Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúleysis-, trúað eða trúlaust hjálparstarf?

Í framhaldi af gagnrýni minni á ræðu Karls biskups ætla ég að fjalla aðeins almennt um hjálparstarf. Í grein minni benti ég á að það eru til hjálparsamtök trúleysingja. Það er hins vegar þannig að ég er ekkert sérstaklega hlynntur svona samtökum. Ég sé ekki nokkra gilda ástæðu fyrir því að trúleysingjar ættu að starfa í einhverjum sér trúleysishjálparsamtökum.

Það eru til ótal hjálparsamtök sem byggja á því sem við getum kallað "trúlaust" hjálparstarf, semsagt starf sem byggir ekki á trúarskoðunum af nokkru tagi. Rauði Krossinn er besta dæmið um slík samtök. Hjálparsamtök sem byggja á trúarskoðunum fara leið útilokunnar og ég tel það ekki til eftirbreytni.

En hvers vegna kjósa sumir að vinna í samtökum sem byggja á trúarskoðunum? Ég tel að sumir trúleysingjar sem stofnað hafa sérstök samtök séu að reyna að sýna í verki að trúleysingjar séu líka góðir, þeir eru að reyna að berjast gegn rætnum árásum trúaðra manna eins og Karls biskups. Það er léleg ástæða. Hjálparstarf á ekki að vera til þess að byggja upp jákvæða ímynd af einhverjum hóp. Allar líkur eru á að hægt væri að vinna starfið allavega jafnvel, ef ekki betur, innan samtaka sem til eru fyrir. Síðan er ljóst að ef trúleysingjasamtök fara að blanda hjálparstarfi við það að breiða út trúarskoðanir sínar þá er það einfaldlega siðlaust.

Eins og Karl biskup bendir á þá eru trúarleg hjálparsamtök áberandi. Hann virðist telja það merki um að trúaðir menn séu betri manneskjur en trúlausir. Ég held að það sé rangt hjá honum. Það virðist nefnilega vera að flest kristileg hjálparsamtök, til dæmis Hjálparstarf kirkjunnar, blandi óheft saman hjálparstarfi og kristniboði. Ég tel að slíkt starf sé á mjög hæpnum siðferðislegum forsendum.

Hjálparstarf ætti að vera í samvinnu allra sem geta hjálpað. Ef trúleysingjar færu í meiri mæli að stofna sérstök trúleysishjálparsamtök þá yrði það til þess að þeir gætu ekki unnið með trúuðu fólki í þessu nauðsynlega starfi. Það er óþarft og óæskilegt að reisa múra í kringum hjálparstarf. Fjöldi trúleysingja og trúaðra nær að vinna saman í hjálparstarfi án þess að blanda trúmálum þar inn. Það er til fyrirmyndar.

Óli Gneisti Sóleyjarson 27.10.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.