Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tala fullorðinna

Alveg er hún makalaus þessi Þjóðkirkja. Nýjasta útspil hennar er að troða sér inn í áróðursherferð þar sem við öll erum hvött til að leyfa börnunum að vera börn.

Átakið sem slíkt er auðvitað hið besta mál. Það er um að gera að börn fái að varðveita æsku sína og áhyggjuleysi eins lengi og kostur er. Því miður er allt of mikið um að krakkar séu rændir þessum verðmætum á einn eða annan hátt, mokað í þau ábyrgð og áhyggjum.

Og í verstu tilfellunum er þeim þröngvað til kynlífs.

Reyndar eru það kaþólskir prestar en ekki lúterskir sem duglegastir hafa verið við að ræna börn sakleysi sínu á þann andstyggilega hátt. Ef Þjóðkirkjan ætlar að vera sjálfri sér samkvæm í þessu átaki ætti hún að bæta sér í flokk þeirra sem krefjast þess að ekki sé lengur haldið hlífisskildi yfir kaþólskum prestapervertum.

En erindi þessa pistils var reyndar annað. Það er nefnilega svo að í þessu átaki sínu er Þjóðkirkjan í hrópandi mótsögn við sjálfa sig og allt sem hún stendur fyrir. Hvað á það til dæmis að þýða að vera sífellt steðjandi inn á leikskóla að innræta kornungum krökkum syndahugtakið? Og hvernig getur kirkja hróðug þóst standa vörð um að varðveita bernskuna þegar hún vélar unglinga á viðkvæmasta aldri, þegar þeir eru hvað varnarlausastir gagnvart hópþrýstingi, til háalvarlegra samningagerða við kirkjuna sjálfa og meintan foringja á himnum?

Þetta segir í litlu kveri Þjóðkirkjunnar um fermingarstarfið:

Félagshópurinn hefur æ meira áhrifavald, en foreldrar minna, þegar ungmennin verða óháðari foreldrum sínum tilfinningalega. Áhrif félagshópsins eru hvað sterkust í 8. og 9. bekk. Þá staðreynd er mikilvægt að nýta sér í fermingarstörfunum.

[María Ágústsdóttir. 1999. Námskrá Fermingarstarfanna, bls. 20]

Þjóðkirkjan gerir út á þennan aldurshóp í krafti þekkingar sinnar á hinum sálrænu hliðum gelgjuskeiðsins. Í krafti þessarar þekkingar rænir hún svo krakkana bernsku sinni í stórum stíl á hverju ári, þröngvar ófullveðja einstaklingum til að taka mikilvægar ákvarðanir um lífsgildi og heimsmynd, um leið og hún dregur þá inn í „fullorðina manna tölu“.

Leyfum börnunum að vera börn. Hlífum þeim við trúaruppátroðslu þar til þau hafa aldur og þroska til að vega þessi mál og meta á vitrænum forsendum.

Birgir Baldursson 11.09.2005
Flokkað undir: ( Fermingar , Hugvekja )

Viðbrögð


Sindri - 11/09/05 12:33 #

Lúkasarguðspjall 18:16 En Jesús kallaði þau til sín og mælti: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 11/09/05 14:59 #

he he he.... það á ekki að senda börnin í fangið á mönnum sem bjóða þeim nammi. Kristilegt ofbeldi gegn börnum


Snær - 12/09/05 08:01 #

"Hvaða endemis rugl pistill er þetta?"

Hvar er ruglið? Ekki get ég séð það. Það eina sem ég sé er fróðlegur pistill um það hvernig Íslenskir prestar eru kvattir til þess að nýta sér takmarkaðan þroska barna á fermingaraldri í þeim tilgangi að ýta þeim til þess að halda þeim í kristinni trú.

Finnst þér það raunverulega ekki ósiðferðislegt?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/09/05 08:09 #

Það var Lárus Páll Birgisson sem skrifaði "Hvaða endemis rugl pistill er þetta?" undir fölsku nafni, athugasemd hans var eytt.


Ormurinn - 12/09/05 14:03 #

Að ræna krakkana bernskunni???

Ég skil að þið reynið að gera í því að sjokkera fólk svolítið til að koma umræðunni af stað en þetta er bara hlægilegt.

Blessuð saklaus börnin taka þessu ekki alvarlegra en svo að þau eru flestöll í þessu gjafanna vegna.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 12/09/05 14:21 #

Ef krakkarnir eru að þessu gjafana vegna er þá ekki óhætt að losna við kirkjuna sem millilið???


eggert egg - 12/09/05 14:33 #

Sammála Orminum.

Þegar ég var að fermast þá var meira en helmingur unglinganna byrjaðir að drekka, nokkrir farnir að reykja og sumir farnir að stunda kynlíf...án þess að prestar kæmu þar nokkuð við sögu.

14 ára unglingar eru bara ekki lengur að leika sér með leggi bakvið hús eða í parís.

