Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hinn undarlegi veruleiki samkynhneigðra kristinna trúmanna

Það sem hér fer á eftir er þýðing Birgis Baldurssonar á grein eftir kanadíska hommann David Rand. Greinin er afar athyglisverð úttekt á stöðu samkynhneigðra í samfélagi sem litast af fornum hindurvitnum. Hér eru komin enn ein rökin fyrir ömurleika þeim og skaða sem kristin viðhorf valda í samfélaginu. Það er ósk okkar að því ófremdarástandi sem stafar af kristnu siðgæði létti sem fyrst.

Hinn undarlegi veruleiki samkynhneigðra kristinna trúmanna

David Rand

Þeir sem úthýsa vilja fóstureyðingum, getnaðarvörnum og [giftingum] samkynhneigðra, en hampa á sama tíma fjölskyldugildum og undaneldi eru hin raunverulega ógn við tilvist mannkynsins.

Gore Vidal, The Nation, 1991

Vafasöm fordæming samkynhneigðar er vel þekkt og skráð afsprengi kristinnar hefðar og sögu. Þessi hefð á sér eldri forsendur í gyðingdómi, en þaðan þróaðist kristindómurinn.1 Biblían hefur að geyma allmargar berorðar fordæmingar á samkynhneigð.2 Jafnvel þótt sagan beri þess vitni að íslömsk samfélög hafi stundum sýnt samkynhneigð meira umburðarlyndi en hin kristnu og gyðingdómurinn þá hljóða íslamskar kennisetningar upp á samskonar fordæmingu og er það staðfest með raunverulegum dæmum (eitt öfgafullt slíkt er skeiðið þegar Talíbanar ríktu í Afganistan). Leiðtogar og formælendur eingyðistrúarbragðanna þriggja (gyðingdóms, kristni og íslam) munu áfram um sinn gefa út yfirlýsingar sem hefja þetta yfir allan vafa. Einstaka frjálslyndar kirkjudeildir eru byrjaðar að mildast í afstöðu sinni og jafnvel eru þess dæmi að þær viðurkenni samkynhneigð pör og fallist á hjónabönd fólks af sama kyni. Þær eru þó enn á jaðri meginstraums kristinnar andúðar í garð samkynhneigðra.

Í ljósi þessara sagnfræðilegu staðreynda kemur það ef til vill á óvart að sjá að allnokkur kristin samfélög hafa orðið til á síðustu áratugum innan hreyfingar homma og lesbía. Þekktast þeirra er Metropolitan Community Church (MCC). Tilkoma samkynhneigðra kristilegra samfélaga er að mestu bandarískt fyrirbæri, með nokkrum undantekningum þó, aðallega í öðrum enskumælandi samfélögum. Þetta má að hluta til skýra út frá hinu mótsagnakennda eðli sem jarðvegur félags- og stjórnmála í Bandaríkjunum býr yfir. Bandaríkin eru auðugt og þróað samfélag, þar sem lífsgæðin eru almennt í nokkuð háum gæðaflokki, jafnvel þótt enn sé mikill munur á hlutskipti ríkra og fátækra. Persónufrelsi borgaranna þykir mönnum gríðarlega mikilvægt, þrátt fyrir nýleg dæmi um að núverandi stjórnvöld hafi gengið freklega á þann rétt. Einnig býr þetta samfélag að því að sá grundvöllur, sem komið var á í anda upplýsingastefnunnar á átjándu öld, kveður á um aðskilnað ríkis og kirkju, þrátt fyrir að í seinni tíð hafi sú regla verið brotin í þýðingarmiklum atriðum. Á hinn bóginn hefur trúrækni, sér í lagi kristindómur með öllum sínum bókstafstrúarafbrigðum, náð að breiða mun meira úr sér í Bandaríkjunum en í öðrum háþróuðum samfélögum og trúarleg hómófóbía er enn hættulega algeng. Hreintrúarstefna og trúarlegar öfgar pílagrímanna í Nýja Englandi á sautjándu öld lifa góðu lífi í Bandaríkjum nútímans.

