Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúverndin á Íslandi

Það er deginum ljósara að lúterskur rétttrúnaður er fyrir löngu búinn að éta guðfræðideildina innan frá. Þannig virðist deildin hafa það eina markmið að verja vígi evangelísk ríkisrétttrúnaðar og framleiða klerka til að viðhalda sjálfri sér. Meira að segja eru menn svo rændir skynsemi að Reynivallarpresturinn Einar Sigurbjörnsson, bróðir ríkisbiskupsins, er forseti deildarinnar. Deildarforsetinn er útlærður prófessor í játningarfræðum og starfar ásamt því í öllum mögulegum nefndum á vegum ríkiskirkjunnar. Til kóróna allt leiðast þeir bræðurnir hönd í hönd við að rita saman kennslubók sem er skyldulesning og kaup fyrir öll fermingarbörn ríkiskirkjunnar.

Guðfræðideildin er þannig ekki sjálfstæð akademísk deild heldur er hún ásamt ríkiskirkjunni eitt og sama fyrirbærið, meira að segja stjórnað af sömu fjölskyldunni. Þannig blóðmjólkar ríkiskirkjan sjóði Háskóla Íslands um tugi milljóna til að viðhalda kjökrandi ömmuprestaskóla í nafni vísinda. Allt gert til að viðhalda ákveðinni virðingu í kringum ríkiskirkjuátrúnaðinn. Í framvarðasveit deildarinnar virðast líka aðeins veljast æskilegir þjónar ríkiskirkjunnar og lítið fer fyrir eðlilegri akademískri breidd. Enda kemur þaðan ekkert sem raskar ró eða stuggar við kennivaldi hins evangelíska ríkikirkjusiðar.

Þrátt fyrir nokkra yfirferð á efni því sem kemur frá deildinni þá viðist ekkert koma á óvart. Efnið virðist vera allsherjar rörsýn grænsápuguðfræðinnar án nokkurs fræðilegs efa. Ekki þarf annað en að lesa skelfilega geld biblíusögusvör deildarinnar til almennings í gegnum vísindavefinn eða „lærðar“ greinar kennarana á netinu. Sama gildir um flestar bækur sem meintir fræðimenn deildarinnar hafa gefið út. Svo ekki sé talað um predikanir preláta þeirra sem titlaðir eru stundakennarar við deildina, þær slá oft allt út í ófræðilegu trúarhjali til sóknarbarna sinna.

Hlutverk deildarinnar er aðeins að dæla út rétthugsandi klerkum ásamt djáknum sem eru sprenglærðir í að komast í vasa skattgreiðenda. Það er því algjört rangnefni að kenna deildina við fræði eða vísindi heldur er hið rétta nafn deildarinnar Trúverndin á Íslandi. Það er einlæg ósk mín að kýli þetta verði skorið af Háskóla Íslands og stofnuð verði þar trúarbragðadeild undir félagsvísindasviðinu. Svo getur starfsemi prestaskóla Trúverndarinnar á Íslandi farið beint undir verndarvæng ríkiskirkjunnar. Þar geta lúterskir bræður, í Jesú nafni, haldið áfram að véla til sín milljarða á ári af skattfé ásamt skefjalausum kröfum í jarðeignir almennings. Þannig fæst þó betri mynd af heildar kostnaðinum sem hlýst af viðhafnarlífi ríkiskirkjunnar, því kostnaður vegna Trúverndarinnar á Íslandi vantar þar inní.

Frelsarinn 12.05.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Kári Svan rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 12/05/05 04:22 #

Heyr Heyr! Þetta er nefninlega svipað og æxli.Á ekkert heima þarna. Þar fyrir utan þjáist Háskólinn af fjárskort. Af hverju ekki þá skera þetta kostnaðarsama kjaftæði í burtu?


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 12/05/05 09:41 #

Góður. Það er ekki dónalegt fyrir klúbb lúterstrúarmanna að hafa prívat grænsápu- og ömmuprestaframleiðsludeild rekna sem huggulegt fjölskyldufyrirtæki og auðvitað á kostnað almennings. Og hér er trúfrelsi segja þeir? ...... ehemmm .... eða þannig..... hóst, hóst


Árni Árnason - 12/05/05 09:58 #

Ég legg til að allt heila klabbið, guðfræðideildin, þjóðkirkjan með manni og mús verði einkavætt.

