Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um sanna múslima og lélega blaðamennsku

Fréttavefur Morgunblaðsins birti í gær frétt um yfirlýsingar múslimaklerks um hryðjuverkamenn. Satt best að segja eru orð klerksins ekki fréttnæm, honum finnst múslimskir hryðjuverkamenn ekki vera sannir múslimar. Áður en við tökum fyrir yfirlýsingu klerksins þá er vert að skoða umfjöllun og orðnotkun Morgunblaðsins aðeins.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var titill hennar "Íslamskur klerkur segir tilræðismenn ekki múslima heldur trúleysingja". Þarna þýddi Morgunblaðið "infidels Muslims" sem "trúleysingjar" þó það sé augljóslega röng þýðing. Reyndar var notuð rétt þýðing á einum stað í fréttinni, það er trúvillingar (eða villutrúarmenn). Klerkurinn er ekki að segja að hryðjuverkamennirnir trúi ekki á Allah heldur að útgáfa þeirra af trúnni sé röng. Hvers vegna í ósköpunum notar Mogginn orðin trúleysingi og trúvillingur í sömu merkingunni?

Eftir að Morgunblaðinu var send athugasemd um málið var fréttinni breytt (allavega tvisvar) og þá var orðið heiðingi komið í stað trúleysingja/trúvillinga. Orðið heiðingi er nú illa valið í þessu tilfelli (eins og má sjá á þessari umfjöllun Vísindavefsins) því að almennt er það notað yfir annars vegar trúleysingja og hins vegar Ásatrúarmenn. Var klerkurinn að halda því fram að hryðjuverkamennirnir dýrkuðu Óðinn og Þór? Ónei, hann segir að þeirra útgáfa af Íslam sé röng. Þeir eru því frá hans sjónarhorni villutrúarmenn. Vonum að hér sé afleysingafólk að klúðra fréttum Morgunblaðsins því þetta er nú voðalega vitlaust allt saman.

En svo við víkjum aftur að klerknum sjálfum. Í yfirlýsingu sinni notar klerkurinn rökvillu sem er afar algeng meðal trúmanna, það er enginn sannur Skoti. Þessi rökvilla er vel útskýrð í þessu dæmi:

A: Allir Skotar borða haggis
B: Nei, ég þekki einn sem gerir það ekki
A: Allir "sannir" Skotar borða haggis

Klerkurinn telur múslimska hryðjuverkamenn ekki "sanna" múslima þó allt bendi til þess. Kristnir menn nota þessa rökvillu gjarnan. Þegar bent er á hin mörgu hræðilegu grimmdarverk sem kristnir menn hafa framið í gegnum tíðina þá er sagt að þeir hafi nú ekki verið alvöru kristnir menn. Trúmenn verða seint sammála um hverjir séu "alvöru" meðlimir í klúbb hinna útvöldu, geta rifist um það endalaust. Hið augljósa er að kristnir menn, múslimar og trúleysingjar geta allir framið illvirki en eru samt "alvöru". Það má taka undir yfirlýsingar þess efnis að þarna hafi ekki dæmigerðir trúmenn verið að verki, enda er það rétt. En það er of langt gengið að aftrúa alla þá sem fremja voðaverk, enn verra er að kenna þá við ótengda lífsskoðun sem fjöldi manna aðhyllist.

Morgunblaðið er íhaldssamt blað og oft er umfjöllun þess á þann veg að halda mætti að blaðið væri fréttabréf Þjóðkirkjunnar. Blaðið hefur oftar en einu sinni á undanförnum árum birt aðsendar greinar þar sem ráðist er á trúleysingja og trúleysi. Á sama tíma hefur blaðið stungið svargreinum trúleysingja undir stólinn. Það er semsagt ástæða fyrir því að við veltum því fyrir okkur hvað veldur þessari framsetningu blaðsins. Þessi vinnubrögð blaðsins eru algjörlega óásættanleg og einnig má velta því fyrir sér hvað veldur því að þessi frétt er sett á forsíðu vefsins. Erlendir fjölmiðlar hafa ekki séð ástæðu til að fjalla um þetta mál, er fréttamat Morgunblaðsins sér á báti - eða fengu þeir einfaldlega tækifæri sem þeir nýttu til að skjóta föstum og ódrengilegum skotum að trúleysingjum?

"Sannir" blaðamenn gera ekki svona mistök.

