Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Klippt og skorið

Okkur trúlausum er sífellt borið það á brýn að geta ekki hugsað öðruvísi en klippt og skorið. Að allt þurfi að vera mælanlegt með mælistikum og við séum ófær um að koma auga á að heimurinn sé margbrotnari en svo.

Að sjálfsögðu er þett ekkert annað en strámannsrökvilla. Sannindaleit hins trúlausa felst fyrst og fremst í því að leita að hinu haldbæra en útiloka ruglið. Og nóg er af ruglinu þarna úti.

Þetta „margbrotna“ sem við erum sökuð um að sjá ekki er jafn margvíslegt og allar þær „andlegu“ stefnur sem þrífast. Og þær greinir á í öllum veigamiklum atriðum. Nýjaldarfólk aðhyllist t.d. guðdóm, en þó ekki þann guðdóm sem kristnir, múslimar eða hindúar halda á lofti. Hvernig stendur á því að í augum nýjaldarmannsins eru „sannindi“ þessara hópa argasta rugl, ef þeir eru samt sem áður opnir fyrir því sem ekki er aðeins klippt og skorið? Eru það ekki nægileg rök fyrir því að slíkt hugarfar sé ekki rétta leiðin til að höndla sannindi?

Þegar grannt er skoðað sést vel að „upplýsingarnar“ sem fólk öðlast með því að opna sig fyrir fleiru en því „klippta og skorna“ eru aðeins hugdettur. Þannig er karma hugdetta sem stenst ekki rök. Sama gildir um eftirlífið, alla guðina og þar fram eftir götum. Sá sem aðhyllist slíkt af því að hann er svo „opinn“ og móttækilegur er aðeins að kaupa hugdettur annarsstaðar frá, eitthvað sem hann hefur lesið eða heyrt um.

Nei gott fólk, það eina sem dugar þegar leitað er hins sanna er að sigta það frá sem ekki stenst rök. Að öðrum kosti er allt opið fyrir bulli og vitleysu, eins og sést best þegar menn skoða önnur trúarkerfi en sín eigin. Skeptíkin felst í því að skoða allt sem fullyrt er, en aðhyllast ekki annað en það sem hægt er að sýna fram á með rökum.

Rök og sannanir eru öflug tól til að vega og meta heimsmynd sína. Það er ódýrt að afgreiða þau sem mælitæki á borð við tommustokka og volt-mæla. Sá sem það gerir skilur ekki hverslags áhöld þetta eru.

Birgir Baldursson 02.09.2005
Flokkað undir: ( Klassík , Rökin gegn guði )

Viðbrögð


danskurinn - 02/09/05 22:46 #

Birgir skrifar: "Sannindaleit hins trúlausa felst fyrst og fremst í því að leita að hinu haldbæra en útiloka ruglið. "

Þetta eru reginmistök og mun aldrei takast. Sá sem notar þessa aðferð eða nálgun hefur talið sér trú um að hann þekki sannindin. Í þeirri stöðu væri augljóslega óþarfi að leita sanninda fyrst þau eru þekkt stærð. Þetta dæmi er því rugl. Setningin væri rökréttari ef hún segði: “Sannindaleit hins trúlausa felst fyrst og fremst í því að leita að hinu haldbæra með því að útiloka ruglið.” Í þessari stöðu hefur einhver talið sér trú um að “rugl” sé þekkt stærð eða þekkjanleg stærð ólíkt sannindum, sem ég held reyndar að greinarhöfundur eigi í raun við. Svo við erum sammála.

Í leitinni sinni að sannindunum er maðurinn rekinn áfram af óseðjandi forvitni. Maðurinn þráir vita hver hann er. Ekkert annað dýr hefur þessa eiginleika. Sagt er að guð hafi skapað manninn í sinni mynd. Það þýðir að maðurinn þekkir guð þegar maðurinn þekkir sig sjálfan.

Heilinn verður upplýstur með því að skynja sjálf sitt. "Ég" eða sjálfið er á bakvið allar hugsanir og framkvæmdir heilans. Heilinn sjálfur hefur enga greind eða vitsmuni. Það er ég sem skynja og ég sem hef meðvitund. Heilinn heldur vissulega að hann sé ég, en svo er ekki. Það er ég sem stjórna.

Það er heilinn sem heldur fast í trú sína á kenningar vísinda, trúarbragða og alls konar kreddur. Sönn ánægja og gleði fæst hins vegar þegar heilinn er í hvíld. Leynt og ljóst reynum við því að fá heilann til að hvíla sig.

