Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Mismunandi mataræði fyrir tungltýpur og sólartýpur

Fjölmiðlar halda áfram að standa sig vel í því að koma hindurvitnum og kukli á framfæri. Maður má varla opna dagblað eða stilla á sjónvarpsstöð án þess að verið sé að rabba um rugl á borð við hómópatíu, blómadropa, talnaspeki, stjörnuspeki eða miðla – auðvitað án þess að gagnrýnin hugsun sé höfð að leiðarljósi.

Á blaðsíðu fimmtán í Morgunblaðinu hinn 12. september tók Jóhanna Ingvarsdóttir viðtal við Birgittu Jónsdóttir Klasen náttúrulækni (mér er meinilla við að nota orðið læknir þarna, það er lítilsvirðing við lækna). Þetta er langt í frá í fyrsta sinn sem rætt er við þessa kona, líklega í fimmta eða sjötta skiptið á mjög skömmum tíma sem hún er annað hvort í Fréttablaðinu eða Morgunblaðinu. Þá er ég ekki að tala um (of) tíðar heimsóknir hennar í Ísland í bítíð, sem um tíma voru vikulegar. Hvers vegna kemst þetta fólk svona auðveldlega í fjölmiðla? Hvers vegna skortir alla fjölmiðlamenn gagnrýna hugsun þegar svona málefni ber á góma?

Hálf síða er undirlögð sem frí auglýsing fyrir bókina hennar um þrýstipunktameðferð og næringarnámskeið. Við skulum fyrst grípa niður í viðtalið þar sem námskeiðinu er lýst:

Þátttakendur fá í hendur næringarráðleggingar við komu á námskeiðin, en út frá fæðingardegi og ári getur Birgitta séð hvort viðkomandi tilheyri sólartýpum eða tungltýpum. Í þriðja lagi getur fólk fallið undir það að vera bæði sólar- og tungltýpur og þá hefur bæði sól og tungl verið yfir viðkomandi fæðingardegi. Slíkir einstaklingar geta í raun neytt fæðu af báðum næringarlistum, en verða þá í ríkari mæli að finna það út sjálfir hvers konar fæða er holl fyrir þá.

Birgitta getur með öðrum orðum ráðlagt þér um mataræði eftir því hvort þú ert fædd(ur) undir tungli eða sól, nú eða bæði. Ekkert er útskýrt hvað það þýðir að vera sólartýpa eða tungltýpa eða bæði, né hvaða mögulegu áhrif sólin eða tunglið geta haft á mataræði okkar. Blaðakonunni hefði þarna verið í lófa lagið að spyrja hana út í það en gerir það auðvitað ekki. Gott dæmi um léleg vinnubrögð, sem því miður eru alltof algeng.

Þegar hefur verið skrifað um áhrif tunglsins hér á þessum vef. Tunglið hefur álíka mikil áhrif á þig og mýfluga á handarbakinu. Ef þú setur strokleður á höfuð þitt hefur það meiri áhrif á þig en tunglið.

Samkvæmt Birgittu eiga aðeins tungltýpur að taka inn lýsi og grænmeti, sem vex án sólar í jörðu, til dæmis gulrætur og mega drekka meira hvítvín heldur en sólartýpurnar. Tungltýpur eiga þá væntanlega ekki heldur að borða kartöflur né rófur. Skiptir þá engu máli að gulrætur og rófur eru með grös sem standa upp úr jörðinni og njóta sólar að degi til? Hvers vegna mega aðeins tungltýpur taka inn lýsi? Hvaða efni eru í hvítvíni sem hafa svona slæm áhrif á sólartýpurnar?

Birgitta fullyrðir ennfremur að þreyta, depurð og þunglyndi séu algengari meðal tungltýpa í mesta skammdeginu og að bronkítis og ofnæmu séu algengari meðal tungltýpa því þær „anda ekki jafnvel út og sólartýpurnar.“

Hverjar eru forsendur þessara fullyrðinga? Hvers vegna spyr blaðakonan ekki hvað hún hefur fyrir sér í þessu?

Birgitta er hvergi nærri hætt að bulla og segir að fólk eigi að taka á móti hverjum degi með því að gera svokallaðar líföndunaræfingar. Það er ekkert sagt hvernig, þú þarft líklega að borga fúlgur fjár til að komast að því, en sagt að maður eigi að gera þær þrisvar sinnum á morgnana, upp úr hádeginu og jafnvel aftur á kvöldin en aldrei strax eftir máltíð.

Þetta hljómar nákvæmlega eins og hjá skottulæknum sem Birgitta er jú. Rúsínan í pylsuendanum í þessari grein, er þegar hún segir: „Fólk verður að gæta sín að anda rétt og í takt við eigin týpu til að finna ekki til. Þannig eiga sólartýpur að anda inn um munninn og út um nefið á meðan tungltýpur eiga að anda inn um nefið og út um munn.“

Ég velti hins vegar fyrir mér hvers vegna hún fullyrðir að tungltýpur eigi að anda inn um nefið og út um munn? Hvað hefur hún fyrir sér í því? Ætli hún fari algjörlega eftir þessu sjálf? Það væri forvitnilegt að vita.

