Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fjárfestingar með kuklurum

Síðastliðinn föstudag var umfjöllun í Blaðinu um að þeir Íslendingar sem fjárfesta hvað mest í útlöndum séu mikið í sambandi við spámiðla. Hver er heimilidin fyrir þessu? Magnús Skarphéðinsson. Án þess að vera of mikið á Ad hominem línunni þá verð ég að segja að trúverðugleiki fréttarinnar sé þar með fallinn. Til þess að Magnús sé ekki einn um hituna er sögð einstaklega ómerkileg reynslusaga Sigurðar Guðjónssonar og konu hans.

Sigurður fékk víst símtal frá kuklarakonu á Akureyri sem sagði honum að muna dagsetninguna 11. nóvember og dagana þar í kring. Síðan kom það til að Norðurljós voru seld 13. nóvember! Gæti þetta verið tilviljun? Já! Og ekki einu sinni það merkileg.

Sem dæmi um það hvernig miðlar geta hjálpað við fjárfestingar þá er þetta einstaklega lélegt dæmi. Sigurði var ekkert sagt hvað væri nú merkilegt við daginn. Ef ættingi hans hefði dáið, barn fæðst í fjölskyldunni, uppáhaldsíþróttaliðið hans sigrað, hann orðið veðurtepptur, orðið bensínlaus, lent í árekstri eða hvað annað sem ekki telst alveg hversdagslegt í vikunni í kringum 11. nóvember þá væri hægt að segja að miðillinn hafi haft rétt fyrir sér. Sigurður Guðjónsson er athafnamaður og sífellt er eitthvað að gerast í kringum hann, sérstaklega þegar hann stjórnaði Norðurljósum, og því erfitt að finna viku þar sem ekkert merkilegt kemur fyrir hann.

Það er makalaust að fólk skuli leggja trúnað á svona kjaftæði. Miðillinn fær meira að segja að stækka skotmarkið með því að segja "dagana í kring". Kannski að miðillinn sendi reglulega svona ábendingar til fólks vitandi það að ef spáin rætist alls ekki þá gleymist hún bara.

Ef ég væri að fjárfesta þá myndi ég vilja fá nákvæmari upplýsingar, til dæmis að gengið í ákveðnu fyrirtæki myndi hækka/lækka á ákveðnum degi. Að einhver dagsetning sé eitthvað merkileg hjálpar manni afar lítið.

Ég vona innilega að íslenskir fjárfestar hafi meira vit í kollinum heldur en að eltast við óljósar ábendingar frá kuklurum þessa lands því annars spái ég því að fyrirtækin þeirra lendi í ræsinu.

Með þessum orðum þá kveð ég og sendi Vantrú aftur í sumarfrí. Vonandi fáið þið kjaftæðisfrítt sumar.

Óli Gneisti Sóleyjarson 02.08.2005
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.