Kompaníið gæti sem best heitað: "Bræðurnir Sigurbjörnsson & Co."


ORK - 12/05/05 10:19 #

Jesú Group

J.C. Group


Jón Valur Jensson - 12/05/05 12:02 #

Skrifin hér ofar um "Bræðurna Sigurbjörnsson & Co." eru ósköp kjánaleg, enda byggð á vanþekkingu. – Í 1. lagi er óralangt síðan Einar Sigurbjörnsson var prestur á Reynivöllum (1975-78); þekktur maður, dr. Gunnar Kristjánsson, hefur verið þar prestur síðustu 27 árin. Er ekki í lagi að kynna sér hlutina, áður en þið útausið fullyrðingum ykkar og skammarræðum? – Í 2. lagi er Einar einn hæfasti fræðimaður háskólasamfélagsins, maður sem á eigin spýtur hefur staðið sig með ágætum í áratugi, með ágæta doktorsgráðu frá Svíþjóð, farsæll kennari, prófessor frá 1978 og lengi forseti guðfræðideildar, án þess að herra Karl hafi komið þar nokkurs staðar nærri, og höfundur margra merkra fræðirita, auk þess að vera eftirsóttur fyrirlesari á ýmsum vettvangi. Að varpa steini að slíkum manni og bróður hans, sem hefur sömuleiðis staðið sig með ágætum bæði sem prestur og biskup, er ykkur hvorki til frægðar né vegsauka.

Þar að auki gengur svo upphafsgrein s.k. "frelsara" hér ofar gersamlega fram hjá þeirri staðreynd, að laun Þjóðkirkjupresta eru ekkert annað en samningsbundin greiðsla vegna gífurlegra tekna ríkisins af kirkjujörðum landsins, þeim sem ríkið tók í umsjá sína 1907 og á grundvelli endurnýjaðs samnings árið 1997. Þessar jarðir voru um sjöttungur allra jarða landsins þá og margar þar á meðal hinna eftirsóttustu á landinu, en fráleitt að halda því fram, að af þeim auði sé ekki unnt að halda uppi á 2. hundrað presta. Hættið nú þessari öfund, hún er ljóður á ráði hvers manns. Er ekki kominn tími til að snúa sér að einhverju jákvæðara?

Þetta skrifa ég sem kaþólikki, sem kann því illa, að réttu máli sé hallað, bæði um ágætustu menn og Þjóðkirkjuna sem slíka.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 12/05/05 12:12 #

Hættið nú þessari öfund, hún er ljóður á ráði hvers manns. Er ekki kominn tími til að snúa sér að einhverju jákvæðara?
Jón Valur, vertu úti ef þú hefur ekkert gagnlegra fram að færa. Gagnrýni sú sem hér kemur fram snýst ekki um öfund.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/05/05 12:15 #

Þetta skrifa ég sem kaþólikki, sem kann því illa, að réttu máli sé hallað...

Þú ættir þá kannski að sleppa því að halla réttu máli þegar kemur að okkur. Þetta hér að ofan er hvorki skammarræða, né heldur erum við fullir öfundar. Báðar þessar fullyrðingar flokkast undir ad hominem árásir.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 12/05/05 12:44 #

Vegna athugasemdar Jóns Vals.


Jón Valur Jensson - 12/05/05 14:41 #

Er það ekki nokkuð ljóst, að hér ofar var hallað réttu máli um dr. Einar Sigurbjörnsson og bróður hans biskupinn? Og er það rangt skilið, að þar voru þeir bræður snupraðir eða skammaðir og í tengslum við það höfðað til öfundar lesenda vegna greiðslna úr ríkissjóði til Þjóðkirkjunnar (sem heita mega eðlilegt afgjald af geysilegum jarðeignum)? En það kemur mér ekki á óvart, að þið eigið erfitt með að viðurkenna nokkuð af þessu, það er ekki ykkar stíll.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 12/05/05 14:51 #

Er það ekki nokkuð ljóst, að hér ofar var hallað réttu máli um dr. Einar Sigurbjörnsson og bróður hans biskupinn?
Nei, það er ekki ljóst.


