Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Einkavæðum Þjóðkirkjuna

Hver er munurinn á Landsbanka og Þjóðkirkju? Enginn að því leytinu til að hvorugri stofnun ætti að bera sérstök vernd frá Alþingi. Bankinn er nú seldur, en hvað um kirkjuna? Meirihluti landsmanna vill að hún öðlist sjálfstæði frá ríkisvaldinu og er tími til kominn. En hverjar eiga að vera forsendurnar fyrir slíku sjálfstæði og hver á þá að eiga kirkjuna þegar af slíku verður?

Ráðherra dóms- og kirkjumála vill gefa kirkjunni 84 jarðir og hús auk 150 milljón króna meðgjöf. Varlega áætlað er hér um að ræða einn milljarð króna, eða ein milljón fyrir hvert ár guðs kristni í landinu. Þetta eru eignir almennings og ráðherra hefur ekkert vald til að gefa þær einum eða neinum, hvað þá gefa með þeim. Sem betur fer voru viðsemjendur ráðherra ekki greindari en svo að þeir vildu ekki þiggja gjöfina. Þeir voru reyndar snöggir að hirða milljónahundruðin, sem alþingi gaf stofnunninni í 1000 ára afmælisgjöf fyrir stuttu síðan, þvert á vilja þjóðarinnar. Auk þess er það móðgun við bændur þessa lands að setja góðar bújarðir undir presta kirkjunnar, sem hvorki hafa vilja til né getu, né heldur ættu að sinna búskap. Hvers vegna njóta prestar þeirra forréttinda, einir stétta, að fórnað sé undir þá jörðum og húsakosti? Prófessorar og hæstaréttardómarar eru einnig æviráðnir, en ekki er mulið undir þá á þennan hátt.

Meðlimir þjóðkirkjunnar eru auðvitað allsendis vanhæfir til að semja um aðskilnað ríkis og kirkju við sjálfa sig vegna hagsmunaárekstra. Reyndar er um ósköp lítið að semja ef út í það er farið. Eða hvernig hefur biskup hugsað sér eignarhald á auðæfum kirkjunnar þegar til aðskilnaðar kemur? Hver verður handhafi afsals fyrir Skálholt, Hóla eða Valþjófsstað? Staða kirkjunnar er um margt lík stöðu sparisjóðanna í landinu, sem enginn á að því er manni skilst. Stofnfjárfestar kirkjunnar er fólkið í landinu, fyrr og síðar og auðvitað réttlætismál að það fá notið ávaxtanna af þeim fjárfestingum. Þar er ekki einungis átt við þá sem játast undir helsi þjóðkirkjunnar heldur alla íslendinga.

Nú verða e.t.v. einhverjir til að benda á að margt sem kirkjan á hefur henni verið ánafnað í gegnum tíðina. Fyrir því er sú einfalda ástæða að fyrir lýðveldisstofnun gegndi kirkjan svipuðu hlutverki og ríkið gerir í dag. Fram til 1944 áttu erlendir konungar landið og fóru með að vild sinni. Kirkjan sat í krafti konungs ein að kjötkötlunum og sölsaði undir sig hvað eina sem kóngur gat ekki flutt úr landi, m.a. landið sjálft. Íbúarnir fylgdu með ofurseldir dutlungum geistlegs yfirvalds, sem stjórnaði harðri hendi með hótunum um helvítiseld að lokinni aumri hérvist. Margir reyndu að kaupa sig frá slíkum örlögum og gáfu því kirkjunni lönd og lausa aura sér til sáluhjálpar.

