Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Heiðarleysingjar

Ég hef verið að velta fyrir mér heiðarleika innan trúarbragðanna, eða öllu heldur skortinum á honum. Eftir því sem málið er betur skoðað, því betur kemur í ljós hvílíkur óheiðarleiki er við völd hjá þeim sem hafa gert guði að yfirvaldi sínu. Menn ljúga stanslaust bæði að sjálfum sér og öðrum.

Bara það að menn skuli ákveða með sjálfum sér að óskhyggja þeirra sé sannleikur er fullkomlega óheiðarleg afstaða, sér í lagi þegar búið er að benda þeim á að heimsmynd þeirra standist ekki rök. Og þessi óheiðarleiki er jafnvel upphafinn og afgreiddur sem göfgi.

Hér hafa menn úr ýmsum afkimum hins kristna költs tjáð sig í viðbrögðum undir greinunum okkar. Mest ber þó á Jóni Vali Jenssyni og einhverjum sem kallar sig mofi. Þessir menn eru af ólíkum stofnum kristsmanna, enda telur mofi Jón Val ekki einu sinni kristinn, heldur jafnvel frekar meðlim í kirkju djöfulsins. Jón Valur nefnilega kaþólskur.

Ég skil ekki hvernig nokkur heiðarlegur maður getur verið kaþólskur. Ekki nóg með að kaþólska kirkjan hafi gegnum aldirnar verið grimmilegt ofurvald, heldur víla æðstuprestar hennar ekki fyrir sér að ljúga blákalt að þegnum sínum, jafnvel með skelfilegum afleiðingum.

Þannig halda kardínálar þessa költs fáfróðum smælingjunum, sem undir ofurvald þeirra eru settir, í þeirri trú að smokkar séu ekki góð vörn gegn alnæmi og jafnvel að alnæmisveiran búi í smokkum og dreifist með þeim.

Þetta er lygastofnun. Við sem sæmilega upplýst erum vitum sem er að þetta er ómerkileg og viðbjóðsleg haugalygi. Hvers vegna erum við þá svermandi fyrir þessari andstyggðarkirkju, samþykkjandi að páfafíflið sé sendiboði guðs á jörðu og látandi okkur einhverju varða hvort hann lifir eða deyr, ellegar hver tekur við stöðu hans.

Við liggjum í þessum fréttum eins og þetta sé eitthvað merkilegt.

Jón Valur er sennilega haldinn öflugu tvísinni, getur talið sjálfum sér trú um að smokkalygi æðstuklerkanna hans séu á einhvern undursamlegan hátt sannleikur. Þess vegna fordæmir hann ekki lygarnar, en heldur uppi vörnum fyrir þá menn sem sýna af sér þessa óheiðarlegu hegðan. Hann er enda búinn að telja sjálfum sér trú um að eitthvað sé rangt við það að nota smokk sér til varnar. Já og að eitthvað sér athugavert við kynlíf sem fólk stundar sér til ánægju.

En það eru ekki bara kaþólskir sem ástunda óheiðarleik við skoðanamyndun sína. mofi tekur til að mynda ekki heiðarlega afstöðu til fyrirliggjandi gagna þegar kemur að því að meta þekkingu okkar á heiminum og lífinu. Það er honum svo mikilvægt að Biblían hans sé rétt að engin rök, sama hve góð þau eru, mega skyggja á þá óheiðarlega fengnu niðurstöðu.

Svo eru það prestar Þjóðkirkunnar. Þeir þurfa allir að fara í gegnum guðfræðinám sem þeir sjálfir segja að sé svo sekkjúlar að mjög hafi reynt á trú þeirra þar inni. Og niðurstaða þessa náms er sú helst að Biblían sé aðeins skýrsla um reynslu mannanna af guðinum sem þeir trúa á og það sé kærleiksboðskapur Jesú sem skipti máli, ekki það hvort hann var guð eða lifði dauðann af.

En svo verða þessir menn prestar og þá ríður á að gleyma öllu sem þeir hafa lært, því eins og við vitum boða prestar það frá altarinu að Jésús hafi einmitt verið guð sem reis upp á þriðja degi og eigi eftir að koma aftur.

Námið hefur þó kennt þeim að vita betur.

Af hverju má ekki breyta boðun kirkjunnar, færa hana til samræmis við það sem um er að vera í guðfræðinni? Af hverju þurfa prestar að taka þetta nám, ef þeir fara svo ekkert eftir því sem þeir hafa lært, heldur halda sig við fullkomlega við miðaldaboðskapinn?

Það af því að þeir eru óheiðarlegir.

Að trúa er að ljúga. Ljúga að sjálfum sér að heimurinn sé eins og maður óskar sér að hann sé. Ljúga því svo að öðrum að mýtur fornaldar séu heilagur sannleikur. Og þegar sýnt er fram á bullið með rökum er þeim ekki mætt með mótrökum heldur farið í fýlu og gagnrýnendunum úthúðað fyrir orðalag, ef ekki finnst betri átylla.

Slík er hegðun heiðarleysingjanna.

Birgir Baldursson 24.04.2005
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.