Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hin auma kvika

Nú er ljóst að Selma komst ekki áfram í úrslit Júróvisjónkeppninnar. Og um gervallt landið er fólk harmi lostið og með grátstaf í kverkunum. Nema ég auðvitað, mér gæti ekki verið meira sama.

Ég er nebblega ekkert upptekinn af því að vera Íslendingur. Og slíku hugarfari fylgir gríðarlegt frelsi, því með þessu gef ég ekki þjóðernismiðuðum atburðum aðgang að taugakerfi mínu.

Þannig mega Íslendingar sigra og tapa hverju sem er án þess að ég kippi mér upp við það. Og svo skemmtilega vill til (eða er það partur af þessu hugarfari til að byrja með?) að ég held ekki með neinum liðum í íþróttakeppnum.

Fótboltaáhugamenn sem ég þekki ofurselja taugakerfi sitt og rósemd hugans einhverjum markatölum um hverja helgi. Þegar mikið liggur við getur svo helgin jafnvel verið ónýt ef tuðran lendir aðeins of oft í markrammanum sem liðið þeirra hamast við að passa upp á. Gegn öllu þessum tilfinningasveiflum og uppnámi, ofsagleði og megafýlu, er ég frír og lít á það sem gríðarleg forréttindi.

En af hveru er ég að tala um þetta hér á þessum vef? Ástæðan er fréttaflutningur síðustu daga af trúarlegri viðkvæmni. Það er nefnilega ekki rétt sem boðberar trúarbragða fullyrða, að trúin veiti djúpan innri frið. Hér eru tvö dæmi:

Fyrst ber að nefna listaverkið fyrir framan Hallgrímskirkju, flottar mannsmyndir sem sumar eru í Þórbergskum stellingum, gá sér á tær eða til veðurs með hendur fyrir aftan bak. Skömmu áður en einni þeirra var rutt af stalli sínum hafði skilti verið hengt á einn kallinn, þar sem stóð Guðlastari.

Ég get auðvitað ekkert fullyrt um hvort þeir sömu og komu fyrir þessu skilti gengu til skemmdarverkanna, en klárlega lítur einhver á þetta listaverk sem ógnun við trú sína, móðgun við guðinn sinn. Og þá spyr ég: Er sú trú gagnleg andlegri velferð sem kallar á að menn reiðist fyrir hönd goðmagna sinna?

Eins og þjóðerniskenndin og liðshópsálarmennskan kostar trúin tilfinningalegt uppnám þegar að henni er vegið. Þess vegna er t.d. þessi vefur svona viðkvæmt mál hjá svo mörgum.

Hitt dæmið sem ég ætla að nefna hljóðar upp á öllu alvarlegri hluti en ónýt tveggja milljón króna listaverk. Þannig var að Newsweek sendi á dögunum frá sér þá frétt að Kóraninum hefði verið sturtað niður um klósett í Guantanamo-fangabúðunum til að losa um málbein strangtrúaðra íslamskra fanga. Þessar fréttir settu milljónir manna í miðausturlöndum alveg út af kortinu tilfinningalega og höfðust af þessu mannslát auk þess sem fjölmargir liggja sárir.

Allt út af viðkvæmni gagnvart einhverju trúarriti. Varla er með góðu móti hægt að reka áróður fyrir trúarbrögðum á þeim forsendum að þau veiti innri frið, þegar raunveruleikinn hljóðar svo upp á þráhyggjulega síendurtekna ástundun til að friðþægja hugann. Nei þetta er fáránlegur eltingaleikur við skammvinna rósemi. Sér í lagi verður þessi áróður trúboðanna hjákátlegur þegar menn bera svo að auki úr býtum ofurviðkvæmni og heilaga reiði yfir saklausustu aðdróttunum og gríni.

