Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Mannasetningar

Það vekur mér stöðugt furðu hvernig kristnir menn, sér í lagi þeir bókstafstrúuðu, vitna í Biblíuna máli sínu til stuðnings, gersamlega án allrar gagnrýninnar hugsunar. Í huga þeirra er búið að planta þeirri ranghugmynd að Biblían sé orð guðsins þeirra, en önnur lög samfélagsins bara „mannasetningar“.

Það sem hrellir mig við þetta hugarfar er að þetta fólk virðist ófært um að spyrja sjálft sig hvort verið geti að þetta sé nú bara ekki alveg svona. Getur t.d. verið að Biblían sé ekki orð guðaveru, heldur bara „mannasetningar“ aftan úr fornseskju? Eru þetta ekki bara tilskipanir ættaðar frá hirðingjaþjóðflokkum, í takt við fornt og hálfkarað siðferðið sem þá var uppi, og þessu síðan klínt á guðaverurnar til að fólk myndi ekki þora annað en fara eftir þessu?

Ég held því hér með fram að svo sé, enda hefur engum tekist að sýna fram á þessa guðlegu tilvist. Og þegar við bætist að siðferði það sem boðað er í Biblíunni er um margt aftar á merinni en okkar eigið nútímasiðferði er þetta varla nokkur spurning. Hver sá bókstafstrúarmaður sem ætlar að berja á mér eða öðrum með Biblíunni, fordæma menn fyrir að efast eða sofa hjá sama kyni, svo dæmi séu tekin, þá skal sá hinn sami færa mér heim sanninn um meintan uppruna þeirra orða sem hann vitnar til. Takist honum að ekki ber honum að þegja.

Það er óþolandi að nöttarar á borð við Gunnar í Krossinum vaði upp í samfélaginu með sleggjudóma yfir samborgurunum í krafti þess að þeir séu aðeins að hafa eftir vilja skapara heimsins. Þessu fólki á ekki að leyfast að fordæma hluti sem verndaðir eru í mannréttindasáttmálum og stjórnarskrám, án þess að þurfa að sæta refsingu. Og Þjóðkirkjan ætti að sjá sóma sinn í því að berjast fyrir því að samkynhneigðir fái sömu lýðréttindi og aðrir, réttindi sem þeim eru löngu tryggð í öðrum og merkari sáttmálum en geðveikisrausinu upp úr Biblíunni.

Hún er enda bara gamlar mannasetningar.

Birgir Baldursson 26.05.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Orri - 26/05/05 06:17 #

Birgir segir: "Og Þjóðkirkjan ætti að sjá sóma sinn í því að berjast fyrir því að samkynhneigðir fái sömu lýðréttindi og aðrir, réttindi sem þeim er löngu tryggður í öðrum og merkari sáttmálum en geðveikisrausinu upp úr Biblíunni. "

Því skyldi Þjóðkirkjan gera það? Hún byggir jú sitt raus líka á Biblíunni. Hún væri ósamkvæm trúnni að bera í bætifláka fyrir samkynhneigð.

Eðlilegra væri að samkynhneigðir hættu að gæla við þá hugmynd að fá inngöngu og réttindi innan kristinna söfnuða.

Þar liggur skekkjan.

Hvað eru "kristnir" samkynhneygðir að pæla?

Hvernig geta þeir yfirleitt talið sig kristna?

Hafa þeir aldrei lesið Bibliuna?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/05/05 11:40 #

Ég veit ekki betur en kirkjan standi í vegi fyrir að samkynhneigðir geti gifst í lagalegum skilningi (borgaralega), þeir fá aðeins að skrá sig í staðfesta sambúð. Þetta er dæmi um mannréttindabrot á tilteknum þjóðfélagshópi í krafti eldgamalla mannasetninga.

Leiðréttið mig ef þetta er rangt hjá mér.


Bjoddn - 26/05/05 11:49 #

Ég er nokkuð sammála Orra þarna. Að samkynhneigðir vilji giftast í kirkju er svona svipað og fyrir mig að sækja um inngöngu í félag framsóknarkvenna. Ég er ekki kona og ég styð ekki Framsókn, hví ætti ég þá að fá inngöngu fyrst ég uppfylli ekki skilyrðin? Á ég að verða rosalega fúll og tala um samsæri af því að ég fæ ekki inngöngu í þá klúbba sem ég vil?

Það að kristin trú skuli hafa eitthvað á móti fólki vegna einhvers í fari þess sýnir bara hvað hún er mikið ömurlegt afturhald og á ekki heima í nútímanum.

