Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guð hylur andlit sitt

Á annan dag jóla fórust ótal manns þegar flóðbylgja gekk yfir í suðaustur-Asíu. Nóaflóðið kemur manni ósjálfrátt í hug. Þá var Guð fúll við mannkynið og ákvað að þurrka út alla nema fjölskylduna hans Nóa. Hvað gerði Guð þegar honum líkaði ekki við fólkið í Sódóma og Gómorru? Hann myrti það á hroðalegan hátt. Þessi flóðbylgja minnir á óneitanlega á Guð, aðferðir hans.

Ef ég væri kristinn þá myndi ég spyrja mig hvað allt þetta fólk hafi gert til að reita Guð til reiði. Ég er svo heppinn að vera ekki kristinn þannig að ég spyr mig hvers vegna peningum hafi ekki verið veitt til þess að byggja upp viðvörunarkerfi, það hafði bjargað fjölmörgum. Þessi tækni er til staðar, vísindin hafa lausn.

En hvað segja kristnir menn við þessu? Sumir kannast hér við aðfarir Guðs og gera ráð fyrir að allt þetta fólk hafi átt skilið að deyja. Fleiri, þar á meðal íslenskir prestar, segja að þetta hafi ekki verið Guð að kenna. Náttúran er hér allt í einu orðin grimmdarvera sem ber ábyrgð á þessum hroðalegu atburðum.

Guðfræðingar hafa fyrir löngu búið til hugtak um svona atburði, þeir segja að Guð hylji andlit sitt. Í raun er þetta allrahandalausn á því hvernig skal bregðast við öllum vondum atburðum. Guð er í feluleik og við skiljum ekki hvers vegna hann er þessu. Sömu menn sjá handbragð Guðs á öllu sem gott er. Voðalega er þetta sorglegur hugsanagangur.

Það er reyndar svo að fjölmargir sem björguðust frá flóðbylgjunni þakka Guði fyrir að hjálpa sér. Fólk sér eyðileggingu og dauða allt í kringum sig og ályktar að það hafi verið sérstaklega valið til að lifa af.

Í jarðfræðitíma í Menntaskólanum á Akureyri þá lærði ég um flóðbylgjur af völdum jarðskjálfta. Þar lærði ég að ef sjórinn hörfar skyndilega þá er vænlegast að koma sér langt frá hafinu. Um daginn las ég frétt um stúlku sem hafði lært það sama, hún náði að bjarga hundruðum mannslífa með þessari þekkingu sinni.

Menntun bjargar mannslífum. Vísindi bjarga mannslífum. Guð hylur andlit sitt...

Óli Gneisti Sóleyjarson 13.01.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Jóhanna - 13/01/05 11:50 #

"Þá var Guð fúll við mannkynið og ákvað að þurrka út alla nema fjölskylduna hans Nóa. Hvað gerði Guð þegar honum líkaði ekki við fólkið í Sódóma og Gómorru? Hann myrti það á hroðalegan hátt. Þessi flóðbylgja minnir á óneitanlega á Guð, aðferðir hans."

"Oh my God - Grow up! - trúir fólk þessu ennþá? Gneistinn notaði lykilorðið "menntun" í lok greinar sinnar - við vitum sem betur fer flest - í dag að það eru náttúrulegar skýringar á veðri og vindum, jarðskjálftum og eldgosum.

Þessar frásagnir í Gamla testamentinu eru frá tímum þar sem fólk vissi ekki betur!! Það trúði að jarðskjálftar og eldingar táknuðu reiði Guðs, flóð væri hefnd o.s.frv. Ef einhver trúir því í dag þá er uppfræðslu þörf og það hið snarasta.

Gneistinn virðist álíta það að kristin manneskja trúi þessu ennþá! Það er vissulega til illa upplýst fólk sem heldur að hvert orð í Biblíunni sé heilagur sannleikur, en Biblían er samansafn frásagna og rita, sem "by the way" eru rituð af mönnum í gegnum mörgþúsund ára tímabil. Frásögur síns tíma.

Við lesum hana líka til að skilja m.a. samferðafólk Jesú, sem þar vitnar um hann og orð hans. Til eru heil fræðisamtök sem hafa tekið að sér að finna út hvað Jesús eiginlega sagði og hvað hann ekki sagði. Jesús kenndi m.a. um frið, kærleika og fordómaleysi. Kristin siðfræði er siðfræði sem fólk ætti kinnroðalaust að vera stolt af því að tileinka sér. Ég tel mig ekki óheppna að vera kristna - og vona bara að ég geti staðið undir þeim merkjum að teljast kristin manneskja.