Matti Á & Óli Gneisti 16.07.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú , Íslam )

Viðbrögð


ThorvaldurJo - 16/07/05 20:11 #

Mogginn er samt besta blaðið í íslenskum fjölmiðli. Þið kvartið yfir því að Mogginn skjótið föstum skotum að ykkur og að trúleysi. Það getur nú vel verið. En DV það ómerkilega endaþarmsblað er það blað sem skýtur ómerkilegum skotum á trú og þá sérstaklega kristinni trú. Þeir gera það ódrengilega hægri og vinstri. Ég veit að þetta tengist ekki málinu en langaði bara að koma þessu inn.


Ásgeir - 17/07/05 02:19 #

Geturðu nefnt dæmi um þetta, ThorvaldurJo?


caramba - 17/07/05 20:47 #

Villutrúarmaður er röng þýðing á orðinu infidel. Villutrúarmaður er sá sem hefur gert sig sekan um trúvillu, haldið t.d. einhverju fram sem gekk í bága við viðtekið kenningakerfi trúarinnar. Þannig áttu bæði Galileo og Spinoza yfir höfðu sér að verða dæmdir fyrir villutrú því í ritum sínum gengu þeir í berhögg við stórasannleik rómversk-kaþólskrar trúar annarsvegar og gyðingdóms hinsvegar. "Infidels" eru þeir sem ekki trúa, vantrúarmenn og þeir sem ekki aðhyllast einhver trúarkerfi.

Þið gefið í skyn að múslimskir hryðjuverkamenn séu sannir múslimar þrátt fyrir að mætir klerkar í islam afneiti þeim. Þetta sýnir að þið eruð ekki aðeins óupplýstir heldur eruð þið að ala á fordómum í garð múslima. Sannur múslim er sá sem hegðar sér samkvæmt trúarlöggjöf Kóransins en sú löggjöf bannar árásir og og árásarstríð. Múslimum er ekki heimilt að heyja styrjöld nema ráðist sé gegn þeim og reynt að flæma þá frá heimilum þeirra. Þeir eru einnig skyldaðir til að virða helgistaði allra trúarbragða vegna þess, eins og segir í Kóraninum, að "í þeim öllum tilbiðja menn Allah." Ég get týnt til dæmi og beinar tilvitninar máli mínu til sönnunnar en því nenni ég ekki, mun þó taka mér tíma til þess, ef þið ætlið að svara þessum pistli með einhverju yfirborðskjaftæði af því tagi sem löngum hefur tíðkast á þessum vefsíðum.

Lifið í náðum!

caramba


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 17/07/05 21:22 #

Ert þú ekki beinlínis búin/n að rökstyðja það að villutrúarmaður sé nákvæmlega það sem klerkurinn var að tala um? Það er að hér sé um að ræða menn sem kalla sig múslima en breyta gegn því sem klerkurinn telur vera rétta múslimska trú? Taktu líka eftir að hér er verið að þýða "muslim infidels" en ekki einfaldlega infidels. Múslimskur villutrúarmaður. Það er alveg ljóst á samhengi fréttarinnar að klerkurinn var ekki að tala um heiðingja eða trúleysingja.

Við erum ekki að ala á fordómum gegn múslimum, við erum bara að benda á hið augljósa sem er að það eru til múslimar sem telja að það sé allt í lagi að drepa fólk í nafni trúarinnar. Þetta eru bara staðreyndir sem fáránlegt að er að neita. Við bendum hins vegar á í greininni að það að fremja grimmdarverk alls ekki bundið við múslima. Flestir þeir múslimar sem ég hef umgengist í gegnum tíðina, til að mynda mágur minn og fjölskylda hans, eru friðsemdarfólk. Væl þitt um fordóma er bara til að reyna að beina athyglinni frá því að þú hefur ekkert máli þínu til stuðnings.

Ég er nokkuð viss að þeir múslimar sem fremja grimmdarverk í nafni trúar sinnar telja sig vera að fara eftir Kóraninum. Sjálfur finnst mér það ekki langsótt túlkun á þeim köflum sem þú vísar í, er ekki einmitt verið að ráðast á múslima víðs vegar um heiminn og að flæma þá frá heimilum sínum?

Ég hef engan áhuga á að rífastum hverjir séu sannir múslimar eða sannir kristnir menn, mín skilgreining er einfaldlega á þá leið að ef þú trúir á Jesú og kallar þig kristinn þá ertu kristinn, ef þú trúir á Allah og kallar þig múslima þá ertu múslimi. Ég veit ekki hve margar greinar eru til af Íslam en þó þær séu aðeins brot af þeim fjölda grein kristinna trúflokka þá er rúm fyrir ótal túlkanir á versum Kóransins. Pældu aðeins í rökvillunni "enginn sannur Skoti".

