Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guðfræðin er gervivísindi

Steindór J. Erlingsson, vinur okkar Vantrúarmanna, efnir ásamt fleirum til málþings, þar sem hann ætlar á ný að fjalla um trú og vísindi. Fyrir honum vakir að sannfæra okkur öll um að þetta séu ekki andstæðir pólar, heldur megi samræma þessi tvö ólíku sjónarhorn á heiminn.

Rök Steindórs eru reyndar ekkert sérstaklega sterk. Hann mun nefna til sögunnar menn á borð við Galileo og Newton, rétt eins og vísindastarf þessara manna sé á einhvern hátt afrakstur trúar þeirra. Nú er það rétt að vísindin á miðöldum voru meira eða minna undir hatti kirkjunnar, en það þýddi líka að ekki mátti halda neinu fram sem fór í bága við viðteknar kenningar hennar. Galileo fékk nú einmitt að kenna á þessu, þegar hann var látinn éta það ofan í sig að jörðin snerist kringum sólu en ekki öfugt.

En það er líka annað atriði sem ekki má gleyma í þessari samræðu trúar og vísinda og það er þáttur guðfræðinnar.

Guðfræðin gefur sig út fyrir að vera alvarleg fræðigrein, en er í raun örgustu gervivísindi. Það gengur til dæmis ekki upp að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram og reyna svo að fella alla nýja þekkingu undir hana, eins og guðfræðin gerir. Þegar guðfræðingar segja til dæmis Biblíuna gefa ákveðin fyrirheit er það alveg rétt og satt, en þeir fást ekki um það hvaðan þessi fyrirheit eru komin, heldur ganga sjálfgefið út frá því að þau séu komin frá guðinum sem fræðin leitast við að útskýra.

Þarna greinir guðfræðina á við trúarbragðafræðina, eða eins og því hefur verið lýst: Guðfræðin skoðar málin innan frá en trúarbragðafræðin utan frá. Og ég spyr: Er einhver glóra í því að skoða málin innan frá, með haug af gefnum forsendum og ætlast um leið til þess að þetta dund fáist viðurkennt sem fræðigrein?

Steindór virðist ekki koma auga á þennan augljósa galla guðfræðinnar og trúarinnar sem slíkrar. Kannski á þessi samræða vísinda og trúar þó eftir að verða til góðs, en þá því aðeins að guðfræðin tileinki sér vísindaleg vinnubrögð og byrji á að spyrja grundvallarspurninga í stað þess að ganga út frá órökstuddum forsendum sem gefnum.

Á meðan þessi fræðigrein ástundar ekki vísindaleg vinnubrögð er tómt mál að tala um að þessir tveir heimar, vísindi og guðfræði, eigi eitthvað sameiginlegt, hvað þá vísindi og trú.

Birgir Baldursson 01.10.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 01/10/05 17:09 #

Ég man nú ekki hvort hann minntist á trú Galileos, en hann benti á að Newton hafi verið mjög trúaðir. :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/10/05 17:42 #

Kannski misminnir mig, en það kemur út á eitt, Galileo er talandi dæmi um það þegar vísindin á miðöldum áttu í vök að verjast fyrir trúarbrögðunum.

Á ráðstefnu um svipuð efni í beindi ég spurningu til Steindórs um hvort hann gæti nefnt einhver dæmi um að trú hefði leitt af sér þekkingu á veröldinni. Og hann nefndi Newton og þyngdarlögmálið!


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 01/10/05 19:07 #

Nú vil ég ekki tala fyrir Steindór en kannski var hann að tala um það hvað rak Newton og fleiri samtíðarmenn hans áfram í sínum rannsóknum. Þeir voru að reyna að skilja hvernig guð hafði stillt af gangverk alheimsins og ná þannig að kynnast honum betur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/10/05 19:28 #

Vandamálið við málflutning Steindórs er að því hefur aldrei verið haldið fram, að því ég best veit, að trúaðir menn geti ekki stundað vísindi. Þessi orðræða Steindórs er að mínu mati strámaður settur upp til að ganga í augun á trúmönnum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/10/05 04:59 #

Ég er að hlusta á upptöku á Talstöðinni, þátt sem ég held að heiti Gullöndin. Þar er verið að ræða við Steindór og fleiri um þetta málþing.