Pælingar Óla Gneista eru eðlilegar og eru hluti af því sem margir eru að hugsa. Ég held að vísu líka að vantrúarmenn og konur séu að leita að einhvers konar guði eða hvað sem fólk vill kalla æðri mátt. Mér sýnist, í raun, að fólkinu sem hér skrifar og er að rökræða við prestana á guðfræðivefnum sé alls ekki sama um lífið og tilveruna og lifi ekki í meðvitundar-og áhugaleysi eins og svo margir gera.

Mér finnst það mjög virðingarvert að taka afstöðu, - þó að sjálfsögðu geti hún breyst. Trúleysinginn tekur trú og trúmaðurinn missir trú, og allir efast einhvern tíma.

Það er rétt sem kemur hér fram í þessari grein, að þau sem lifa af þakka Guði og algeng klysja í bíómyndum þar sem fólk bjargast úr háska er t.d. "Now I know, There is a God!.." hvað með hin sem ekki bjargast, - hvað skyldu þau segja ef við heyrðum til þeirra ? "Now I know, There is NO God!.. " ??? Eða segja þau kannski bara það sama og hin sem lifðu af ?? eru þau að mæta Drottni sínum ? ..eru það þau sem fá að sjá afhjúpað andlit Guðs?

Það eru þau sem eftir standa, þau sem missa sem kannski reiðast og spyrja "af hverju ég" eða hvort það sé alls enginn guð - og ef hann/hún/það er hvers eðlis þessi guð er. En merkilegt nokk, að flestir sem hafa haft trúna fyrir missa ekki trúna, þrátt fyrir hremmingar, jafnvel af verstu gerð.

Guðsmyndin hefur breyst í gegnum aldirnar frá þessum reiða fjarlæga guði yfir í nálægan mildan guð. Sú mynd hefur þróast við upplýstari veröld; menntun, reynslu, þekkingu - og kærleika. Kannski eiga engir tveir sömu guðsmyndina, en einhverja guðsmynd trúi ég að allir eigi. Kannski hinir "heppnu" ókristnu eigi guðsmynd líka ? Gaman að þessum pælingum!

p.s. Ég kannast ekkert við Guð í feluleik!


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 13/01/05 12:24 #

Ég kannast heldur ekki við guð í feluleik. Og reyndar heldur ekki guð sem er ekki í feluleik.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 13/01/05 12:27 #

Segðu mér hver tilgangurinn er í því að hafa sögurnar af Sódómu og Gómorru og Nóaflóðinu í Biblíunni ef það er ekkert vit í þeim, hvers vegna eru þær ekki klipptar út?

Trúir þú á Guð sem getur haft bein áhrif á líf okkar?

Þú virðist annars lítið hafa lesið í NT ef þú telur að Jesú hafi verið að kenna frið og fordómaleysi.


johanna - 13/01/05 14:07 #

Segðu mér hver tilgangurinn er í því að hafa sögurnar af Sódómu og Gómorru og Nóaflóðinu í Biblíunni ef það er ekkert vit í þeim, hvers vegna eru þær ekki klipptar út?

Biblían er rit, eða safn rita, sem ég held að við klippum ekkert út úr. Vissulega eru til hreyfingar sem hafa dæmt Biblíuna ónothæfa eða hluta hennar, t.d. kvennahreyfingar, en eflaust er Biblían að mestu ef ekki öllu leyti skrifuð frá sjónarhóli karlmanna.

En á sama hátt og við klippum ekkert út úr mannkynssögubókum klippum við ekkert út úr Biblíunni. Nóaflóðið er auðvitað goðsaga (mýta) sem hefur eflaust orðið til eftir stórflóð. Það eru til margar svipaðar sögur, í mörgum trúarbrögðum.

Sjálfri finnst mér margar sögur Biblíunnar mjög vandræðalegar inn í nútíma umhverfi og erfitt að útskýra fyrir börnum, sem öðrum t.d. að það sé allt í lagi fyrir Davíð að drepa Golíat! - Sú saga á auðvitað bara að tákna að lítilmagninn þarf ekki að gefast upp fyrir hinum stóra, en auðvitað er "extreme" að drepa, og myndi ekki henta á leikvellinum í dag!Þetta sama gildir eflaust um Nóaflóðið og eyðingu Sódómu og Gómorru. Það er því mikill ábyrgðarhluti okkar eldri að útskýra þessar sögur fyrir börnum, og hvernig þær komu til.