Jón Valur Jensson - 12/05/05 15:09 #

Tónninn var sleginn þarna í byrjun:

"Meira að segja eru menn svo rændir skynsemi að Reynivallarpresturinn Einar Sigurbjörnsson, bróðir ríkisbiskupsins, er forseti deildarinnar."

Deildarforsetastarf og -skipan Einars hefur ekkert með biskup Íslands að gera. Dr. Einari var treyst fyrir þessu forystustarfi í þágu guðfræðideildar í krafti hans eigin ágætis og hæfileika – biskup Íslands kemur ekki nálægt þeirri skipan. Ég sem óháður utanþjóðkirkjumaður, auk þess að hafa sérlega góða reynslu af þessum fræðara mínum dr. Einari, tel þar að auki algjörlega út í hött, að dr. Einar ætti að teljast "vanhæfur" eða gjalda þess á einhvern hátt, að hann sé bróðir biskupsins. Þá væri allt eins hægt að fullyrða, að Páll Magnússon, bróðir Árna félagsmálaráðherra, sé "vanhæfur" til að komast til hárra metorða í Framsóknarflokknum eða á Alþingi, jafnvel þótt margir vilji fyrir alla muni kjósa hann til slíkra starfa. Ég vona að þið skiljið þetta núna í stað þess að stranda í afneituninni.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 12/05/05 16:12 #

Ég var að taka eftir því að í símaskrá yfir starfsmenn Þjóðkirkjunnar eru allir fastir kennarar guðfræðideildarinnar skráðir.

Varla eru þeir allir að vinna hjá kirkjunni? Lítur kirkjan kannski á þá sem starfsmenn sína?


G2 (meðlimur í Vantrú) - 12/05/05 17:06 #

Þú ert fyndinn Jón Valur:

"... er Einar einn hæfasti fræðimaður háskólasamfélagsins".

Illa er komið fyrir HÍ ef satt er.


Jón Valur Jensson - 12/05/05 19:17 #

Þetta er á misskilningi byggt hjá Hjalta. Pétrarnir, sem skráðir eru í þá net-símaskrá, sem hann vísaði til, eru t.d. ekki allir "starfsmenn kirkjunnar" í merkingunni "núverandi starfsmenn Þjóðkirkjunnar". Ef Hjalti lætur bendilinn hvíla 2-3 sekúndur á orðinu "annað", sem er á eftir nafni dr. dr. Péturs Péturssonar, þá kemur í ljós skýring: "guðfræðideild HÍ", og ef hann lætur bendilinn hvíla á sama orði á eftir nafni Péturs Þorsteinssonar (hins skemmtilega höfundar Pétrísk-íslenzku orðabókarinnar), þá kemur í ljós skýringin: Óháði söfnuðurinn (sem er vitanlega ekki partur af Þjóðkirkjunni!). Eins er þarna fyrrverandi biskup Íslands, herra Pétur Sigurgeirsson, sem er ekki lengur "starfsmaður" kirkjunnar. En Pétursnöfnin voru þessi fimm: Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni Pétur Pétursson annað Pétur Sigurgeirsson biskup Pétur Þórarinsson prófastur Pétur Þorsteinsson annað

Ég nenni ekki að fara yfir allan starfsmannalista guðfræðideildar, en hygg víst, að ýmsir aðrir á listanum, t.d. dr. Jón Ma. Ásgeirsson, dr. Clarence Glad o.fl., séu alls ekki starfsmenn kirkjunnar. Meðan ég var þarna í námi (1972–9), var það örugglega undantekning, að fastir kennarar deildarinnar væru starfsmenn Þjóðkirkjunnar, enda eru prófessors-, dósents- og lektorsstöðurnar yfirleitt fullt starf. Ýmsir, sem þeim störfum gegndu, t.d. dr. Þórir Kr. Þórðarson, prófessor í gamlatestamentisfræðum, dr. Björn Björnsson siðfræðiprófessor og Jón Sveinbjörnsson, prófessor í nýjatestamentisfræðum, voru þar að auki óvígðir menn – gegndu aldrei prestsembætti. – Annars hef ég á öðrum vettvangi (í Félagi guðfræðinga) lagt til, að Þjóðkirkjan taki að sér að kosta tvö prófessorsembætti við guðfræðideild. – Vildi láta þetta koma fram, áður en stærðar-úlfaldi fer að vaxa upp af þessari misskilnings-mýflugu hans Hjalta.