Menn og konur týna sjálfum sér í hvíldarlausum hugsunum. Við lifum í draumórum um fortíðina og framtíðina, án tengsla við raunveruleikann. Að lifa í raunveruleikanum er að vera þar sem er hvorki fortíð né framtíð. Það er svokallað himnaríki. Ef við finnum himnaríki innra með okkur finnum við himnaríki hið ytra.

Sá sem leitar sanninda hið ytra finnur aldrei neitt nema fortíð og framtíð sem eru án tengsla við raunveruleikann. Sannindaleit hins trúlausa og hinna trúuðu er sama leitin.


Guðmundur Pálsson læknir - 02/09/05 23:14 #

Nokkuð magnaður texti hjá þér danskur. Eins og svifflug, hljóðlaust og heiðskírt. Kveðja GP


Þór Melsteð - 03/09/05 01:15 #

Í þessari stöðu hefur einhver talið sér trú um að “rugl” sé þekkt stærð eða þekkjanleg stærð ólíkt sannindum

Endemis þvæla er þetta. Rugl er það sem ekki er hægt að færa rök fyrir - öðru nafni rökleysa. Sannindi eru í raun ekki til, þó mikið af vitneskju okkar um heiminn sé svo víðtæk og samstæður þar á milli svo miklar að rökrétt sé að tala þar um sannindi - a.m.k. miðað við það sjónarhorn sem við höfum á heiminn. T.d. vitum við að 2+2 eru 4 og breytir þar litlu hvort þú ert að telja rafeindir, sandkorn eða plánetur - stærðfræðin er hið eina raunverulega alheimstungumál. Ef þú segir að 2+2 séu 5, get ég hiklaust sagt að það sé rugl, enda höfum við óhrekjanleg rök fyrir því að 2+2 séu 4. Allt það sem ekki er hægt að færa rök fyrir, verður að teljast rugl, eða að minnsta kosti fjarstæðukennt - þar til hægt er að færa rök fyrir því. Þar af leiðir, að fyrst ekki er hægt að færa rök fyrir tilvist Guðs, má vel segja að hugmyndin sé rugl. Þegar verið er að leita að "sannindum" er alltaf best að forðast að miða við eða styðjast við eitthvað sem engin rök eru fyrir, því þar með hættir dæmið að ganga upp. Ef þú byggir rannsóknirnar á rökleysum, verður útkoman líka rökleysa, það segir sig sjálft. Vísindin hafa smám saman öðlast meiri vitneskju með því að byggja allar nýjar rannsóknir á hlutum sem við þekkjum, útfrá niðurstöðum eldri rannsókna. Vísindalegar uppgötvanir í dag eru gerðar með því að standa á herðum þeirra sem gerðu vísindalegar uppgötvanir áður. Án röksemdafærslu eru niðurstöður og fullyrðingar innantóm orð.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/09/05 04:28 #

Sá sem notar þessa aðferð eða nálgun hefur talið sér trú um að hann þekki sannindin. Í þeirri stöðu væri augljóslega óþarfi að leita sanninda fyrst þau eru þekkt stærð.

Fullkominn útúrsnúningur og orðhengilsháttur. Það er ekkert í þessari setningu minni sem bendir til þess að ég gefi mér að sannindin séu þekkt, enda felst í henni að verið sé að leita þeirra. Ég sé ekki hvaða ógurlegi merkingarmunur geti falist í að skipta en út fyrir með því að.

Í þessari stöðu hefur einhver talið sér trú um að “rugl” sé þekkt stærð eða þekkjanleg stærð ólíkt sannindum, sem ég held reyndar að greinarhöfundur eigi í raun við. Svo við erum sammála.

Þessi afstaða mín er löngu komin fram, þetta var einmitt það allra fyrsta sem ég skrifaði á þennan vef.

Heilinn sjálfur hefur enga greind eða vitsmuni. Það er ég sem skynja og ég sem hef meðvitund.

Ekki veit ég hvað þú heldur að við séum. Hefurðu einhver rök fyrir því að „við“ séum eitthvað annað en sjálf heilastarfsemin? Þessi vaðall í þér er einmitt eitt af þessu rugli sem engin rök eru fyrir - nýjaldarbull.


danskurinn - 03/09/05 10:51 #

Þekkingu eða kunnáttu væri kannski hægt að skipta niður eftir hvers eðlis hún er. Sjálfsþekking er annars vegar sú þekking að vita hver maður er og hins vegar sú þekking sem maður hefur aflað af eigin rammleik með basli sínu eða orðið fyrir í lífshlaupi sínu. Svo er til þekking sem er fengin að utan, þ.e. með því sem við heyrum, lesum og skynjum utan við okkur.