Þessi boðskapur um að hin "réttlátu" bjargist og "ranglátu" farist - gengur engan veginn upp! Slæmir hlutir koma fyrir gott fólk og vice versa. Mæli með að fólk lesi bókina "Why do bad things happen to good people" ..

"Nútímalegri útgáfa af flóðaboðskap" og sem er eflaust að finna í barnasöngnum "Á bjargi byggði hygginn maður hús" "Á sandi byggði heimskur maður hús".. og þá kom steypiregn o.s.frv. (treysti því að þið þekkið restina) og er þá farið að höfða til visku/skynsemi.

Getur Guð haft bein áhrif? Já með nálægð sinni gefur hann traust, gleði o.s.frv. Ég trúi ekki að Guð kippi þér undan bíl sem er að fara að keyra á þig eða e-hvað svol.

"Þú virðist annars lítið hafa lesið í NT ef þú telur að Jesú hafi verið að kenna frið og fordómaleysi."

Skrítið að þú haldir að ég hafi ekki lesið, og sé samt að skipta mér af hér! Hef lesið Nýja testamentið alveg ágætlega og mín upplifun af Jesú Kristi er friður og fordómaleysi. Hvaða gleraugum þú hefur lesið með veit ég ekki, en vona að Jesú sé nú ekki mjög slæmur í þínum augum! Páll Postuli er soldil karlremba þó hann segi margt ágætt inná milli en hefur fordóma, passaðu þig á því að rugla honum ekki saman við Jesú!


Snær - 13/01/05 15:20 #

Jóhanna skrifaði: "Getur Guð haft bein áhrif? Já með nálægð sinni gefur hann traust, gleði o.s.frv. Ég trúi ekki að Guð kippi þér undan bíl sem er að fara að keyra á þig eða e-hvað svol."

Gætirðu kannski upplýst mig um það hverja persónueiginleika guðinn þinn ber?

Er hann alvitur? Al-elskandi? Almáttugur?


Jóhanna - 13/01/05 16:20 #

Nei, þetta er ekki guðinn "Al" !


Jóhanna - 13/01/05 16:21 #

Nei, þetta er ekki guðinn "Al" !


jogus (meðlimur í Vantrú) - 13/01/05 16:32 #

En á sama hátt og við klippum ekkert út úr mannkynssögubókum klippum við ekkert út úr Biblíunni. Nóaflóðið er auðvitað goðsaga (mýta) sem hefur eflaust orðið til eftir stórflóð.

Prófaðu, næst þegar þú átt leið í bókabúð, að skoða einhverja af þeim fjölmörgu (myndskreyttu) barnabiblíum sem til eru.

Settu síðan boðskapinn sem þar er settur fram (t.d. um Nóaflóðið) í samhengi við það hvernig guð er framsettur við börn (hann er til og er virkur þátttakandi í hinu mannlega samfélagi o.s.frv.) og sjáðu hvaða mynd þú færð upp. Finnst þér þá að verið sé að kynna þetta sem "augljósa" goðsögu?


Árni Árnason - 13/01/05 16:41 #

Þessi umræða er alltaf jafnskemmtileg, því að þarna eru prestarnir grænsápusmurðir frá hvirfli til ilja, og hlaupa eins og hauslausar hænur um allar koppagrundir, tvísaga, þrísaga og kross-saga að reyna að víkja sér undan árasum skynseminnar.

Mér er enn í minni gamalt lesendabréf í dagblaði frá presti einum hér í borg, sem vildi hinn stórháskalega Reykjavíkurflugvöll burt. Hann minnti á atvik þar sem tveir franskir flugmenn höfðu farist er vél þeirra lenti utan brautar í Vatnsmýrinni og atvikið þegar Fokkerinn fór yfir Suðurgötuna, en "Guðs mildi réði að enginn slasaðist"

Mér fannst fyndnast að presturinn skyldi ekki sjá þversögnina í þessum stutta texta sínum, sérstaklega þar sem hún rúmaðist inni í einni og sömu málsgreininni.

Og svo eru þeir alveg hissa að maður skuli ekki gleypa við þessu bulli.


Jóhanna - 13/01/05 17:47 #

Jogus tekur út svar mitt við spurningu Óla Gneista um hvort ekki megi sleppa Nóaflóðnu úr Biblíunni. Það hefur ekki tíðkast að skera niður úr þessu heildarriti.

