Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sköpunarsinnar í ríkisstjórn


Við lifum á viðsjárverðum tímum. Stutt er síðan að bæði vísinda- og stjórnmálamenn einbeittu sér að raunveruleikanum og létu ekki spyrjast að kraftaverkasögur og hindurvitni trúarbragðanna ættu sér einhvern stað í hugum þeirra. Það þótti einfaldlega ekki par fínt.

En þetta er að breytast.

Ekki er nóg með að ráðamenn séu óðum að koma út úr skápnum sem örgustu trúmenn, með Jesú Krist fjálglega á vörunum við hin ýmsu tækifæri, heldur ganga sumir þeirra lengra og gera sig uppvísa að því að vera hreinir og klárir sköpunarsinnar. Þannig var Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ekkert að breiða yfir bókstaflegan Biblíuskilning sinn í þættinum Nei ráðherra á Útvarpi Sögu fyrir nokkrum misserum, aðspurður um glæpi og refsingu:

Þessar deilur hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda, þessi spurning „dugar refsingin til að koma í veg fyrir glæpi?“ Í Aldingarðinum að þá gerðist þessi hrikalegi atburður eins og þið vitið og við sitjum uppi með erfðasyndina. Við erum að glíma við þetta alltaf hreint, hvað eigum við að gera, hvernig eigum við að stemma stigum við þessari ónáttúru í manninum og ef tólf ára fangelsi við fíkniefnabrotum dugar ekki hvað eigum við þá að gera? Þannig að þetta er sífellt viðfangsefni.

Þetta er ekki Gunnar í Krossinum sem veður þarna á ranghugmyndasúðum, heldur dómsmálaráðherra landsins. Sér enginn annar en ég viðvörunarljós blikka?

Forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson er greinilega á sömu trúarlínu og Björn. Að minnsta kosti fer lítið fyrir allegorískum túlkunum á sköpunarsögu Mósebóka í jólahugvekju sem hann flutti á aðventunni nú í vetur:

Heilög ritning færir okkur heim sannin um það að þegar Guð hafði skapað himin og jörð - og þar með lífríkið - „þá leit hann allt er hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ (Mósebók, 1.31). Hið góða er með öðrum orðum órofa hluti af sjálfu sköpunarverki Guðs. Á jólum endurglæðum við og eflum trú okkar á afl hins góða í manninum.

Færir okkur heim sanninn! Vissulega stendur þetta þarna í Biblíunni, en er hægt að ganga út frá því að það sem þar stendur sé satt og rétt og yfir gagnrýni hafið, Halldór? Hvorki prestar landsins né guðfræðingarnir uppí Háskóla tala svona, heldur hamra á því að þarna sé um ljóðræna allegóríska lofgjörð að ræða og Biblían vitni sem slík aðeins um trú manna á æðri máttarvöld.

Hún er ekki heilög þótt þú haldir það kannski, kæri æðsti ráðamaður þjóðarinnar.

Á hvaða tímum lifum við eiginlega? Búum við eftir allt við klerkaveldi?

Birgir Baldursson 23.01.2005
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Hnakkus - 23/01/05 03:35 #

Þessir menn hafa álíka þroskaða rökhugsun og mýfluga. Ekki skrýtið að þeir gleypi við trúarkreddum.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 23/01/05 12:29 #

Þetta er liðið sem hefur endurskoðun stjórnarskrárinnar í hendi sér. Haldiði að aðskilnaður ríkis og kirkju komist á dagskrá hjá þeim?!


Svanur Sigurbjörnsson - 23/01/05 14:45 #

Fyrirgefðu Birgir en hvað er "allegorísk túlkun"?

Það virðist vera einhver tíska núna að hafa presta eða bíblíutal meðferðis. Ætli Bush hans biblíulið séu farnir að hafa áhrif hér á landi? Það væri ekki fyrsta sinn sem að þjóðin apaði hugsunarlaust eftir stórveldinu fyrir vestan.

SS.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/01/05 01:10 #

Allegoría = dæmisaga - táknsaga. HÁ afgreiðir sköpunina í Biblíunni bókstaflega en skoðar hana ekki sem dæmisögu eða ljóðræna táknmynd eins og nútímaguðfræðingar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.