Jón Valur Jensson - 12/05/05 19:18 #

Naumast þarf að taka fram, að kjánaleg, órökstudd athugasemd G2 (Guðmundar Guðmundssonar) er ekki svaraverð.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 12/05/05 19:52 #

Hvaða misskilning ertu að tala um? Ég sagði "Varla eru þeir allir að vinna hjá kirkjunni?", þetta gefur til kynna að þeir séu ekki allir að vinna hjá kirkjunni.

Taktu síðan eftir síðari spurningunni: Lítur kirkjan kannski á þá sem starfsmenn sína? Með öðrum orðum: lítur kirkjan kannski á kennara guðfræðideildarinnar sem þjóna/starfsmenn kirkjunnar?

Af 7 föstum kennurum guðfræðideildarinnar þá eru amk 3 fyrrverandi prestar Þjóðkirkjunnar. Athyglisvert.


Jón Valur Jensson - 12/05/05 20:49 #

Vera má að Hjalta finnist þetta athyglisvert, að af 7 föstum kennurum guðfræðideildarinnar séu a.m.k. 3 fyrrverandi prestar Þjóðkirkjunnar, en mér finnst það hið eðlilegasta mál – til kennarastarfs í deildinni þarf í flestum tilvikum guðfræðipróf rétt eins og til prestsstarfa, og margir þeirra, sem síðar gerast algerir fræðimenn (eins og dr. Hjalti Hugason kirkjusöguprófessor), hafa í byrjun þjónað sem prestar, áður en þeir luku framhaldsprófi. Á hitt ber svo ennfremur að líta, að kennarar deildarinnar eru afar vel menntaðir (margir doktorar og tveir með tvöfaldar doktorsgráður), t.d. miðað við lögfræðingastéttina (sbr. að færustu menn þar, sem sækja um dómarastörf í Hæstarétti, eru langfæstir með doktorspróf).

Með þessari saklausu netsímaskrá hjá Þjókirkjunni held ég að menn hafi einungis verið að safna þangað sem flestum guðfræðingum, prestum, djáknum og öðrum helztu starfsmönnum kirkjusamfélaganna í landinu, auk starfsmanna guðfræðideildar HÍ, sem óneitanlega er mikilvæg kennslustofnun fyrir þessar stéttir. Símaskráin er einfaldlega til hægðarauka og myndi ekkert batna við það að ná aðeins til þrengsta hrings Þjóðkirkjupresta.


Ívar M. - 12/05/05 21:11 #

Af hverju er ekki alveg eins hægt að taka háskólagráður í gullgerð, töfrabrögðum og almennum fíflagangi?


Frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 12/05/05 21:27 #

Jón Valur, þú getur alveg hætt þessu tuði. Það er alveg makalaust að sjá þig nöldra um vel skorið keisarans skegg þegar allir eru að benda á að hann er nakinn.


Jón Valur Jensson - 13/05/05 00:31 #

Málefnalegt innlegg hins nafnlausa höfundar upphafsgreinarinnar ... eða hvað? Eftir réttmætar ábendingar mínar á hann ekki sterkari rök en þetta, og má ég býsna vel una því. Velkomið er honum að eiga síðasta orðið í sama dúr í þessari deilu – ég þarf engu við orð mín að bæta og hef heldur ekki áhuga á að fara út í nýja sálma á síðunni.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 13/05/05 00:44 #

Núnú, var nafni minn prestur. Þá eru 4 af 7 kennurum prestar.

Það er skiljanlegt að menn í fullr vinnu í guð"fræði"deildinni séu ekki að vinna í annarri fullri vinnu (nema kannski nokkur nefndarstörf hjá Þjóðkirkjunni), en þetta sýnir bara vel tilgang Prestaskólans, búa til presta.

