Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Nýja grænsápubiblían

Nýlega áttust við í sjónvarpsþætti þeir Gunnar í Krossinum og presturinn Bjarni Karlsson. Efnið var samkynhneigð og afhommun. Það var súrt að sjá trúarfasistann Gunnar baka prestsgreyið í þessari umræðu, með því einfaldlega að vitna í það sem Biblían segir. Bjarni gat lítið annað en reynt að ljá orðum Biblíunnar nýja merkingu, grænsápast með þau á alla kanta.

En það athyglisverðasta þarna var þegar Bjarni dró úr pússi sínu uppkast að nýrri Biblíuþýðingu, þýðingu þar sem búið er að breyta merkingu fjölda Biblíuversa nútíma siðferði í hag. Áður hafði hann gengið svo langt í leit sinni við að verja málstað sinn að halda því fram að Páll postuli hafi ekki þekkt til samkynhneigðar og eigi ekki við ástir tveggja karla í Rómverjabréfinu heldur það þegar karlmenn tæla piltbörn. Og í nýju þýðingunni las hann vers þar sem búið var að taka hugtakið mannhórur og breyta í einhverja þá sem leita á börn.

Gerólík merking þar á ferð.

Þegar farið er að líta í þessa nýju þýðingu kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós. Sjáið t.d. þessi orð Jesú Krists í Lúkasi 14:26:

Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.

Í nýju þýðingunni er þetta orðið:

Enginn getur komið til mín og orðið lærisveinn minn nema hann taki mig fram yfir föður og móður, maka og börn, bræður og systur og enda yfir eigið líf.

Hvað er í gangi? Nú fer ekkert á milli mála að í Biblíuþýðingum annarra tungumála er átt við hatur. Þeir sem til þekkja segja að í Lúk 14:26 þýði sögnin μισεω (misew) einfaldlega að hata*. Á öðrum stöðum sama guðspjalls fer það varla á milli mála:

Lúkasarguðspjall 1:71
frelsun frá óvinum vorum og úr höndum allra, er hata oss.

Lúkasarguðspjall 21:17
Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns,

Hinir nýju þýðendur Biblíunnar víla ekki heldur fyrir sér að breyta sverðinu sem Jesús talar um í sundrungu. Mattheus 10:34 var áður svona:

Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð.

Nú stendur til að þetta verði þannig:

Ætlið ekki að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið heldur valda sundrungu.

Grískufróðir segja að í Matt 10:34, þar sem stendur μαχαιρα (machaira), þýði það einfaldlega sverð*. Á öðrum stöðum er það þýtt þannig:

Matt 26:55
Á þeirri stundu sagði Jesús við flokkinn: ,,Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig? Daglega sat ég í helgidóminum og kenndi, og þér tókuð mig ekki höndum.

Klárlega er þessi nýja þýðing fullkomlega óheiðarleg, því með henni er merkingu versa breytt, til að þau verði ögn afsakanlegri á mælikvarða nútímalegs siðferðis.

Þessi nýja Biblíuþýðing er því skandall. Skandall sem hefur kostað skattgreiðendur tugi milljóna. Menn geta ekki bara si-sona breytt merkingu þessa trúarrits eftir hentugleikum, sveigt allt það óþægilega til einhverrar merkingar sem auðveldara er að verja. Þá væri miklu nær að henda bara þessari skruddu og boða í stað þess heilbrigt og nútímalegt almennt siðferði.

En þá verða hindurvitnin reyndar líka á víkja og því ekkert eftir sem gerir kirkjuna að kirkju. En gerir það nokkuð til? Siðferðisþróunin þarfnast síst af öllu kirkju.


* Hjalti Rúnar Ómarsson fær þakkir fyrir þessar ábendingar.

Birgir Baldursson 15.04.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Ormurinn - 15/04/05 11:07 #

Ég las (held ég í Fréttablaðinu) að Gunnar í Krossinum hafi einmitt verið að gagnrýna þessar breytingar harkalega á vefsíðu sinni.