Margar þekktustu sögur Gamla testamentisins hafa verið settar upp í Myndabiblíum fyrir börn, þ.m. talið sagan af Nóa, það er rétt og Það er einnig rétt hjá Jogus að það er örugglega ekki tekið fram í upphafi að þetta sé goðsaga og mætti eflaust bæta úr. Sjálf myndi ég ekki velja þetta efni í sunnudagaskólakennslu! - og tók það einnig fram í fyrri grein að margar sögur Gamla testamentisins pössuðu bara alls ekki inní guðsmyndina sem við viljum birta í dag. "Ver mér nær" guðsmynd. Mynd af Guði "sem læknar sektarkennd, kvíða, einsemd og reiði og gefur fyrirgefningu, frelsi, frið og femínisma" svo vitnað sé í Auði Eir.

Þið snillingar leitið sannleikans, eins og við öll. Mér finnst svolítið ergelsi ríkja í mörgum greinum hér og vilji til að misskilja viðbrögð þeirra sem svara. Þið heimtið svör, en svarið litlu sjálfir. Ef fólk á að nenna að sýna viðbrögð verður að sýna virðingu fyrir skoðunum hinna. "Vinsamlegast slepptu öllum ærumeiðingum" stendur í reglunum hér. Árni Árnason talar um presta sem "hauslausar hænur" og grænsápusmurða frá hvirfli til ilja" skjúsmí - mér finnst þetta ærumeiðingar í garð presta kæru vantrúar-ritstjórar.

Þið virðist vera reiðir út í trúna og þau sem bera út boðskap hennar. Viljið þið rökræður við þau sem trúa, eða bara ræða ykkar á milli hvað það felist mikil gleði, sannleikur og styrkur í trúleysinu?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 13/01/05 18:29 #

Auðvitað er ergelsi í mörgum greinum hér, Vantrúaðir hafa margt til að vera argir útaf.

Ef fólk á að nenna að sýna viðbrögð verður að sýna virðingu fyrir skoðunum hinna.
Við berum ekki virðingu fyrir skoðunum. #

mér finnst þetta ærumeiðingar í garð presta kæru vantrúar-ritstjórar.
Flott hjá þér - mér finnst það ekki.

Þið virðist vera reiðir út í trúna og þau sem bera út boðskap hennar.
Við erum stundum reið enda nóg til að vera reið útaf. Það er erfitt að vera reiður út í trú enda erfitt að persónugera hana, en ég er oft reiður út í þá sem boða bull og kjaftæði eins og um staðreyndir sé að ræða.

Viljið þið rökræður við þau sem trúa, eða bara ræða ykkar á milli hvað það felist mikil gleði, sannleikur og styrkur í trúleysinu?
Við viljum rökræður en það þýðir líka að trúmenn mega eiga von á andsvörum þegar þeir hætta sér hingað inn. Þetta er mörgu trúfólki framandi enda er það vant því að segja bara hallelújah og amen - en hér fær fólk aftur á móti að heyra hvað áttu við? og færðu fyrir þessu rök.


kristín - 13/01/05 20:21 #

"En á sama hátt og við klippum ekkert út úr mannkynssögubókum klippum við ekkert út úr Biblíunni."

er það rugl í mér eða hafa ekki verið klippt einhver rit úr gamla testamentinu sem þóttu of gróf? ef það er leyft, af hverju þá ekki að ritskoða biblíuna betur og halda áfram að skera niður? nóg er af því í henni sem betur mætti fara.


Friðmar - 13/01/05 22:23 #

Ég fór inná sýðu sem auglýsir sýg sem vantrú en það fyrsta sem ég sé er umtal um Guð. Ég spyr hvort höfundur sé í raun vantrúaður vegna þess að hann talar um guð eins og hann sé til. en ekki eins og sá sem trúir ekki. myndi sá sem trúir ekki t.d. setja upp svona síðu?


Ingvar Leví - 13/01/05 22:41 #

Kristín ég veit ekki hvaðan þú fékkst þessar upplýsingar? En allaveganna er ekki búið að taka neitt úr Íslensku þýðingunni! Opinberun Jóhannesar: Lokaorð 22 kafli og 18 til 21 vers: 18Ég votta fyrir hverjum þeim manni, sem heyrir spádómsorð þessarar bókar, að leggi nokkur við þau, mun Guð á hann leggja þær plágur, sem um er ritað í þessari bók. 19Og taki nokkur burt nokkuð af orðum spádómsbókar þessarar, þá mun Guð burt taka hlut hans í tré lífsins og í borginni helgu, sem um er ritað í þessari bók. 20Sá sem vottar segir: ,,Já ég kem skjótt." Amen. Kom þú, Drottinn Jesús! 21Náðin Drottins Jesú sé með öllum.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 13/01/05 22:53 #

Friðmar, lestu bara greinarnar hérna og þá sérstaklega greinarnar merktar FAQ. Þá sérðu af hverju við erum að þessu.