Síðan er fulltrúi frá guðfræðideildinni með tillögurétt á kirkjuþingi Þjóðkirkjunnar...og svo framvegis.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 13/05/05 00:45 #

Eftir réttmætar ábendingar mínar
Æi Jón Valur, þetta er bölvaður tittlingaskítur hjá þér.


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 13/05/05 01:08 #

"Réttmætar ábendingar" Jón Valur, common. 1. Það er langt síðan að deildarforsetinn var prestur á Reynivöllum. Skiptir ekki máli enda snérist greinin ekkert um það hversu langt er síðan hann var þar prestur. Svona til að upplýsa Jón Val þá var þetta skrifað af hæðni. 2. Að herra, séra og deildarforsetinn Einar sé manna hæfastur í Háskólanum. Greinin fjallaði ekkert um kunnáttu hans í játningarfræðum. Eflaust er hann manna hæfastur til að fræða menn um játningar hjá Trúverndinni en það skiptir ekki máli. Greinin fjallaði bara ekkert um hæfileika Einars í Lúterskum grænsápufræðum. 3. Tekjustofnar kirkjunnar og saga þeirra. Um það hefur verið fjallað hér í mörgum greinum á vantru.net Um það snérist þessi grein mín ekkert um.

Niðurstaðan, Jón Valur er að tuða. Hann er algjör snillingur að fjalla um það sem skiptir ekki máli. Ef það er markmiðið, þá getur Jón Valur vel við unað.


Jón Valur Jensson - 13/05/05 10:26 #

Oft hefur mér flogið í hug, að vefsetur þetta bæri nafn með réttu að heita www.vanthekking.net. Nokkur vanþekkingaratriði hafa verið afhjúpuð hér, nú síðast upplýsir einn máttarstólpi ykkar, Hjalti, að hann hafi ekki vitað, að hans alkunni nafni hafi verið prestur.

En s.k. "frelsari", sem enn er of feiminn eða þorir ekki að upplýsa um nafn sitt, kveður (sér til varnar!) það, sem hann sagði um Einar, hafa verið "skrifað af hæðni". Virðist þykja það hið sjálfsagðasta mál að hæðast að nafngreindum persónum – jafnvel eftir á, þegar honum hefur verið bent á, að dr. Einar hefur allan sinn starfsframa af sjálfum sér, óháð bróður hans og er ekki þjónandi prestur sl. rúman aldarfjórðung ("frels." sagði þó í greininni: "Reynivallarpresturinn Einar Sigurbjörnsson, bróðir ríkisbiskupsins, er forseti deildarinnar"!). Ég skil vel, að þessi nafnlausi "frelsari" vilji ekki koma fram í dagsljósið undir nafni, nóg er nú samt að standa uppi á endanum eins og keisarinn í ævintýri Andersens. Háðið er "frelsaranum" engin vörn. En ég vil gjarnan fá að losna úr þessari "ritdeilu" án þess að þrír stökkvi á mig – hafandi í huga orð Davíðs konungs: "Sæll er sá maður, er eigi situr í hópi háðgjarnra."

Að deildarforsetinn Einar sé "manna hæfastur í Háskólanum," sagði ég ekki orðrétt (þykist ekki vita hver sé hæfastur), heldur "einn hæfasti fræðimaður háskólasamfélagsins". Að hann var skipaður deildarforseti árið 2004 má heldur ekki tengja við biskupinn, þótt það sé á biskupstíð hans, því að Einari hefur einna helzt á seinni áratugum verið treyst fyrir þessu starfi: var deildarforseti 1981-85 og aftur 1990–93 (skv. Samtíðarmönnum, I (2003), 170-1). – Að fræði Einars einskorðist við játningafræði virðist enn einn anginn af vanþekkingu "frelsarans", því að Einar er prófessor í trúfræði, sem er mun stærri grein. Hann er enn fremur afar fær í öllu því, sem heyrir undir það sem kallast prolegomena, um frumforsendur trúar og annarrar hugsunar, fræða og vísinda. Og nú er komið að ykkur að kynna ykkur hin afar áhugaverðu rit þessa mæta manns, m.a. á þessu síðastnefnda sviði.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 13/05/05 10:32 #

Niðurstaðan, Jón Valur er að tuða. Hann er algjör snillingur að fjalla um það sem skiptir ekki máli.
Frelsarinn hittir naglann á höfuðið.


