Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skúffuáhrifin

Skúffuáhrifin vísa til þess þegar fræðimenn sópa rannsóknum með neikvæðum niðurstöðum undir teppið. Með neikvæðum niðurstöðum er átt við þegar ekkert orsakasamhengi eða tölfræðilega marktækt finnst, ekki að eitthvað finnist sem hefur neikvæð áhrif á okkur. Neikvæðar niðurstöður geta líka falist í því að finna eitthvað sem gengur í berhögg við fyrri rannsóknir eða það sem gert var ráð fyrir.

Það að kynna og gefa einungis út jákvæðar niðurstöður rannsókna gefur ranga mynd af því sem rannsakað er, sérstaklega ef safngreiningar styðjast við þau gögn.

Ein gagnrýni á dularsálfræði er að fræðimenn innan þess geira hafa litið hjá rannsóknum með neikveiðum niðurstöðum. Árið 1975 tóku Amerísku dularsálfræðisamtökin upp þá opinberu stefnu að vinna gegn því að einungis jákvæðar niðurstöður væru settar fram.

Litlar rannsóknir virðast hafa farið fram á umfangi tilhneiginga fræðimanna til að stinga neikveiðum niðurstöðum undir stólinn. Brian Martinson, fræðimaður hjá HealthPartners rannsóknarstofnuninni stjórnaði rannsókn fyrir Nature (birt í júní 2005) og fékk 1786 svör með nothæfum gögnum af 3600 könnunum sem send voru til reyndra vísindamanna. Þau fengu 1479 svör með nothæfum niðurstöðum af 4160 könnunum sem send voru til vísindamanna með minni reynslu (Martinson et al 2005). Svarendur fengu að halda nafnleynd. Af vísindamönnunum sem svöruðu sögðust 6% hafa “hent gögnum vegna þess að niðurstöðurnar gengu í bága við fyrri rannsóknir”. Meira en 15 prósent játuðu að hafa hunsað gögn vegna þess að þeir höfðu “hugboð” um að þau væru ónákvæm.* Martinson og félagar skrifa

aðferð okkur bíður vissulega upp á hugsanlega skekkju; vísindamenn sem ekki fara eftir bókinni gætu verið líklegri en aðrir til að svara ekki könnuninni, hugsanlega útaf hræðslu um að upp um þá komist og mögulegum afleiðingar þess. Auk þess að líklega gera þeir sem svöruðu minna úr afglöpum sínum en efni standa til, það bendir til þess að niðurstöður okkar um afglöp fræðimanna séu hóflegar.

Þess skylt: Safngreining

Skeptic's dictionary: filedrawer effect

Matthías Ásgeirsson 30.08.2005
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin )

Viðbrögð


Jón Frímann - 30/08/05 02:51 #

Og síðan dettur þessum mönnum í hug að kalla sig vísindamenn. Hluti af vísindunum er að kljást við "neikvæðar" niðurstöður.


Hr. Pez - 30/08/05 09:23 #

Ofan á þetta bætist "Publication bias:" Það er erfiðara að fá greinar með neikvæðum niðurstöðum birtar í ritrýndum tímaritum, jafnvel þótt vísindamaðurinn geri sitt besta til að fá þær birtar. Afleiðingin er sú að það birtist hærra hlutfall af greinum með fölskum jákvæðum niðurstöðum en ella, og jafnvel þótt niðurstöðurnar standi "kvalitatíft" heima, þá er effektinn mældur sterkari en hann er í rauninni ("Winner's Curse").

Þetta er samt ekki ástæða til að fordæma vísindasamfélagið, eða þá vísindamenn sem hika við að opinbera niðurstöður sem ganga í berhögg við það sem áður var talið (sérstaklega ef þá grunar að gögnunum sé ekki treystandi).


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/08/05 11:41 #

Þetta er samt ekki ástæða til að fordæma vísindasamfélagið

Alls ekki, ég myndi þvert á móti telja það kost hjá vísindasamfélaginu að þar er fólk meðvitað um þetta.


Hr. Pez - 30/08/05 13:22 #

Ég skildi þig reyndar þannig. Ég var meira að tala í framhaldi af næsta kommenti á undan mínu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/08/05 13:25 #

Já, ég held að þar sé Jón Frímann fyrst og fremst að skjóta á vísindamenn innan dularsálfræðinnar. Þeir eiga sumir hverjir þetta "skot" skilið. Betur verður komið inn á það í grein um safngreiningu (meta-analysis).

Annars er þessi grein, eins og allar í efahyggjuorðabókinni, þýðing. Bara svo það sé alveg á hreinu að ég sé ekki að eigna mér þetta :-)


Heiða María Sigurðardóttir - 01/09/05 13:37 #

Vil svona bæta því við að enn ein ástæða þess að lítið er fjallað um núllniðurstöður er af tölfræðilegum ástæðum. Það er hægt að hafna þeirri núlltilgátu að ekkert samband eða áhrif sé á milli tiltekinna breyta og taka upp þá aðaltilgátu að sambandið sé raunverulegt. Ef ekki finnst marktækur "effect" verða vandræði; það má aldrei taka upp núlltilgátuna, því það gæti alltaf verið einhver munur eða effect sem er svo lítill að hann mælist ekki, þetta gæti verið vegna mæliskekkju o.s.frv. Þess vegna má bara eiginlega ekkert segja um svona niðurstöður. Þær eru nær aldrei birtar nema ef þær ganga hreinlega í berhögg við aðrar birtar niðurstöður. Þetta veldur því stundum að fólk er aftur að finna upp hjólið, svo í sumum fræðigreinum er víst farið að halda utan um svona núllniðurstöður svo fólk sé ekki að rannsaka sama hlutinn margoft.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/09/05 13:42 #

Hefur aukning hópgreininga (meta-analysis) einhver áhrif á þetta breytta viðhorf til núllniðurstaðna? þar skiptir væntanlega meira máli að allar niðurstöður séu teknar inn í myndina.


Heiða María Sigurðardóttir - 05/09/05 21:48 #

Þetta er áhugaverður punktur, Matti. Að sjálfsögðu skekkir það allsherjargreiningar, eða meta-analysis, að núllniðurstöður séu ekki teknar með. Þess vegna er líklegra að allsherjargreining skili áhrifum frekar en núll-áhrifum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.