Jóhanna skrifar: "Þið snillingar leitið sannleikans, eins og við öll. Mér finnst svolítið ergelsi ríkja í mörgum greinum hér og vilji til að misskilja viðbrögð þeirra sem svara. Þið heimtið svör, en svarið litlu sjálfir."

Hvaða svör viltu? Hverju svörum við ekki?

Þessi gvuð sem þú aðhyllist, á hann sér hliðstæðu í Biblíunni eða ertu búinn að skilgreina hann út af fyrir þig langt frá raunverulegum boðskapi Biblíunnar? Þ.e. tekur það sem passar og sleppir því sem passar síður og er augljós skáldskapur.


Árni Árnason - 14/01/05 14:25 #

Svo virðist sem líking mín um grænsápusmurða presta, og sem hauslausar hænur hafi farið fyrir brjóstið á einhverjum. Jafnvel er látið að því liggja að um ærumeiðingar sé að ræða.

Þetta er líkingamál eins og svo gjarna er sagt um þær frásagnir biflíunnar sem enginn trúir lengur.

Grænsápusmurðir- er bein tilvitnum í snillinginn sem kom fram með orðið grænsápuguðfræði. Þetta á að sjálfsögðu við eitthvað sem enga hönd er á festandi. Þegar sagnir og fullyrðingar Biflíunnar eru ýmist staðreyndir, eða táknmál, og ýmisst beri að taka þær orðrétt eða túlka, allt eftir hentugleika, eru rökræður við presta eins og fangbrögð við mann sem er smurður grænsápu frá hvirfli til ilja.

Hauslausar hænur eru sagðar æða um stefnulaust á einhverjum leifum af reflexum í taugum og vöðvum. Prestastéttin er álíka stefnulaus í því máli sem hér um ræðir, og virðist ekki einu sinni geta komið sér saman um samræmi í galskapnum.

Ærumeiðing. Svo sannarlega ekki. Kannski svolítið myndræn sýn á vitleysuna.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 14/01/05 15:15 #

Ingvar Leví: Takk fyrir að koma þessa tilvitnun.


Jóhanna - 14/01/05 15:27 #

Matti Á: "Við berum ekki virðingu fyrir skoðunum" - og hefur sér til traust grein Páls Skúlasonar.

Skoðanabróðir Matta Á; Birgir Bragason segir: "Skoðanir eru ekki allar jafn virðingarverðar. En auðvitað ber okkur að virða fólkið sjálft, hverjar svo sem skoðanir þess eru."

Af hverju það? Skoðanir koma ekki úr tómi! Þær koma úr heilanum á fólkinu sem þið segið að eigi að virða. Af hverju er eitthvað "auðvitað" við að virða fólk, en ekki skoðanir? Hvað á að virða við fólkið ef ekki skoðanir þess? Páll Skúlason talar um skoðun nágrannans sem telur rétt að drepa ketti, eða e-hvað í þá áttina. Við getum þar af leiðandi virt þennan nágranna en ekki skoðun hans hmmmm..

Þegar í daglegu tali er verið að tala um að bera virðingum fyrir skoðunum annara, held ég að við séum ekki að tala um skoðanir fjöldamorðingja eða dýraníðinga. Það má einnig teygja hugtakið "að bera virðingu fyrir skoðunum" - ef við álítum að það sé að hneigja sig fyrir og samþykkja þá skil ég vel að þið afneitið öllu. En þið vitið jafn vel og ég að það er ekki það sem átt er við.

Eftir hverju eruð þið annars að leita þegar þið setjið upp dálkinn "viðbrögð" - í viðbrögðin koma nefnilega skoðanir lesenda á ykkar skoðunum. Ef ykkur er andsk. sama um skoðanir annara þá sé ég ekki tilgang til rökræðna.

Mér finnst s.s. að þið séuð í raun að bera virðingu fyrir skoðunum með því að leyfa þeim að birtast hér á síðunni ykkar. Takk fyrir það!


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 14/01/05 15:34 #

Mér finnst s.s. að þið séuð í raun að bera virðingu fyrir skoðunum með því að leyfa þeim að birtast hér á síðunni ykkar. Takk fyrir það!
Þú mátt orða það þannig, en ert samt komin í hálfgerða þversögn við sjálfa þig, sbr: " Ef fólk á að nenna að sýna viðbrögð verður að sýna virðingu fyrir skoðunum hinna.".