Skil annars ekki hvað menn eru að æsa sig yfir breytingum á hinni heilögu skruddu. Það er nú ekki eins og þetta séu fyrstu og einu breytingarnar sem gerðar hafa verið á henni í gegnum aldirnar.

Það er náttúrulega hlægilegt að halda því fram að þarna standi guðs orð þegar vitað er að menn hafa verið að krukka í textanum fram og aftur síðustu 2000 árin.


mofi - 15/04/05 11:26 #

Sammála greininni, alveg fáránlegt að vilja halda Biblíunni en bara breyta henni þar sem einhverjir hlutir henta manni ekki.

Skil annars ekki hvað menn eru að æsa sig yfir breytingum á hinni heilögu skruddu. Það er nú ekki eins og þetta séu fyrstu og einu breytingarnar sem gerðar hafa verið á henni í gegnum aldirnar.

Hugsum nú aðeins út í þetta. Er hægt að t.d. breyta Biblíunni í dag? Hvað þyrfti maður að gera?


Árni Árnason - 15/04/05 11:29 #

Varla eru menn hissa á þessu. Það vita allir sem vilja vita að biflían er ekki innblásin af guði. Hún er samin af mönnum, misvitrum, og síðan er henni ritstýrt og hún margritskoðuð af bissnessmaskínu sem heitir Kirkja. Alla tíð hafa þýðingar ritskoðun og endurútgáfur þessa rits þjónað hentistefnu þessarar milljarðagróðamaskínu. Það er engin kenning sem heitið getur, heldur hreinn og klár "popularismi". Nú heitir það ( a.m.k. hjá Talíbananum Gunnari í Krossinum ) að gamla testamentið sé upphafið, og gert ógilt með því nýja. Ég vona bara fyrir þeirra hönd sem standa að nýrri biflíuútgáfu að þeir sér a.m.k. jafninnblásnir af guði og upphaflegu höfundarnir.

Ekki er öll vitleysan eins.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/04/05 11:38 #

Eftir því sem siðferðinu fleygir fram og þetta orð Guðs verður meira og meira á skjön, því meiri þörf fyrir að færa það til skárri vegar. En grein mín gengur út á að benda á hve óheiðarlegt slíkt athæfi er, þegar menn á sama tíma halda því fram að versin séu innblásin af Guði almáttugum.

Þetta er kallað Guðs heilaga orð og jafnframt haldið fram að það muni standa um aldir alda. Je ræt!

Væri ekki heiðarlegra að viðurkenna bara að þetta fornmannarit er meingallað og getur engan veginn legið til grundvallar nokkru því sem við í dag vitum og aðhyllumst? Af hverju geta menn það ekki? Hvar er heiðarleikinn sem kristnin þykist boða?


mofi - 15/04/05 12:40 #

Hvar er heiðarleikinn sem kristnin þykist boða?

Ekki í þjóðkirkjunni og alls ekki hjá þeim mönnum sem standa fyrir þessari nýju þýðingu.

En hvernig er það, haldið þið að það sé hægt að breyta Biblíunni í dag?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/04/05 12:58 #

Um það snýst ekki málið, heldur að átta sig á því að hún er ekki marktækt plagg þegar kemur að vitneskju og viðmiðum. Burt með þessa forneskjudrullu úr nútímasamfélagi!


mofi - 15/04/05 14:30 #

Biblían hefur sýnt aftur og aftur að hún er eitt áreiðanlegsta skjal um fortíðina sem við höfum. Fornleifafræðin hefur aftur og aftur staðfest að Biblían fer alltaf með rétt mál. Þú getur verið svo sem ósammála einhverju í henni og ekki trúað því sem er ekki sannanlegt eða þeim kraftaverkum sem tilgreind eru í henni en sem söguleg heimild er hún gífurlega mikils virði og traustsins verð.


Ívar - 15/04/05 14:41 #

Það er ekki ólíklegt að eitthvað af því sem stendur í þessu riti sé satt og rétt. En það eru líklega helst atburðir eins og hið svokallaða syndaflóð, sem hefur líklega verið eitthvað í líkingu við hörmungarnar í Asíu í lok síðasta árs. Flóðið hefur mjög líklega orðið, en það að einhver Nói hafi á örskotsstundu farið sem stormsveipur um jarðkringluna og safnað saman tveimur eintökum af öllum lífverum jarðar er þvættingur.

