Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristinfræði?

Ég held að flestum þeim sem sáu fréttir ríkissjónvarpsins í fyrradag hafi brugðið illilega. Þar var sýnt frá kennslustofu í Holtaskóla. Við skulum samt kíkja inn í allt aðra kennslustofu í Holtaskóla þar sem Sigurður kennari er að byrja daginnn:

kennari: Góðan daginn krakkar. Megi...

krakkar: ...barátta verkalýsðins eyðileggja kapítalismann og skapa hið stéttlausa þjóðfélag. Lengi lifi félagar Marx og Engels!

kennari: Jæja krakkar, snúum okkur í áttina að Moskvu.

krakkar: Fram þjáðir menn í þúsund löndum....

Ef að einhver myndi halda því fram að þarna væri ekki verið að stunda kommaáróður og verið að búa til litla kommúnista þá yrði líklega hlegið að honum eða þá hann talinn vera svolítið vitlaus. En þetta alls ekki ólíkt skoðun Jónínu Guðmundsdóttur, skólastjóra Holtaskóla. Eins og sást í áðurnefndu frétt þá signa allir krakkar skólans sig og fara með morgunbæn. Að hennar mati er ekki um trúboð að ræða.

Það er verið að láta krakkana byrja daginn á því að tala við guð. Bænin er í eðli sínu samtal manns við guð. Bænin gerir ráð fyrir því að guð sé til. Það er verið að segja krökkunum að guð sé til. Það er trúboð.

Kannski skilur Jónína ekki muninn á trúboði og fræðslu. Það hefur verið kvartað undan því að kristin fræði séu ekki skylda í Kennaraháskólanum en þekkingarleysi getur ekki útskýrt þetta. Allir hljóta að sjá mun á trúboði og fræðslu:

Trúboð: Jesús var sonur guðs.

Fræðsla: Kristið fólk trúir því að Jesús hafi verið sonur guðs.

“Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun...”

Þetta stendur í aðalnámskrá grunnskóla. Sömu námskrá og Jónína vitnar til þegar hún reynir að réttlæta trúboðið. Þrátt fyrir að námskráin sé hálfgert trúboðsplagg ,til dæmis er talað um upprisu Jesú sem “sögulegan atburð”, þá er tekið fram að það eigi ekki að vera trúboð í skólanum.

Jónína tekur síðan fram að flestir krakkarnir séu skírðir og fermdir. Hvaða máli skiptir það ef að þetta er einungis fræðsla? Það að flestir krakkarnir hafi verið skírðir gefur opinberum stofnunum ekki leyfi til þess að stunda trúboð. Síðan gleymir hún kannski minnihlutanum sem að er ekki skírður. Eru mannréttindi þeirra ógild af því að meirihlutinn er skírður?

Loks segir hún að það “sé nauðsynlegt veganesti út í lífið að hafa einhverja trú á æðri mátt”. Bíddu, var hún ekki bara að fræða? Núna segist hún vera að gera þetta til þess að gera krakkana trúaða. Ætli það sé ekki sannleikurinn. Kristnir virðast telja það skyldu sína að kristna heiminn og í gegnum söguna hafa margir þurft að líða fyrir það. Heiðnir frumbyggjar, ótrúaðir Arabar og loks ókristnir krakkar í Holtaskóla.

Hjalti Rúnar Ómarsson 24.02.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Jón Einarsson - 24/02/05 09:57 #

Þetta er alveg rétt hjá þér Hjalti.

Og á annað vil ég benda, það hvernig haldið er að börnum hálfsannleik þar sem kirkjunnar menn velja sérstaklega út þá hluta úr Biblíunni sem þeir telja að þoli dagsins ljós, en steinþegja yfir öðru. Það er talað um “Fæðingu frelsarans” og reynt að tengja það hinni fornu jólahátíð, sem bæði kristnir og aðrir halda upp á, en þagað yfir Dýrinu, hestamönnunum fjórum og öðru úr heimsendisspám Opinberunarbókarinnar. Það er fjallað fjálglega um það er Davíð konungur vann á Filisteanum Golíat, en það vandlega haft í þagnargildi að hann var sonarmorðingi. Og hinn “algóði” Guð reynist nú ekki betri en svo að hann tekur þátt í og leggur á ráðin um hrein og klár þjóðarmorð, sbr. í Fimmtu Mósebók þar sem segir frá því er þjóð Ísraels vann á Síhon konungi í Hesbon og þegnum hans “…En Drottinn Guð vor gaf hann á vort vald, svo að vér unnum sigur á honum, sonum hans og öllu liði hans. Þá unnum vér og á sama tíma allar borgir hans og gjöreyddum hverja borg að karlmönnum, konum og börnum. Vér létum engan undan komast. …”. Ef menn trúa því að Gamla-Testamentið sé orð Guðs er ljóst að það þarf að draga Guð fyrir stríðsglæpadómstólinn í Haag.

En um þetta er ekki fjallað um í trúarbragðafræðslunni. Þaðan af síður hin smásmugulegu boð og bönn meints Guð varðandi klæðnað og mat. Hversu mörg skólabörn á Íslandi hafa farið eftir banni við áti á svínakjöti? Hversu margir af trúarbragðakennurum virða bannið við að gera sér klæði úr meira en tveimur efnum? Svo talar þetta fólk eins og Guð sé til og sjái allt og fylgist með öllu. Ef svo er, hví ljóstrar hann ekki þá með eldingu sem fá sér svínakótilettu? Er hann kannski sofandi akkúrat þá? Eða er skýringin sú að hann er ekki til.

