Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kynvilla og náð

Gunnar Þorsteinsson í Krossinum og Bjarni Karlsson prestur í Laugarneskirkju hafa að undanförnu skrifast á um samkynhneigð og náð á síðum Morgunblaðsins, og sýnist sitt hverjum. Gunnar hefur áunnið sér orðspor sem einn ötulasti hommahatari Íslands, og stendur í þeim efnum báðum fótum í kristinni hefð og bókstafstúlkun sinni á ritningunni. Bjarni er fulltrúi umburðarlyndis og hlýju þjóðkirkjunnar, og vill að menn sýni umburðarlyndi, en vísar þó líka, máli sínu til stuðnings, í sömu ritningu og Gunnar.

Það verður ekki annað séð en að Gunnar hafi á réttu að standa. Kristin trú, kristin hefð og kristin ritning eru á einu máli og taka allar í sama hómófóbíska strenginn. Alfaðir er ekki myrkur í máli þegar hann leggur hina frægu reglu: „ Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.“ (3. Mósebók 20:13) Páll postuli gerir líka grein fyrir atkvæði sínu, t.d. í fyrra bréfi sínu til Kórintumanna, þar sem segir: „Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.“ (1. Korintubréf 6:9-10), og í Rómverjabréfinu þar sem hann segir: „Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.“ (Rómverjabréfið 1:26-27)

Það er ekki að undra að Bjarna verði hált á svellinu. Hann stendur nefnilega í grænsápu upp í hné. Ekki dettur mér annað í hug en að honum gangi gott eitt til og fylgi sannfæringu sinni, en guð segir það berum orðum, að hann þolir ekki kynvillinga. Gunnar Þorsteinsson þarf því ekki einu sinni að segja sína skoðun, hann þarf ekki annað en vera sammála guði. Bjarni, aftur á móti, snýr út úr orðum guðs og leggur honum orð í munn, enda þótt lögmálið banni það.

Bjarni Karlsson mundi gera vel ef hann hugsaði upp á nýtt hvers konar herra það er sem hann þjónar. Sá herra er nefnilega grimmur, fordómafullur, óþolinmóður, óréttlátur, hefnigjarn og sjálfum sér ósamkvæmur – í stuttu máli sagt, algjör leiðindagaur. Hann virðist auk þess hafa lesið Macchiavelli, því eins og voldugum leiðindagaur sæmir þykist hann vera góður og mildur (og lætur meira að segja banna með lögum að menn kalli hann það sem hann er: illa innrætt forneskju hræsnara lufsa sem ætti að skammast sín ef hann væri til í alvörunni).

Bjarni Karlsson meinar vel en veifar röngu tré. Miskunn og umburðarlyndi eru dyggðir sem allir ættu að rækta, en maður fer ekki í geitarhús að leita gulls. Sá gamli geithafur sem kallast guð lumar einfaldlega ekki á siðferðisboðskap sem er nútímanum boðlegur. Þeir tímar eru blessunarlega liðnir, að menn séu grýttir fyrir kynhneigð sína eða konur þurfi að skammast sín fyrir að hafa á klæðum. Gunnar er á heimavelli í fornaldarhugsun og fornaldarsiðferði Biblíunnar. Bjarni hefur siðferðislega rétt fyrir sér, en lendir í þeirri afkáralegu stöðu, að halda því fram að guðinn meini ekki það sem hann segi sjálfur í ævisögu sinni. Bjarni Karlsson er á hærra siðferðislegu þroskastigi en guðinn sem hann trúir á. Guð Biblíunnar á ekki erindi við nútímann nema sem sýningargripur á fornminjasafni.

Vésteinn Valgarðsson 07.05.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Karl - 07/05/05 18:40 #

Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að hann Bjarni skuli vera kristinn (hvað þá prestur!). Ég hef kynnst honum nokkuð og veit að hann getur verið frekar skarpur í hugsun, þessvegna held ég að þetta sé afleiðing heilaþvættis í æsku.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/05/05 19:25 #

Guð Biblíunnar á ekki erindi við nútímann nema sem sýningargripur á fornminjasafni.