Hinn trúlausi lætur nefnilega húmor grínista í garð trúar og kirkju dilla sér á sama tíma og hinir trúuðu verða æfir af minnsta tilefni og heimta lög sem banna guðlast. Er ekki betra hlutskipti að geta hlegið að þessari vitleysu í stað þess að þurfa að vera í hlutverki trúarfasistans sem búinn er að smyrja taugakerfi sínu yfir stræti og torg þar sem það liggur óvarið fyrir hunda og manna fótum? Felst ekki frelsið og friðurinn, þegar allt kemur til alls, einmitt í því að leyfa sér frjálsa hugsun og vera ekki bundinn á klafa heimskunnar?

Birgir Baldursson 20.05.2005
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Þórður Örn - 20/05/05 02:04 #

Jamm, svo ekki sé minnst á fáránleika þess að það geti verið friður inni í fólki. Nema þeir eigi við að meltingarkerfið sé til friðs eða eitthvað slíkt.


Jón Frímann. - 20/05/05 02:46 #

Var alveg sama um Eurovison og mér hefur alltaf verið sama um Eurovsion.

Mér er reyndar líka sama um fótbolta og aðar íþróttir. Hef ekkert með það að gera.

Og ég hef enga þjóðerniskennd, síðast þegar ég gáði.


Árni Árnason - 20/05/05 09:11 #

Oft er ég sammála Birgi, en þarna verð ég að lýsa mig ósammála í flestum greinum. Að fólk um gervalt landið sé harmi slegið og með grátstafina í kverkunum eru alveg örugglega 99% ýkjur. Menn eru kannski svolítið spældir, en það ristir nú ekki djúpt. Ég hef tilhneigingu til að draga algert áhugaleysi Birgis á Eurovision í efa, því ella hefði hann ekki haft nennu til að velta sér upp úr þessu í netgrein. Menn reyna stundum að gera sig merkilegri en þeir eru með því að vera með eitthvert píp á ómerkilega hluti, setja sig á einhvern æðri stall og fárast yfir 22 fullfrískum karlmönnum sem elta einn og sama boltann og sparka honum svo frá sér um leið og þeir ná honum. Málið er að það þarf ekki allt að vera eitthvað voðalega merkilegt. Það er hægt að hafa gaman af hinu og þessu án þess að það spili einhverja meiriháttar rullu í lífi manns. Það nákvæmlega sama á við um Eurovision og íþróttir. Þetta er allt bara tilbreyting frá amstri dagsins, og ekkert nema hollt fyrir sálarlífið að fyllast svolitlum eldmóði, eða verða fyrir vonbrigðum annað slagið. Þjóðerniskennd er líka allt í lagi, ef menn fara ekki út í öfgar. Ég hef satt að segja meiri áhyggjur þeim sem geta ekki haft gaman af neinu nema það sé eitthvað voðalega hástemmt og merkilegt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/05/05 10:54 #

Ég hef hvergi haldið því fram að fótbolti eða Júróvisjón sé ómerkilegt fyrirbæri. Ég er að tala um flokkadrætti og hópsálarskap sem leiðir til þess að taugakerfið er ofurselt einhverri atburðarrás sem aðrir geta fylgst með án þess að það raski ró þeirra.

Þegar ég fylgist með fótboltaleik (sem gerist reyndar ekki sérleg oft) þá hef ég gaman af því að sjá falleg mörk skoruð og leikfléttur sem ganga upp, burtséð frá því hvort liðið á í hlut.

Ég hafði Júróvisjón á í gærkvöldi og vóg og mat lagasmíðar og flutning svona með öðru eyranu. Ég er með þessari grein ekkert að hefja mig yfir keppnina eða fordæma hana á nokkurn hátt, heldur er mér bara skítsama hvar fólkið sem kemur frá sama landi og ég lendir. Það varðar mig engu.

Það sem ég er að kynna hér til sögunnar er þankagangur sem flestum er framandi, en þyrfti að vera ráðandi í veröldinni. Það myndi tryggja friðvænlegri tíma.


