Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Heilagur hryllingur V: Krossferðirnar

Margir sjá krossferðirnar í rósrauðum bjarma, þegar göfugir riddarar börðust fyrir Jesú Krist við að bjarga Landinu helga. Staðreyndin er samt sú að þessar ferðir voru martröð fjöldamorða, nauðgana, þjófnaða, eyðileggingar og upplausnar. Það var Úrban II páfi sem árið 1095 kom saman her til fyrstu krossferðarinnar til að frelsa helgistaði kristinna frá villutrúarfólki. Slagorð ferðarinnar var „Deus Vult“ eða „Guðs vilji“. Dregið var saman í gríðarlegan her víða um Evrópu og honum stjórnað af heillandi og kraftmiklum áróðursprestum.

Gott dæmi um æsinginn og brjálæðið var hvernig 2000 manns var safnað saman í Rínardalnum í Þýskalandi. Leiðtogi þeirra hét Emich af Leiningen, en hann fékk vitrun frá sjálfum guði til verksins. Áður en hann leiddi her sinn á brott var ákveðið að eyða óguðlegum í heimahéraði. Þannig fór her hans um Mainz og Worms auk annarra borga í Þýskalandi og drápu alla gyðinga sem þeir náðu í. Þúsundir manna, kvenna og barna voru þannig drepin áður en sjálf krossferðin hófst. Samskonar herferð fóru prestarnir Volkmar og Gottschalk, en þeir stjórnuðu fjöldamorðum á gyðingum í Prag, Regensburg og Bæjaralandi áður en farið var í hina eiginlegu krossferð.

Þegar herinn fór af stað lagðist hann eins og plága þar sem hann fór um. Kristið fólk í Ungverjalandi, Júgóslavíu og Búlgaríu mátti þola þjófnað á mat og vistum. Um fjögur þúsund manns í Zemun í Júgóslavíu voru drepin fyrir að vera ekki samvinnuþýðir við krossfarana. Hluti hersins gafst upp og koðnaði niður í Tyrklandi.

En hluti krossfaranna var vel skipulagður her og varð nokkuð ágengt í hernaðinum. Þeir afhausuðu múslima og höfðu höfuð þeirra til skrauts. Í fyrirsátinni um Níkeu, Antíokkíu og Týre voru allir múslimar afhausaðir í nálægum bæjum. Eftir sigra krossfara í Sýrlandi nærri Antíokkíu tóku frankneskir krossfarar 500 höfuð með sér aftur til tjaldbúða sinna. 300 af höfðunum voru stjaksett fyrir utan borgarmörk Antíokkíu og 200 af þeim var slöngvað inn fyrir borgarmörkin með valslöngvum. Biskup þessarar krossferðar kallaði þennan verknað „Skemmtun frá börnum Guðs“. Múslimar afhausuðu þá í staðinn kristna íbúa Antíokkíu og vörpuðu höfðum þeirra fyrir fætur krossfarana. 3. júní árið 1098 brutust krossfararnir svo loks inn fyrir borgarmúrana og slátruðu öllum íbúunum.

Eitt af því afkáralegasta í krossferðunum var hvernig prestar og biskupar notfærðu sér „fundna“ helga dóma. Þannig þóttust menn finna gripi tengda biblíusögunum og síðan voru þessir gripir notaðir til æsa menn upp í óhæfuverk. Samtals þóttust menn finna yfir 17.000 muni, allt frá brenndum runna frá Móses og fjöðrum úr vængjum Gabríel erkiengils til forhúðarinnar af Jesú, og svo má lengi telja – og allt var þetta nýtt til að kynda bál krossferðanna.

Á endanum komust krossfararnir til Jerúsalem. Þeir slátruðu öllum íbúum borgarinnar og brenndu öll samkomuhús gyðinga, full af fólki sem hafði flúið í þau. Raymond af Aguilers skrifaði um þessa atburði: „Gleðilega atburði mátti sjá hvarvetna. Fjöldi múslima voru afhausaðir... Aðrir féllu fyrir örvum eða voru neyddir til að stökkva af virkismúrum. Enn aðrir voru pyntaðir í nokkra daga og síðar brenndir á báli. Á strætunum lágu í haugum höfuð, hendur og fætur óvinarins. Í einni götu lágu breiður af líkum manna og hesta... Í musteri Salómons voru hestar okkar vættir blóði upp að hnjám, nei, upp að beisli. Blóð óguðlegra var út allt, þetta var stórkostlegur dómur Guðs yfir þeim.

Næstu tvær aldir tóku múslimar aftur til baka lönd sem höfðu fallið í skaut krossfarana. Áður en yfir lauk voru farnar sjö krossferðir til Landsins helga. Eins og vanalega hófust þessar ferðir með því að drepa gyðinga í bæjum og borgum í Evrópu. Svo var lagt af stað til Landsins helga. Í þriðju krossferðinni árið 1191 ákvað Ríkharður ljónshjarta að taka 3000 börn og konur af lífi, eftir að borgin Acre hafði fallið fyrir her hans. Síðan voru lík þeirra rist á kvið til að leita af verðmætum sem íbúarnir reyndu að gleypa. Þetta var allt gert með blessun biskups krossfarana. Ambrós ritaði um þessar aðfarir: „Þeim var öllum slátrað með blessun skaparans.“

Árið 1204 ákvað páfinn Innócentíus III að ráðast á rétttrúnaðarkirkjuna í Konstantínópel. Ráðist var á borgina og íbúar drepnir, nauðgað og verðmætum stolið. Helgum dómum var rænt og færðir páfaveldinu í Róm. Réttlæting páfa gegn íbúum Konstantínópel voru orð Jesú „En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér“. Eftir þetta var borgin illa varin og féll fyrir landvinningamönnum Tyrkja árið 1453.

Ein skelfilegasta herförin var barnakrossferðin árið 1212. Þá þóttust kristnir fræðimenn vera búnir að sjá að Guð myndi þyrma og vernda líf saklausra barna. Því Jesú sagði „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er himnaríki.“ Þannig voru kristin börn send beint í opin dauðan í tilganglausri herför sem náði aldrei til Landsins helga. Börnin ýmist tíndust, drápust úr hungri eða féllu fyrir óvinaherjum – fyrir utan þau sem voru svo „heppin“ að vera bara seld í ánauð.

Árið 1291 lauk yfiráðum krossfara í Landinu helga en þá náðu múslimar síðasta vígi krossfaranna, sem var borgin Acre. Þannig lauk tveim öldum af ótrúlegu ofbeldi og slátrunum. Það lágu ekki bara hundruð þúsunda í valnum heldur eyðilögðu og brenndu krossfararnir merkileg menningarverðmæti, til dæmis 12.000 talmúd-rit gyðinga og auk fjölda annarra bókmenntaverka þeirra. Nokkrir páfar reyndu að blása lífi í fleiri ferðir en án árangurs, að undanskilinni einni herför Píusar páfa V gegn Tyrkjum árið 1571.

Heimildir: Holy Horrors: An Illustrated History of Religious Murder and Madness eftir James A. Haught, The Dark Side of Christian History eftir Helen Ellerbe

Frelsarinn 26.10.2005
Flokkað undir: ( Heilagur hryllingur )

Viðbrögð


Jón Frímann - 27/10/05 21:14 #

Það mætti halda að kristnin væri ekkert nema blóðug saga frá upphafi, en endi kristinnar trúar er víst ekki ennþá kominn. Því er nú verr.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.