Við höfum í gegnum tíðina eytt voðalega litlu púðri á Íslam en svo það sé ljóst þá vill ég taka fram að mér þykir þetta alveg jafn gáfuleg trú og kristni.


caramba - 17/07/05 23:54 #

Ég benti á að "infidel" hefur ekki merkinguna villtrúarmaður. Égh þarf ekkert að rökstyðja það, þetta stendur í öllum orðabókum. Farðu í google og skrifaðu define: infidel.

Þú þykist "nokkuð viss" um að múslimar sem fremja grimmdarverk í nafni trúar sinnar telji sig vera að fara eftir Kóraninum? Ertu að reyna að segja eitthvað marktækt um islam eða Kóraninnn? Í Kóraninum stendur "...sannlega hefur Allah andstyggð á árásarmönnum." (surah 2:190) Eigum við ekki að vera nokkuð vissir um að þeir múslimar sem fremja grimmdarverk hafi annaðhvort ekki lesið Kóraninum eða trúi hreinlega ekki á hann?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/07/05 08:07 #

Það er ljóst af öllu í fréttinni af þessum klerk að hann var að kalla þessa menn villutrúarmenn en ekki heiðingja, "muslim infidels". Hann er ekki að halda því fram að þessir menn tilbiðji ekki Allah heldur að þeir geri það á "rangan" hátt. Þetta er ekki flókið.

Það stendur líka í Kóraninum að það megi berjast gegn þeim sem kúga múslima og það er það sem þessir menn telja sig vera að gera. Það er ekkert flókið að túlka Kóraninn á þann hátt að þetta sé leyfilegt. Alveg einsog með Biblíuna þá geta menn skilið þetta á ótal mismunandi vegu. Sumt er þó nokkuð ljóst:

"And kill them wherever you find them, and drive them out from whence they drove you out, and persecution is severer than slaughter, and do not fight with them at the Sacred Mosque until they fight with you in it, but if they do fight you, then slay them; such is the recompense of the unbelievers."


caramba - 18/07/05 12:20 #

Óli Gneisti: Galdurinn er sá að lesa hlutina í samhengi, bæði út frá sjónarmiðum texta og sagnfræði. Hér er skýringardæmi:

Jesús segir á einum stað: "En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér."

Þetta rímar frekar illa við kærleiksboðskap kristninnar og ítrekaðar áminningar Jesú Krists um að ekki megi drepa og allir eigi að vera góðir. Lesi menn alla dæmisöguna í Lúkas 19:27 kemur líka í ljós að hann er ekki að hvetja til morða á óvinum sínum enda hefur enginn skilið það þannig sem lesið hefur dæmisöguna og guðspjöllin í samhengi.

Þú þarft einnig að lesa tilvitnunina í Kóraninn sem þú heldur á lofti í samhengi. Hún hljóðar svo í heild sinni:

"Fight in the cause of Allah those who fight you, but do not transgress limits; for Allah loves not transgressors. And kill them wherever ye catch them, and turn them out from where they have turned you out; for tumult and oppression are worse than slaughter; but fight them not at the Sacred Mosque, unless they (first) fight you there; but if they fight you, kill them. Such is the reward of those who reject faith. But if they cease, Allah is Oft-Forgiving, Most Merciful. And fight them on until there is no more tumult or oppression, and there prevail justice and faith in Allah; but if they cease, let there be no hostility except to those who practice oppression. The prohibited month, for the prohibited month, and so for all things prohibited, there is the law of equality. If then any one transgresses the prohibition against you, transgress ye likewise against him. But fear Allah, and know that Allah is with those who restrain themselves." (al-Baqarah 2:190-194)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/07/05 12:23 #

Galdurinn er sá að lesa hlutina í samhengi, bæði út frá sjónarmiðum texta og sagnfræði.

