Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Biskup skeinir sig á stjórnarskránni

Á Íslandi er trúhelsi, ekki trúfrelsi, viðhaldið og það stutt dyggilega af þjóðkirkjunni og stjórnvöldum. Í stjórnarskránni segir orðrétt í 62. gr.: "Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda." Stuðninginn hefur ekki vantað. Allt þetta mikla bákn, sem þjóðkirkjan er, blæs viðstöðulaust út undir öruggri stjórn biskups og leggur stækan daun fáfræði og ranghugmynda kirkjunnar yfir landið. Ákvæði um trúfrelsi hefur verið skotið inn í stjórnarskrána, en slíkt hefur auðvitað ekkert gildi á meðan þjóðkirkjan er sett skör hærra en allir aðrir. Það er augljóst að ekki verður um raunverulegt trúfrelsi að ræða fyrr en ríki og kirkja verða að fullu aðskilin.

Þjóðkirkjan hefur alltof lengi fengið að fara með staðreyndir að vild sinni. Þetta sést berlega á vikulegum skrökfundum í musterum nefndrar kirkju, þar sem skáldsagnapersónunni Jésú er eignað ýmislegt er gengur þvert gegn náttúrulögmálunum. Þannig á kappinn að hafa rölt sig út á allsendis ófrosið stöðuvatn, skipað lömuðum á lappir og sjálfur auðvitað látið negla sig á krosstré, til þess eins að gefa mönnum langt nef, upprisinn, eftir að hafa legið dauður í þrjá daga. Þeir sem þessu trúa eru jafnan nefnir kristnir og ganga sumir hart fram í að dásama þessi hindurvitni sín.

Jafnframt er því haldið mjög á lofti hversu heppnir Íslendingar eru að hafa trúað þessari vitleysu, en ekki einhverri annarri, sl. eittþúsund ár. Þeir sem leyfa sér að draga þessi "sannindi" í efa eru jafnan úthrópaðir sem niðurrifsmenn og hættulegir þjóðfélaginu. Þar fer þjóðkirkjan fremst í broddi fylkingar og berst af krafti fyrir fáfræðinni. Þannig hefur t.a.m. öllu tali um trúboð í opinberum grunnskólum verið mætt af fullkomnum hroka af hálfu kirkjunnar og stjórnvalda. Í þessari afstöðu endurspeglast aðferðir kirkjunnar við að trana sér fram á öllum sviðum, jafnan á vafasömum forsendum.

Auðvitað er þjóðkirkjan ekki mótfallin trúboði í skólunum þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Í haust var Fræðslustefna Þjóðkirkjunnar samþykkt á Kirkjuþingi. Þar er lagt á ráðin um frekari innrás kirkjunnar í skólana, en látið líta svo út að kirkjan verði skólunum til aðstoðar við að rækja skyldur sínar. Ef einhver hefur látið blekkjast af þessum fagurgala, þá hefur biskup, og prelátar hans, nú tekið af allan vafa um tilganginn með ætluðu samstarfi kirkju og skóla. Hvernig ber annars að skilja þessi orð biskups úr predikun frá 7. mars sl.:

Undanfarna daga hefur verið rætt um kristnifræði í skólum og bænahald. Hávær þrýstihópur hefur haft sig mjög í frammi um að svipta meirihluta íslenskra barna möguleika þess að læra um grundvallar gildi siðmenningar okkar og iðka þá trú sem blessað hefur þessa þjóð og borið uppi í aldanna rás. Í þeirri umræðu hefur iðulega komið fram það sjónarmið að ekki eigi að kenna börnunum trú, heldur gefa þeim kost á að tileinka sér þá trú sem þeim sýnist þá og þegar þau hafi aldur til. En það er ekkert nema innræting - af verstu sort. Það að þegja um trú er innræting gegn trú.

Minni spámenn kirkjunnar enduróma síðan þessi orð foringja síns úr predikunarstólum mustera sinna. Þetta kvak er skipulagður hræðsluáróður kirkjunnar til þess ætlaður að drepa alla skynsamlega umræðu um trúarbrögð í dróma kreddunnar. Það ætlar auðvitað enginn að svifta neinn möguleikanum á að iðka sín trúarbrögð, heldur er ætlast til að kirkjan og ríkisvaldið virði trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Því miður er ósennilegt að nokkuð breytist í þessum efnum til batnaðar meðan heilög þrennig forsætisráðherra, kirkjumálaráðherra og biskups hefur undirtökin. Afstaða biskups er ljós, en hitt er verra þegar yfirpólitíkus landsins tekur dómgreindarlaust undir þá fjarstæðu, sem biskup boðar. Í ræðu rétt fyrir síðustu jól sagði forsætisráðherra: "Heilög ritning færir okkur heim sannin um það að þegar Guð hafði skapað himin og jörð - og þar með lífríkið – ‘þá leit hann allt er hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.’ (Mósebók, 1.31). Hið góða er með öðrum orðum órofa hluti af sjálfu sköpunarverki Guðs.". Forsætisráðherra er m.ö.o. sköpunarsinni!! Er líklegt að þessi maður vilji aðskilnað ríkis og kirkju? Afstaða kirkjumálaráðherra er engu þekkilegri og hefur hann oft í ræðu og riti afhjúpað bókstafstrú sína, og sem menntamálaráðherra treysti hann undirstöður trúboðsins í aðalnámsskrá grunnskólans.

