Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Háttlestur (e. cold reading)

Háttlestur er samheiti yfir ýmsar aðferðir sem sérfræðingar nota til að stjórna hegðun fólks eða til að láta það halda að þeir viti ýmislegt um viðkomandi vegna sérhæfileika. Slíkar aðferðir, sem ganga út á að gefa ýmislegt í skyn og ýta undir hégómagirnd fólks, eru vel þekktar, en háttlestur gengur lengra. Þeir sem beita háttlestri geta til dæmis verið sölufólk, dáleiðarar, markaðsfólk, kraftaverkalæknar, heilarar og miðlar. Þeir nýta sér þá staðreynd að fólk hefur tilhneigingu til að finna meiri merkingu í aðstæðum heldur en er þar í rauninni að finna. Þessi tilhneiging manna að lesa merkingu úr aðstæðum hefur leitt til margra uppgötvana í mannkynssögunni, en einnig til margra mistaka. Stjórnandinn veit að fórnarlambið reynir að finna merkingu í því sem sagt er, þótt það sé bæði undarlegt og ólíklegt.

Hann veit það einnig að almennt séð hefur fólk óraunhæfa mynd af sér; það lítur stórt á sig og er tilbúið að samþykkja staðhæfingar um sig sem endurspegla ekki hvernig það er eða það heldur að það sé, heldur hvernig það vildi vera eða heldur að það ætti að vera. Þegar hann lýsir þér veit hann það einnig að þótt þú neitir allnokkrum ónákvæmum staðhæfingum mun hann hitta á eitthvað sem þú samþykkir, og hann veit að þú munt muna eftir þeim staðhæfingum sem þú samþykktir og gleyma hinum.

Sökum þessa sem ofan er talið getur fær stjórnandi komið með lýsingu fyrir einstakling sem hann hefur aldrei hitt áður, þannig að viðkomandi haldi að einhverjir sérhæfileikar séu í spilinu. Hér á eftir koma tvö dæmi. Það fyrra kemur frá Bertram Forer. Hann hefur aldrei hitt þig, lesandi góður, en hann getur samt komið með þessa lýsingu á þér.

Þú setur oft markið of hátt. Á stundum sækirðu í félagsskap þar sem þú ert hrókur alls fagnaðar en einnig finnst þér gott að vera einn með sjálfum þér. Þú hefur brennt þig á því að vera of opinn við ókunnuga. Þú hefur sjálfstæðar skoðanir og gleypir ekki skoðanir annarra hráar. Þú leitar í hæfilegan fjölbreytileika og verður fljótt ósáttur þegar þér finnst að þér þrengt. Þú veltir þér oft mjög upp úr því hvort þú hafir tekið rétta ákvörðun eða gert rétt. Öðrum sýnist þú agaðar og öruggur, en oft hefurðu óþarfar áhyggjur og ert lítill í þér.

Þér finnst þú stundum vera heillum horfinn í kynlífi. Þú hefur nokkra minniháttar persónuleikabresti, en þú átt oftast ekki í neinum vandræðum með að yfirvinna þá. Þú hefur mikla ónýtta hæfileika. Þú hefur tilhneigingu til að vera þinn eiginn versti gagnrýnandi. Þú hefur mikla þörf á að fólk líki við þig og líti upp til þín.

Hér er önnur lýsing:

Fólk í kringum þig hefur verið að nota þig. Heiðarleiki þinn hefur staðið í vegi fyrir þér. Mörg tækifæri hefurðu látið ganga þér úr greipum því þú vildir ekki misnota annað fólk. Þú lest gjarnan bækur og greinar til að auka þekkingu þína. Ef þú ert ekki þegar með starf í þjónustugeiranum ættirðu að íhuga það. Þú hefur mikla hæfileika til að skilja þau vandamál sem fólk glímir við og ert samúðarfullur. En þú hikar ekki við að taka hart á því þegar þú mætir þrjósku eða heimsku. Þú gætir orðið góður lögreglumaður, því þú hefur ríka réttlætiskennd.

Þessi síðari lesning er frá stjörnuspekingnum Sidney Omarr. Hann hefur heldur aldrei hitt þig en samt veit hann þetta um þig (Flim Flam!, 61). Fyrri lýsinguna tók Forer úr bók um stjörnuspeki.

Valkvæmi mannshugans er alltaf að störfum. Við veljum hvaða gögn við viljum muna og gefum þeim vægi. Að hluta til gerum við það vegna þess sem við trúum eða viljum trúa, og að hluta til gerum við það til að reyna að skilja það sem við erum að upplifa. Við látum ekki bara gabbast af því við erum einföld eða meðfærileg, eða vegna þess að gögnin frá stjórnandanum eru óljós eða margræð. Það er hægt að stjórna okkur, jafnvel þegar gögnin eru skýr og við lítum gagnrýnum augum á þau. Það má meira að segja færa fyrir því rök að það sé auðveldara að stjórna gáfuðu fólki þegar það hugsar rökrétt um eitthvað sem virðist liggja ljóst fyrir, því til að komast að þeirri niðurstöðu sem stjórnandinn vill verður þú að hugsa rökrétt.

Það er ekki alltaf svo að stjórnendurnir séu viljandi að blekkja fólk með háttlestri. Stundum er um að ræða stjörnuspekinga, tarotlesara og miðla sem trúa því raunverulega að þeir hafi yfirnáttúrulega hæfileika. Þeir eru jafn ánægðir með spádóma sína og innsæi eins og viðskiptavinir þeirra. Það ber og að hafa í huga að rétt eins og góðir vísindamenn geta haft rangt fyrir sér þá geta lélegir vísindamenn og svikarar stundum haft rétt fyrir sér.

