Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Atvinnugóðmennin

Frelsarinn skrifaði í síðustu viku hreint ágæta grein um hina réttnefndu Trúvernd á Íslandi. Hann færir fín rök fyrir því hvernig guðfræðideildin og Þjóðkirkjan eru samtvinnuð fyrirbæri, sem meira að segja eru undir einni og sömu fjölskyldunni.

En í raun er guðfræðideildin aðeins hluti hinnar íslensku Trúverndar. Stór þáttur verndarinnar lýsir sér nefnilega í því hvernig Þjóðkirkjuliðið er búið að troða sér í flesta þá samfélagspósta þar sem fagfólk ætti að sitja. Við horfum upp á ókeypis félags- og sálfræðiráðgjöf yfirnáttúrufræðinga á sama tíma og þeir sem stúderað hafa klíníska sálfræði og félagsráðgjöf þurfa að setja upp prís. Við sjáum hvernig kirkjan ekki bara treður fulltrúum sínum í öll ráð og nefndir sem fjalla um velferð fólksins, heldur stofnar hún til og stendur fyrir slíku í þaula.

Kirkjan er að reyna að gera sig ómissandi í þjóðlífinu og fá um leið óheftan aðgang að hugum fólks, bæði með því að með þessu tengir fólk kirkjuna ósjálfrátt við alla sáluhjálp og líka hinu að prestar, djáknar og guðfræðingar fá kjörið færi að koma trúarlegum boðskapnum til skila með því að vera allt í öllu.

Sem annarsstaðar eru þeir þarna sjálfskipað átorítet. Þetta eru atvinnugóðmenni.

Og fólk lætur þetta yfir sig ganga. Svo rækilega er kirkjan búin að stimpla þá hugsun í hausinn á okkur að hún sé málsvari alls sem gott er í heiminum að við leggjum henni þæg, góð og gagnrýnislaust öll völd í hendur. Þannig hefur þetta verið um langa hríð. Þegar einhver deyr birtist yfirnáttúrufræðingur á tröppunum hjá okkur. Þegar á svo að koma hinum dauða skrokk fyrir dettur engum í hug að það sé hægt án þess að ömmuprestur kjökri yfir hræinu og hafi í frammi eitthvert kjaftæði um að hinn vitræni hluti þess sé nú í öðrum heimi og í góðum fílíng.

Og hvað er þetta með mömmumorgnana? Af hverju þarf þessi þjónusta við mæður ungbarna að vera á hendi hindurvitnaklúbbs? Hvað réttlætir það?

Prestar ráðast óhikað inn í leikskólana til að menga hugi lítilla barna með algóðum draugum, englum og Jesúsum. Kirkjan telur sig líka eitthvað þurfa að vasast í málum atvinnulausra. Væ? Um ganga spítalanna ganga djáknar á fullum launum við að útbreiða varnarlitlu fólki lygar og afkáralega heimsmynd. Af hverju? Er einhver þörf á þessu? Það starfar líka fangelsisprestur til að þjónusta hugi fanganna? Geta fangarnir valið milli hans og sálfræðings?

Og bárust ekki af því fregnir nú alveg nýlega að kirkjan ætlaði sér að troðast inn í lífsleiknina í framhaldsskólunum? Jú, það er hérna. Lesið þessa grein og sjáið hvernig þetta heilaæxli samfélagsins breiðir úr sér.

Það er ekki lengur hægt að halda sumardaginn fyrsta hátíðlegan öðruvísi en kirkjan sé partur af dagskránni. Skrúðgöngurnar leggja frá kirkjum eftir guðsþónustu, sem Íþrótta- og tómstundaráð auglýsir samviskusamlega eins og ekkert sé sjálfsagðara. Og enn hefur nútímaþing Íslendinga ekki verið sett án þess að byrjað sé á bábiljujarminu úr biskupi Þjóðkirkjunnar og hann labbar svo fremstur í röðinni inn í þinghúsið, rétt eins og honum komi þetta eitthvað við.

Í grunnskólum eru kirkjuheimsóknir reglulega á dagskrá og í ljós hefur komið að bænahald er algengt innan þeirra. Stór hluti barnakennara er enda djáknar. Er það sjálfsagt mál? Er það virkilega staðreynd að enginn skemmist á því að vera innrættar þessar hugmyndir?

Af hverju eru fulltrúar áhugamannafélags um yfirnáttúruverur í starfshópi um uppeldi? Af hverju eru yfirnáttúruspekúlantar helstu forsvarsmenn sorgarþjónustu samfélagsins? Eru þeir færir um að þjónusta þá sem eru annarrar trúar en þeir sjálfir, nú eða jafnvel trúlausir?