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/01/05 15:55 #

Díalektík, Jóhanna, díalektík. Það sem við eigum við er að bera ekki virðingu fyrir skoðunum sem við teljum rangar, heldur er það siðferðileg skylda okkar að sýna fram á rangindi þeirra. Þannig verður rökræðan kannski að einhverju gagni, menn átta sig á hvar brotalamirnar liggja.


Jóhanna - 14/01/05 16:10 #

Kristín, það eru margar afskaplega ljótar frásagnir í Biblíunni. Svona var lífið þá, og svona er það í dag. Það er rétt hjá þér að einhverjir - réttara sagt einhverjar - hafa kosið að halda Biblíunni sem sínu trúarriti en aðeins með þeim kosti að "stroka út" það sem þeim finnst ekki við hæfi. Biblían er mannaverk (meira að segja karlmannaverk býst ég við að mestu leyti), og ritin í henni eru rit sem menn völdu saman.

Biblían er ekki aðeins trúarrit, hún er einnig mikið bókmenntaverk. Þegar verið er að endurskoða Biblíuna koma að því málfræðingar og fl. ekki endilega bara prestar og guðfræðingar. Það hefur verið karpað um Biblíuna og innblástur hennar svo lengi sem menn muna, sumir telja hana í heild innblásið orð Guðs, aðrir telja hana að hluta til innblásna, aðrir alls ekki, og svo er auðvitað fólk sem telur Biblíuna jafn merkilega (ef ekki ómerkilegri) og ævintýri H.C. Andersens.

Það er svo undir fólkinu komið sem les Biblíuna með hvaða hugarfari er lesið, hver reynsla þess er o.s.frv. Sumir geta samsamað sig með persónum sem þar eru settar fram, aðrir sjá bara illsku í Biblíunni. Öfgar eru varasamir, bæði of og van, að mínu mati. Nú vona ég að við göngum öll í gleði inní helgina.

Enn og aftur vil ég þakka fyrir að fá að segja mína skoðun hér.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 14/01/05 16:15 #

Þetta með að virða skoðanir annarra eður ei sést etv. best á alþingi og í fjölmiðlum. Þar hnakkrífast pólitíkusar úr mismunandi flokkum og finna tillögum og skoðunum andstæðinga sinna allt til foráttu. En um leið og komið er úr þingsal setjast rifrildisseggirnir og drósirnar saman til borðs og úða í sig kleinum í mesta friði og spekt. Sumsé, skoðanir geta verið út úr kú, en það er óþarfi (og raunar óásættanlegt) að hatast út í andstæðinginn.


Jóhanna - 15/01/05 14:22 #

G2 - Ef að maður segir annan mann hafa skítlegt eðli og borðar síðan kleinur með honum á eftir, þýðir það þá að hann beri virðingu fyrir manninum en ekki skoðunum hans ? (Þetta er annars ágætt dæmi hjá þér)

Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/01/05 15:31 #

Er ekki augljóst að Davíð og Ólafur Ragnar hatast? Það eru miklu meira en skoðanir sem þá greinir á um, þarna er um persónulega óvild að ræða.

Kannski gætu þessir tveir lært ýmislegt af okkur Vantrúarfólki, t.d. að skilja á milli persónu manna og þeirra skoðana sem þeir eru svo óheppnir að hafa tileinkað sér.


Jóhanna - 15/01/05 17:56 #

Við erum komin útum víðan völl - en er aðeins farin að læra aðferðafræði ykkar hér og ætla að víkja aftur að upphafinu:

Það sem er innan gæsalappa eru orð Óla Gneista greinarhöfundar. - Ekki búin að átta mig á þessum flottu kössum sem þið setjið útklippt orð inn í!

"Nóaflóðið kemur manni ósjálfrátt í hug."

Takið eftir hversu Biblíusögurnar eru ofarlega í huga greinarhöfundar sem er þó vantrúarmaður.

"Þá var Guð fúll við mannkynið"

Vantrúarmenn hafa tekið sér þennan fúla goðsögu-Guð sem fyrirmynd, og ákveðið að vera fúlir á móti út í hið óþolandi trúgjarna mannkyn. Neita að virða skoðanir þeirra - því þær eru að sjálfsögðu bull og humbúkk.

" Þessi flóðbylgja minnir óneitanlega á Guð, aðferðir hans...."

