Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Da Vinci Code – Hverjum er ekki sama?

Ég, eins og margir aðrir, hef lesið bókina Da Vinci Code og haft gaman af. En eitt er það sem þessi bók gerir frekar en aðrar bókmenntir sem ég hef lesið og það er að fara óstjórnlega í taugarnar á trúmönnum. Ótrúlegustu yfirlýsingar hafa fallið og námskeið haldin í þeim eina tilgangi að skýra út fyrir fólki að þetta sé ekki allt satt. Fyrir mér er þetta bara skáldsaga, ekki einhver vísindaleg söguskýring á athöfnum kirkjunnar.

Við hérna á Vantrú höfum því ekki, fyrr en núna, skrifað grein um þetta, einfaldlega vegna þess að þetta er aðeins skáldsaga. Síðast þegar ég vissi þá fjalla skáldsögur ekki mikið um staðreyndir, þótt þær eigi það til einstöku sinnum. Hvatningin á bak við þessi skrif eru því eingöngu viðbrögð trúmanna við þessari bók.

Það merkilega við bókina er kannski að hún er sannfærandi, hún spilar á þann eiginleika manna hve trúgjarnir þeir eru. Dan Brown tekur staðreyndir, kenningar og hreinan uppspuna og blandar þessu saman og úr verður eitthvað sem trúað/trúgjarnt fólk verður alveg ringlað af að lesa.

Hérna á Íslandi hafa verið haldin vinsæl námskeið til að leiða villtu sauðina aftur inn á „réttu“ brautina. Þessi námskeið hefur Þórhallur Heimisson haldið og er hann meira að segja farastjóri ferðar sem farin verður á slóðir Da Vinci lykilsins í lok maí. Það er ekki nóg að þessi bók hafi ruglað svo mikið í hausunum á fólki heldur þarf það líka að fara á námskeið og til útlanda til að eyða út öllum ranghugmyndum sem fæðst hafa með lestri bókarinnar. Okkur hér á Vantrú finnst þetta í hæsta máta mjög kaldhæðislegt þar sem trúarrit kristinna manna getur ekki talist uppfullt af sögulegum staðreyndum. Okkur fyndist gott ef Þórhallur og aðrir trúmenn gætu séð kaldhæðnina í gjörðum sínum og farið að fræða fólk um sannleika og lygar Biblíunnar en það eru líklega ekki miklar líkur á því.

Trúmenn sjá nefnilega ekki Da Vinci lykilinn í „ljósi krists“1 og því er þetta mikill lygavefur sem Dan Brown hefur spunnið. Lygavefur sem trúmenn eru hræddir við, þeir eru hræddir um að fólk yfirgefi kirkjunna og finni sér eitthvað betra að gera. Þetta ótrúlega mikla umtal hefur ekki gert neitt annað en að selja fleiri bækur svo Dan Brown hlær líklega alla leið í bankann þegar hann heyrir trúmenn bölva bókinni sinni eina ferðina enn.


1 Í „ljósi krists“ er aðferðarfræði sem trúmenn nota til að sía út allar augljósar lygar og það sem hentar ekki og taka eingöngu það sem hentar málstaðnum.

Jón Magnús 31.03.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Sigurður Hólm Gunnarsson - 31/03/05 09:54 #

Ég vil nota tækifærið og benda lesendum á stutta grein sem ég skrifaði um DaVinci Code á www.skodun.is

Da Vinci Lykilinn - Sagnfræði og skáldskapur


Árni Árnason - 31/03/05 10:51 #

Það er í raun dálítið skemmtilegt hvað þessi skáldsaga fer fyrir brjóstið á kirkjunni. Þetta er jú skáldsaga, en eins og svo margar slíkar er hún ekki gripin úr loftinu, heldur heldur tvinnar og fabúlerar í kring um þekktar sögulegar staðreyndir. Það eru væntanlega þessar sögulegu staðreyndir sem kirkjan vill að liggi í láginni, og séu ekki opinberaðar almenningi í vinsælli bók.

