Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tæknivæddar miðaldir

Bábiljur tröllríða samfélagi okkar nú um stundir. Dæmi um þetta er nýleg yfirlýsing lögreglunnar um að ástandið á menningarnóttu hafi mátt rekja til þess að tunglið var fullt - daginn áður. Og í kjölfarið fylltust fjölmiðlarnir af blaðrinu í Gunnlaugi stjörnuspekingi sem notaði tækifærið til að fylla hugi landsmanna af eintómum kellíngabókum, auk þess að upphefja eigin göfgi með því að þykjast vera ofsa næmur á kvartelaskipti tunglins..

Þessi falsari laug því að okkur að hann gæti séð breytingar á yfirbragði fólks inni á skemmtistöðum fáeinum mínútum eftir að tungl var orðið fullt og byrjað að minnka aftur. Stemningin átti að hafa drepist með það sama og allir urðu rosa blúsaðir eitthvað.

Meira kjaftæðið.

Og þetta gleypir fólk í sig. Það var í það minnsta ekki hægt að heyra annað en að stelpurnar sem tóku viðtalið við hann á Rás 2 væru fullkomlega að kaupa þetta. Hvar er gagnrýna hugsunin sem á að vera búið að kenna ykkur í skóla, fraukur mínar?

Svo er það hún Ellý Ármanns, sem veður uppi í öllum blöðum og útvarpsþáttum með dauðans hallærislegt hjal út frá primitívustu gerð af stjörnuspeki. Í einhverjum fjölmiðlum má varla taka viðtal við nokkurn mann án þess að hún sé mætt að til að lýsa viðkomandi út frá stjörnunum. Og öllum finnst auðvitað allt sem sagt er passa rosa vel við sig, enda eru lýsingarnar svo almennar að þær geta átt við hvern sem er. Og það sem ekki passar við viðkomandi dvelur ekki í huga hans eina sekúndu, en hitt stimplast inn og Ellý vex að virðingu. Valkvæm hugsun þar á ferð.

Húmbúkk allt saman.

Í skólakerfinu er börnum boðið upp á endalausar Biblíusögur og „Jesús sagði..“ en engum innan menntakerfisins dettur í hug að innleiða heimspekikennslu fyrir grunnskólabörn og efla með því gagnrýna hugsun. Það er kannski ekki von, því núverandi menntamálaráðherra er mjög trúuð kona og forveri hennar hreinn og klár sköpunarsinni.

Það er mikil forheimskunarbylgja að ganga yfir þjóðfélagið, með tilkomu allra þessara nýju bókstafstrúarsöfnuða og stórfelldri fjölgun í trúarkölti að nafni AA. Jafnvel gerast þær raddir sterkari sem hafna þróunarfræðunum til þess eins að geta haldið á lofti fáránlegum goðsögnum Biblíunnar sem algildum sannleika. Það er ótrúlegt að þetta skuli eiga sér stað mitt í allri þekkingaröfluninni, en kannski skiljanlegt þegar horft er til þess að heimspekin sem praktíseruð er upp í Háskóla nú um stundir er lítið annað en póstmódernískt snakk, þar sem allt má vera satt ef mann langar að það sé þannig.

Guðfræðin er stokkin á þann hest.

Rök- og raunhyggja þykir gamaldags. Samt var það fyrir tilstuðlan hennar sem við drögnuðumst út úr blóðugum miðöldunum og byrjuðum að sjá heiminn fyrir það sem hann er. En eins og horfir er ekki annað hægt en líta á þetta upplýsingaskeið, sem nú virðist vera að líða undir lok, sem góðviðriskafla mitt í ísöld. Seinni miðaldir eru að hefjast og enginn getur vitað hve lengi þetta ástand mun vara. Við erum, að því er best verður séð, á hraðri leið aftur í villimennskuna sem hindurvitnin leiða af sér.

Ábyrgð fjölmiðla er mikil. Það er ekki afsakanlegt að hampa hvaða rugli sem er án þess að votti fyrir gagnrýni. Trúgirnin er okkur nefnilega öllum í blóð borin og ekkert mál fyrir óvandaða svindlara að notfæra sér það. Ég skora á fjölmiðlafólk að breyta um háttu og lesa sér í það minnsta til um þá gagnrýni sem komið hefur fram á hómópata, stjörnuspekinga, reikimeistara, kristni, spákvistabjálfa, kundalini, heilara, nálastungur, hnykklækna, mataræðisbullara, lithimnulesara, geimverutrú, miðla, kristallaorku, græðara, hvítufræði, spákellingar, segulorku, DNA-heilun, blómadropa, mátt bænarinnar, tengslameðferð, orkuvitund, afeitrunarfótanuddtæki, líföndun og hvað þetta peningaplokk heitir allt saman.

Birgir Baldursson 18.09.2005
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


G2 (meðlimur í Vantrú) - 19/09/05 09:25 #

Mogginn er nýlega búinn að skipta um "stjörnuspeking", sem framleiðir fyrir þá hina daglegu stjörnuspá. Mogginn hafði greinilega ekki mikla trú á þeim gamla því neðst í stjörnuspekidálknum mátti lesa vanhæfingu (disclaimer) þess efnis að allt væri þetta stjörnuhjal í gríni og ekki mark á takandi. Nú er ekkert slíkt að finna og því má spyrja hvort hinn nýji "spekingur" taki hinum fram og allt sem birtist sé því óskilyrtur sannleikur? Mogginn fer ekki með fleipur - er það nokkuð?


