Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hugleiðing: Miðaldaspítali á Skriðuklaustri

Við fornleifarannsóknir á Skriðuklaustri í Fljótsdal hafa fundist leifar af því sem virðist vera spítali frá miðöldum. Í grafreit á staðnum hafa fundist bein með óvenjulegri aldurssamsetningu – óvenju hátt hlutfall af konum og börnum – sem þykir benda til þess að þangað hafi sótt konur í barnsnauð, auk beina og beinaleifa með sjáanlegum sjúkdómseinkennum. Þess utan hafa fundist frjókorn af þekktum lækningajurtum, af að minnsta kosti tíu tegundum, sem ræktaðar hafa verið markvisst á staðnum.

Þetta er allt hið merkilegasta. Nú er vitað að kirkjan hefur í gegn um tíðina tekið að sér viðamikið líknarstarf, sem reyndar hefur ekki verið ótengt valdabrölti hennar að öðru leyti. Fyrsti skattur á Íslandi, tíundin sem tekin var upp 1096, fór þannig að fjórða hluta til þurfta fátækra (en þrír fjórðu til kirkjunnar manna). En hingað til hefur ekki mikið verið vitað um tilhögun samfélagshjálpar á miðöldum, á borð við stuðning við sjúka. Þess vegna er fundur hins meinta spítala á Skriðuklaustri mikilvæg uppgötvun.

Mikilvæg uppgötvun, meðal annars vegna þess að spítalinn virðist hafa verið kominn til sögunnar löngu á undan klaustrinu. Klaustrið var stofnað á síðasta áratug fimmtándu aldar en fornleifar sýna að spítalinn hafi verið kominn þangað ekki minna en öld fyrr. Skriðuspítali var, með öðrum orðum, fyrirrennari Skriðuklausturs.

Fyrir daga kirkjunnar fór samfélagshjálp vitaskuld fram án atbeina hennar. Fátækum, sjúkum, öldruðum og fötluðum var framfleytt án þess að til kæmi stofnanavæðingin sem fylgdi því, að kirkjan gekk inn í þetta hlutverk. Við höfum því miður litlar forsendur til að hafa getgátur um þetta starf, þar sem það var að mestu fyrir tíma ritaldar – og þar sem ritlist var meira og minna einokuð af lærðum mönnum kirkjunnar lengst af og sagnaritun tók að sjálfsögðu nokkuð mið af hagsmunum hennar/þeirra – auk þess sem jafn hversdagslegir viðburðir og hjálp við konur í barnsnauð eða fólk með gigt eða gláku eða gallsteina þóttu ekki (og þykja ekki enn í dag) jafn fréttnæmir og safarík morð, sifjaspella eða sjórekin skrímsl – og því ólíklegir til að rata í annála eða sögur.

Ég fullyrði því ekkert um það sem ég veit ekki nóg um til að hafa forsendur til að fullyrða neitt um – svo ég böggli út úr mér fyrirvara í heiðarleikaskyni. Ég get hins vegar ekki annað en leitt hugann að því sem mér finnst sem svífi yfir vötnum, sem er félagsleg samhjálp á fornöld og fram á hámiðaldir, ótengd eða lítið tengd kirkjunni. Ítrekandi þann fyrirvara, að ég geti ekkert fullyrt – þá leiði ég hugann: Í fyrsta lagi er engin spurning að til var fólk – leikmenn og -konur – með ágæta þekkingu á grasafræði. Það má kalla það seiðskratta, völvur, grasaguddur, græðara eða annað – og auðvitað má velta vöngum yfir því hvað á nútímamælikvarða þætti boðleg læknismeðferð – en grasalækningar voru ekki uppfinning kirkjunnar. Fólk veiktist líka áður en kirkjan kom til sögunnar, og það hjaðrdýr sem menn eru, þykir mér annað ólíklegt en að reynt hafi verið að hlúa að þeim sem þess þurftu, eftir því sem efni stóðu til. Það, hvort sem kirkjan kom nálægt því eða ekki. Röntgentækni, meinafræði eða frumulíffræði eru þannig ekki forsenda fyrir því að þjónusta við sjúka geti verið meira og minna veraldleg eða sekúlar.