Það er auðvitað afar óheppilegt fyrir þá sem vilja halda því fram að Biflían sé guðs orð að henni skuli hafa verið ritstýrt svo afgerandi í Karþagó á sínum tíma. Gaman væri að sjá akkúrat hvað það var í "hinum" guðspjöllunum sem ekki hlaut náð fyrir augum kirkjunnar.

Kveðja Árni


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 31/03/05 11:06 #

Hluta til eru sum af þessum guðspjöllum þekkt sem voru bönnuð af kirkjunni. Flest eru þau Gnostísk en þar er regin munur á Jesú Rómarkirkjunnar sem við þekkjum og þeim Gnostíska. Jesú er ekki maður í þeirra augum heldur andi sem var krossfestur á himni af satan. Slíkur Jesú skemmir algjörlega þá útgáfu sem við þekkjum. Enda var það dagsskipun páfans þegar Rómarkirkjan hafði náð sér á strik að drepa alla Gnostíkara ef til þeirra náðist.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 31/03/05 12:56 #

Það eru væntanlega þessar sögulegu staðreyndir sem kirkjan vill að liggi í láginni, og séu ekki opinberaðar almenningi í vinsælli bók.

Því miður fyrir okkur sem finndist það gaman ef kirkjan væri nú að fela eitthvað rosalega djúsi þá eru næstum allar samsæriskenningarnar í D.V.C. bull. T.d. eru tengsl hið heilaga grals (hvort það sé bikar eða ætt ésú) við ésú byggt á skáldskap.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 31/03/05 13:30 #

Vissulega eru flestar samsæriskenningarnar bull, en eins og Siggi bendir á í sinni grein, þá eru líka sagnfræðilegar staðreyndir í bókinni. Ég geri ráð fyrir að það sé það sem Árni vísar til.

Svo er Opus Dei til, þó ég fullyrði ekki að lýsing Dan Brown á þeim sé nákvæm :-)


ThorvaldurJo - 31/03/05 17:13 #

Langflestir sagnfræðinga, trúaðir sem trúlausir viðurkenna tilvist Jesús Krist.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 31/03/05 19:26 #

Það er reyndar ekki rétt, en tilvist Jesú er alveg bísæd ðe poínt. Það var nóg af spámönnum vafrandi um á þessum slóðum á þessum tíma.

Aðalatriðið er hvort hann hafi verið (og sé) guð, hvort upprisan og kraftaverkin séu staðreynd. Ég þori að fullyrða að ekki nokkur málsmetandi sagnfræðingur lætur hafa eftir sér eitthvað slíkt.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 31/03/05 19:43 #

Ég efast um að flestir sagnfræðingar telji Jesú (ekki Krist) eins og hann kemur fram í Nýja testamentinu hafa verið til. Þeir gætu kannski frekar trúað því að sá karakter sé að hluta til byggður á raunverulegri persónu, sem hét þá kannski Jesús, en það var víst álíka algengt nafn og Jón.


Gunnar - 31/03/05 22:13 #

Hérna á Íslandi hafa verið haldin vinsæl námskeið til að leiða villtu sauðina aftur inn á „réttu“ brautina.-Jón Magnússon.

Enda eru margar þær heimildir sem Dan Brown notaði gjörsamlega út úr kortinu og miðað við viðbrögðin sem þessi bók fékk þá er nú allt í lagi að leiðrétta þá villu sem fólk gaf sér án þess að lesa sér til.

Meðal annars þá er Dan Brown trúaður maður. Það er hægt að lesa í æviágripi hans.


Bjarni - 01/04/05 08:46 #

Það er líka "bísæd ðe poínt", Birgir, "hvort upprisan og kraftaverkin séu staðreynd". Að trúa er ekki endilega að trúa því að þetta hafi gerst í raunverunni. Eða kannski hef ég misskilið prestana eitthvað?


Hallgrímur - 01/04/05 11:19 #

botninn dettur nú all hressilega úr kristinni trú ef fagnaðarerindið hefur sér enga stoð. Hver er tilgangurinn með að kalla sig kristinn ef maður trúir ekki á upprisu Jesú?