Já, einmitt.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/07/05 12:29 #

Ég verð að játa að ég fatta ekki hvað þú sérð í samhenginu sem ógildir það að þetta er hvatning til að drepa þá sem ofsækja múslima.


caramba - 18/07/05 13:05 #

Tilvitnuð orð Kóranins voru látin falla þegar lítill hópur fylgjenda Múhammeðs í Medína (sennilega innan við 200 talsins) lágu undir stöðugum morðárásum ættbálkanna í Makkah. Ætlunin arabanna í Makkah var að reka múslima frá Medína og útrýma þeim. Á máli nútímans þýðir þetta að gerðar hafi verið stöðugar hryðjuverkaárásir á Medína og múslimum hafi undir þessum kringumstæðum verið gefin heimild til að verja sig og drepa hryðjuverkamennina þar sem þeir náðu til þeirra, þó með ákveðnum skilyrðum. Einmitt í ljósi þessara kringumstæðna hafa allir helstu og merkustu fræðimenn múslima síðustu 1400 árin túlkað þessi orð sem viðvörun til "hryðjuverkamannanna", ekki sem leyfi til að fremja hryðjuverk. Jihad hefur í ljósi þessara orða Kóransins og annarra verið túlkað sem varnarstríð hið ytra og persónuleg barátta hvers manns gegn lágum hvötum. En jafnvel í þessum varnaðarorðum kóransins eru múslimarnir hvattir til að ganga ekki of langt, hafa hemil á sér, ástunda réttlæti og forðast kúgun.

Höfum ætíð það sem sannara reynist, Óli Gneisti!


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/07/05 13:45 #

Er það ekki bara einfaldlega þannig að það eru til fullt af múslimum sem eru ósammála þessari túlkun þinni? Vinsamlegast svaraðu þessu.

Þeir upplifa sig einmitt þannig að þeir séu í nákvæmlega sömu sporum og Múhammeð var á þessum tíma, að þeir séu uppkringdir óvinum, lönd þeirra eru hersetin af óvinaherjum. Þetta er alls ekki langsótt túlkun hjá þeim.

Það er líka engin sátt meðal múslima um hvernig skal heyja jihad, "hófssamir" telja það vera innra stríð en "öfgasinnaðir" telja það raunverulegt stríð gegn þeim sem ógna trúnni.


caramba - 18/07/05 14:36 #

Þú ert kominn út fyrir efnið. Þráðurinn byrjaði á hugleiðingum um "sanna múslima". Klerkurinn sagði jú að hryðjuverkamenn gætu ekki verið sannir múslimar. Það er laukréttur skilningur því sannur múslimi er samkvæmt skilgreiningu sá sem fer eftir orðum Kóransins. Hryðjuverkamaður getur því ekki verið "sannur múslimi" því verk hans brjóta í bága við orð Kóransins.

Er til fullt af múslimum sem eru ósammála þessari "túlkun"? Áreiðanlega, en það sem skiptir máli er að yfirgnæfandi meirihluti múslima, sennilega 99% þeirra, eru sammála henni. Vandamálið við öfgasinna í öllum trúarbrögðum og vantrúarbrögðum er að það fer allt of mikið fyrir þeim. Heimurinn væri betur settur án þeirra. Fáfræðin er móðir alls ósóma. Hryðjuverk eru liður í trúar- og menningarpólitískri valdabaráttu og það eru handbendi valdastéttanna, heilaþvegnir einstaklingar, sem beita þeim með rangfærslum og mistúlkunum á helgum textum trúarbragðanna. Dæmin blasa við: krossferðir kristinna manna gegn gyðingum og múslimum, nasista gegn gyðingum, samsæri serbnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og valdapólitíkusa í Belgrad gegn múslimum í Bosníu, síonista gegn Palestínumönnum og þannig mætti lengi telja. Þið hjá vantru.is eruð peð í þessu valdatafli og látið nota ykkur til að ala á rangfærslunum og þar með fordómunum og rangindunum. Beitið ykkur frekar gegn illþýðinu sem hrifsaði trúarbrögðin úr höndum trúarbragðahöfundanna og gerðu þau að svipu á bök milljónanna. Hvað hafa Jesús og Múhammeð gert ykkur?


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 18/07/05 14:56 #

Þetta með þýðinguna á "infidel" ... er orðið "trúvillingur" nokkuð það sem er verið að leita að?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/07/05 15:32 #

Þetta er enn og aftur "enginn sannur Skoti" rökvillan hjá þér, þú virðist ekki átta þig á henni. Það er til fullt af múslimum sem eru ósammála þér (öðrum múslimum) um hvernig á að túlka Kóraninn, það verður ekki til þess að þeir séu "ekki-múslimar" heldur einfaldlega "öðruvísi múslimar" eða jafnvel "öfgasinnaðir múslimar".

Sama með kristnina, það eru til um 32.000 útgáfur af kristinni trú, þetta fólk er ósammála um ótrúlegustu hluti varðandi Biblíuna en er samt kristið.