Ég sé í anda miðaldafólk – leikmenn, ekki klerka – sem hefur komið sér upp aðstöðu – frumstæðri á okkar mælikvarða en alúðlegri og vandaðri eftir megni – til að sinna sjúkum á Skriðu í Fljótsdal. Ég sé í anda grasaguddurnar og græðarana rækta lækningajurtirnar og, í fyllingu tímans, hvernig kirkjunnar menn hafa komið og tekið við rekstrinum, eflaust í góðri meiningu og ósérplægni – án þess þó að þeirra hafi verið þörf – það er að segja, án þess að guðfræðiþekkingar þeirra eða vígslu hafi verið raunveruleg þörf, nema sem sálusorgara fyrir fólk sem ég geng út frá að hafi verið meira og minna trúað á guð. Það er ekki það að prestur geti ekki verið góður grasalæknir eða haft hlýlegt og húmanískt viðmót – sem ég held að sé reyndar regla með ekki ýkja mörgum undantekningum. Það er ekki það, að prestur geti ekki komið að gagni, eða að hann, sem prestur, geti ekki líknað þeim sem aðhyllast svipaðar trúarskoðanir og hann sjálfur. Það er ekki það, að einstökum prestum hljóti að ganga illt til, eða að þeir séu skaðlegir. En, þegar öllu er á botninn hvolft, þá væru þeir jafndýrmætir þótt þeir væru leikmenn, þótt þeir hefðu enga vígslu tekið, þótt þeir væru heiðnir eins og hundar – og þótt þeir væru jafn trúlausir og borðstofuborðið heima hjá mér.

Já, ég læt mig dreyma um miðaldaspítalann sem var rekinn af leikmönnum, eða af mönnum sem ráku hann sem mannvinir, líknarar, græðarar, hlýhugar. Hvort þeir voru vígðir til prests eða ekki skiptir í sjálfu sér ekki máli. Þeirra hlutverk hafði meira að gera með þekkingu á fólki og þekkingu á grösum, heldur en þekkingu á hvítagaldri eða særingum. Í fyllingu tímans færðist svo hlutverkið í hendur kirkjunnar manna og á staðnum var stofnað klaustur, í og með utan um þennan spítalarekstur, og í það gengu menn sem vildu sinna óeigingjarnri hugsjón sinni um líkn við sjúka, með þann trausta bakhjarl sem stór stofnun á landsvísu hlýtur að mega teljast.

Ég læt mig dreyma um spítalann sem í fyrstu hafði lítið að gera með kirkjuna, en kirkjan tók við með einum eða öðrum hætti, án þess að hennar væri í sjálfu sér þörf sem trúarstofnunar. Kannski má segja að á þessum tíma hafi kirkjan að ýmsu leyti gegn hlutverki sem ríkisvaldið hefur yfirtekið í dag, og þegar kirkjan tók við spítalanum á Skriðu hafi það kannski verið jafn eðlilegt og þegar íslenska ríkið tók við St. Jósefsspítala í Landakoti og Hafnarfirði af St. Jósefssystrum fyrir nokkrum árum.

Ég sé spítalann á Skriðu sem mögulegt dæmi um það, hvernig kirkjunnar sé ekki þörf – altént ekki bein þörf sem trúfélags – til að halda uppi líknarþjónustu eða til að kynna lúsuga molbúa fyrir mannkærleika og hjálparstarfi. Jafnvel lúsugustu molbúar geta bjargað sér án þess að kirkjan skipti sér af þeim (og reyndar mætti með sömu rökum hugsa sér sams konar rekstur án atbeina ríkisvaldsins – en það er efni í aðra grein á öðrum vettvangi...).

Já ... ég læt mig dreyma. Til öryggis vil ég þó árétta að hér læt ég hugann reika og hef ekki forsendur til að fullyrða um rekstur sem ég veit lítið um – og þar sem hugarreik mitt stenst ekki skoðun hlýtur sá mismunur að skrifast á mig. En ég hef forsendur til að láta hugann reika.

Vésteinn Valgarðsson 21.05.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.