Árni Árnason - 20/05/05 11:18 #

"Flokkadrættir og hópsálarskapur." Með jákvæðum formerkjum heitir þetta samstaða og samkennd. Vantrúaðir standa saman gegn trúarnötturunum og það hlakkar í þeim þegar þeim finnst þeir koma höggi á andstæðinginn, með beittri röksemd. Sömuleiðis láta þeir það fara í pirrurnar á sér þegar þeim finnst andstæðingurinn beita óvönduðum meðulum máli sínu til framdráttar.

Það að halda með liði, æpa og öskra, fagna sigri og sýta tap, og hata KR eru bara merki þess að maður sé lifandi. Mér finnst það mikil yfirdramatisering að það hafi eitthvað með heimsfriðinn að gera.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/05/05 11:29 #

Þetta er mikil einföldun hjá þér, Árni minn. Það er mér ekkert kappsmál að „Vantrúarliðið“ sé eitthvert tím, standandi saman gegn „hinum“. Hér eru það bara rökin sem gilda. „Vantrúarliðið“ á það eitt sameiginlegt að leitast við að trúa engu nema því sem hægt er að færa rök fyrir. Samt veit ég að við öll trúum ýmsu því sem varla getur talist skynsamlegt, sum okkar styðja einkavæðingu meðan önnur eru kommar.

En það eru alltaf rökin sem sigra. Flokkar utan um sannleikann eru engin lausn, enda leyfum við okkur hér að vera ósammála innbyrðis og leiðrétta hvert annað.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 20/05/05 12:41 #

Ég held nú að rósturnar í kjölfar þessarar (sönnu) fréttar um niðursturtun Kóransins hafi ekki bara verið trúarlegt viðbragð. Frekar held ég að fréttin hafi verið kornið sem fyllti mælinn, eða gikkurinn sem hleypti báli á yfirspennt þjóðfélög múhameðstrúarmanna.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/05/05 12:49 #

Pointið hér er að sökum trúar sinnar á heilagleik Kóransins láta menn þetta athæfi fara fyrir brjóstið á sér. Í stað þess að veita innri frið gerir trúin menn þarna extra viðkvæma fyrir því að innri friðnum sé raskað.


Hrönn - 21/05/05 01:19 #

Ég skil ekki hvernig nokkur nennir að velta Eurovision-aðdáun Íslendinga fyrir sér. Fólk má alveg fá kökk í hálsinn þegar Selma birtist á sviðinu í allri sinni dýrð, fólki má alveg finnast ,,okkar" lag flottast og best (þrátt fyrir múnderinguna, maður minn sko), og gamlar konur á Kópaskeri mega alveg grenja af stolti þegar íslenska fánanum sést bregða fyrir á skjánum.

Ég er mannleg. Fékk adrenalínkast þegar fyrstu tónarnir í If I had your love hljómuðu um herbergið. Leyfði mér að gerast þræll heimskunnar - og af hverju afneitaði ég svona harkalega ,,frjálsri hugsun" og skynsemi? Jú, af því að það var gaman! Eurovision snýst um að hafa gaman, lífið snýst um að hafa gaman. Og ef gamanið felst í því að sýna smá ,,liðshópsálarmennsku" af og til - þá segi ég bara namm og takk.

Og samt gat ég hlegið að ,,þessari vitleysu" þegar úrslitin voru kunngjörð, fann mig ekki knúna til að rífast og skammast yfir ósanngirni heimsins. Spáðu í því! Kannski er ég ekki svo heimsk eftir allt saman?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/05/05 12:42 #

Að fólk um gervalt landið sé harmi slegið og með grátstafina í kverkunum eru alveg örugglega 99% ýkjur. Menn eru kannski svolítið spældir, en það ristir nú ekki djúpt.

Það kom fram í hádegisfréttum áðan að lögreglan, sem þurfti að hafa afskipti af mörgum partíum í nótt, hafi orðið vör við að fjölmargir hafi verið miður sín vegna þess hvernig fór með júróvisjónkeppnina. Ég held að þetta sé ekkert orðum aukið hjá mér.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.