Nákvæmlega!


Bjoddn - 07/05/05 22:00 #

Álit almenninga á Gunnari sýnir svart á hvítu hver staða kristninnar á raunverulega að vera hér á landi.

Gunnar má eiga það að hann er sanntrúaður og snýr ekki út úr orði guðs til að afla sér vinsælda.

Hatur fólks á Gunnari er hatur á kristinni trú eins og hún birtist í helgiriti kristinna.

Mér finnst alltaf jafn merkilegt að hlusta á fólk sem telur sig svo voðalega trúað en hefur í raun sína einkatrú þar sem svo heppilega vill til að guð er alltaf sömu skoðunar og viðkomandi í öllum málum.

Það er fjölgyðistrú á Íslandi og guðirnir eru jafn margir þeim er trúa. Að þeir skuli allir heita það sama breytir ekki þeirri staðreynd að hver á sinn guð er þóknast þeim er trúir.

Fólk talar oft eins og Gunnar sé vondur maður því hann hafi svo ljótar skoðanir, en ég er ekkert svo viss um að þetta séu skoðanir Gunnars sjálfs sem hann flíkar, hann treystir bara guði sínum til að hafa rétt fyrir sér og því miður er guð bara ekki skárri persónuleiki en birtist í boðskap Gunnars.

Gunnar sjálfur, hans persóna eða hans álit á hlutunum kemur málinu bara ekki við.

Sá sem hatast út í gunnar og fordæmir hann, hatast út í kristna trú og fordæmir hana.

Þannig er nú það.

Að elta presta er svona eins og að eltast við tískuna... nýjar túlkanir sem elta almenningsálitið á hverjum tíma.

Skilst jafnvel að breyta eigi bókinni helgu til að aðlagast nútíma hugsunarhætti. Allt í einu eru prestar í sjónvarpinu að drepast úr stolti yfir því að bókin sem þeir telja helga og að orð hennar hafi staðið um aldir alda, skuli nú alls ekki hafa meint það sem hefur staðið í hanni hingað til.

Í 2000 ár hefur biblían talað illa um homma, þar til allt í einu núna. Svo er það örugglega bara tilviljun að menn skuli uppgötva þessa vitleysu akkúrat á þeim tíma er almenningsálitið er að breytast.

ojbjakk segi ég nú bara...


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 08/05/05 16:55 #

Gunnar Þorsteinsson, sannur kyndilberi kristninnar.


Human - 09/05/05 00:04 #

Ég sé ekki að spurningin sé hvort einhver "hati" Gunnar eða "lofsyngi" Bjarna. Mér finnst Bjarni hafi góð rök fyrir sínu máli bæði hvað varðar Biblíutextann og túlkun hans. Það að hatast út í Gunnar en eltast við presta í sjónvarpinu er náttúrulega bara rökleysa. Leiða síðan af því að fólk hatist út í Kristna trú er bara áfram örvæntingarfull "rökleysa". Allir vita og allir sjá að túlkun Bibliutextans hverju sinni er algerlega undir skoðun hvers, hverju sinni komið.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/05/05 00:27 #

Það er fullkomlega óheiðarlegt að taka skýran texta sem hentar ekki siðferðiskennd manns og túlka upp á nýtt, í stað þess að hafna honum bara. Hvað er það við þetta fornrit sem færi þig til að dýrka það svona án skilyrða?


Haukur - 09/05/05 14:42 #

Bahaíar halda námskeið fyrir fólk á öllum aldri í því að „skilja“ ritningarnar. Mjög frjálslegt allt saman, túlkaðu ritin eins og þú skilur þau, eftir að þér hefur verið kent að skilja þau rétt.

Það sem ég skil ekki við þessar endalausu túlkanir er það að biblían er ekkert sérstaklega illskiljanlegt rit. Boðskapur hennar er afskaplega skýr. Vinsælasta deiluefnið er sennilega hvort guð hati samkynhneigða.