Að sækjast eftir viðurkenningu á vitlausum stöðum

Þegar settur hefur verið smánarblettur á hóp manna, hann fordæmdur og meðhöndlaður af fullkominni lítilsvirðingu á öllum sviðum þjóðfélagsins (og sér í lagi þeim sem tekið hafa sér úrskurðarvald í krafti siðferðis), eins og raunin er með samkynhneigða má búast við því að margir úr röðum þeirra reyni að falla að meginstraumum mannlífsins og sýni af sér auðsveipni. Þessi þörf fyrir að hjúpa sig sómaklæðum er án efa einn stærsti þátturinn í stofnun og viðgangi kristlegra hreyfinga samkynhneigðra. Tilvist slíkra trúarhópa, í ljósi alkunnrar kúgunar kristninnar gegnum tíðina á samkynhneigðum, er sorgleg - en þó skiljanleg.

Það mætti líta á það sem ágætt kjaftshögg á hómófóbísk afturhaldsöfl kristninnar að koma á fót kristnum hreyfingum sem jákvæðar eru í garð hýrra, berjast við eld með eldi, ef svo má segja. Slíkar hreyfingar gætu þar að auki þjónað sem jákvæður stuðningur við þá einstaklinga sem er að kljást við samkynhneigð sökum hómófóbíu hinnar trúarlegu arfleiðar. Þó ætti það hlutverk aðeins að vera um stundarsakir vegna þess, þegar öllu er á botninn hvolft, að hin neikvæða niðurstaða slíkrar þátttöku samkynhneigðra í kristnu samfélagi skyggir á öll hin jákvæðu áhrif.

Stundum vitna hýrir trúmenn í Jóhannesarguðspjall 8:7 - „Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.“ - veikburða tilraun til að snúa niður vandlætingu hina hómófóbísku kristsmanna. En þessi yfirlýsing er steingeld. Hún jafngildir sektarviðurkenningu og færir fyrir því rök að vanþóknun manna sé réttlætanleg, en stilla ætti henni í hóf þar sem allir eru hvort eð er sekir. Það er varla hægt að láta sér detta í hug brothættari vörn.

Af hverju ætti nokkur samkynhneigð manneskja að ganga svo á svig við eigin hagsmuni að aðhyllast trúarbrögð sem stuðla að andúð á samkynhneigðum og sem kennir þeim samkynhneigðu sjálfum að burðast um með sjálfshatur og sjálfsvorkunn? Er verið að hafa þetta fólk að ginningarfíflum hins falska orðagjálfurs þegar menn segjast „elska syndarann en hata syndina“, sem ýmsir hómófóbískir kristsmenn notast við til að tóna niður ofstæki sitt? (Ef þetta hómófóbíska fólk væri heiðarlegt í afstöðu sinni, myndi það að minnsta kosti styðja á einhvern hátt rétt samkynhneigðra þrátt fyrir siðferðilega andúð sína.)

Sumar konur taka íslam opnum örmum, þessum mestu kvenhaturstrúarbrögðum af þeim öllum, svo ættu hinir samkynhneigðu nokkuð að vera ónæmari fyrir því að falla í sömu gryfju? Kristnir hommar og lesbíur ganga þó lengra og stofna sérstakar kirkjudeildir, eða jafnvel alveg nýjar kirkjur í ásókn sinni eftir að taka trú kúgara sinna. Dæmi um þetta er MCC, sem segist vera „alþjóðlegt vináttufélag kristinna kirkjna, með það að markmiði að rétt út hjálparhönd til samfélaga samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og kynskiptinga“, en við getum rétt eins kallað þetta hýra kirkju, svikakirkju sem reynir að endurhanna kristindóminn með því að losa hann við hómófóbíuna.

Ef kristnin hefur ekki rétt fyrir sér þegar kemur að samkynhneigð, eins og kristilegt, hýrt fólk heldur fram, er þá ekki rétt að spyrja hvað annað gæti verið athugavert við þessi trúarbrögð? Er yfir höfuð eitthvað rétt við kristindóminn, eitthvað sem rétt er að varðveita? Samkynhneigt trúfólk veltir slíkum spurningum ekki einu sinni fyrir sér. Aðrir samkynhneigðir, sem trúaðir eru án þess þó að vera kristnir, gefa það upp að skipulögð trúarbrögð í það heila, og sér í lagi hinar kristnu stofnanir, séu gölluð alveg niður í rót, en tala þó um mikilvægi „sannrar trúar“, hvað svo sem það nú er. Ef menn fallast hins vegar á hlutina einungis vegna trúar sinnar, hvernig getum við þá vitað hvort hinir kristnu ofstækismenn hafi ekki bara rétt fyrir sér þegar öllu er á botninn hvolft? Ef við látum skynsemina sigla sinn sjó í krafti trúarinnar er hvað sem er leyfilegt og hómófóbían þar með.