Þrýstipunktakukl Nýlega gaf Birgitta út bók sem heitir "Læknum með höndunum - nútíma þrýstimeðferð." Birgitta hefur verið duglega að auglýsa þetta í Íslandi í bítið og sést vel að það skilar árangri. Námskeið hennar eru vinsæl og bókin virðist seljast vel.

Þrýstipunktameðferð gengur víst út á það að í líkamanum sé 361 þrýstipunktur og með því að nudda þá getur þú styrkt blóðrásakerfið og komið í veg fyrir og læknað þig af ýmsum kvillum, til dæmis kvefi. Þessi meðferð er því ekki ósvipuð og svæðameðferð.

Gallinn við að gagnrýna svona aðferðir er að erfitt er að sýna fram á að þetta virkar alls ekki. Ef þú hefur ekki prófað þetta er útilokað að sannfæra trúmanninn um annað en að þetta virki (enda eru trúmenn mjög lokaðir). En hvernig veit hann að þetta virkar? Hugsanlega hefur hann kvefast og viljað losna við pestina sem fyrst. Hann prófar því að þamba C-vítamín og að nudda ákveðin svæði á sér, til dæmis iljarnar. Eftir viku eða svo er aðferðin greinilega farin að skila árangri. Kvefið er allt að losna.

Hérna er hins vegar komið gott dæmi um gagnsemisrökvilluna. Kvefið losnaði á einhvern ótrúlegan hátt á viku eða svo. Vika er dæmigerður tími fyrir líkamann að losna við kvef. Ég þori að fullyrða að líkaminn nær sama árangri ef þú gerir ekki neitt.

Verður Birgitta einhvern tímann veik? Ef þessar aðferðir virka svona vel ætti hún að vera laus við alla þá kvilla sem herja á þeim sem ekki stunda þessar æfingar. Margir eru ginnkeyptir fyrir svona hlutum, enda hljómar þetta vel. Hver vill ekki bæta heilsu sína á auðveldan hátt? Oftast er þó bara best að spara peningana eða gefa þá þeim sem virkilega þurfa á þeim að halda.

Allar svona aðferðir virka "pottþétt". Ef þú losnar við kvefið, ertu líklega búin(n) að sannfæra þig um að aðferðin skilaði árangri. Ef þú losnaðir ekki við kvefið, þá hlýturðu að hafa gert eitthvað vitlaust, kannski ekki nuddað nóg eða rétta staði eða verið annars hugar.

Kannski andarðu bara ekki rétt eða gleymdir bara að gera líföndunaræfingarnar á morgnana.

Sævar Helgi Bragason 12.09.2005
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 12/09/05 19:42 #

Ég held að fyrir fjölmiðla sé þetta bara bisness. Þetta er svona "human interest" efni fyrir heimavinnandi húsmóðurtýpuna sem horfir á amerískar sápur á milli húsverka. Það síðasta sem þeim dytti í hug væri að spyrja markvissra og gagnrýnna spurninga því það myndi hleypa öllu kerfinu í uppnám og þætti bara dónaskapur. Þessi skottulæknir er fenginn til að bulla í Íslandi í Bítið til að trekkja að áhorf en alls ekki til að rugga kjaftæðisbátnum.


Jón Frímann - 12/09/05 22:41 #

Er þetta ekki bara sama ruglið og mataræði eftir blóðtýpum, nema bara öðrvísi útfært.


Snær - 12/09/05 23:16 #

En hvað ef maður fæðist á nóttu þar sem tunglið er ekki í augsýn? (Er ég ekki annars að skilja hugmyndina á bakvið þetta rétt, í megin atriðum?)

Fyndin, hjátrúin sem sumum dettur í hug.


Sindri Guðjónsson - 14/09/05 01:39 #

Ég verð að segja alveg eins og er - það er þessum pistlum að þakka að ég les alltaf vantrú.


Árni Árnason - 14/09/05 11:55 #

Það væri verðugt rannsóknarefni að komast að því hvaða klíkutengingu þessi manneskja Birgitta Jónsdóttir Klasen á inn í 365 ljósvaka. Ég man ekki til þess að manneskja sem í fyrsta lagi er ekki talandi, hafi fengið annað eins svigrúm til að ausa bulli yfir landslýð gangrýnislaust.

Þó að fjölmiðlar hafi oft gerst sekir um að lepja upp fáráðshjal og hindurvitni, hefur það þó oftar en ekki verið litlum glefsum, svona einskonar "human interest story" þar sem við fáum að kynnast því við hvað fávitar eru að skemmta sér.

Þetta bull hennar Birgittu er í formi skipulagðrar markaðherferðar, og ég hallast helst að því að fjölmiðlarnir séu farnir að taka greiðslu fyrir að hleypa þessu gagnrýnislaust í loftið.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.