Ef ég segi skýrt og greinilega, eða skrifa, með réttri stafsetningu og beinni leturgerð:

„Ég hata homma, ég vil drepa homma!“

Hvernig fer fólk þá eiginlega að því að túlka það sem:

„Ég er boðberi umburðarlyndis og vil öllum vel. Samkynhneigðir fyrirfinnast ekki í samfélagi mínu þegar þessi orð eru rituð en ef svo væri vildi ég þeim allt gott.“

???

Spyr sá sem ekkert veit.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 09/05/05 23:39 #

Já, og það er m.a. auðskilið að Biblían er þversagnakennd og það ekki lítið. Það er ekkert sældarbrauð að fylgja í blindni leiðtoga sem gefur misvísandi fyrirmæli. Ekki bætir úr skák ef hann er ekki til í alvörunni...


Aldís - 15/03/06 17:55 #

Ég fer nú að velta því fyrir mér hvað Jesús hefði sagt við tvo karlmenn sem hefðu sagt við hann að þeir vildu verja lífi sínu saman í trausti, og elska og virða hvorn annan ? Getur verið að Biblían sé að tala um líkamlega físn sem karlmenn voru að svala á hvor öðrum á meðan þeir höfðu enn ekki kost á kvonfangi, en ekki ást tveggja einstaklinga (karlmanna) til hvors annars.


Aldís - 15/03/06 18:09 #

Þessi predikun hjá Hildi Bolladóttur segir svolítið sem vert er að hugsa um.

http://www.samtokin78.is/?PageID=32&NewsID=1939


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 15/03/06 18:43 #

Hvað er svona vert að hugsa um í þessari predikun? Ég held að það sé frekar ólíklegt að Páll sé að tala um menn sem geta ekki fundið sér kvennmann.

En alltaf þegar fólk talar um að Jesús hljóti að hafa verið samþykkur samkynhneigð er það án undantekninga að yfirfæra á hann sínar skoðanir:

"Jesús var svo svakalega góður. Mér finnst það rangt að vera á móti samkynhneigð, varla var Jesús það vitlaus að vera ósammála mér. Þannig að Jesús var ekki á móti samkynhneigð"

Fólk ætti bara að sætta sig við það að biblían er á móti samkynhneigð, eða að minnsta kosti kynlífi samkynhneigðra. Það virðist ekki eiga í vandræðum með því að horfa fram hjá því að hún styður þrælahald.


Oliver - 07/05/06 16:28 #

Ég held svei mér þá að Gunnar Þorsteinsson á krossinum sé ekki sá eini sem sé hommahatari því að þá má sjást líka að þessi maður sé það líka. Þessi síða ætti að fá verðlaun fyrir að vera sjálfsfróun fyrir trúarfíkn og undirgefni.


Stefán - 08/05/06 15:45 #

Það er augljóst að ég þarf að taka það að mér að verja Sr. Bjarna Karlsson. Trú, von og kærleikur eru kjörorð kirkjunnar. Það get ég sagt ykkur að eru líka kjörorð Bjarna Karlssonar án þess þó að vita það fyrir víst. Umburðarlyndi hans er ekki aðeins gagnvart samkynhneigðum, þó að það hafi kannski komið skýrast fram síðustu mánuði. Sr. Bjarni er einsog Guð að því leyti að hann elskar alla menn jafnt, meira að segja Gunnar Þorsteinsson. Gunnar Þorsteinsson hinsvegar hefur tjáð það obinberlega að Bjarni Karlsson og allt hans samstarfsfólk í Laugarneskirkju muni brenna í helvíti. Er þetta virkilega maður sem mark er á takandi? Það held ég ekki og hann er ekki á nokkurn hátt boðberi kristinna gilda, trú, von og kærleikur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/05/06 15:59 #

. Gunnar Þorsteinsson hinsvegar hefur tjáð það obinberlega að Bjarni Karlsson og allt hans samstarfsfólk í Laugarneskirkju muni brenna í helvíti. Er þetta virkilega maður sem mark er á takandi? Það held ég ekki og hann er ekki á nokkurn hátt boðberi kristinna gilda, trú, von og kærleikur.