ThorvaldurJo - 01/04/05 13:15 #

Upprisan er sannarlega kjarni Fagnaðarerindisins og án hennar er trú mín vonlaus, og ég og fleiri aumkunnarverðastur allra manna. En ég get dáið fyrir þá fullvissu að Jesús lifir, eins og lærisveinarnir flestir gerðu. ,, Þessi Jesús(það er rétt að það voru fleiri Jesúar eins og þið segið oft)reisti Guð upp og erum vér allir vottar þess´´Postulasagan 2:32. Fyrir þessi orð voru þeir drepnir. En þeir afneituðuð aldrei þessum sannleika sem þeir prédikuðu með djörfung og fullkominni sannfæringu.


Bjarni - 01/04/05 14:45 #

Ég tek fagnaðrerindinu sem táknrænum boðskap. Ég held að ég sé nú samt kristinn og fékk það reyndar staðfest hjá presti fyrir ekki allöngu síðan. Trú getur verið gott haldreipi þótt hún sé ekki fullvissa.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 01/04/05 20:50 #

Trú getur verið gott haldreipi þótt hún sé ekki fullvissa.

Þú átt rétt á þinni skoðun þótt að ég sé ósammála henni. Mér finnst aldrei gott að reiða sig á hindurvitni sem eitthvað haldreipi þegar illa bjátar á. Kemur t.d. í veg fyrir að fólk geti einbeitt sér að raunverulegum lausnum í staðinn fyrir að eyða tímanum sínum í einhverja hjálp að ofan.


Bjoddn - 02/04/05 17:55 #

Mér er ekki sama um DaVinci lykilinn, mér finnst þetta vera snilldarbók sem vekur fólk til umhugsunar um hver Jesú hafi verið eða þá jafnvel hvort hann hafi verið til yfir höfuð.

Hún kennir fólki að hugsa um Jesú á skynsaman hátt.

Trúmenn segja "what would Jesus do?" Ég segi "Hvað mundi venjulegur plebbi gera?"

Er líklegra að töfrasögurnar af Jesú séu bókstaflega sannar og að Jesú hafi læknað blinda, reist menn upp frá dauðum og breytt vatni í vín...eða er er líklegra að um aðra orðanotkun hafi verið að ræða á þessum tíma og Jesú hafi gert fólk trúað, tekið brottrekinn mann inn í sinn söfnuð og skírt aðra inn í sama söfnuð?

Orð hafa mismunandi merkingu á mismunandi tímum. Við getum horft á orðin "íslensk kjötsúpa" sem hafa tvær merkingar í dag, annars vegar þá hefðbundnu og hinsvegar er um sjónvarpsþátt að ræða.

"Gott er að horfa á íslenska kjötsúpu í klukkutíma á viku" segi ég. Bókstafstrúarmaðurinn sýður sér súpu og starir í pottinn á meðan sá eðlilega þenkjandi setur disk í spilarann og horfir á Erp tæta í sig sora okkar samfélags.

Hvort er uppbyggilegra, að horfa á raunveruleikann og sætta sig við hann eins og hann er, eða horfa á orð í bók og rembast við að halda því fram að þau séu af viti í bókstaflegri merkingu þó svo að þau kollvarpi öllum hugmyndum okkar um raunveruleikann?

Er líklegra að Jesú hafi verið galdrakarl með krafta sína frá guði, eða er líklegra að biblían noti annað orðalag yfir hluti en við eigum að venjast í dag.

Getur safnaðarmeðlimur verið "vín" á meðan almúginn er "vatn" ??? Eða eru hér yfirnáttúruleg kraftaverk á ferðinni?


Bjoddn - 02/04/05 18:04 #

Svona samanber línurnar í Amacing Grace sem eru einhvernvegin svona :

"I once was lost, but now I'm found"

og

"I once was blind, but now I see"

Á að taka þetta bókstaflega eða á að lesa á milli línanna og fatta að um aðra orðanotkun er að ræða?

Var gaurinn blindur og fékk hann sýn eða var gaurinn trúlaus og öðlaðist trú?


Ragnar Geir Brynjólfsson - 03/04/05 15:39 #

„Enda var það dagsskipun páfans þegar Rómarkirkjan hafði náð sér á strik að drepa alla Gnostíkara ef til þeirra náðist.“

Hverjar eru heimildir þínar fyrir þessum fróðleik „Frelsari“ ?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.