Jón Einarsson


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 24/02/05 10:38 #

Jón, þú ert greinilega illa að þér í grænsápuguðfræði eins og hún er stunduð í Ríkiskirkjunni. Það verður nebblega að skoða þetta allt í "Ljósi Krists" og átta sig á því að allar refsingar í Biblíunni eiga bara við Gyðinga og aðeins á þeim tíma áður en guð gerði "Nýjan Sáttmála". Nú er það allt fallið úr gildi, nema Boðorðin 10 (veit ekki afhverju þau eru undanþegin), og allt verður að skoðast með það í huga að Krosslafur er "kærleikur" og því má ekki segja neitt ljótt um Biblíuna eða það sem í henni stendur því þá er ekki verið að fjalla um það í "Ljósi Krists". Læt ég hér lokið kennslustund í grænsápuguðfræði. :o)


Kristján Sigurðarson - 24/02/05 12:38 #

Já.... Er þetta samt ekki brot á mannréttindum? Að láta börnin biðja á hverjum einasta morgni, hvort sem þau eru kristin eður eigi? Og hvað með það þó að þau séu fermd eða skírð? Ég var nú bæði skírður og fermdur á sínum tíma, en samt segi ég við fólk ef það spyr að ég sé guðleysingi


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/02/05 15:02 #

Maður er skírður meðan maður er vanviti og hefur ekkert um málið að segja, þú ert ginntur til að fermast með markaðsfræði, þ.e. fermingartilboðum.

Það var enginn trúarbragðafræði þegar ég var í barnaskóla, heldur kristinfræði, en blessunarlega sluppum við við trúboð að mestu.


Axel - 25/02/05 16:48 #

Ég heyrðu um könnun í fréttunum þar sem íslendingar voru spurðir að því hvernig áhrif Kristinfræði hefði haft á þá í æsku. Í ljós kom að yfir 80% manns sögðu að hún hefði haft jákvæð áhrif. Svo ég held að Kristinfræðikennsla í grunnskólnum sé mjög jákvæð og ég held að tilgangur hennar sé aðalega að fræða okkur betur um Kristna trú þar sem Ísland er Kristin þjóð.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 25/02/05 16:58 #

Þó 99% teldu að kristinfræði hefði haft jákvæð áhrif á sig stendur sú gagnrýni sem sett er fram hér og víðar.

Við erum að gagnrýna trúboð, ekki trúarbragðakennslu. Í þessari grein er sérstaklega vísað til bænahalds í Holtaskóla, slíkt er ekki hægt að túlka sem kennslu með nokkru móti..


Snær - 25/02/05 22:13 #

Ég heyrðu um könnun í fréttunum þar sem íslendingar voru spurðir að því hvernig áhrif lýðræðisfræði hefði haft á þá í æsku. Í ljós kom að yfir 80% manns sögðu að hún hefði haft jákvæð áhrif. Svo ég held að lýðræðisfræðikennsla í grunnskólnum sé mjög jákvæð og ég held að tilgangur hennar sé aðalega að fræða okkur betur um lýðræðistrú þar sem Ísland er lýðræðisleg þjóð.

Lýðræði vor, þú sem ert í stjórnkerfi. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á þingi. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Ákærið oss fyrir vorar skuldir, svo sem vér og ákærum vora skuldunauta. Og eigi hundsið vorar lifnaðaðaraðstæður, heldur frelsa oss frá glæpahyski.

Hvernig þætti þér að stunda lýðræðisáróður í skólum hér á landi? Áróður er ekki fræðsla, af sömu ástæðum og trúboð er það ekki, enda er trúboð lítið annað en trúarlegur áróður.

Við viljum fræðslu um stjórnarhætti og trúarbrögð (og jafnvel hugmyndir sem eru andstæður slíkra hugmynda) hvert fyrir sig, en ekki áróður eða trúboð.


Snær - 25/02/05 22:15 #

Og já, þessu er fyrst og fremst beint til Axels.


Bjarni - 25/02/05 22:23 #

Hvers vegna ekki að hefja daginni í skólum Reykjanesbæjar með lestri úr stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins? Þeir eru jú í meirihluta og því hlýtur það að teljast eðlilegt að nemendur þylji upp nokkrar greinar sér til andlegar hressingar!

Bjarni


Kristján Sigurðarson - 26/02/05 00:52 #

Hahaha... Þú ert ágætur Bjarni.

En hvernig er það með þetta sem ég spurði um? Er þetta ekki mannréttindabrot að LÁTA börnin fara með bænir á hverjum morgni?


Snær - 26/02/05 02:42 #

Er þetta ekki mannréttindabrot að LÁTA börnin fara með bænir á hverjum morgni?

Ég get ekki betur séð en svo. Það er nú víst mannréttindabrot að mismuna fólki af flestum ástæðum sem hægt er að gefa sér, þ.á.m. trúarbrögðum.

Þannig er þetta mannréttindabrot gagnvart hverju því barni sem kann að vera ósammála þessu, en einnig foreldrum, sem hafa ákveðinn rétt á því hvernig börn þeirra skulu alin, þ.á.m. í trúarlegu skyni.

Og það hefur já a.m.k. eitt foreldri kvartað hingað til.


Þórður Sveinsson - 07/04/05 17:43 #

Ég vek athygli á grein sem ég hef skrifað inn á vefrit Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði um þetta bænahaldsmál.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.