Ef steingerður naflastrengur kirkju og ríkis verður loksins rofinn, mun drottinn sjálfsagt sjá um sína. Alþingi er hins vegar að bregðast skyldum sínum ef með í þeim gjörningi fylgja eigur þjóðarinnar og e.t.v. "rífleg milligjöf". Það er auðvitað ekki annað hægt en að selja eignir þær sem þjóðkirkjan hefur haft til prívat brúks, lysthafendum þegar að því kemur að bandið slitnar. Áhugasamir söfnuðir geta þá keypt "sínar" kirkjur, ráðið sér prest og keppt á frjálsum markaði um sálir landsmanna rétt eins og aðrir söfnuðir gera nú þegar. Fénu sem aflað yrði á þennan hátt mætti svo verja til þarflegri og jarðbundnari hluta en trúarhjals. Hluta fjárins væri t.a.m. vel varið sem verðlaun í samkeppni um nýjan þjóðsöng, sem ekki er uppfullur af mærð og ósönghæfur með öllu.

Þjóðkirkjan er ríkisstofnun og því ríkisins, þ.e. almennings, að selja, rétt eins hver annar banki eða áburðarverksmiðja. Ekki verður skilist við umræðuna um einkavæðingu kirkjunnar öðruvísi en að minna á að aðskilnaður kirkju og ríkis er ekki einungis fjárhagslegs eðlis, heldur verður einnig að losa kverkatak kirkjunnar af skólum og menntamálum. Það er óeðlilegt að óheftur áróður sögulegs undirlægjuháttar fái óhindrað að kennd séu ævintýri og bábiljur sem gallharðar staðreyndir. Í fyrsta bekk barnaskóla er fyrsta markmið kristinfræðikennslu skv. kennsluskrá menntamálaráðuneytis sköpunartrú! Er ekki mál til komið að hætta svona vitleysu?

Guðmundur Guðmundsson 12.01.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Árni Árnason - 12/01/05 12:56 #

Ekki má heldur gleyma þeim jörðum sem kirkjan "eignaðist" með hreinum og klárum skattsvikum.

Kirkjan var ( og er jafnvel enn ) undanþegin greiðslu jarðagjalda, eignaskatts af jörðum og fasteignagjöldum af þeim. Slík gjöld þurftu bændur hinsvegar að greiða.

Ótal dæmi eru um að bændur "gáfu" kirkjunni jarðir sínar með þeirri kvöð þó að þeir sjálfir og niðjar þeirra um ókomna tíð mættu nytja þær sem sínar væru. Gjöfin var því bara á pappírnum, en ríkið varð af gjöldunum. Kirkjan á því fjölda jarða skv. pappírsgerningum sem höðu þann eina tilgang að snuða ríkið um skattekjur.


Ólafur Vignir Sigurðsson - 12/01/05 15:42 #

Áhugaverð og tímabær vefsíða atarna, og löngu tímabær boðskapur.. Auðvitað eiga þeir sem aðhyllast og nota kirkjuna að greiða fyrir veitta þjónustu.. Aðrir ALLS EKKI... Og þeir sem trúlausir eru ættu að sækja þann rétt sinn að greiða ekki til neinna trúfélaga, hvorki beint né óbeint.. Þetta er einfaldlega bara réttlætismál.. Og svo það að "kristin fræði" skuli enn kennd í grunnskólum.. Námskrá þeirra leyfir þeim það ekki, en samt er það gert.. Ég held að gert sé ráð fyrir kennslu í "trúarbragðafræðum", en því er ekki sinnt... Og svo þessi aðkoma skólanna að fermingunum, en þeir hvetja beint og óbeint til þess að nemendur verði fermdir... Og standa fyrir kirkjuferðum nemenda... Þessu verður að linna, og vonandi verða samtök sem ykkar sýnilegri í þjóðmálaumræðunni sem fyrst... Því fyrr, því betra... Takk fyrir


Jóhanna - 13/01/05 16:03 #

Ólafur Vignir skrifar: "Auðvitað eiga þeir sem aðhyllast og nota kirkjuna að greiða fyrir veitta þjónustu.. Aðrir ALLS EKKI..."