Allar sögur af "kraftaverkum" og annarri yfirnáttúru eru líklega endursagnir manna sem hafa verið blekktir af öðrum mönnum af holdi og blóði. Þá er líklegt að margir af hinum fjölmörgu höfundum biblíunar hafi einfaldlega verið handbendi áhrifamanna og skrifað það sem til þurfti til þess að ná stjórn á almenningi. Hræðsluáróður er oft besta stjórntækið. Biblían er einmitt gott dæmi um slíkt tól.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 15/04/05 14:43 #

Réttast væri að stofna sér spjallþráð um gildi Biblíunnar sem söguleg heimild. Ég er ekki að gera lítið úr Biblíunni þannig séð, að mörgu leiti er hún merkileg heimild um sögu gyðinga og fleiri þjóða. Hún er samt ekkert óskeikul í þeim efnum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/04/05 14:55 #

Mistökin sem menn gera eru þau að leggja hana, í krafti trúar, til grundvallar þekkingar sinnar og siðferðis. Hún er einungis merkileg fyrir að vera heimild um hugmyndir manna aftur í forneskju.

Það er absúrd að Þjóðkirkjan sé að henda í það milljónatugum að breyta merkingu einstakra versa svo hægt sé að halda Biblíunni áfram á lofti sem einhverju átoríteti um hegðun mannskepnunnar.


darri (meðlimur í Vantrú) - 15/04/05 15:03 #

Mofi segir:

Biblían hefur sýnt aftur og aftur að hún er eitt áreiðanlegsta skjal um fortíðina sem við höfum. Fornleifafræðin hefur aftur og aftur staðfest að Biblían fer alltaf með rétt mál.

Þú meinar væntanlega að þú trúir því að Biblían hafi sýnt aftur og aftur að hún sé eitt áreiðanlegasta skjal um fortíðina sem við höfum og að þú trúir því líka að fornleifafræðin hafi aftur og aftur staðfest að Biblían fari alltaf með rétt mál.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 15/04/05 17:30 #

Fornleifafræðin hefur aftur og aftur staðfest að Biblían fer alltaf með rétt mál.
Nei, það hefur hún ekki gert. Fornleifafræði hefur staðfest að ýmsar lýsingar Biblíunnar á staðháttum, verklagi, byggingarlagi og fleiru eru í aðalatriðum réttar. Að hún fari "alltaf með rétt mál" er ekki bara barnalegt heldur rangt.


Geiri - 16/04/05 00:32 #

Þetta er ekki einu sinni fyndið en samt alveg sprenghlægilegt ! :-(

Hvernig getur manneskja sagt við sjálfa sig og AÐRA, að þessi doðrantur sé óskeiult orð guðs (samkv. doðrantinum er hann almáttugur, algóður og ALVITUR) og tilvitnanir í meintann frelsara, í sama doðranti, (samkv. doðrantinum þungavigtarmaður að greind og gæsku) séu hans orð, einnig sagt að það sem alvitur og alvitursson, eingetinn, hafa að segja þarfnist leiðréttingar. Ekki er trú þeirra mikil sem telja sig þurfa leiðrétta feðgana, ja þeir trúa þá aldeilis ekki á alvitrar fígúrur. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta er ekki í fyrsta skipti sem þeir feðgar eru leiðréttir, (Af sér vitrari mönnum eða hvað?), en þetta verður bara eitthvað svo absúrt þegar þetta gerist svona fyrir framan nefið á manni. Hvernig er það þarf ekki INNBLÁSTUR til að krukka í texta almættisins? Ef menn og konur eru ekki innblásin við þessar texta breytingar, er þetta þá ekki gróft brot á höfundarréttarlögum? ;-) Af hvaða kalíberi er sú synd að leggja almættinu orð í "munn"? Eða er það engin synd? Eða kannski fylgir það akademískum réttindum guðfræðingsins að leggja almættinu orð í munn? Nei ég var bara svona að spá. p.s. Haldiði að það dugi að hafa svona reikimeistararéttindi við svona texta breytingar? ég er nebblilega búinn að prenta svoleiðis út.