Þegar Biblíuvers, þar sem samkynhneigð er fordæmd, eru borin undir hýra trúmenn, byrja þeir gjarna að blása upp moldroki yfir því hvernig þau eru þýdd og halda því fram að þarna sé einungis átt við lausláta samkynhneigða hegðun, eða vændi og þar fram eftir götum. En þegar hegðun hinna kristnu er skoðuð í raunsæju ljósi sést að þessi skarpskyggni hengir sig í tvírætt orðalag og skyggir á aðra spurningu sem samkynhneigðir trúmenn forðast að spyrja sig: Hvaða máli skiptir það hvað stendur í þessu safni goðsagna tiltekinna ættflokka sem gengur undir nafninu Biblía? Hvaða áhuga annan en sögulegan og fræðilegan ættum við að hafa á yfirlýsingum þaðan um samkynhneigð eða eitthvert annað umfjöllunarefni?

Staðreyndin er sú að samkynhneigðir hafa alltaf verið og munu áfram verða fyrir sálrænum ofsóknum af þeirri viðstöðulausu kristilegu þráhyggju sem fordæmir alla kynhegðun sem ekki er beinlínis ætluð til undaneldis. Þetta, ásamt hinni undirliggjandi hugmynd eingyðistrúarinnar, að guðstrú sé frumforsenda allrar siðlegrar og góðrar breytni, leggur grunninn að öflugri tilfinninglegri árás sem gengið hefur mjög nærri þeim sem ekki falla í kramið og stimplar þá sem síðra fólk í siðferðilegu tilliti.

Jafnvel er hið vinsæla slagorð „Gay Pride“ aðeins hin hliðin á þessum peningi skammarinnar sem lesbíum og hommum er innrætt af kristindóminum. Slagorðinu er ætlað að vera ögrandi vatnsgusa í andlit fólks, þar sem skömminni er skipt út fyrir stolt, en verður til þess að minna okkur á skömmina til jafns við ögrunina. Í raun á hvorug tilfinningin við, hvorki skömm né stolt. Kynhneigð einstaklingsins er aðeins einn þáttur í heildarmynd hans og hvorki þörf á því að skammast sín né vera stoltur yfir henni.

Fyrrum og fyrrum-fyrrum

Sé helvíti til er það áreiðanlega að finna i svonefndum hreyfingum fyrrum-samkynhneigðra. Exodus-hreyfingin er sennilega frægust þeirra. Þrátt fyrir að flestar kristilegar hreyfingar leitist við að byggja gildi sín á því að samþykkja homma og lesbíur og bjóða þetta fólk velkomið í sinn hóp, þá aðhyllast þessar hreyfingar fyrrum-samkynhneigðra að öllu leyti hina hefðbundnu kristnu fordæmingu. Þessar hreyfingar, gegnumsýrðar af bókstafstrúarkreddum, staðhæfa að samkynhneigð megi lækna, eða í það minnsta halda í skefjum, með öflugri ástundun kristinnar trúar. Þessar fullyrðingar flokkast í besta falli undir gervivísindi, enda hafa allar tilraunir til að breyta kynhneigðum manna mistekist frá því þær hófust fyrir fáeinum áratugum.

Exodus-samtökin og önnur álíka notast við háttbundið kristilegt tungutak og tala um „ást“ og „virðingu“ fyrir hinum samkynhneigða einstaklingi, en augljós er þó lítilsvirðingin þar á bakvið. Þessir fyrrum-samkynhneigðu hjá Exodus og álíka hópum eru brjóstumkennanlegur hópur. Endrum og sinnum komast þeir í blöðin þegar þeir heltast úr lestinni og verða, ef svo má segja, fyrrum-fyrrum-samkynhneigðir. Myndin One Nation under God, frá árinu 1993, fjallar um tvo karlmenn sem báðir voru í forystusveit Exodus, en yfirgáfu samtökin þegar þeir urðu ástfangnir hvor af öðrum.3