Ég spyr: Hver notar EKKI kirkjuna ? Farið þið ekki í brúðkaup, jarðafarir, skírnir, fermingar o.s.frv. ? Ætlið þið að standa úti þegar amma gamla deyr ? Eruð þið á Vantru.is búnir að finna út hvernig þið viljið hafa jarðaförina ykkar? Bara að spekúlera!


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 13/01/05 16:45 #

Ég spyr: Hver notar EKKI kirkjuna ? Farið þið ekki í brúðkaup, jarðafarir, skírnir, fermingar o.s.frv. ? Ætlið þið að standa úti þegar amma gamla deyr ? Eruð þið á Vantru.is búnir að finna út hvernig þið viljið hafa jarðaförina ykkar? Bara að spekúlera!

Stundum finnst mér að sumt fólk haldi að kirkjan hafi einkaleyfi á t.d. jarðarförum. Það er hægt að gefa börnum nafn, ferma eða gifta án þess að kirkjan komi þar nokkuð nærri. Ég á aldrei sjálfur eftir að nota kirkju, þrátt fyrir að ættingjar og vinir kjósi e.t.v. að gera það.

Vissulega hefur kirkjan yfirburðastöðu á þessu sviði núna en ég hugsa að það eigi eftir að minnka eftir því sem borgaralegar athafnir sækja í sig veðrið.


vengeful - 14/01/05 22:34 #

Það er rétt að þjóðin á þjóðkirkjuna, og þá meina ég öll þjóðin, líka þeir sem eru ekki skráðir í þjóðkirkjuna.

Mér finnst að það ætti einfaldlega að senda öllum íslendingum hlutabréf í félagi sem á allar eignir þjóðkirkjunnar.

Svo gætu menn látið bréfið sitt renna til kirkjunnar ef þeir vildu eða þá til annarar kirkju að eigin vali eða þá reynt að selja það.

Þetta væri nokkru flóknara í framkvæmd en þessu einfalda lýsing, en að mínu mati er þetta eina sanngjarna leiðin.

Í framhaldinu finnst mér að það ætti að undanþiggja trúarleg samkomuhús frá fasteignagjöldum og öðrum þess háttar álögum, eða allavega ekki hafa gjöldin í hlutfalli við fermetrafjölda eða rúmmál.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 14/01/05 23:08 #

Þjóðkirkjubyggingar eru nú þegar undanskildar öllum opinberum gjöldum, sem öðrum ber að greiða eins og fasteignagjöldum og lóðaleigu. Til að bíta höfuðið af skömminni er síðan sveitarfélögum skylt skv. lögum að láta af hendi lóðir, endurgjaldslaust, undir þjóðkirkjur. Það eru ekki bara sóknargjöldin sem standa undir bákninu eins og klerkarnir rembast við að ljúga að fólki.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 15/01/05 13:25 #

Semsé þjóðnýta kirkjuna bara? Ja, því ekki það?


Ólafur Vignir Sigurðsson - 31/01/05 16:35 #

Til Jóhönnu í tilefni svars hennar: Sko, sé amma kristin, ætti hún þegar að hafa borgað.. Sjálf... Sama með brúðkaup og skírnir (sem eru nú í sjálfu sér andstyggilegt ofbeldi gagnvart börnum) og fermingarnar líka... Í mínu trúfélagi greiði ég sjálfur... Þjóðin (Ríkið) alls ekki.. Og fyrst þú spyrð: Já, ég hef hugað að jarðarförinni... Þjóðin kemur ekki til með að þurfa að borga hana..Allra síst þörf á presti... En Jóhanna, ég er alveg til í að bjóða þér... Og fyrir þá sem ekki hugnast að verða að ösku: Allur þessi fíni og dýri viður sem fer í kisturnar... Á Íslandi er þessi fína Kassagerð sem getur áreiðanlega búið til snyrtilega níðsterka kassa fyrir okkur úr pappír sem þegar hefur verið notaður (dagblöð ofl..) Rólegan æsing... Ólafur

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.