Karl Birkir - 16/04/05 16:03 #

Haha, Bjarni Karlsson er frændi minn. :) Í hvaða þætti var þetta?


mofi - 16/04/05 16:04 #

Þú meinar væntanlega að þú trúir því að Biblían hafi sýnt aftur og aftur að hún sé eitt áreiðanlegasta skjal um fortíðina sem við höfum og að þú trúir því líka að fornleifafræðin hafi aftur og aftur staðfest að Biblían fari alltaf með rétt mál.

Töluvert betur sett fram en ég gerði, mikið rétt, það er mín trú að svo er.

Hvernig er það þarf ekki INNBLÁSTUR til að krukka í texta almættisins? Ef menn og konur eru ekki innblásin við þessar texta breytingar, er þetta þá ekki gróft brot á höfundarréttarlögum? ;-)

Algjörlega, enda er ekki hægt að breyta þúsundum af elstu handritunum, bara hægt að búa til einhverja kjánalega þýðingu sem allir vita að er léleg og er að endurspegla skoðun þeirra sem þýddu ritin en ekki ritin sjálf. Að trúa að þú vitir betur en alvitur Guð er ansi mikil sjálfs upphafning.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/04/05 16:17 #

Hérna er þessi umræða. Ég veit ekki hve lengi þetta hangir uppi, svo verið snögg að skoða :)


mofi - 17/04/05 14:53 #

Það er ekki ólíklegt að eitthvað af því sem stendur í þessu riti sé satt og rétt. En það eru líklega helst atburðir eins og hið svokallaða syndaflóð, sem hefur líklega verið eitthvað í líkingu við hörmungarnar í Asíu í lok síðasta árs.

Kristnir eru í ákveðnum vandræðum með þetta: Matteusarguðspjall 24

37. Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. 38. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. 39. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.

Fyrir mig aftur á móti er flóðið eina góða útskýringin á steingervingunum.


Árni Árnason - 20/04/05 15:34 #

Þetta er kannski ekki akkúrat rétti staðurinn, en samt ekki verri en hver annar fyrir eftirfarandi spurningu.

Ég geri ráð fyrir að andstaða Páfans og gallharðra kaþólikka við getnaðarvarnir sé byggð á einhverjum ritningum biflíunnar, eða a.m.k. einhverju í þeim sem þeim tekst að túlka á þann veg.

Geta ekki einhverjir biflíufróðir bent á þessa ritningarstaði, okkur til fróðleiks ?

Af hverju er Lúterska kirkjan ekki á móti getnaðarvörnum, eða enska biskupakirkjan ?

Eru ekki þessi trúfélög öll að nota og reiða sig á sömu biflíuna ?


mofi - 20/04/05 15:55 #

Ég tel að andstaða páfans við getnaðarvarnir er af öðrum toga en Biblíulegum. Ég að minnsta kosti veit ekki um nein vers til að réttlæta þetta.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/04/05 16:24 #

Tengist þetta ekki að hvert líf sé heilagt og að sáðfruma er líf þannig að...

"Every sperm is sacred"


mofi - 20/04/05 16:57 #

Ég veit ekki til þess að kirkjan fordæmi... að fólk frói sér. Greiið prestarnir ef þeir meiga ekki giftast konum og ekki heldur stunda sjálfsfróun. Ég verð bara dapur þegar ég hugsa út í örlög þessara manna, en þetta er þeirra val svo...


Ásgeir - 20/04/05 16:59 #

Ótrúlega heimskulegt viðhorf, því að sáðfrumur eru ekki takmörkuð auðlind. Páfinn veit kannski ekki að ónotaðar sáðfrumur deyja hvort sem er.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/04/05 18:49 #

Ég held að rökin fyrir þessu sé að finna í sögunni um Ónan, sem lét sæði sitt falla á jörðina í stað þess að frjóvga konur með því. Guð brjálaðist.

En þetta tengist ekki greininni hér að ofan, förum með þetta tópik á spjallið.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.