Samkynhneigð og kaþólska kirkjan

Ekki væri hægt að afgreiða nokkra umræðu um samkynhneigð og kristindóm án þess að beina sérstakri athygli að hinni rómversk-kaþólsku kirkju, að hluta til sökum þess hve mikilvægt hið miðlæga hlutverk hennar innan kristninnar er, en ekki síður fyrir tilhögun prestsembætta, sér í lagi hið valdskipaða einlífi. Barnaþrá og bæði kynferðisleg og líkamleg barnamisnotkun kaþólskra presta hefur hlotið gífurlega athygli. Eins og sumir þeir sem fylgst hafa með þessu benda á þá eru hinir ungu karlkynsþátttakendur í þessu flestir á unglingsaldri og því betur við hæfi að kalla þetta unglingaþrá. En jafnvel eftir slíka leiðréttingu er sem flestir hafi látið það sem máli skiptir fram hjá sér fara: Þegar heil stétt manna er gefið „himneskt“ vald en um leið neitað um eina af grunnþörfum mannsins, kynferðislega hegðun, þá munu tilraunir til að uppfylla þessa þörf gegnum misnotkun valds verða óumflýjanlegar. Prestar eru að því er virðist fulltrúar Guðs gagnvart söfnuði sínum. Það ætti ekki að koma á óvart að sumir þeirra misnoti sér þetta vald til að hljóta kynferðislegan greiða. Þegar þetta blandast síðan við fordæmingu kristninnar á kynlífi sem stundað er til ánægju, og þá sér í lagi samkynhneigð, þá erum við komin með eldfimt ástand sem valdastrúktúr kaþólskunnar getur ekki lengur stungið undir stól.

Þeir sem halda uppi vörnum fyrir kaþólskuna núa hendur sínar og fordæma hvernig samkynhneigð hefur síast inn í prestastéttina, en andóf þeirra litast af hræsni. Hátt hlutfall hýrra karla í kaþólskri prestastétt hefur um langan aldur verið opinbert leyndarmál. Samt sem áður má ekki horfa fram hjá því að þeir prestar sem ástunda kynlíf, og þá sér í lagi með sama kyni, samþykkja þessa hræsni kirkjunnar. Fyrir mörgum áratugum, þegar hómófóbía var sterkari í samfélaginu gæti prestsstarfið hafa fallið ungum hommum vel til að flýja hið þvingandi andrúmsloft, það hvernig allt umhverfið þrýsti á fólk að gifta sig, og komast í öruggan karlaheim. En er það mögulegt nú, þegar 21. öldin er gengin í garð og staða hýrra karla hefur batnað til muna (sem er ekki kristindómnum að þakka), að hafa samkennd með nokkrum þeim homma sem er nógu mikill bjálfi til að gerast kaþólskur prestur? Gæti hann með nokkru móti verið ómeðvitaður um hveru afkáralegt starfsval hans væri og alla þá sálarangist sem það ætti eftir að kosta hann? Jafnvel hinn óbreytti hommi eða lesbía sem aðeins er meðlimur kaþólsku kirkjunnar þarf að spyrja sig háalvarlegra siðferðisspurninga - ekki spurninga um siðferði í kynlífi, heldur frekar velta fyrir sér vitsmunalegum heiðarleika sínum og ráðvendni.

Hvað varðar samtök hýrra kaþólikka sem kallast Virðing (Dignity), þá er það nafn aðeins lélegur brandari. Rómversk-kaþólsk yfirvöld eru á kreddufullan hátt andsnúin allri opinni og heiðarlegri umræðu um samkynhneigð. Meðlimir Virðingar eru því í þeirri svikastöðu að þykjast vera kaþólskir þegar kirkjan sjálf hafnar þeim fullkomlega í raun og veru. Vanvirðing væri fremur réttnefni.

Við verðum að varpa þessari spurningu til allra þeirra sem eru svo barnalegir að reyna að færa kaþólsku kirkjuna til betri vegar, með því að fara þess á leit að prestar hennar fái að giftast, eða ganga jafnvel með þá ólíkindalegu bón í brjósti að kirkjan samþykki samkynhneigð: Jafnvel þótt slíkt væri gerlegt, hví yfirleitt að reyna það? Hvaða vit væri í því að reyna að siðbæta stofnun sem er og hefur alltaf verið andskynsamleg í grunninn?

Fátt er svo með öllu illt...

