur hverfa eða gert allt í sínu valdi til koma þeim burt af fundi. Því miður er her presta með fjölda fylgisveina í flestum flokkum og stunda þeir mikið hræðslutrúboð þegar að þessi mál ber á góma.

Frjálslyndiflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur samþykkt aðskilnað ríkis og kirkju. Fyrir stuttu munaði minnstu að VG samþykkti aðskilnað ríkis og kirkju á sínum landsfundi. Ungt fólk í Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki hefur borið fram slíka tillögu við lítinn fögnuð varðhunda ríkiskirkjunnar. Ástandið er alls ekki gott en við getum samt horft bjartsýn á framtíðina. Landsmenn eru tilbúnir samkvæmt skoðanakönnunum og það er engin ástæða til að tefja málið lengur. Samt vil ég vara alla við vel skipulögðum áróðri ríkiskirkjunnar um mikilvægi sitt og söguna, jafnvel er hótað mafíulegum fjárkúgunum svo að einstaka guðfræðingar geti gætt sér á kirkjujörðum í eigu almennings. Staðreyndin er sú að öll félagsleg verkefni sem hún hefur troðið sér inní undanfarin ár má mjög auðveldlega leysa án ríkiskirkju. Fjöldi starfsmanna hennar getur fengið vinnu við að þjóna fólki á félagssviðinu án trúarbragða.

Ég skora einfaldlega á allt alvöru kristið fólk að segja sig úr ríkiskirkjunni og ganga í fríkirkjur eða óháða söfnuði, og hina, sem hafa gleymt að segja sig úr ríkiskirkjunni, skora ég á að gera það hið snarasta. Gamalt óréttlæti verður að binda endi á. Saga ríkiskirkjunnar á heima í sögubókum en ekki í framtíðinni. Mjög eðlilegt er að börn fái kennslu um þá hryllingssögu. Ekki lygasögu, heldur allan sannleikann, allt frá ofbeldinu á Þingvöllum fyrir 1000 árum, til fjöldamorða á saklausu fólki. Hvernig hætt var að bera börn út að heiðnum sið og hvernig kirkjan skipti um fórnarlömb með því að snúa sér að einstæðum mæðrum. Þær voru bornar út í staðin og þeim var drekkt. Það er kominn tími til að loka þessu batteríi og lækna þjóðina af ríkiskirkjuvírusnum.

Frelsarinn 03.11.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Snæbjörn - 03/11/05 21:11 #

Ég óttast að ef þjóðkirkjan verður felld niður muni kristin trú í landinu einkavæðast meira og þar með styrkjast. Í kjölfarið færum við að líkjast BNA en meira og það myndi ég ekki vilja.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 03/11/05 21:18 #

Slíkt hefur ekki gert í Evrópu þannig að menn eiga að vera óhræddir við slíkar breytingar.


Davíð - 07/11/05 20:54 #

Í Svíþjóð jókst kirkjusókn til muna eftir að ríki og kirkja voru aðskilin en trúfélagskráningar breyttust líka mikið á kostnað sænsku þjóðkirkjunnar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.