Við tökum skýrt og greinilega fram í upphaflegu greininni að dæmigerðir múslimar séu lítið fyrir það að sprengja saklaust fólk í loft upp þó einhverjir múslimar geri það. Þú lítur alveg framhjá þessu. Við förum í raun og veru frekar mjúkum höndum um Íslam miðað við hvernig við tölum um kristni, kannski eru það mistök en mér finnst Íslam bara ekki vera grasserandi vandamál á Íslandi.

Öfgatrú er vissulega vandamál, þú nefnir góð dæmi um hvernig trúmenn hafa stundað að slátra hver öðrum. Ég veit ekki hvað þú er að tala um með "öfgasinna í [...] vantrúarbrögðum", hverjir eru þetta og hvað í ósköpunum eru "vantrúarbrögð"?

Það þarf ekkert að mistúlka Biblíuna eða Kóraninn til þess að sjá að ofbeldisboðskapinn sem er þar að finna, hann er kominn frá "trúarbragðahöfundunum" sjálfum. Einsog höfundur Matteusarguðspjalls lætur Jesú segja: "Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð".

Peð hvers erum við? Ég veit ekkert hvert þú ert að fara með þessum samsæriskenningum þínum, væntanlega eitthvað út í móa.

Mikilvægari spurning er kannski: Hvaða rangfærslum höldum við á lofti? Þú hefur ekki bent á neitt sem er rangt í málflutningi okkar þó þú hafir hérna fínt tækifæri til þess.

Jesús hefur lítið gert mér enda var hann að öllum líkindum ekki til, fylgismenn hans hafa hins vegar framið ótal grimmdarverk (sem og fylgismenn Múhammeðs). Sjálfur er ég neyddur til að borga kirkju Jesú peninga og til þess að styðja trúboð kristinna manna í grunnskólum landsins.


Davíð - 26/07/05 08:37 #

Rökvillan "enginn er sannur skoti" á nú ekki oft við um trúarhópa eða lífsskoðunarfélög, hvað þá t.d. íþróttir eða félagasamtök, en þau geta vel átt við um þjóðerni. (hún getur þó einstaka sinnum átt við ofangreinda hópa, en oftar en ekki er það mjög áberandi)

Rökvillan er sett upp mjög villandi. Í dæminu er auðvitað ekki verið að efast um það hvort að einhver sé skoti, heldur hvort að einhver sé "Sannur skoti". Nú við ákveðum hver er skoti eftir t.d. fæðingarstað eða ætterni, þannig að hvort að aðgerðir þínar ákvarði þjóðerni þitt á auðvitað ekki að skipta máli og því er það í rauninni rökvilla eins og að framan er greint.

Hinsvegar þegar kemur t.d. að íþróttum s.s. tennis, þá má vel segja, enginn er sannur tennisleikari sem hefur aldrei snert tennisspaða. Eflaust myndu fáir segja að hér væri um rökvillu að ræða, því ákvörðunin hvort að þú getir yfirhöfuð verið tennisleikari liggur m.a. í því að hafa spilað tennis.

Lífsskoðunarfélög og trúfélög byggja yfirleitt á ákveðinni hugmyndafræði, og eðlilegt þykir að þegar þú trúir á eitthvað ættirðu nú að fara eftir því, í það minnsta reyna það. Einstaklingur sem fer vísvitandi gegn hugmyndafræðinni, getur tæplega trúað henni eða fylgt henni og fylgir þá tæplegast þeirri skoðun sem lífsskoðunarfélagið eða trúfélagið hefur.

Dæmi: Gunnar í Krossinum gæti varla átt heima í félaginu Vantrú eða Skepticus, þ.e. hann fylgir ekki sömu hugmyndafræði og félögin, og talar vísvitandi gegn henni.

Þetta er eitthvað sem flestir geta verið sammála um. En rökvillan snýr að því þegar við bendum á eitthvað sem skiptir ekki máli og reynum að láta það skipta máli varðandi "sanna" skotann.

Þar sem einhverskonar siðfræði er oft nátengdur hugmyndafræði trúfélags eða lífsskoðunarfélagi, og bundinn órjúfanlega einhverjum boðum sem "Guð" gefur, eða að lífsskoðunin endurspeglar vissa siðferðilega afstöðu s.s. "proLife-samtök" og "proChoice" þá er rökvillan sem fjallað er um hér að ofan ekki í raun rökvilla, enda er um ákvörðunarástæðu að ræða. S.s. kona sem fer í fóstureyðingu vísvitandi er ekki "sannur" "proLife" enda braut hún vísvitandi gegn því sem það stendur fyrir.

