Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að skrúfa hlutina sundur

Bókstafstrú á þann texta sem trúarrit á borð við Biblíuna innihalda er ekki æskilegur. Um það erum við Vantrúarseggir og guðfræðingar Þjóðkirkjukristninnar sammála. En hvað er það sem skilur á milli þessara tveggja hópa?

Ætli helsti munurinn sé ekki sá að guðfræðingarnir taka þennan texta, rýna í hann og skrúfa sundur í leit að einhverjum þeim skilaboðum frá almættinu sem ekki blasa við í sjálfum textanum en hljóta að vera í takt við nútímasiðferði. Niðurstöður þeirra eru oftar en ekki harla einkennilegar, en sem betur fer er útkoman oftast sú að fólk eigi að vera gott hvert við annað því það sé inntakið í boðskap Jesú þess sem kallaður var Kristur.

Við trúleysingjarnir hér á Vantrú erum ekkert að rýna of mikið milli línanna í þessum texta, heldur sjáum við bara hvað þarna stendur og fellum móralska dóma yfir því. Hins vegar gerum við okkur far um að rýna í og skrúfa sundur trúarbrögðin sjálf. Við leitum uppi eðli átrúnaðarins og reynum að finna skýringar á því hvers vegna fólk setur á fót söfnuði á borð við Þjóðkirkju og Krossinn. Sjónarhorn okkar er því fyrst og fremst mannfræðilegt.

Þetta gerir það að verkum að erfitt er fyrir þessa tvo hópa að tala saman. Guðfræðingarnir hafa fæstir áður þurft að mæta trú sinni og trúarbrögðum í þessu kalda og gagnrýna ljósi. Það sýnir sig best á því að þegar því er haldið fram hér á þessum vef að Þjóðkirkjan sé jafnmikið heimsendakölt og næsta slíkt, að blóðfórnar- og mannátsseremóníurnar séu sama villimennska og hjá steinaldarmönnum, verða menn bara sárir, neita að ræða þetta áfram, reyna ekki að hrekja neitt, en ásaka menn bara um persónuárásir og ómálefnaleika. Vísa svo í guðfræðilegar greinar sem eiga að útskýra eitthvað en gera það ekki, því þær snerta ekki á eðli trúarinnar heldur horfa bara endalaust í virkni hennar.

Menn eru svo týndir í innviðunum að þeim er ógerlegt að horfa á þetta utanfrá.

Þetta er að sjálfsögðu staðfesting á því sem við hér erum alltaf að halda fram, að guðfræðin sé ekki nógu fræðileg, gagnrýnin og sannleiksleitandi. Nei, sá sannleikur sem guðfræðingar eru á eftir er fyrirframgefinn og allt sem ógnar hugmyndum þeirra um samhengið fær ekki aðgang að hugum þeirra.

Þetta eru fangar í hlekkjum hugarfarsins. Þeir eru alltaf að skrúfa vitlausa skrúfu.

Birgir Baldursson 07.02.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Sævar - 07/02/05 11:44 #

"Þetta eru fangar í hlekkjum hugarfarsins".

Mjög sammála.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.