Kirkjan hefur einnig þröngvað sér inn á ýmis svið menningarinnar. Nú um stundir er t.d. í gangi tónleikaröð þar sem popparar flytja veraldlega tónlist í Hveragerðiskirkju. Er mæting á þessa tónleika talin til kirkjusóknar? Ef svo er, hvernig er hægt að réttlæta það?

Það er ekki réttlætt. Um þetta er þagað þunnu hljóði. Einnig um gagnrýni á það að ómálga börn séu skráð í trúfélag móður. Þjóðkirkjan þarf gríðarlegar tekjur til að fóðra sitt gráðuga gin og öll meðul eru notuð. Þegar flutt er á milli hverfa verða menn m.a.s. að gæta þess að trúfélagaskráning þeirra breytist ekki við að fá nýtt lögheimili því algengt er að menn hrökkvi við þetta aftur inn í Þjóðkirkjuna. Hvað á það að fyrirstilla?

Fölsuð kirkjusókn og fölsuð trúfélagaskráning er síðan notað sem rök fyrir því hve kirkjan sé nú vinsæl og mikilvæg. Og með því að véla mömmur, börn, fólk í giftingarhugleiðingum, tónlistarhópa og atvinnuleysingja inn í kirkjurnar fæst enn skakkari en hentugri mynd. Og allt þjónar þetta þeim auvirðilega tilgangi að vernda Þjóðkirkjutrúna. Vernda Siðinn og vernda tekjustofnana.

Vernda óseðjandi maga hins forheimskandi óþarfa. Og nú á að fara að hækka sóknargjöldin um helming, svo atvinnugóðmennin geti haldið áfram að troða sér fram fyrir fagfólk og veita verri félags- og sálfræðiþjónustu en það.

Birgir Baldursson 18.05.2005
Flokkað undir: ( Klassík , Kristindómurinn )

Viðbrögð


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 18/05/05 13:01 #

Góð grein, ég skil ekki fólk sem er yfir höfuð kristið að skrá sig ekki í aðra söfnuði en þetta óþolandi ríkisfyrirtæki. Svo eiga hinir að skrá sig utan trúfélaga sem ekki trúa á hindurvitni. Þá er þessi stofnun sjálfdauð.


Eggert egg - 18/05/05 17:28 #

Ég vil bara vitna í mann sem veit mun meira um þessi leikskólaprestamál en ég(og Birgir) þar sem hann hefur unnið við þetta í mörg ár og átt barn á leikskóla.

Bjarni - 04/02/05 10:15 # Hvar eru þessir prestar að stunda trúboð? Ég á barn á leikskóla og hef aldrei orðið var við trúboð. Ég kenndi mörg ár í grunnskóla og sá aldrei prest í húsinu.

Birgir minn, með fullri virðingu fyrir þér og þínum skoðunum þá held ég að þessi staðhæfing þín með leikskólana sé bull og vitleysa. Eini leikskólinn sem ég veit um sem er með einhverskonar kristilegt efni er sá leikskóli sem gefur sig út fyrir það. Hinsvegar veit ég að kristið fólk hengir stundum upp plaköt í grunnskólum og jafnvel háskólum, sem auglýsingar, kanski er það það sem þú átt við.

Tékkið á þessum link: http://www.vantru.net/2005/02/04/01.55/ Þar sem Birgir byrjar með ópum og köllum. Bjarni svarar fyrir sig og Carlos tekur svo við af. Þetta er allavegana skemmtileg lesning.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/05/05 17:31 #

Eggert, hefur þetta hér alveg farið framhjá þér?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/05/05 18:03 #

Eggert, það að þessi Bjarni þekki til á einum leikskóla og einum grunnskóla segir ekki að hann viti mikið meira en við, hann gerir þau mistök að alhæfa út frá því sem hann þekkir yfir á það sem hann þekkir ekki. Bjarni hefur einfaldlega rangt fyrir sér í þessu.

Það eru reyndar tíu ár síðan ég útskrifaðist úr grunnskóla en á minni skólagöngu man ég eftir allavega fjórum prestum sem komu þar inn, tveir bara einu sinni reyndar en hinir mun oftar. Við alhæfum ekki að það séu prestar í öllum skólum og öllum leikskólum en það er ljóst að það er stefna þjóðkirkjunnar.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 18/05/05 22:17 #

Ég get a.m.k. fullyrt að á Tjarnarborg þar sem mitt barn var kom prestur óbeðinn af minni hálfu og sönglaði og las Biblíusögur. Farið var með börnin í fræðsluheimsóknir í kirkju og var þetta allt, þ.e. kirkjuheimsóknir og trúboð prestsins gert án þess að foreldrar fengju að hafa á því skoðun.