Það virðist sem þessar lýsingar hafi þrjú meginstef. Fyrsta stefið snýst um að reyna að veiða upplýsingar. Miðillinn gefur eitthvað í skyn með óljósum hætti, s.s. „Janúar kemur sterkur inn hjá mér“. Ef viðskiptavinurinn svarar, jákvætt eða neikvætt, spilar miðillinn úr svarinu. T.d. ef hann svarar „Ég er fæddur í janúar“; eða „Móðir mín lést í janúar“, segir miðillinn eitthvað í líkingu við „Já, ég sé það“ til að ýkja upp getu sína og nákvæmni ágiskunarinnar. Ef viðkomandi gerir lítið úr ágiskuninni, t.d. „Mér dettur ekkert í hug í sambandi við janúar“ getur miðillinn svarað „Rétt er það, ég sé að þú hefur bælt niður minninguna. Þú vilt ekki láta minna þig á það. Ég finn eitthvað tengt sársauka í janúar. Það er í mjóbakinu [reynir að veiða eitthvað upp úr viðskiptavininum].. oh, núna er það í hjartanu [enn að veiða].. umm, ég finn mikinn sársauka í höfðinu [veiða]... eða í hálsinum“. Ef viðkomandi svarar engu getur miðillinn haldið ótrauður áfram, því hann hefur komið því skýrt áleiðis að hann hafi séð eitthvað en þar sem viðskiptavinurinn hefur lokað á minninguna þá sé ekki hægt að sjá smáatriðin. Gefi hann hins vegar jákvætt svar við einhvern lið í veiðiferðinni grípur miðillinn það á lofti með nánari útlistun, „Ég sé þetta greinilega núna, tilfinningin fyrir hjartanu verður meira áberandi“.

Þessi tegund veiða er mikil list og góður hughverfingamaður leggur mörg veiðarfæri á minnið. Sem dæmi má taka Ian Rowland. Hann starfar sem hughverfingamaður og er höfundur frægrar bókar um háttlestur. Hann segist hafa lagt á minnið hluti sem geta komið sér að gagni, t.d. algengustu karlmanna- og kvenmannsnöfnin og lista yfir hluti sem eru líklegir til að liggja víða um íbúðir svo sem gömul dagatöl, ljósmyndaalbúm, úrklippur úr dagblöðum o.s.frv. Hann einbeitir sér að ákveðnum hlutum sem líklegt er að fólk sem sæki miðla sé að leita að svo sem ást, peningum, frama, heilsu og ferðalögum. Háttlestur getur verið nýttur í mismunandi samhengi og því notar Rowland fjölbreytta tækni við lesturinn. En hvort sem verið er að nota háttlestur í stjörnuspeki, talnaspeki, lófalestri, hlutlestri eða Tarotspilum, nú eða til að miðla skilaboðum að handan líkt og Þórhallur Guðmundsson, þá eru til aðferðir sem láta viðkomandi hafa, í augum viðskiptavina, vitneskju sem aðeins gæti fengist eftir dulrænum leiðum.

Önnur einkenni þessara lýsinga eru að þær eru settar fram ýmist sem óljós staðhæfing ("Ég finn fyrir hita í magasvæðinu") eða sem spurning ("Ég finn að þú hefur sterkar tilfinningar til einhvers í þessu herbergi, er það ekki?"). Bróðurpartur nákvæmra lýsinga koma frá viðskiptavininum sjálfum.

Sumir sérfræðingar í faginu leggja áherslu á að lesa út úr líkamstjáningu og öðrum hlutum, svo sem hvernig fólk klæðir sig.

Stjórnandinn byrjar á almennum staðhæfingum sem eiga við meirihluta fólks. Hann fylgist vel með viðbrögðum fólks; orðum, líkamstjáningu, breytingum í húðlit, öndun, augunum og fleira í þeim dúr. Sá sem er verið að lesa fyrir gefur yfirleitt mikilvægar upplýsingar til stjórnandans, stundum með beinum orðum og stundum með líkamlegum viðbrögðum.

Með því að fylgjast með viðbrögðunum lætur stjórnandinn síðan viðskiptavininn fá það sem hann kom til að fá. Þetta er rauði þráðurinn í viðskiptum dularfræðinga: Segjum þeim það sem þeir vilja heyra. Þá koma þeir aftur (Steiner 1989:21).

Að lokum, þegar miðill giskar á einhverja vitleysu um viðskiptavininn þá getur hann treyst því að bæði viðskiptavinurinn og áhorfendur munu gleyma því. Það eina sem situr eftir eru hinar meintu réttu ágiskanir og tilfinningin "vá, ef hann er ekki skyggn, hvernig gat hann þá vitað allt þetta?". Valkvæm hugsun ásamt tilhneigingu til að leiða hjá sér mótsagnir eru svo áberandi í öllum tegundum yfirnáttúru-sýninga, að það virðist nátengt hinum gömlu sannindum, menn sjá það sem þeir vilja sjá og leiða annað hjá sér.


Upprunalega greinin á Skepdic

jogus 11.05.2005
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin )

Viðbrögð


Siggi Örn (meðlimur í Vantrú) - 12/05/05 23:58 #

Vá, fyrri lýsingin að ofan á mjög vel við mig. Ég held að þessi maður hafi raunverulega hæfileika en átti sig bara ekki á því sjálfur:)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.