Það er bara staðreynd að sumir eru einfaldlega ekki velkomnir í ríki guðs.
Af hverju í ósköpunum ætti kirkjan að breyta gegn bók bókanna? Guð þolir suma bara einfaldlega verr en aðra og við því er ekkert að gera. Sýnir bara hverskonar gaur er þar á ferð og hversu gott sé að slíkur leiðindaseggur skuli einfaldlega ekki vera til.

Allt tal um kærleika og fyrirgefningu á síðan einfaldlega ekki við, enda er slíkt angi af svokallaðri barnatrú sem er einkatrú hvers og eins.

Ég er ekki framsóknarkona og ég verð bara að lifa með því. Eins og segir í laginu góða : ég er eins og ég er. Finnst orðin svolítið þreytt þessi umræða um homma og lesbíur alltaf hreint og skil ekki hneykslan þegar trúaðir fordæma lifnaðarháttu slíkra. Slík fordæming er bara partur af trúnni...heldur fólk að trú sé sama og endalaus góðmennska? Trú er eiginhagsmunasemi, fullvissa fyrir því að maður sé betri en aðrir, sannfæring fyrir því að aðrir séu lakari manni sjálfum.

Af hverju er fólk að gráta það að fá ekki inngöngu í slíkan klúbb er mér fyrirmunað að skilja.


Bjoddn - 26/05/05 11:57 #

Ef það er satt að kirkjan standi í vegi fyrir borgaralegum athöfnum, þá er það hneisa.

Af hverju sumir eru svona áhugasamir um lifnaðarháttu annarra er mér fyrirmunaða að skilja.

Sefur fólk eitthvað verr á nóttunni ef Siggi er giftur Gunnari eða Gunnu?

En ef Siggi ætti nú einn mann og tvær konur... hvað stendur faktískt séð í vegi fyrir því? Er einkvæni arfur frá kirkjunni og/eða trúarbrögðum?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/05/05 16:04 #

Ég vil að það komi fram að ég er líka algerlega sammála Orra þarna. Skil ekki hvað samkynhneigðir eru að burðast með að vera kristnir, sá fræjum í akur óvinarins. Enda sneri gagnrýni mín ekki að því hvort samkynhneigðir gætu gifst kristilega heldur hinu að kirkjan skuli standa í vegi fyrir fullum mannréttindum þessa hóps.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/05/05 16:08 #

Af hverju í ósköpunum ætti kirkjan að breyta gegn bók bókanna?

Þjóðkirkjan, stútfull af háskólamenntuðu fólki, ætti að sjá sóma sinn í að viðurkenna að Biblían er bara samansafn af gömlum mannasetningum, í stað þess að hanga í þeirri firru að þetta sé einhver fökkíng bók bókanna. Andleg velferð fólks er í húfi!


Árni Árnason - 26/05/05 17:49 #

Var það ekki Mark Twain sem sagði eitthvað í þá veru að hann hefði ekki áhuga á að ganga í félag sem vildi hafa menn eins og sig sem meðlim.

Klíkur, klúbbar og költ geta sett allskyns skilyrði fyrir inngöngu fólks, og þeim hlýtur að vera það frjálst. En það er eitthvað hálfruglað við að þeir sækist eftir inngöngu í, og viðurkenningu Ésúköltsins sem eru yfirlýst útskúfaðir og réttdræpir skv. reglubók félagsins.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/05/05 17:57 #

Reyndar var það Groucho Marx sem átti þessi fleygu orð. Woody Allen, einn dyggasti aðdáandi Groucho, kom einmitt inn á þetta í myndinni Annie Hall sem sýnd var í Sjónvarpinu um síðustu helgi.


Árni Árnason - 26/05/05 17:58 #

Eftir því sem ég kemst næst hefur Alþingi ekki gengið lengra en að samþykkja lög um staðfesta sambúð homma og lesbía ( samkynhneigðra eins og það heitir víst), en ekki um hjónaband.

Þetta er því á valdi löggjafans, en eflaust eru það áhrif Ésúsköltsins sem valda því að ekki er gengið lengra.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/05/05 18:06 #

En það er eitthvað hálfruglað við að þeir sækist eftir inngöngu í, og viðurkenningu Ésúköltsins sem eru yfirlýst útskúfaðir og réttdræpir skv. reglubók félagsins.

Nei, þetta er í raun ekki skrýtið, ef þú hugsar til þess að búið er að innræta okkur öllum það að eina von okkar felist í Jesú Kristi. Því miður eru hommar og lesbíur í það heila jafntrúgjarnt fólk og allir aðrir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.