Fyrir tilviljun fékk ég veður af þessu og harðbannaði að barnið mitt kæmi nálægt yfirnáttúrufræðingnum. Var barnið mitt sett í smábarnadeild á meðan og komið var fram við mig eins og holdsveikisjúkling eftir það.

Veit ekki hvort svona barnaníð þekkist á öðrum leiksskólum en auðvitað verða þeir að ná til barnanna meðan hugur þeirra er galopinn og saklaus. Bastards.


eggert egg - 20/05/05 12:40 #

Takk fyrir að benda mér á þetta birgir minn sæll en á þessari síðu sem þú sjálfur vísar ( http://www.orvitinn.com/2002/09/10/20.25/ )í þá er það tekið fram í þessu bréfi að: 1. Presturinn var beðinn um að mæta. 2. Þessar stundir sóttu aðeins börn þeirra foreldra sem voru því samþykkir. 3. Þar var spurt hvort að foreldrar væru því samþykkir að þessu væri komið á.

Ég sé ekkert að því að mæta þörfum þeirra sem um þetta biðja ef ekki er verið að neyða börn ósamþykkra foreldra til að vera með....

Ég hafði aldrei áður heyrt um leikskólaprest, en skv þessu bréfi eru þeir greinilega til og hafði því rangt fyrir mér í þeim efnum en ég sé ekkert athugavert við þessa vinnu þeirra eftir lestur þessa bréfs. Í þessu bréfi eru foreldrar spyrðir hvort að þeir vilji þetta yfir höfuð og þá er án efa farið eftir vilja meirihlutans...varla eruð þið á móti lýðræði líka???


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/05/05 13:04 #

Eggert, þetta hefur verið rætt í þaula. Það að taka börn út úr starfi eftir óskir foreldra þeirra er ávísun á að þau verði álitin skrýtin. Slíkt leiðir svo af sér einelti.

Hvar hefur komið fram að við hér séum ekki lýðræðissinnuð? Lýðræði gengur ekki út á að meirihlutinn geti kúgað minnihlutann. Við bendum á að trúarlíf eigi ekki heima í opinberum skólum og óverjandi sé að koma foreldrum í þessa aðstöðu. Þú myndir skilja viðhorf okkar um leið og þér yrði gert að taka afstöðu til þess hvort barnið þitt sitji undir áróðri Félags íslenskra þjóðernissinna, Vantrúar eða Vinstri-grænna inni á leikskólunum.

Af hverju eiga Lúterstrúarmenn frekar að hafa frítt spil að reka áróður sinn inn á leikskólum en aðrir trúar-, trúleysis- eða stjórnmálahópar?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 20/05/05 13:07 #

1. Presturinn var beðinn um að mæta.
Rangt Presturinn sóttist eftir að fá að mæta og hafði frumkvæði að þessum heimsóknum. Þetta kemur allt fram á síðunni minni. Á síðunni sem þú vísar á stendur.
Eins og kom fram á foreldrafundinum 5. september s.l. hafa okkur borist óskir frá Seljakirkju um aukið samstarfs, sem felst í því að Sr. Bolli Pétur Bollason myndi koma í leikskólann einu sinni í mánuði og eiga með börnunum samverustund.

Furðulegt hvernig Eggert virðist leggja sig fram um að snúa út úr málum eða misskilja hlutina svo það henti hans málsstað.


eggert egg - 20/05/05 14:10 #

Birgir Þú segir: "Lýðræði gengur ekki út á að meirihlutinn geti kúgað minnihlutann. "

Kúgun???Hvernig færðu það út.... 1.Fyrst er kosið. 2.Síðan er farið eftir vilja meirihlutans. 3.Síðan er minnihlutanum frjálst að taka þátt ef vill. ....hvernig í ósköpunum geturðu kallað það kúgun??? Í hvaða heimi er slíkt kúgun???

Þú segir líka : "Þú myndir skilja viðhorf okkar um leið og þér yrði gert að taka afstöðu til þess hvort barnið þitt sitji undir áróðri Félags íslenskra þjóðernissinna, Vantrúar eða Vinstri-grænna inni á leikskólunum."

