Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kalli í klípu

Það virðist ekki vera hægt að tala um samkynhneigða í íslenskum fjölmiðlum án þess að tala við Gunnar í Krossinum. Þetta er undarleg árátta hjá fjölmiðlafólki. Gunnar í Krossinum er forstöðumaður í frekar smáu trúfélagi. Hann talar fyrir hönd fámenns jaðarhóps sem trúir undarlegustu hlutum. Hverjum er ekki nákvæmlega sama um hvað Gunnari í Krossinum finnst um nokkurn skapaðan hlut. Við ættum vissulega að hafa áhyggjur af þeim samkynhneigðu einstaklingum sem eru svo óheppnir að alast upp í þessu trúfélagi hans en utan þess er algjört núll í þessum málum. Svo virðist sem hann komist aðallega í fjölmiðla af því að hann er hentugur óþokki. Öllum er sama þó fjölmiðlamenn taki harkalega á honum. Gunnar fær hins vegar að spýja sínum viðbjóðslegu skoðunum yfir þjóðina.

Hvers vegna reynir fjölmiðlafólk ekki að fá Karl Sigurbjörnsson (lélegasta biskupinn) til að upplýsa skoðanir sínar á samkynhneigð? Það er nefnilega ýmislegt sem bendir til þess að Kalli og Gunni séu á svipaðri línu í þessum málum. Aðalmunurinn á þessum tveimur körlum felst í því að Gunnar fer ekki felur með skoðanir sínar á með Karl talar í hálfkveðnum vísum (eins og er hans von og vísa). Og Karl er víst forstöðumaður stærsta trúfélags Íslands sem gerir hann að mun stærra númeri í þessum málum.

Heldur fjölmiðlafólk kannski að Karl Sigurbjörnsson sé svo viðkvæmur maður að hann þoli ekki harðar spurningar? Ef svo er þá er það misskilningur. Honum finnst hins vegar voðalega erfitt að gefa svör sem ekki eru kafloðin og almennt illskiljanleg.

Hefur Karl eitthvað að fela? Nú er almennt talið að biskupinn teljist til íhaldsafla innan þjóðkirkjunnar og því má telja líklegt að skoðanir hans á samkynhneigðum séu þar af leiðandi frekar neikvæðar. Ef Karl er skoðanabróðir Gunnars trúbróður síns þá á hann væntanlega erfitt með að upplýsa þær vegna þess að fjölmargir myndu ganga úr þjóðkirkjunni vegna andúðar á þeim. En ef Kalli er frjálslyndur þá á hann á hættu að tapa stuðningi íhaldsmannana og einnig að fjölmargir færi sig úr þjóðkirkjunni yfir í sértrúarsöfnuði.

Kalli er í klípu og hans eina lausn er að láta sem minnst upp um sínar skoðanir. Hann getur gefið ýmislegt í skyn en það væru stórmistök hjá honum að segja "það er ókei að vera gei" eða "kynvilla er viðurstyggð". Þetta vekur upp spurningar um hvað í ósköpunum hlutverk biskups sé. Á hann bara að koma reglulega fram og þylja upp einhvern trúarvaðal (sem þykir djúpur af því að enginn skilur hvað maðurinn er tala um)? Á forstöðumaður stærsta trúfélagsins ekki að vera leiðbeinandi fyrir félagsmenn sína? Er hann bara ígildi upptrektrar dúkku sem er látin þvaðra við hátíðleg tækifæri af því það er talið viðeigandi? Maðurinn hefur góðan aðgang að fjölmiðlum og á því voðalega auðvelt með að leiða lömbin sín í allan sannleikann um hvað Guði finnst um samkynhneigð. Eina vandamálið er að Karl Sigurbjörnsson virðist vera heigull.

Óli Gneisti Sóleyjarson 01.09.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 01/09/05 08:11 #

Karl er bara byskup að nafninu til, hann leiðir ekki lömbin?


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 01/09/05 14:55 #

Biskoppurinn er ekki í nokkurri klípu, hann mun segja okkur að þetta verði að skoða í Ljósi Krists og þar með er málið dautt......hmmmmmm


Árni Árnason - 01/09/05 17:53 #

Kalli og kirkjan öll er í alvarlegri tilvistarkreppu.

Eiga þeir að halda sig við bókstaf Biflíunnar líkt og Gunnar í Krossinum, og ávinna sér andúð þeirra frjálslyndu, eða fylgja tíðarandanum og afla sér óvinsælda hinna strangtrúuðu ?

Þeir vita ekki hvor kosturinn er illskárri, og því er best að reyna að sigla einhvern meðalveg, reyna að styggja engann og halda sjó.

Ef það væri trúin sem gefur þeim drifkraftinn myndu þau ekki hika við að segja sína skoðun, en þar sem þetta er fyrst og fremst business, er best að reyna að rugga ekki bátnum. Þessi bátur hefur lengi flotið á því að það stendur svotil öllum hjartanlega á sama hvað þetta lið er að blaðra.

Nú liggur fyrir beiðni um hækkun sóknargjalda, og vona ég að þau verði hækkuð hressilega, best væri að tífalda þau, því fólk nennir ekki að gera sér rellu útaf þessu smotteríi sem gjöldin eru í dag og kirkjan flýtur á sinnuleysinu einu saman. Ef fólk fer að finna verulega fyrir því á buddunni að reka þetta appírat þá springur blaðran og fólk fer að heimta breytingar.

Árni


Sindri Guðjónsson - 02/09/05 11:01 #

Það væri reyndar athyglisvert að skoða hversu margir myndu hætta í þjóðkirkjunni ef að sóknargjöldin yrðu ekki lengur greidd í gegnum milliliðinn ríkið - heldur með þeim hætti að hverjum og einum yrði sendur gíróseðill.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 03/09/05 16:58 #

...eins og í hverju öðru félagi. Já, það væri sannarlega athyglisvert.


Jón Valur Jensson - 11/09/05 13:13 #

[athugasemd þessi tengist ekki færslunni og var því færð á spjallið ]


Jón Valur Jensson - 14/09/05 09:41 #

Þær spurningar eða öllu heldur þau áhorfsmál, sem bryddað er upp á í upphafsgreininni á þessari vefsíðu, hafa ekki fengið mikla umfjöllun hjá bréfriturum. En um þau mál er hins vegar fjallað ýtarlegar á vefslóðinni ‘Hvað tefur?’ hér á Vantrúarvefnum. Er full ástæða til að vísa til þeirrar vefsíðu til afstýra óþarfa misskilningi á ýmsum atriðum varðandi afstöðu kirkjunnar og Karls biskups til samkynhneigðar. Viljið þið eiga orðastað við hann eða aðra kirkjunnar menn um þau mál, er betra að hafa á hreinu, hvar ágreiningurinn kann að liggja.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.