Guð er alltaf ávallt að minna á sig í huga Óla Gneista - Hvernig getur þessi flóðbylgja minnt vantrúarmann á Guð og hans aðferðir þegar enginn Guð er til?????

"Ég er svo heppinn að vera ekki kristinn" Það er gott að álíta sig heppinn, það hlýtur Nói að hafa gert líka (enda gjörsamlega ókristinn).

Ég skil að ykkur þyrsti í fallegri guðsmynd en guðsmyndina sem kemur fram í reiðum guði Nóaflóðsins.

Ef þessi guðsmynd væri sífellt að "poppa upp" í höfðinu á mér, þá væri ég heldur ekki kristin!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/01/05 18:31 #

Guð er alltaf ávallt að minna á sig í huga Óla Gneista - Hvernig getur þessi flóðbylgja minnt vantrúarmann á Guð og hans aðferðir þegar enginn Guð er til?????

Vegna þess að hann er að vísa í þann guð sem lýst er í Biblíunni. Þessum guði var troðið upp á okkur öll þegar við vorum börn og því munum við hann flest.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/01/05 18:37 #

Ég skil að ykkur þyrsti í fallegri guðsmynd en guðsmyndina sem kemur fram í reiðum guði Nóaflóðsins.

Nei, okkur þyrstir ekki í neina guðsmynd. Hér ertu að gera okkur upp skoðanir. Hins vegar þyrstir okkur í að kristnir menn átti sig á því hvers konar guðs(ó)mynd það er sem þeir tilbiðja.

Til að búa til flotta kassa með tilvitnunum inni í seturðu textann inn í html-skipanirnar blockquote og /blockquote (innan í oddklofum).


Jóhanna - 16/01/05 23:58 #

Nei, okkur þyrstir ekki í neina guðsmynd. Hér ertu að gera okkur upp skoðanir.

Það var ekki ætlun mín að gera ykkur upp skoðanir. Ég túlkaði mikinn áhuga á guðsmyndum sem þorsta ykkar á þeim.


Jóhanna - 17/01/05 09:28 #

Mér sýnist að úr því að vantrúarsöfnuðurinn á erfitt með að slíta sig frá guðsmyndinni sem þeim var kennd í æsku, þurfi þeir að fara að þroska sig frá henni. Það er örugglega erfitt, því lengi býr að fyrstu gerð, en með menntun og auknum þroska ætti þetta að hafast.

Það getur verið verið sárt að átta sig á því að guð bjargar ekki öllu. Sjá engan guð lengur. Þá virðist sumir grípa til þess ráðs að dömpa trúnni bara algjörlega. Aðrir sjá guð í öðru ljósi, allt öðru ljósi. Þessi guð sem fólk finnur fyrir getur t.d. virkað sem vinur eða vinkona, sem yfirgefur það aldrei - næs? Já, af hverju ekki? Það er fullt af einmana/þunglyndu fólki sem er betur statt ef það hefur guð sinn, af hverju viljið þið taka hann/hana/það af þeim? Guðstrú gefur fólki gleði, kærleika og frið (þá er ég auðvitað ekki að tala um trú á hefnandi guð). Ég vona bara að þið séuð ekki svo smásálarleg að fara að sparka í þennan guð vonar, skyrpa í andlit hans -því hvað sem sumir segja þá er ég ósammála að hann hylji andlit sitt, það erum við sem lokum augum okkar ef við sjáum ekki guð.

Ég er alveg sammála því að endurskoða þurfi aðferðir og kennslu hvað varðar trúna, og eruð þið vantrúarmenn lifandi dæmi um misheppnaða aðferðarfræði í þeim málum. Kirkjan þarf að vera í sífelldri sjálfsskoðun og endurnýjun. Því miður höfum við mjög íhaldssama kirkjustjórn.

Þegar hér er rabbað er voða mikið verið að tala um "ykkur og okkur" eins og þið séuð ein sál og hinir önnur. Þið eruð auðvitað misjöfn og misvantrúuð og með ólíkan bakgrunn. Það er fólkið sem tilheyrir kirkjunni líka. Prestarnir eru misjafnir, allt frá því að vera vanhæfir - upp í frábæra leiðtoga og fyrirmyndir.

Ekki veit ég hvort ég hef tíma til að röfla meira á þessum síðum, en ég vil aðeins segja eitt að lokum:

Trú fólks er mjög tilfinningatengd og aðgát skal höfð í nærveru sálar.

p.s. Takk fyrir kennsluna í kössunum Birgir - alltaf gaman að kunna eitthvað nýtt:)


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 17/01/05 10:50 #

Jóhanna, óttalegir útúrsnúningar eru þetta ítrekað hjá þér - jafnvel þegar þú hefur verið leiðrétt heldur þú áfram með sömu vitleysuna. Furðulegt atferli.