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 13/05/05 10:36 #

Allt sem þú þvælir um Jón Valur skiptir ekki máli. Ég var að benda þér á það lið fyrir lið, en samt ferðu að nöldra. Þú hlýtur að vera tregur eða heimskur að halda áfram að tala um það sem skiptir ekki máli.


Árni Árnason - 13/05/05 12:36 #

Ég var nú ekkert sérstaklega að hugsa um fyrrverandi Reynivallaprest þegar ég skaut fram "Bræðurnir Sigurbjörnssson & Co." Þetta átti nú frekar að vísa til þess hve sterkur svipur er orðinn með þjóðkirkjunni og fjölskyldufyrirtæki.

Hitt er miklu merkilegra hvað menn eins Jón Valur geta rangsnúið hlutunum með þessar blessuðu kirkjujarðir sem eiga að réttlæta fjárausturinn í þjóðkirkjuna, hræsnihátíðir á Þingvöllum og þar fram eftir götunum.

  1. Í fyrsta lagi verða menn að spyrja sig hvernig "eignaðist" kirkjan ( reyndar Kaþólska ) þessar jarðir til að byrja með ?

    Sú aðferð myndi í dag kallast skattsvik ( í besta falli skattaundanskot ) þegar menn "gáfu" kirkjunni jarðir að nafninu til, til þess að losna við að greiða af þeim skatt. N.B. "gjöfin" var auk þess oft gefin fyrir loforð um eilíft líf sem ekki hefur verið sannað að staðið hafi verið við.

  2. Hvað á kirkjan að gera við að eiga eignir ? Er ekki tilbeiðsla skurðgoða og ímyndaðra vera, sjálfboðavinna í eðli sínu ?

  3. Ef einhverju liði er hugarhægð í því að aðrir sjái það í tilbeiðslu, og að það sé einhver forystusauður sem sé svo upptekinn við að saungla yfir þeim að hann meigi ekki vera að því að vinna fyrir sér eins og heiðvirt fólk, er þá ekki rétt að þetta sama lið haldi honum uppi af sínu ráðstöfunarfé ? Af hverju eigum við hin að gera það með sköttunum okkar og einhverjum verðmætum sem kirkjan hefur eignað sér með vafasömum hætti. Ég bara spyr.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 13/05/05 14:20 #

Er þér alvara Jón?

Er ætlast til af manni að maður þekki CV allra kennara guðfræðideildarinnar?

Jamm, tuð og nöldur.


abbababb - 13/05/05 15:54 #

Söfnuður heimskra, andlega volaðra aumingja skreppur saman saman í skítkast þegar einhver nennir að andmæla bullinu í þeim. "Tuð, röfl og nöldur. Vertu úti". Snilldarrök!! Jón Valur, orðum er ekki eyðandi á vitsmunalega ódrætti og skítbuxa. Megi þeir hvergi þrífast.


Jón Valur Jensson - 13/05/05 22:55 #

Þú ert afar harðorður sjálfur, "abbababb", enda veigrarðu þér við að skrifa undir nafni, sem mér finnst ekki hetjulegt. En ég vil sjálfur seiglast við að rökræða við þessa menn, þótt það gangi seint og illa að sannfæra þá. En þó á þeim að vera gefið skilningsljós eins og öðrum.


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 14/05/05 01:14 #

Jón Valur, ég sé þig hvergi rökræða. Aðeins tuð og nöldur um keisarans skegg. Það er virkilega sorglegt að lesa textann þinn.


Jón Valur Jensson - 14/05/05 01:55 #

Þetta var sleipt svar sem erfitt er að ná taki á, einmitt af því að það er svo óljóst og innantómt, vegna þess að það tiltekur engin dæmi né leitast við að setja fram rökleiðslu. Ég hef engan áhuga á að svara skattyrðum í sömu mynt, hvorki þessu síðasta né stóryrðum þínum, "frelsari", í næstsíðasta innlegginu (kl. 10:36). Trúðu mér, þú átt að geta betur, og gangi þér vel við það í framtíðinni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.