Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þú ert gömul sál

Ég komst að því um helgina hve óhugnanlega auðvelt það er að ná valdi yfir fólki með því að höfða til trúgirni þess.

Þannig var að við fórum nokkrir Vantrúarmenn á pöbbarölt. Umræðurnar voru ánægjulegar og á köflum djúpvitrar, en á einhverjum tímapunkti var það rætt hve auðvelt það væri að ná til trúgjarnra sálna með því að gefa sig út fyrir að vera skyggn og hafa miðilshæfileika. Svo ginnkeyptur væri allur þorri almennings fyrir þessu að setningin „þú ert gömul sál“ væri sennilega öflugasta pikköpp-línan sem hægt er að beita fyrir sig. Aðeins þyrfti í framhaldinu að fylgja því eftir með fleiri setningum sem fólk vildi heyra um sig, svo sem „þér finnst þú ekki alltaf vera metin(n) að verðleikum.“

Ég ákvað, eftir að hópurinn leystist upp, að láta reyna á þetta í alvörunni, sjá hver viðbrögðin yrðu. Á Nellýs baunaði ég „þú ert rosalega gömul sál“ á gullfallega unga stúlku sem var eitthvað að vafra í námunda við borðið þar sem ég sat. Og viti menn, andartaki síðar var hún sest við hliðina á mér og við komin í hrókasamræður.

Ég veit ekki betur en hún hafi keypt allt sem ég sagði. Að hún ætti með tímanum að leggja fyrir sig myndlist, en fyrst mætti hún láta reyna dálítið á bissnissvitið og söngröddina (hún fæddi mig vel á upplýsingum sem ég spreðaði svo til baka eins og ég hefði alltaf vitað þetta).

Auðvitað datt mér ekki í hug að notfæra mér þennan glæsta feng sem pikköpp-línan skilaði mér og sleit því bara samtalinu þegar nóg var komið. En skömmu síðar, á barnum 22 urðu hlutirnir mun áhugaverðari:

Þar hlammaði ég mér við borð þar sem sat ungur maður. Hann sötraði bjór og reykti og virtist ekki eiga neina félaga þarna. Hinn skyggni ég renndi kalt í sjóinn og samtalið varð eitthvað á þessa leið:

Ég: Hvað ertu eiginlega að gera hérna? Þú átt að vera heima hjá konunni þinni. Hún bíður eftir þér. Þú ert ekki nógu gömul sál til að vera að þessu sukki. Gefðu því svona tvö líf í viðbót. Farðu heim og vertu góður við konuna þína út þetta líf og það næsta. Svo geturðu komið og sukkað með okkur gömlu sálunum.

Hann: Vá, þetta er satt hjá þér. Ég trúi alveg á endurholdgun og svoleiðis. (Tekur upp farsíma og hringir í konuna): Hæ, ertu vakandi? Ég er að koma heim. (Stendur upp og gefur mér bjórinn sinn, drepur í sígarettunni): Ég verð að fá símanúmerið hjá þér og tala betur við þig um þetta. Það er alveg krípí hvað þú ert með þetta á hreinu. (Ég gef honum nafn og símanúmer og hann yfirgefur samkvæmið).

Þetta var svo glórulaus atburðarrás að ég trúi þessu varla enn. Lét gaurinn sér virkilega nægja að ég gat giskað á að hann ætti konu? Allt annað sem ég sagði honum var bara eitthvert yfirnáttúrubúllsjitt um misgamlar sálir og innistæðu þeirra fyrir sukki. Kannski breytti ég lífi þessa manns með orðum mínum og þá sem betur fer til góðs.

Þetta sýnir okkur hve hættuleg trúgirnin getur verið. Siðblindingjar geta leikið þennan saman leik og ég en stýrt mönnum til mun verri verka, með því einu að höfða til þeirrar yfirnáttúrutrúar sem búið er að planta í koll hrekklausra. Þetta hefur verið gert á öllum tímum og enn í dag streyma milljónir og aftur milljónir úr vösum grandalausra inn á feita reikninga lygastofnanna.

Slíka con-mennsku þarf að stöðva í nafni réttlætis og heiðarleika.