Og nákvæmlega Ormur, nánast allir voru með í þessu gjafanna vegna...ég líka, ég viðurkenni það alveg. Auk þess sem pressan frá samfélaginu og foreldrunum er gífurleg...unglingarnir eiga bara að fermast...

Unglingarnir tala heldur ekki um hvað það sé nú æðislegt að hafa fermst og að hafa tekið við Jésú. Heldur er verið að tala um vélsleðana, tölvurnar og upphæðirnar sem hver og einn fékk.

Ég veit ekki hvaða bernsku kirkjan ætti að hafa stolið af þeim krökkum. Finnst mér að hún hefði átt að reyna að ná meira til þeirra fyrr, ef eitthvað er.

En það er bara mín skoðun.


eggertegg - 12/09/05 14:35 #

G2 - Það er hægt. Borgaraleg ferming heitir það.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/09/05 14:36 #

Ormurinn og eggert egg líta hjá því að tal um "sakleysi æskunnar" kemur frá Kirkjunni, hér er einungis verið að ræða útfrá orðum hennar.

Lykilsetning greinarinnar er ekki þessi um sakleysi æskunnar heldur setningin á undan sem rökstudd er með tilvísun í kver frá Þjóðkirkjunni. "Þjóðkirkjan gerir út á þennan aldurshóp í krafti þekkingar sinnar á hinum sálrænu hliðum gelgjuskeiðsins. ". Þetta er staðreynd.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 12/09/05 16:59 #

Eggertegg talar tungum tveim. Fyrst segir hann sem rétt er að:

Og nákvæmlega Ormur, nánast allir voru með í þessu gjafanna vegna...ég líka, ég viðurkenni það alveg. Auk þess sem pressan frá samfélaginu og foreldrunum er gífurleg...unglingarnir eiga bara að fermast... Unglingarnir tala heldur ekki um hvað það sé nú æðislegt að hafa fermst og að hafa tekið við Jésú. Heldur er verið að tala um vélsleðana, tölvurnar og upphæðirnar sem hver og einn fékk.

En hvað á að gera að mati Eggertseggs? Jú ná fyrr til barnanna!

Ég veit ekki hvaða bernsku kirkjan ætti að hafa stolið af þeim krökkum. Finnst mér að hún hefði átt að reyna að ná meira til þeirra fyrr, ef eitthvað er.

Á ég að trúa því að hann vilji hefja fermingarstarfið fyrr?!? Heldur hann að yngri krakkar séu minna spenntir fyrir stórum gjöfum en þau eldri?

Allt tilstandið í kringum fermingar er eitt það ógeðfelldasta sem ég veit um þegar kemur að Þjóðkirkjunni. Þarna er börnum í raun mútað til að gangast undir einhverjar óljósar hókus-pókus athafnir með loforðum um miklar gjafir að því loknu. Fá börn á þessum aldri geta staðið á móti þeim freistingum sem otað er að þeim.

Þetta vita prestarnir en taka samt þátt í sukkinu og ruglinu því þeir fá vel borgað fyrir. Með sinni salatsbarguðfræði virðast þeir hafa gleymt hinu heilaga orði.

Mark. 10:25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.

En Eggertegg vill leggjast enn lægra og ná til enn yngri aldurshópa. Börn eru jú trúgjörn og auðvelt að móta þau, líklega er það þess vegna sem Þjóðkirkjan leggur mikla áherslu á barnastarf, býr til gerviþörf sjálfri sér til handa svo hún megi halda áfram að fitna eins og púkinn á fjósbitanum á kostnað skattborgara.

Ef Eggertegg er alvara með því að kirkjan eigi að leitast við að ná til enn yngri barna en fermingarbarna, þá finnst mér hann algerlega siðlaus.

En það er bara mín skoðun.


eggertegg - 13/09/05 10:38 #

Hvernig er ég að tala tungum tveim???

Ég er ekki að tala um að gefa yngri börnum gjafir og ferma þau þegar þau eru enn yngri. Það sagði ég aldrei.

Það sem ég er að tala um er að efla tíu til tólf ára starfið og unglingastarf í kirkjum svo að krakkarnir viti betur hverju þeir eru að játast og geri það af alvöru, ekki til að fá gjafir eins og það er í dag.

Í raun finst mér að það mætti sleppa allri þessari gjafavitleysu. Þá fengjum við að sjá hverjir meina það sem þeir segja þegar þeir eru að fermast.

Lárus :"Þarna er börnum í raun mútað til að gangast undir einhverjar óljósar hókus-pókus athafnir með loforðum um miklar gjafir að því loknu."

Ekki er það kirkjan sem er að lofa börnunum gjöfum... er það Lárus?. Þjóðkirkjunni er slétt sama hvort að börnin fái vélsleðann sinn eða ekki. Það eru foreldrarnir og samfélagið sem hafa gert fermingargjafir að því sem þær eru í dag...ekki þjóðkirkjan, mundu það. Svo múturök þín eru rokin út í vindinn.

Þannig að ef þú ætlar að ráðast að þjóðkirkjunni með því að segja að börnunum sé mútað með gjöfum og að þar sé þjóðkirkjunni um að kenna, þá ertu nú aldeilis að *rokk-pissa upp í vindinn góða.