Lúther hélt því líka fram að þeir sem ekki snerust til trúar á Krist myndu brenna í helvíti. Jesús hélt þessu m.a.s. fram sjálfur. Er nokkuð mark takandi á þessum mönnum? Eru þeir í nokkrum takti við boðskap kristninnar um trú, von og kærleika? Eða snýst kannski kristin trú um meira en þetta þrennt? Snýst hún kannski um trú, von, kærleika handa sumum og útskúfun fyrir aðra?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 08/05/06 16:42 #

Ég held að þetta sé bara afar kristilegt hjá Gunnari í Krossinum. Hvernig kom Jesú fram við þá sem voru ósammála honum í guðfræðilegum málefnum? Hann sagði meðal annars:

Mt 23:33 Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?

Ég held að það megi segja það sama um Jesú og þú sagðir um Gunnar: "Er þetta virkilega maður sem mark er á takandi?"


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/05/06 16:48 #

Það breytir því samt ekki að þó viðhorf Gunnars sé að vissu leyti "kristilegra" í þeirri merkingu að það passar betur við Biblíuna, þá er nú viðhorf Bjarna viðkunnalegra þó það standi að einhverju leyti á veikari guðfræðilegum grunni.

Bjarni kemst þó að réttri niðurstöðu að mínu mati þó aðferðirnar sem hann notar til að komast að henni séu meingallaðar.


snorri í betel - 09/05/06 10:04 #

Mér sýnist algengt á svörum ykkar að þeir sem tala gegn kynvillu séu hommahatarar. Tjá menn sig aðeins vegna hatursfullra tilfinninga? Má af þessu draga þá ályktun að þið sem talið gegn Gunnari Þorsteins og mér hatið okkur? Ef það er tilfellið þá er ekkert vit í því að eyða orðum í ykkur. Hatrið blindar skynsemina og opnar leiðina út í andlega eyðimörk, þar freistaði Djöfullinn Jesú !


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/05/06 10:12 #

Mér sýnist algengt á svörum ykkar að þeir sem tala gegn kynvillu séu hommahatarar.

Eina skiptið sem orðið "hommahatari" hefur verið notað hér er í athugasemd. Ég held því að niðurstaða þín sé ekki mjög nákvæm. Annars er algengt að trúarnöttarar segist ekki hata syndarann heldur syndina, þannig segjast öfgatrúmenn eins og Gunnar í krossinum eða Snorri í Betel að þeir hafi ekkert á móti hommum, svo lengi sem þeir séu ekki að hommast. Hatar þú homma Snorri? Annars skrifar Snorri þetta í bloggið sitt: "...kynvilla/ samkynhneigð er synd sem Guði er andstyggð. Hver vill vera andstyggilegur í augum Guðs?"

Tjá menn sig aðeins vegna hatursfullra tilfinninga? Má af þessu draga þá ályktun að þið sem talið gegn Gunnari Þorsteins og mér hatið okkur?

Nei.

Ef það er tilfellið þá er ekkert vit í því að eyða orðum í ykkur.

Það er ekki tilfellið þannig að það er vit í að eyða orðum í okkur.

Hatrið blindar skynsemina og opnar leiðina út í andlega eyðimörk, þar freistaði Djöfullinn Jesú !

Kristni er í eilífðar glímu við skynsemina þannig að ég sé ekki hvað þú ert að kvarta.


Jonas - 10/05/06 12:16 #

Lesið þið þetta, þá sjáið þið hvað hægt er að æsa upp trúarfólkið á vefsíðu Snorra í Betlehem Alveg gjörsamlega er þetta fólk óþolandi

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.