Þú getur ekki sagt þetta, því að það er ekki verið að neyða þessu upp á börnin. Foreldrarnir kjósa um hvort þeir vilja að barnið sitt hlýði á prest eða ekki. Og að halda því fram að þetta leiði til eineltis finnst mér rosalega haldlítil og aum rök. Á þá ekki að samræma háttatíma og útivistartíma barna til þess að enginn sé útundan, því að það leiðir af sér einelti að fara fyrr heim að sofa en hinir krakkarnir. Allir eiga að vera eins afþví að þá er enginn lagður í einelti...come on Birgir, þú veist betur.

Og að síðustu málsgreininni þinn :

"Af hverju eiga Lúterstrúarmenn frekar að hafa frítt spil að reka áróður sinn inn á leikskólum en aðrir trúar-, trúleysis- eða stjórnmálahópar?"

Ef þeir hafa frítt spil, hversvegna eru þeir þá að biðja um leyfi og láta foreldrana kjósa um hvort þeir megi koma??? Birgir, þú ert bara ekki að meika sens.


Óli Gneisti Sóleyjarson (meðlimur í Vantrú) - 20/05/05 14:31 #

Eggert, í uppeldisfræði er það þekkt að það að taka börn út úr hópnum er ein áhrifaríkasta refsing sem til er. Það er nákvæmlega það sem trúlausir foreldrar á þessum leikskólum þurfa að gera ef þau vilja ekki að yfirnáttúrufræðingarnir rugli í hausnum á þeim. Þetta er í raun og veru bara refsing fyrir börnin fyrir það að foreldrarnir aðhyllist ekki "meirihluta" skoðun.

Segðu mér af hverju þjóðkirkjuprestar eiga að fá að koma inn á leikskóla frekar en predikarar frá Sjálfstæðisflokknum eða Samfylkingunni? Það eru örugglega fjölmargir leikskólar þar sem meirihluti foreldra er í öðrum hvorum þessara flokka.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 20/05/05 14:37 #

3.Síðan er minnihlutanum frjálst að taka þátt ef vill. ....hvernig í ósköpunum geturðu kallað það kúgun??? Í hvaða heimi er slíkt kúgun???
Þetta "frelsi" er ekki raunverulegt.

Það hefur verið farið í gegnum alla þessi þætti í umfjöllun minni um leikskólaprestinn. Óþarfi að endurtaka það hér. Hér fjalla ég t.d. um þetta val. Eins og Óli bendir á, þá er fátt jafn slæmt fyrir börn og að vera tekin úr hópnum. Ég get vottað að það er gríðarlega erfitt fyrir foreldrana líka.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/05/05 14:52 #

Segjum sem svo að meirihluti foreldra í tilteknum leikskóla sé trúlaus og leikskólastjórinn líka. Nú sendi ég leikskólanum bréf þar sem ég óska eftir að fá að koma einu sinni í mánuði í leikskólann til að segja börnunum að kraftaverkasögurnar af Jesú séu bara rugl og þeir sem aðhyllist þær séu fremur siðlausir en við hin. Leikskólastjórinn samþykkir fyrir sitt leyti (sem væri ólíkt trúleysingja að gera) og sendir svo bréf til foreldranna. Meirihluti þeirra samþykkir þetta líka (myndi varla gerast í raunveruleikanum) og áður en þú veist af verður þú að draga börnin þín út úr leikskólastarfinu þá daga sem ég mæti með áróður minn.

Myndirðu ekki segja að meirihlutinn væri þarna að kúga minnihlutann?

Ástæðan fyrir því að ég segi það varla geta samræmst raunveruleikanum að trúlausir leikskólastjórar og foreldrar leyfi svona hausaveiðar er einfaldlega sú að ég held að við sem trúlaus erum gerum okkur grein fyrir að svona hlutir eiga ekkert heima í skólakerfinu.

Við erum hlynnt uppfræðslu og miðlun þekkingar. Ítroðsla hugmyndakerfa er þekkingarmiðluninni ósamrýmanleg. Þessu sjónarmiði erum við stöðugt að reyna að koma á framfæri, en Þjóðkirkjufólkið virðist eiga eitthvað erfitt með að koma því inn í hausinn á sér og heldur að við viljum halda þekkingunni frá börnunum.


Gyða (meðlimur í Vantrú) - 20/05/05 14:57 #

Eggert segir:

Á þá ekki að samræma háttatíma og útivistartíma barna til þess að enginn sé útundan, því að það leiðir af sér einelti að fara fyrr heim að sofa en hinir krakkarnir.

