Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bænir sem geta virkað í alvörunni

Í kirkjum landsins er beðið fyrir lausn á máli Arons Pálma Ágústssonar, að beiðni Karls biskups og hóps sem vinnur að máli Arons. Þótt Aroni sé þannig veittur móralskur stuðningur er þess ekki að vænta að bænirnar einar sér hafi mikil áhrif. En þær gætu haft áhrif samt. Eins og greint er frá á vef Morgunblaðsins 1. júní, hefur stuðningshópur Arons „ritað Rick Perry, ríkisstjóra í Texas sérstakt erindi“ þar sem fylgir bænarbréf frá biskupi, en þar kemur fram „að velferð og frelsi Arons Pálma hafi verið sameiginlegt bænarefni í öllum kirkjum landsins sl. sunnudag og verði svo áfram uns hann hefur verið látinn laus. Þá verði og beðið fyrir þeim í Texas sem hafa örlög hans í hendi sér.“

Eins og rannsóknum og okkur trúleysingjum ber saman um, megna bænir ekki að breyta gangi mála – ekki bænirnar sem slíkar, þótt þeim sem biður geti reyndar liðið vel af því. En hér eru á ferðinni annars konar bænir. Þótt orðunum sé beint til æðra máttarvalds, dylst engum að í rauninni er verið að biðja til þessa Ricks Perry – það er mennskur maður sem bæninni er beint til – og öfugt við guð er Perry af holdi og blóði og jafnvel líklegur til að lesa erindi hópsins og bréf biskups. Bænin nær því eyrum einhvers sem er í aðstöðu til að breyta gangi mála – og getur þannig, kannski, orðið Aroni til góðs.

Nú skyldi mig ekki undra að Perry þessi væri sjálfur trúaður og þannig gæti bréf biskups höfðað til samvisku hans og honum fundist æðri máttarvöld vera að hlutast til um málið. Mig skyldi ekki undra það, en hef reyndar enga þekkingu á því. Hvað sem því líður ætti honum að skiljast að hér eru margir sem láta sig málið varða og vilja að það leysist – og hver veit, það gæti skipt sköpum. Þarna er á ferðinni tegund af bæn sem er kannski sú eina sem megnar að breyta atburðarás: Bæn sem beint er til mennskra manna.

[Beinar tilvitnanir eru úr frétt á vef Morgunblaðsins 1. júní 2005.]

Vésteinn Valgarðsson 05.06.2005
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/06/05 00:13 #

Já, sniðugt að höfða til hindurvitnaranghugmynda þeirra sem hafa þarf áhrif á. Ætli megi ekki kalla þetta náttúrlega virkni bænarinnar.

Prestar Þjóðkirkjunnar: Ef þið ákveðið á næsta kirkjukþingi að aðskilja kirkju frá ríki skulum við trúleysingjarnir biðja heitt fyrir hverjum og einum ykkar. ;)


Haukur Þorgeirsson - 10/06/05 13:07 #

Góð grein hjá þér, Vésteinn. Hvort bænakvakið hefur e-r áhrif á Perry þennan veit ég ekki. Wikipedia segir:

"Perry's campaign for lieutenant governor and governor rested to a large extent on a tough stance on crime. In June 2002, Perry vetoed a ban on the execution of mentally-retarded inmates. He has also backed block grants for crime programs."

E.t.v. ekki í karakter að náða "barnaníðing". En hver veit. Kannski gerir Perry "kraftaverk" fyrir þá sem biðja til hans fyrir honum...


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 10/06/05 18:42 #

Já, kannski að það verði kraftaverk. Ekki það, að maður er svosem ekkert sérstaklega bjartsýnn fyrir hönd Arons.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.