Steindór segist ætla að sýna fram á að vísindi og trú hafi ekki alltaf átt í stríði. En í næstu setningu segir hann eitthvað á þessa leið:

Vísindin eins og við þekkjum þau í dag voru ekki til á miðöldum.

Halló Steindór! Vísindin eins og við þekkjum þau voru ekki til þegar „vísindi“ og trú voru í harmóníu. Þau vísindi sem féllu að trúnni voru ekki sekkjúlar, þetta voru jafnvel það sem Dungal kallar „heilög vísindi“ og það var nú meira bullið.

Já, þetta er einn stór strámaður.

Ég spyr: Hafa hin sekkjúlar vísindi, vísindin sem urðu til eftir að þau greindu sig frá trúnni, ekki alltaf átt í stríði við trúna? Hefur trúin, (þetta órökræna kerfi útleiðslu á ranghugmyndum) eitthvað fram að færa þeirri markvissu rannsóknarvinnu sem fellur undir raunvísindi okkar daga?

Rétt í þessu (í þættinum) var Steindór að mótmæla því sem Popper á að hafa viðhaft um þau vísindi sem ekki falla undir raunvísindi - að þau séu gervivísindi. Ég held að hann sé eitthvað að misskilja hlutina illillega. Hugvísindin beita vísindalegri aðferð, rannsóknarvinnu og tilraunum, rétt eins og raunvísindin. Þau eru því undir þeim vísindalega hatti sem guðfræðin er ekki, þ.e. ganga ekki út frá órökstuddum forsendum, heldur leiða niðurstöðuna út með vísindalegum vinnubrögðum.

Hún er undarleg þessi árátta Steindórs, að spyrða hugvísindin við aðferðafræði guðfræðinnar. Þetta tvennt á lítið skylt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/10/05 05:24 #

Og núna var Steindór að mótmæla meintum orðum Dawkins um að vísindin væru búin að afsanna tilvist skapara. Ekki hef ég það á takteinum hvort Dawkins hafi látið slík orð falla með þessum hætti og reyndar grunar mig að þarna sé enn einn strámaðurinn hjá Steindóri.

Sé mark takandi á þróunarkenningunni hefur hún hrakið þá fullyrðingu júdókristinna að maðurinn sé fenginn fram samkvæmt plani. Það er ekkert í þróunarsögunni sem bendir til þess, heldur eru það þvert á móti breytilegar aðstæður sem blindandi móta framrás tegundanna. Það er rétt sem Steindór segir að vísindin hafi ekkert að segja um tilvist guða yfir höfuð, en hitt er annað mál að guð Biblíunnar fær ekki staðist.

Ertu viss um það, Steindór, að Dawkins hafi ekki átt við þetta?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 03/10/05 10:28 #

Steindór hefur líka sagt í grein:

En sannar kenning Darwins um náttúrlegt val að Guð sé ekki til? Að mati þeirra félaga [Dawkins og Dennett-Hjalti]gerir hún það svo sannarlega.
Ég man eftir því að hann hafi sagt að þróunarkenningin geri guð óþarfan til þess að útskýra "hönnun" í náttúrunni og að hann skilji ekki hvers vegna einhver sé trúaður ef hann skilur þróunarkenninguna.

En að hann haldi að þróunarkenningin afsanni "guð" held ég að sé risastór strámaður. En það væri gaman að sjá hvort Steindór gæti bent á hvar Dawkins heldur þessu fram.


Steindór J. Erlingsson - 03/10/05 15:18 #

Það er gaman að sjá að ég vek viðbrögð hjá ykkur, en eins og fyrri daginn eru þau ekki svara verð. Bendi ykkur á tvær greinar eftir mig sem koma út eftir eina eða tvær vikur. Önnur mun birtast í Kirkjuritinu og hin á vef Glímunnar á Kistan.is. Eftir lestur þeirra getið þið haldið áfram ykkar "málefnalegu" umræðu um skoðanir mínar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 03/10/05 15:48 #

Það er gaman að sjá að ég vek viðbrögð hjá ykkur, en eins og fyrri daginn eru þau ekki svara verð.

lol


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/10/05 16:53 #

Hva? Ertu ekki einu sinni til í að hugleiða hvort sannleikskorn geti leynst í þessari gagnrýni? Er þetta þá öll fræðimennskan?

Þú veldur mér vonbrigðum, Steindór.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.