Er stjórnarskrárákvæðið um forréttindi Þjóðkirkjunnar fremra ákvæðinu um trúfrelsi og er öllum sama þótt verið sé, leynt og ljóst, að brjóta á rétti grunnskólabarna til trúfrelsis með gengdarlausu trúboði í skólunum? Valfrelsi er einskis virði ef ekkert er um að velja. Kirkjur eru réttur vettvangur til iðkunar trúarbragða, en skólinn ekki. Í dag er enginn valkostur í skólanum - þar er trúarinnræting staðreynd. Aðskilnaður ríkis og kirkju er mannréttindamál.

Guðmundur Guðmundsson 09.04.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Guðjón - 09/04/05 12:25 #

Þeir sem ganga fram af fólki með dónalegum og óviðeigandi orðavali eru þar með að draga úr áhrifamætti skrifa sinna og skemma fyrir sjálfumsér. Ég held að það sé hvorki vantrú, né þeim málstaða til framdráttar að vera ruddalegir í tali. Í anda Reykhás vil ég því ljúka þessu bréf með hvatingu til Guðmundar og annarra vantrúarmanna um að vera eins ruddalegir og ókurteisir og þeir mögulega geta.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/04/05 13:58 #

Eru sárindin sannleikanum æðri? Reyndu frekar að hrekja málflutning Guðmundar í stað þess að væla bara svona.


Geiri - 09/04/05 14:41 #

Efnislega mjög góð grein. "...dónalegu[m] og óviðeigandi orðavali...." Come on, (afsakið slettuna), það þarf nú ekkert að pakka biskupi inní bómul, það liggur í augum uppi hvað greinarhöfundur á við með orðinu "skeinir". Eins og ég sagði G2 fín grein. Þetta er umræða, trúboð í skólum og aðskilnaður ríkis og kirkju, sem þyrfti að verða kosningamál þá kannski gerðist eitthvað af viti. Bk Geiri


Guðjón - 09/04/05 14:51 #

Heldur er þessi pistil bragðdaufur. Hvar er eldurinn og brennisteinninn. Hvernig er hægt að mótmæla setningu eins og " leggur stækan daun fáfræði og ranghugmynda kirkjunnar yfir landið" Er ástæða til að birta jafn sjálfsögð flateskjuleg sannindi? Er ekki öllum mönnum þetta ljóst þó sumir kunni að þykjast vera annarrar skoðunar sérstaklega þeim sem þykja laun fyrir það. Væri ekki ráð að bæta í og krydda með kröftugum ærumeiðingum, bölvi og ragni.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/04/05 14:54 #

Er það orðið skeinir sem fer svona fyrir brjóstið á þér, Guðjón? Ætlarðu að dæma alla greinina út frá því eina orði, í stað þess að gera efnislegar athugasemdir? Þú ert ekkert betri en ömmuprestarnir sem láta sér málefnalega gagnrýni sárna svo þeir sleppi við að svara innihaldið gagnrýninnar.


Þórður Sveinsson - 09/04/05 15:21 #

Í predikun sinni segir biskup:

„Undanfarna daga hefur verið rætt um kristnifræði í skólum og bænahald. Hávær þrýstihópur hefur haft sig mjög í frammi um að svipta meirihluta íslenskra barna möguleika þess að læra um grundvallar gildi siðmenningar okkar og iðka þá trú [leturbreytingar mínar] sem blessað hefur þessa þjóð og borið uppi í aldanna rás.“

Já, hér segir biskup beinlínis að börn eigi að iðka trú í skólanum. Að hann skuli gera kröfu um slíkt sýnir að hann hefur undarlegar hugmyndir um trúfrelsi. Í því felst að sjálfsögðu að í almennum grunnskólum, sem börnum er gert að sækja, á ekki að fara fram neins konar trúarinnræting. Öll fræðsla um trú á því að vera hlutlaus.

Það er eiginlega alveg ótrúlegt hversu erfitt það reynist að koma mönnum í skilning um þessu einföldu sannindi. Því meira sem á þessu er hamrað, því þrjóskari verða boðendur trúarinnar. Og það sem meira er: Þeir gera andstæðingum trúarvæðingar skólanna upp skoðanir hvað eftir annað og segja þá beinlínis vilja rýma kristnifræði út úr skólanáminu – en ekkert er fjær lagi.

Þetta er satt að segja orðið þreytandi en sumir eru þó óþreytandi við að hrekja rangfærslurnar, t.d. varaformaður Siðmenntar, Sigurður Hólm Gunnarsson, sem hefur varla undan að skrifa greinar í blöðin til að svara andstæðingum raunverulegs trúfrelsis – já andstæðingum þess, hvort sem þeir viðurkenna það eða ekki.

En biskupi og fleirum væri hollt að kynna sér álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 3. nóvember 2004 um trúariðkun í norskum skólum. Þar er það staðfest að börnum á ekki að vera gert að iðka trú sem gengur gegn þeirri lífssannfæringu sem foreldrar þeirra hafa. Hér er grein þar sem fjallað er um þetta álit.


Orri - 10/04/05 04:42 #

Ég tel að sumir séu að missa sig hér. Yfirgæfandi líkur eru á að að Jesú hafi verið til.

Málið snýst ekki um það.

Þar af leiðandi ráðast menn á rangan garð með því að gefa sér að Jesú sem fiction.

Það væri miklu nærra lagi að ráðast á þær hugmyndir sem gerðar hafa verið um hann og í hans nafni.

Og vissulega á hugmyndina að hann hafi verið sonur einhvers "Guðs".


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/04/05 12:45 #

Hver er að missa sig? Og hvað í ósköpunum kemur tilvist Jesú þessari umræðu við? Var einhver að tala um hana á undan þér, Orri?

Þessi umræða er um þjóðkirkjuna og trúboð í skólum. Ekki fræðslu um kristindóm, heldur grímulaust trúboð.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.