Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kraftbirtingarhljómur almættisins

Á sjónvarpsskjám um gervallan heim birtist okkur ungur maður. Hann er líklega rétt kominn á þrítugsaldurinn.

Í fyrstu er okkur óljóst hvað hrjáir hann, en svipurinn ber vott um djúpar tilfinningar. Hann teygir kreppta hnefa og ástríðuþrungið andlit sitt til himins, hann rykkist upp og niður í hnáliðunum einsog af einhverju óþoli í fótunum, eða langbældum þvaglátum, tárin renna úr samanherptum augum hans, og titrandi varir bærast taktfast milli ekkasoganna. Það leynir sér ekki að ungi maðurinn berst við mikla geðshræringu.

Ósjálfrátt fyllumst við meðlíðan. Hvað er það sem veldur þessum unga manni svo óumræðanlegri sorg?

Svo rennur upp fyrir okkur ljós er við heyrum hróp hans "Papa Papa Papa" í sífellu. Þetta er gleðivíma.

Hefur hann heimt löngu týndan föður sinn úr helju ?

Sjónarhorn myndavélarinnar víkkar og við sjáum að hann er ekki einn. Ungi maðurinn stendur á stóru torgi umkringdur mannfjölda þar sem flestir virðast deila með honum þessari djúpu geðshræringu. Af lotningarfullu látæði fjöldans mætti ætla að Guð sjálfur væri þar nærstaddur. Margir virðast þreytulegir, enda komnir um langan veg, sumir um hálfa veraldarkúluna, og búnir að bíða lengi á torginu. Á svölum uppi yfir torginu stendur gamall þýskur kall. Hann er klæddur svo mörgum lögum af kyrtlum og hökklum, og með svo marga bróderaða klukkustrengi á herðunum að höfuð hans gerir vart meira en að standa upp úr.

Stundu áður höfðu aðrir gamlir kallar ákveðið að hann skyldi vera guð á jörðu, og sjálfur hafði hann gefið sér nafnið "Hinn blessaði". Hinn sjálfblessaði getur nú blessað aðra. Að vísu hafði honum ekki gefist innblástur eða tími til að læra blessunina, en það kemur ekki að sök þar sem költbræður hans eru reiðubúnir að halda fyrir hann pappaspjöldum að lesa af svo lengi sem þeir hafa mátt í hnjánum í nærveru hans.

Hvílík dýrð. Hvílík upplýsing.

Heimurinn hefur fengið endurnýjað og ferskt afturhald. Er nema von að lýðurinn fagni af öllu hjarta sínu og allri sál sinni.

Árni Árnason 23.04.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.