Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Brúður Krists er gift til fjár

Það er stundum sagt að kirkjan sé “brúður Krists á jörðu”. Og vísað til þess að þeir sem í henni starfa eru bundnir trúnni með bandi ekki ósvipuð hjónabandinu. En hér á Íslandi er staðan hins vegar þannig að “brúður Krists” virðist hafa gift sig til fjár.

Laun presta og annara starfsmanna kirkjunnar, uppbygging og viðhald kirkna, kristnifræðikennsla. Allt er þetta borgað af ríkissjóði, sameiginlegum sjóði allra landsmanna. Þeim sem standa utan trúfélaga er gert að greiða til Háskóla Íslands, þó svo að þeir trúi fæstir á Háskóla Íslands sem yfirskilvitlega veru. Af hverju mega menn ekki njóta trúfrelsisins? Af hverju mega þeir sem vilja standa utan trúfélaga ekki njóta þeirrar ákvörðunar fjárhagslega? Þeir sem kjósa að standa utan hestamannafélaga þurfa ekki að greiða samsvarandi upphæð og félagsgjöld í slíku félagi til Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Þeir sem kjósa að standa utan Frímúrarahreyfingarinnar þurfa ekki að greiða samsvarandi upphæð og félagsgjöld í slíkum félagsskap til Iðnskólans.

Þegar reynt er að ræða málið við Þjóðkirkjumenn fara þeir yfirleitt í það far að draga siðaskiptin og jarðeignir biskupsstólanna inn í málið. Segja að þar sé komin réttlæting á því að fé skattborgara nútímans og framtíðarinnar fari í að borga rekstur Þjóðkirkjunnar, þ.m.t. skólatrúboðið sem hefur verið í fréttum að undanförnu. Ég sé ekki af hverju þetta skiptir máli. Verður að vera Þjóðkirkja á Íslandi um aldur og eilífð vegna þess að Kaþólska kirkjan fékk á sínum tíma gjafir sem fólk gaf sjálfu sér til sáluhjálpar? Má aldrei hreyfa við kirkjuskipaninni vegna þess að kirkjujarðir voru seldar á nítjándu öld og í upphafi þeirrar tuttugustu?

Það má minna á það að ástæðan fyrir klofningi kirkjunnar og framgangi siðbótarhreyfingu Marteins Lúters var einmitt sú græðgisvæðing sem þá grasseraði í Kaþólsku kirkjunni, þar sem seld voru aflátsbréf svo ríkir gætu keypt sér fyrirgefningu frá syndum sínum. Þar sjá menn hvernig fer ef kirkjan einblínir á tekjur, eignir og peninga. “Safnið ekki fjársjóðum á jörðu …” á Jesú Jósefsson smiður, sem sumir kalla Messías, að hafa sagt. Forsvarsmenn Þjóðkirkjunnar, hinnar íslensku “brúðar Krists”, ættu að hafa þessi orð í huga. Kirkjan hlýtur í eðli sínu að eiga að vera samfélag trúaðra. Að neyða utantrúfélagamenn til borga til reksturs kirkjunnar og jafnframt aukagjald til menntastofnanna er mannréttindabrot.

Jón Einarsson 01.03.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Trúlaus - 07/03/05 09:09 #

Orð í tíma töluð. Biskup hefur reyndar sagt að brúðurin ætti að búa sig undir lögskilnað, nú þegar sé kominn á skilnaður að borði og sæng. En líkt og í svo mörgum skilnaðarmálum er það einmitt skipting eigna sem vefst hvað mest fyrir brúðinni. Í þeirri umræðu fer heldur lítið fyrir guðspekinni allri, a.m.k. eins og ég hef skilið hana... sbr. safnið ekki verðmætum sem mölur og ryð fá grandað, gjaldið keisaranum það sem keisarans er, hugið að fuglum himinsins og liljum vallarins....

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.