Birgir Baldursson 28.02.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Lárus Páll Birgisson - 28/02/05 06:31 #

Já það þarf lítið til að rugla í fulla fólkinu. :)


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 28/02/05 08:48 #

Dæmin sýna að þetta á ekkert síður við um edrú fólk. Fólk þráir að láta blekkja sig.


Bjoddn - 28/02/05 10:23 #

...og það býr til sannleika til að uppfylla spádóma sem það hefur fengið um sig.

Dæmi: Spáð var fyrir konu að hún mundi eignast tvö börn. Hún telur að spádómurinn hafi verið réttur þar sem þriðja barn hennar fæddist erlendis.
Meikar það sens?


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 28/02/05 12:58 #

Hmm, maður verður að nýta sér þessa pikk-öpp línu ef hún virkar svona vel.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/05 16:21 #

Úff nei, það væri algerlega siðlaust. Gætirðu hugsað þér að vakna upp við hliðina á konu sem finnst þú rosa merkilegur fyrir þetta, en ekki fyrir raunverulega verðleika?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/05 16:27 #

Það var að rifjast upp fyrir mér núna að þegar maðurinn spurði mig að símanúmeri og nafni spurði ég hann hvort hann vissi hvað nafn mitt táknaði og bað hann svo um að komast að því og ráða í merkinguna (Birgir þýðir sá sem bjargar og verndar).

Djöfull hef ég ruglað hressilega í manngreyinu.


Kalli - 28/02/05 19:20 #

Úff, ég hef lent í því að gömul kona fór að tala við mig og þurfti að segja mér svo margt í þessa áttina. Hvað á maður að gera? Ég hafði engan áhuga á að heyra hana segja mér hvernig ég væri, en sömuleiðis vildi maður ekki særa hana (sérstaklega þar sem ég var í vinnunni). Svo maður bara jánkaði og gerði lítið úr „hrósinu“ með hógværðarlátum.

Það eru fréttir að maður sé gömul sál, ég var alls ekki viss um að ég hefði sál yfirleitt!


Kalli - 28/02/05 19:28 #

En svona að mestu ótengt, þá er það Vantrú að þakka að ég er farinn að sjá sjónvarpsmiðla sem ágætis skemmtiefni. Mikið gaman að reyna að sjá hvernig þeir gera það sem þeir gera.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 01/03/05 08:46 #

Úff nei, það væri algerlega siðlaust. Gætirðu hugsað þér að vakna upp við hliðina á konu sem finnst þú rosa merkilegur fyrir þetta, en ekki fyrir raunverulega verðleika?

Hehe, ég fer alla vega ekki til helvítis fyrir það. En í alvöru talað, nei ég mundi ekki gera það, enda siðprúður trúleysingi.


Annar Kalli - 01/03/05 12:05 #

Hmmm, myndirðu vilja vakna við hlið konu sem tryði þessu bulli? Við ættum kannski að gefa bók um hvernig á að manipulera fólk fyrir siðlausa?


Karl Birkir - 01/03/05 16:37 #

Hvað eru margir hérna sem heita Kalli? Ég reyni að skrifa undir þessu nafni þó ég sé nú yfirleitt kallaður Kalli.

Og já, varðandi subjectið, ég var einusinni að djamma með systur minni, leit af henni í smástund og þá var einhver fertugur perri byrjaður að tala við hana um stjörnuspár og talnaspeki. Hún reyndar rústaði honum, enda stærðfræðimanneskja mikil og í raunvísindanámi.


Karl Gunnarsson - 02/03/05 13:25 #

Þá nota ég bara fullt nafn til aðgreiningar ;)


hildigunnur - 14/03/05 12:23 #

híhí.

Ég hef lent á einum svona (þú þekkir hann meira að segja, Biggi). Hrikalega gaman að fara í svona umræður, ég lét eins og ég tryði hverju orði. Hló mig svo vitlausa þegar ég var að segja frá þessu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/03/05 12:33 #

Hey, þetta er önnur hlið á málunum. Í raun getur enginn vitað hver er að hafa hvern að fífli, þegar þessi mál ber á góma. :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.