Þú klúðraðir "kössunum", ég lagaði það fyrir þig eftirá.


Jóhanna - 17/01/05 11:22 #

Don´t worry be happy, I´m out of here!


Lárus Páll Birgisson - 18/01/05 05:08 #

"Þessum guði var troðið upp á okkur öll þegar við vorum börn og því munum við hann flest."

Getur verið Birgir að þitt trúarlega uppeldi gæti hafa verið öðruvísi en hjá öðrum? Getur verið að þú hafir fengið einhverja ankanalega mynd af Guði í æsku? Getur verið að flestir hafi ekki þessa skelfilega neikvæðu mynd að Guði sem þú virðist hafa?

Ég bara spyr svona fyrir forvitnissakir þar sem ég kannast ekki við þetta "illmenni" sem þú ert að tala um.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/01/05 13:32 #

Nei Lalli, ég fékk nákvæmlega sömu innrætingu og allir aðrir, átti afskiptalausa foreldra, nam kristinfræði og gekki tvo vetur í sunnudagaskóla. Enda var ég kristinn fram að 12 ára aldri, en þá gerðist eitthvað sem síðan hefur valdið því að mér finnst þetta hugmyndakerfi óþolandi bjánalegt og öll trúarlega hegðunin afkáraleg. Fór yfir í dulhyggjuna, sem mér fannst að sama skapi heillandi.

Ætli ég hafi ekki bara byrjað að hugsa ;)


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 18/01/05 14:18 #

Svipað og með mig, sem varð afhuga kristni, fór að skoða aðeins önnur trúarbrögð, fór svo að efast um þetta allt saman og gerðist bara trúleysingi.


John Cookie - 25/01/05 22:30 #

Mér finnst þetta algjört rugl þetta með Gvuð. Ég er í einhverjum leiðindr kaþólskum skóla þegar ég var lítill, og trúið mér, trúað fólk er oft/alltaf fávitar (ég ætlast til að sumir hér séu sammála...). Ég er neiddur til að stunda Kristinfræði og ég á að læra fucking Biblíuna UTANAF (allir kaflar, um hvað fjalla þeir...)!!! Kennarinn minn er fáviti og kallar okkur heimskingja (estupido, bý á Spáni) og við vorum naestum því reknir í þokkabót(eða sem betur fer...)!! æi ég nenni þessu ekki mig langar bara að fíflast í skrítnu trúuðu fólki....


Lárus Páll Birgisson - 27/01/05 05:06 #

Hvað gerðist þegar þú varst 12 ára Birgir?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/01/05 10:00 #

Ég var búinn að svara því, ég byrjaði sennilega að hugsa um þær mundir.

Annars, þegar ég skoða það betur, er ég ekki frá því að ég hafi alla tíð haft þetta ógeð á kirkjulegum tilburðum en gerst sunnudagaskólakristinn út af glansmyndunum og haldist þar við af því að þar var minni slepja en í kirkjunni.

Ég man t.d. eftir því þegar litla systir mín var skírð. Athöfnin fór fram heima hjá mér og ég var rétt um þriggja ára gamall. Prestur mætti í skrúða á staðinn og saman sungu foreldrar mínir og ömmur og afi sálma milli þess sem presturunn fór með ritúöl. Ég man að mér fannst sálmarnir flottir, en skildi ekkert í þessum tiktúrum þessa kjólklædda manns - fannst þetta asnaleg hegðun. Hvað var að fólkinu mínu að taka þátt í þessum bjánagangi?

Það er þó rétt að taka fram að þessi minning mín aftan úr frumbernsku getur varla talist áreiðanleg. Fjölmörg dæmi eru til um falskar minningar af þessu tagi og verið getur að ég hafi sett þessa mynd saman úr upprifjun foreldra minna seinna, í bland við myndir úr fjölskyldualbúminu :)

Hvernig svari varstu annars að vonast eftir? Að prestur hafi nauðgað mér? Viltu endilega að andúð mín á kristni eigi sér slíkar ástæður? Geturðu ekki trúað því að sumt fólk sjái þennan afkáralega skrípaleik sem trúarástundun er bara fyrir það sem hann er?


Lárus Páll Birgisson - 28/01/05 05:39 #

Þannig að þú leggur traust þitt á lífsýn sem þú eignaðist 12 ára gamall?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.