Ég bara verð að fá að benda Eggerti á að á Íslandi eru til lög um útivistartíma barna, svo svar mitt er jú, það á að samræma útivistartíma barna.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/05/05 15:04 #

Annars er þessi „ég veit ekki til þess að trúboð sé stundað í leikskólum“ - umræða búin að eiga sér stað hér áður. Bendi Eggerti að lesa athugasemdaþráðinn undir þessari færslu.


eggert egg - 20/05/05 15:23 #

Óli, ef að eitt barn er tekið afsíðis og sett í skammarkrókinn þá er þetta vissulega refsing, ég er sammála því. Ef barnið er hinsvegar fært á annan stað og því veitt athygli og fengið eitthvað skemmtilegt að gera án þess að því fylgi skammir þá getur nú varla verið um refsingu að ræða, hvort sem að eitt eða fleiri börn eigi í hlut. Varðandi hinn punktinn þinn, þá finnst mér það fullkomlega eðlilegt ef að meirihluti foreldra vill leyfa Davíði Oddsyni, sem dæmi, að halda ræðu einu sinni í viku í leikskólanum þá sé það í lagi. Að því gefnu að um það sé kosið og að minnihluti barna sé ekki neyddur til að hlýða á hann og geti fengið að gera eitthvað annað skemmtilegra á meðan.

Birgir, þú segir: "og áður en þú veist af verður þú að draga börnin þín út úr leikskólastarfinu þá daga sem ég mæti með áróður minn." Erum við að tala um að börnin séu rekin heim á meðan að presturinn er með barnastundina sína??? Það finnst mér nú frekar ólíklegt, frekar held ég að eitthvað annað sé gert með þeim börnum sem ekki taka þátt... Mér fyndist það nú snautlegt ef að krakkarnir sem mega ekki hlusta á biblíusögurnar séu bara reknir heim á meðan og foreldrarnir þurfa að taka sér frí úr vinnu vegna sannfæringar sinnar.

Gyða Hvar er það sem öll börn fara heim til sín á nákvæmlega sama tíma??? Þú hefur væntanlega verið barn einhverntíma og manst því að það giltu ekki sömu reglur fyrir alla. Sumir máttu fara lengra en aðrir, aðrir máttu vera lengur úti og það var það sem ég var að reyna að segja. Ég er ekki að tala um lögin í þessu tilfelli því enginn krakki fylgir þeim, þeir fylgja því sem foreldrarnir segja.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/05/05 15:31 #

Þetta er vonlaust. Þú nærð greinilega ekki punktinum sem við erum að reyna að leiða þér fyrir sjónir. Prófaðu að lesa þessa færslu Matta svona þrisvar í viðbót og gáðu hvort ekki renni upp fyrir þér ljós.


Gyða - 20/05/05 18:16 #

Eggert: Hvar er það sem öll börn fara heim til sín á nákvæmlega sama tíma??? Þú hefur væntanlega verið barn einhverntíma og manst því að það giltu ekki sömu reglur fyrir alla. Sumir máttu fara lengra en aðrir, aðrir máttu vera lengur úti og það var það sem ég var að reyna að segja. Ég er ekki að tala um lögin í þessu tilfelli því enginn krakki fylgir þeim, þeir fylgja því sem foreldrarnir segja.

Veistu það að mín reynsla sem þriggja barna móðir er að börn eru mjög upptekin af því að fara eftir lögum og leiðrétta foreldra sína ef þeir gleyma hver lögin eru (sbr. hvort að 10 ára á að koma heim fyrir 8 eða 9).

En satt best að segja skiptir það ekki öllu máli hér heldur það að þú stilltir því upp að það að setja samræmdar reglur um útivistartíma væri jafn fáránlegt og að banna prestum að koma inn í ríkisreknar skólastofnanir. Ég er að benda þér á að við setjum reglur um útivistartíma og þeim foreldrum sem ég þekki finnst ekkert nema sjálfsagt að það sé gert. Samlíkingin þín er þá svo sem ekkert slæm nema bara að hún lætur mann komast að þveröfugri niðurstöðu við það sem þú varst að reyna að færa rök fyrir.


Haukur Ísleifsson - 23/10/07 12:37 #

Pólitísk trúarleg eða hugmyndafræðileg félög eiga ekki að fá að flytja fræðslu eða fyrirlestra í leikskólum né yngri bekkjum grunnskóla. Undir neinum kringumstæðum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.