Þið hampið soldið mikið þessari "enginn er sannur skoti" rökvillu. Þó að það komi einstaka sinnum upp tilvik þar sem hún klárlega á við, þá á hún ekki eins oft við og þið gerið ráð fyrir hér á þessari vantru.net.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 26/07/05 10:18 #

Hún á fullkomlega við í þessu tilviki.

Ágætt væri ef þú týndir til dæmi á Vantrú þar sem þessi rökvilla er misnotuð.


Davíð - 26/07/05 11:00 #

Já, þú segir það. Það má eflaust deila um það lengi hvort að rökvillan eigi við hér að ofan, og einnig hvort að hún hafi átt við í neðanvitnuðum umræðum.

www.vantru.net/2005/02/03/02.30/

www.vantru.net/2005/03/24/00.50/

Eflaust má færa rök fyrir því að hún hafi átt við, en á sama tíma, verður að hafa í huga tengsl siðferðilegra málefna og hugmyndafræði bakvið trúfélaginu eðalífsskoðunarfélaginu og þeirra skörunar sem þar getur verið. Ég ætlaði nú ekki að standa í ströngu við að ræða "sanna skotann". Langaði bara að koma með áðurnefnd innlegg, því að eins og ég sagði þar, finnst mér framsetning á rökvillunni, geta verið villandi, þar sem "siðferðilega" varhugaverðar gjörðir geta í raun lýst því að einhver tilheyrir ekki vissri hugmyndafræði. Síðan í framhaldinu má auðvitað endalaust rökræða hver það er sem fær að ráða hvað samrýmist hugmyndafræðinni, en ég ætla nú ekki að ræða það að neinu leiti. Þakka fyrir mig.


mofi - 29/07/05 12:57 #

Ef nú meðlimir í vantrú myndu skilgreina "sanna" vantrú meðlimi sem þá sem væru í vantrúar bolunum sem þeir búa til. Gæti þá einhver sem er ekki í þannig bol verið sannur vantrúar meðlimur? Hvað ef einhver síðan býr til sína eigin útgáfu af svona bol og fær sér haglabyssu og drepur fullt af fólki í nafni vantrúar, hvað myndi ykkur finnast um það?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 29/07/05 14:42 #

Meðlimur í Vantrú er sá sem hefur gengið í félagið, verið samþykktur af stjórninni. Það er voða einfalt mál.

Ég skal selja þér bol ef þú vilt.


mofi - 29/07/05 18:08 #

Punkturinn fór greinilega forgörðum en takk fyrir gott boð. :)


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 29/07/05 19:49 #

Ahh... ef einhver sem lýsir sig sem trýleysingja, drepur fólk í nafni trúleysis. Trúleysingjar koma með viðbrögð sem væru þá á e.t.v. einhvern megin á þessa leið:

"Hann er bersýnilega geðveikur, eflaust siðblindur líka. Kannski hann hefði átt að leita sér hjálpar."


Svanur Sigurbjörnsson - 02/08/05 13:50 #

Samkvæmt Merriam-Webster orðabókinni merkir orðið "infidel" sá sem ekki trúir og nota bæði múslimar og kristnir þetta orð. Mér sýnist því að "trúleysingi" sé góð og gild þýðing hvort sem mönnum líkar það illa eður ei. Bestu kveðjur SS


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 02/08/05 14:47 #

En hvernig samræmist það að vera múslimskur/kristinn trúleysingi?!?! Þetta meikar ekkert sens!

Mér finnst þýðingin á infidel=trúleysingi ekki ganga upp þegar menn nota "infidels Muslims". Trúleysingi er einhver sem ekki trúir en fréttin fjallar um trúaða múslima sem hafa farið af hinum "sanna" múslimska vegi.

Það er engin spurning að um mjög trúaða einstaklinga var um að ræða sem frömdu þessi voðaverk og segja þá trúleysingja er vægast sagt mikil vitleysa.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 02/08/05 15:35 #

Þýðingin á ekki rétt á sér af tveimur ástæðum:

  1. Í upphaflegu fréttinni er talað um muslim infidel en ekki bara infidel.

  2. Í uppheflega fréttinni þá kemur það skýrt fram í öllu samhenginu að ekki er verið að tala um trúleysingja/heiðingja.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.