Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Atvinnurógur

Ef starfsgrein er sannanlega skaðleg og til óþurftar, flokkast það samt undir atvinnuróg að benda á það?

Undanfarið hef ég verið að fara fyrir brjóstið á presti einum hér í bæ. Það sem helst fer í taugarnar á honum er að ég skilgreini trúarbrögð hans sem útvatnað heimsendakölt, þar sem andar eru ákallaðir og særðir fram til ýmissa verka með galdraþulum. Þær skaðlegu költísku ranghugmyndir sem þessu fylgja segi ég svo prestinn troða í huga saklausra barna sem ekkert þurfa á þessu að halda, en verða með því auðsveipir þrælar forneskjulegra og mannfjandsamlegra hindurvitna.

Auðvitað sárnar prestinum (les: töfralækninum) þetta. Allar hugmyndir hans um menntun sína og störf eru á þann veg að hann heldur sig vera að vinna göfugt starf, bjarga mannfólkinu frá eilífum helvítiseldi og kenna því að vera gott hvert við annað. Honum er fyrirmunað að sjá að þessi hugmynd hans um framlíf sálarinnar, sem aðeins kemst í góð mál fyrir friðþægingarverk foringjans mikla og heilagt sakramenti, á sér enga stoð í því raunveruleikasamhengi sem þekking nútímans býr yfir.

Hann sér ekki að við erum dýrategund sem höfum það eitt framyfir aðrar að vita af dauðanum og óttast hann. Hann sér ekki að einmitt sá hæfileiki okkar er forsenda dómsdagskölta á borð við það sem hann tilheyrir. Sér ekki að slík költ gera út á þrá manna eftir að teljast mikilvægir og útvaldir, telja þeim trú um að með því að framkævma fáránleg ritúöl komist þeir í rétta liðið og fái eilíft líf í sælu að launum.

Hann sér ekki samhengið.

Og honum er svosem vorkunn. Költið hans hefur náð að planta sér svo rækilega í samfélagsvitundina að menn sjá það sem einn af hornsteinum þess, ásamt dómsvaldi, löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi. Og það er ekki síst vegna þess að okkur er öllum innrætt á unga aldri að þessi stofnun sé sjálfsagður og eðilegur þáttur í menningu okkar að vanahugsunin nær ekki að sjá þetta í stærra samhengi.

En þegar þeir sem það gera opna munninn og benda á hið raunverulega samhengi þykir flestum það jaðra við glæp. Mönnum getur nefnilega sárnað.

Ég er stoltur af því að ástunda þann atvinnuróg að segja presta hryðjuverkamenn hugans og vinnustað þeirra forneskjulegt ranghugmyndaskrímsli sem samfélaginu væri betra að losa sig við. En á sama tíma fordæmi ég meðlimi költsins ekki fyrir margt, enda geri ég mér fulla grein fyrir því að þeir vita ekki betur, eru flæktir í net lyga og blekkinga.

Þeir sjá ekki samhengið.

Hryðjuverkamenn eru upp til hópa gott fólk og ærlegt. Það eru aðstæður sem valda því að venjulegt fólk grípur til örþrifaráða gegn kúgurum og óréttlæti. Málstaður hryðjuverkamannsins er alltaf góður að hans eigin mati, enda ekki til vont fólk í sjálfu sér.

Prestarnir í samfélagi okkar eru upp til hópa ágætis fólk, en störf þeirra eru því miður hugræn skemmdarverk. Í kappinu um að bjarga sálum sjá þeir ekki að þeir eru að skemma fyrir. Um leið og menn átta sig almennt á þessu verður hægt að tala um gífurlegar framfarir í samfélaginu.

Birgir Baldursson 14.02.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Ormurinn - 14/02/05 21:58 #

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort hægt sé að lögsækja miðla og aðra loddara fyrir að auglýsa þjónustu sem þeir veiti ekki (geta ekki veitt)???

Hvernig er það annars með "andlega þjónustu", þarf að borga vask af henni??


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 14/02/05 23:44 #

Auðvitað ætti að vera hægt að kæra þetta lið, sérstaklega miðla og hómópata því þar eru svikin augljósust.

Verst að liðið sem nýtir sér þjónustu þeirra vill láta hafa sig að fífli eða skammast sín of mikið til að gera eitthvað.


Bjoddn - 15/02/05 00:10 #

Sumir kannski skammast sín, aðrir ekki. Ég veit þó að fólk sem vill trúa á svona spámenn og miðla og þannig, fyllir bara sjálft oft upp í eyðurnar til að sýna fram á að spámaðurinn hafi haft rétt fyrir sér. Ég þekki t.d. konu og því var spáð að hún myndi fæða tvisvar. Hún síðan fæddi þrisvar en vildi meina að þar sem eitt barnið fæddist erlendis, þá væri sú fæðing ekki að marka eða eitthvað þannig. Hún bjó sér bara til raunveruleika til að mæta spádómnum.

Trúin flytur kannski ekki fjöll, en hún býr til bull :)


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 15/02/05 09:54 #

Ég tel að sumar auglýsingar miðla standist ekki neytendalöggjöf þar sem ekki verði sýnt að miðill sé að veita þá þjónustu sem auglýst er. Fyrir nokkru sá ég í einhverjum sjónvarpsvísi auglýsingu frá einhverri "andlegri miðstöð" sem hafði miðla á sínum snærum. Auglýstir voru "lækna"miðlar og miðlar sem kæmu með skilaboð að handan. Þar sem hvorutveggja er loddaraskapur sem auðveldlega er hægt að afsanna að eigi sér stoð í raunveruleikanum er um falsaða vöru að ræða eða a.m.k. ætti að vera hægt að krefjast þess að viðkomandi sýni fram á að varan sé ekta.

Hvaða bisnessmenn aðrir fá að auglýsa falsaða eða gallaða vöru og selja óáreittir? Það er klár mismunun, ha,ha,ha.

En ætli Samkeppnisstofnun eða Neytendasamtökin væru tilkippileg að rannsaka málið? Varla. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, yada,yada,yada....

93


Ormurinn - 15/02/05 10:39 #

Er enginn lögfræðingur á meðal Vantrúarmanna? Ég hef ekki mikið vit á lagabókstafnum en skyldi einhver vilja skoða þetta mál væri ég alveg til í að aðstoða.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.