Sjálfs-þekking/reynsla úr lífsins basli er t.d. slæm flensa. Læknir sem hefur aldrei fengið flensu sjálfur, þekkir engu að síður öll einkenni hennar á sjúklingum sínum, en sú þekking er ekki sjálfsþekking eða persónuleg reynsla. Sú þekking er stúdering á hinu utanaðkomandi, skynjun á því sem liggur utan við þig sjálfan. En ef þú hefur einhverntíma fengið slæma flensu þá þekkir þú einkennin á eigin skinni og verður kannski hissa þegar þau birtast með allt öðrum hætti en þú áttir von á. Þetta gildir um alla reynslu. Það sem þú hefur ekki reynt á eigin skinni er ekki sjálfsþekking. Að miðla þeirri þekkingu á milli einstaklinga er háð augljósum erfiðleikum.

Svo er til sjálfsþekking sem byggir ekki á persónulegri reynslu þeirrar heilastarfsemi sem einblínir á veröldina eins og hún birtist okkur í núverandi fortíð og framtíð. Það er sú þekking að vita hvað maður er og hver maður er.

Mig minnir að Plato hafi lýst vandanum við að koma þessari þekkingu til skila í dæmisögu um þjóðflokk sem lifir í helli þar sem er eldur á miðju gólfi. Fólkið þar situr við eldinn og horfir á víbrerandi skuggamyndir sínar á veggjum hellisins. Einstaka sinnum ráfar einhver úr hópnum út úr hellinum og sér ljósið og veröldina þar fyrir utan. Mjög erfitt og jafnvel hættulegt er fyrir þennan einstakling að útskýra fyrir hópnum hvað hann hefur séð eða upplifað.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/09/05 11:43 #

Og þegar hellisbúinn kemur aftur til að útskýra fyrir þeim sem sjá bara skuggamyndir er hann drepinn því að þeir trúa honum ekki.


Lárus - 03/09/05 14:58 #

Danskurinn skrifar:

"Í leitinni sinni að sannindunum er maðurinn rekinn áfram af óseðjandi forvitni. Maðurinn þráir vita hver hann er. Ekkert annað dýr hefur þessa eiginleika. Sagt er að guð hafi skapað manninn í sinni mynd. Það þýðir að maðurinn þekkir guð þegar maðurinn þekkir sig sjálfan."

Eru til e-h heimildir fyrir því að það sé ekkert dýr sem pæli í sinni veru á jörðinni? (fyrir utan okkur)

Og hvernar veistu að þú veist hver þú ert?


Þór Melsteð - 03/09/05 23:58 #

Sem dæmi má nefna það að fyrir ári síðan þekktu vel flestir þann sannleik að umhverfis Sólina snérust 9 plánetur (8 fyrir þá sem telja Plútó ekki með). Fyrir þessum "sannleika" voru færð mjög góð rök sem byggð voru á vísindalegum niðurstöðum. Þetta var rangt. Nú í sumar skilst mér að fundist hafi sú 10.

Þetta er reyndar rangt hjá þér og mætti í raun kalla strámann. Því þó 10. reikistjarnan hafi fundist þýðir það ekki að það hafi verið rangt að tala um 9 plánetur áður og það er enn sannleikur að um sólina okkar snúist 9 plánetur - því það eru ennþá 9 plánetur, það hefur ekki breyst, það hefur bara bæst ein við í hópinn. Það er ekki útilokað að fleiri finnist þegar lengra er leitað, en það þýðir ekki að vitneskjan sem við höfum núna sé röng.

metingur um hvaða rök eru æðri en önnur

Þetta er rökleysa hjá þér :) Rök eru rök eru rök.


danskurinn - 04/09/05 12:25 #

Lárus spyr: ”Eru til e-h heimildir fyrir því að það sé ekkert dýr sem pæli í sinni veru á jörðinni? (fyrir utan okkur)”

Djúpur Lárus! Ertu að spyrja um skólabækur sem þú gætir lesið þér til fróðleiks?

Lárus spyr: ”Og hvernar veistu að þú veist hver þú ert?”

Hvernig eða hvenær það gerist byggist á skynjun þinni á veruleikanum, sjálfsþekkingu eins og áður hefur komið fram.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.