Fiffi - 19/09/05 19:16 #

[...] engum innan menntakerfisins dettur í hug að innleiða heimspekikennslu fyrir grunnskólabörn og efla með því gagnrýna hugsun

Við vorum einmitt að vinna með fyrirlestur Páls Skúlasonar heimspekings og fyrrum rektors HÍ í heimspekivísindum um daginn - Er hægt að kenna gagnrýna hugsun. Við hreinlega komumst ekki að svari en þú ættir kannski að glugga í fyrirlesturinn svona til gamans?

[...] heimspekin sem praktíseruð er upp í Háskóla nú um stundir er lítið annað en póstmódernískt snakk, þar sem allt má vera satt ef mann langar að það sé þannig

Bíddu.. Heimspekikennslan sem ætti að innleiða í grunnskólana - væru það ekki að öllum líkindum heimspekingar frá HÍ sem hana myndu kenna? Myndirðu þá ekki bara fárast yfir því að kennd væri heimspeki í stað þess að efla raunvísindakennslu í ljósi þess að Íslendingar hafa lengi verið á eftir í þeim málum. Að okkar skattpeningur færi í annað eins húmbúkk! Nei ég bara spyr :)

Seinni miðaldir eru að hefjast og enginn getur vitað hve lengi þetta ástand mun vara. Við erum, að því er best verður séð, á hraðri leið aftur í villimennskuna sem hindurvitnin leiða af sér.

Nei hættu nú alveg! Þú hljómar eins og þeir sem reglulega spá heimsendi við minnsta tilefni :) Annars er ég nú sammála því að víða tíðkast villimennska í nútímanum - t.d. í viðskiptaheiminum. Nauðungarsamningum troðið upp á þriðja heims ríki, niðurskurður á kostnað lítilmangarans, mansal, stríðsrekstur - þetta fólk skortir (að mínum dómi) kristilegan kærleika, ást og elsku gagnvart náunganum. Hversu bættari erum við eiginlega með alla heimsins þekkingu ef við níðumst svo bara hvert á öðru? Þá vil ég frekar lifa einföldu lífi og lifa í sátt!

Að lokum: Allt þetta hvað-það-nú-heitir... kundalini,DNA-heilun, hvítufræði - ég hef hvergi heyrt þessi orð fyrr en hér! :) Annars geturðu nú varla neitað því að mataræðisbullararnir hafa nú sitthvað fram að færa. Það veit það hver heilvita (jafnvel hálfvita) sála að maður er það sem maður borðar! Ef þú hámar í þig skyndibitamat endarðu sem offitusjúklingur en ef þú hugar að mataræðinu ferðu betur með líkamann.. Lestu nú yfir það sem þú skrifar áður en þú hleypur á þig í miðju fárinu ;)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/09/05 04:34 #

Við vorum einmitt að vinna með fyrirlestur Páls Skúlasonar heimspekings og fyrrum rektors HÍ í heimspekivísindum um daginn - Er hægt að kenna gagnrýna hugsun. Við hreinlega komumst ekki að svari en þú ættir kannski að glugga í fyrirlesturinn svona til gamans?

Ég las þessa ritgerð Páls einmitt líka í fílunni á sínum tíma. Mér finnst hugsun hans frekar moðkennd í þessari grein og ekki annað að sjá en að hann komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að kenna gagnrýna hugsun af því að hana þurfi að kenna. Eða eitthvað. Hann er voðalega óskýr eitthvað í henni.

Bíddu.. Heimspekikennslan sem ætti að innleiða í grunnskólana - væru það ekki að öllum líkindum heimspekingar frá HÍ sem hana myndu kenna? Myndirðu þá ekki bara fárast yfir því að kennd væri heimspeki í stað þess að efla raunvísindakennslu í ljósi þess að Íslendingar hafa lengi verið á eftir í þeim málum. Að okkar skattpeningur færi í annað eins húmbúkk! Nei ég bara spyr :)

Það er til ýmis önnur heimspeki en þetta nýmóðins póstmóderníska drasl og ég var ekki að leggja það til að slíkt yrði kennt.

Nei hættu nú alveg! Þú hljómar eins og þeir sem reglulega spá heimsendi við minnsta tilefni :)

Vertu ekki að gera mér upp skoðanir, hvergi held ég neinu slíku fram. Ég er einungis að lýsa menningarástandinu eins og það kemur mér fyrir sjónir.

þetta fólk skortir (að mínum dómi) kristilegan kærleika, ást og elsku gagnvart náunganum.

Ertu að tala um Bush-kristni, Pat Roberts-kristni, Kalla Sigurbjörns-kristni (andúð á trúleysingjum og framandi menningaráhrifum) eða kannski Kross-Gunnars-kristni (hommahatur)? Eða er það mannvonska Vottanna sem þú vilt sjá meira af (banna blóðgjafir)? Eða eru öll þessi költ á skjön við „sanna kristni“?

Að lokum: Allt þetta hvað-það-nú-heitir... kundalini,DNA-heilun, hvítufræði - ég hef hvergi heyrt þessi orð fyrr en hér!

Ég sá nú bara síðast í dag eða gær viðtal í Fréttablaðinu (eða var það DV?) við einhverja kundalini-kellu. Voða mikið talað um orku og tíðni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.