Kristnir hommar og lesbíur hafa, í örvæntingarfullri leit sinni að virðingu, algerlega misst af ávinningnum sem felst í að standa á mörkum þess að hljóta virðingu samfélagsins. Þessi framandgerving og höfnun sem hinir hýru hafa almennt þurft að þola hefur á sér aðra hlið - boðar nokkuð gott, ef svo má segja: Einstakt tækifæri býðst til að athuga og gagnrýna á hlutlægari hátt en ella þann meirihluta fólks sem útilokað hefur okkur. Getan til að sjá hlutina utan frá gefur möguleika á að endurhugsa það sem annað fólk tekur sem gefið.

Hinn samkynhneigði, sökum þess að hann er þvingaður af persónulegum kringumstæðum til þess að spyrja út í hin kynferðislegu norm skyldu-gagnkynhneigðarinnar, getur snúið þessari jaðarstöðu sinni sér í hag, með því að beina ljósi að öðrum sjálfgefnum hugdettum um hvað telst eðlilegt ástand, t.d. hvort trúarbrögð séu það, föðurlandsást, eða hvert það svið samfélagsins þar sem slíkar hugdettur eru viðurkenndar, í stjórnmálum, félagsmálum, listum, fagurfræði og þar fram eftir götum. En þess í stað sólundar hinn samkynhneigði þessu tækifæri og hraðar sér með höfuðið á undan í þveröfuga átt beinustu leið í faðm lágkúrunnar og fylgispektarinnar. Þessi þráhyggja sem felst í að þurfa að sanna það að Biblían sé ekki í alvöru hómófóbísk þjónar aðeins þeim tilgangi að réttlæta þá Biblíudýrkun sem er stærsta orsök vandamáls okkar. Góðvinur minn orðaði þetta með eftirfarandi hætti:

Þessi kúgandi meðvitund um það hvað ég er „öðruvísi“, hefur gefið mér færi á að sjá heiminn í nýju ljósi og gefur, þrátt fyrir að hafa valdið svo miklum þjáningum, möguleika til að þróa með mér einstaka næmni, sem hefur svo gagnast mér í leit minni að heimspekilegum sjónarhóli og almennt í lífinu. Hún hefur gefið mér getuna til að hugsa á sjálfstæðari og gagnrýnni hátt.


1 John Lauritsen, „Religious Roots of the Taboo on Homosexuality,“ bæklingur unnin upp úr erindi fluttu hjá Scholarship Committee of the Gay Academic Union í New York City árið 1974

2 Úr gamla testamentinu: „Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.“ (Þriðja Mósebók 18:22). „Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.“ (Þriðja Mósebók 20:13). Úr nýja testamentinu: „Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.“ (Rómverjabréfið 1:26-27).

3 One Nation under God frá árinu 1993, leikstýrt af T. Maniaci og F.M. Rzeznik.

Ritstjórn 28.04.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Guðjón - 28/04/05 09:21 #

"Það er ósk okkar að því ófremdarástandi sem stafar af kristnu siðgæði létti sem fyrst."

Hvernig teljið þið best að gera það?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/04/05 12:22 #

Með uppfræðslu.


Siggi Örn (meðlimur í Vantrú) - 28/04/05 14:19 #

Af hverju ætti nokkur samkynhneigð manneskja að ganga svo á svig við eigin hagsmuni að aðhyllast trúarbrögð sem stuðla að andúð á samkynhneigðum og sem kennir þeim samkynhneigðu sjálfum að burðast um með sjálfshatur og sjálfsvorkunn?

Ég efast um að samkynhneigðir velji sér kristni eftir að þeir koma út úr skápnum (án þess að ég viti nokkuð um það). Líklegra er að fólk alist upp í kristni og hafi upplifað hana sem fallega, kærleiksríka og meinlausa þar til það kemur út úr skápnum og byrjar að mæta mótbyr. Ég get vel skilið að þá sé erfitt fyrir suma að sleppa takinu. Þetta er ekki ósvipað því þegar foreldrar afneita barni sínu þegar það kemur út úr skápnum. Ég held að fæstir bregðist þannig við að þeir segi: ,,Iss, mamma er greinilega rugluð, ég slít bara öllu sambandi við hana". Ég átta mig á því að þessi samlíking á ekki við að öllu leyti en hún útskýrir hugsanlega þær tilfinningar sem fólk þarf að eiga við.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/04/05 14:23 #

Góður punktur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.