Og ég veit ekki til þess að nokkur prestur sé að fá allan fermingarpeninginn beint í vasann. Fer það ekki allt beint til kirkjunnar? Ef svo er þá eru prestarnir varla þessir auðmenn sem þú ert að tala um.

*No hands :)


eggertegg - 13/09/05 10:40 #

  • Fermingarpeningurinn, sem ég talaði um hér að ofan, er upphæðin sem tekin er fyrir ferminguna. Ekki peningarnir sem unglingarnir fá frá foreldrum, ættingjum og vinum.

Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/09/05 10:56 #

Og ég veit ekki til þess að nokkur prestur sé að fá allan fermingarpeninginn beint í vasann. Fer það ekki allt beint til kirkjunnar?

Nei, ég held þetta fari í vasa prestanna.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 13/09/05 13:46 #

Þannig að ef þú ætlar að ráðast að þjóðkirkjunni með því að segja að börnunum sé mútað með gjöfum og að þar sé þjóðkirkjunni um að kenna, þá ertu nú aldeilis að *rokk-pissa upp í vindinn góða.

Èg hef ekki heyrt mikil mótmæli frá hinum frómu kirkjunnar mönnum gegn mútunum enda kemur þetta gjafasukk þeim vel þegar öllu er á botninn hvolft. Hvetur krakkana til að fermast sem aftur þýðir meiri aur í vasa prestana. Jafnvel þrátt fyrir að auðsöfnun krakkana sé í beinni mótsögn við boðskapinn, þá er litið fram hjá því. Prestarnir hræsna og hví skyldu krakkarnir ekki hræsna líka?

Að sjálfsögðu leysir kirkjan ekki krakkana út með gjöfum (skárra væri það nú). En hún tekur þátt í þessu til að gera kirkjuna eftirsóknarverðari fyrir börnin. Ef prestum dytti í hug að leggjast á móti fermingargjöfum og fermingarveislum þá held ég nú að vinsældir þessarar athafnar ættu eftir að hrapa.

Í raun finst mér að það mætti sleppa allri þessari gjafavitleysu. Þá fengjum við að sjá hverjir meina það sem þeir segja þegar þeir eru að fermast.

Sammála.

Þjóðkirkjunni er slétt sama hvort að börnin fái vélsleðann sinn eða ekki. Það eru foreldrarnir og samfélagið sem hafa gert fermingargjafir að því sem þær eru í dag...ekki þjóðkirkjan, mundu það. Svo múturök þín eru rokin út í vindinn.

Ég sagði ekki að Þjóðkirkjan væri sú sem mútaði, en krökkunum er mútað fyrir því.

Leysa má þetta vandamál með einföldum hætti, einfaldlega hækka fermingaraldurinn upp í sjálfræðisaldurinn (18) og tryggja þannig að þá sé fólk meðvitað um hvað fermingin snýst um. Það er í samræmi við önnur viðmið þjóðfélagsins t.d. í sambandi við kosningarétt, eigin fjárráð og akstur bifreiða. Hvers vegna ættu önnur aldurstakmörk að gilda um jafn mikilvæga ákvörðun eins og að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns?


Ormurinn - 14/09/05 12:02 #

Sverrir Stormsker lagði eitt sinn til að fermingaaldurinn yrði hækkaður upp í fertugt hehehe


Fiffi - 19/09/05 19:34 #

Ég nennti ekki að lesa umræðuna en vildi bara koma að nokkrum punktum.

Ég - sem æskulýðsleiðtogi - ræði þetta oft við börn á fermingaraldri. Ég virði frelsi hvers og eins þeirra til að velja hvað það vill og spyr þau oft um ástæður til að fermast - langfleast viðurkenna gjafafýsn sína. Þá bendi ég á borgaralega fermingu sem kost, sérstaklega handa þeim sem trúa ekki þessu Jesúkjaftæði - nú eða það að hinkra augnablik og sjá hvað setur. Sannleikurinn er sá að börnin eru mun frekar þrælar neysluhyggju og nútímasamfélags heldur en nokkru sinni kirkjuvaldsins.

Svo eru það leiðinlegustu komment sem maður fær, eftir ferminguna, að nú sé maður kominn í fullorðinna manna tölu. En koma þau frá kirkjunni? Onei - það eru allir hinir sem segja það!


Guðrun - 26/11/05 13:41 #

ég get ekki með nokkru móti skilið kraft Guðs, ég veit það bara að þegar ég bið til hans í Jesú nafni fyllist ég af friði, gleði og kærleika. Ég hef prófað ýmislegt annað eins og slökun jóga hugleiðslu heilun og heilbrigða skynsemi, en ekkert virkar svona vel til hamingjusemi. nú hef kynnst svokölluðu frelsuðu fólki sumir eru ágætis manneskjur en aðrir stórhættulegt fólk, sem að felur illsku sína með trúartali. En það er ekki Guði að kenna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.