Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Misskipting á vitneskju?

Það er til feiknalega mikill auður í heiminum, en honum er misskipt, eins og kunnugt er. Meðan fólk á öðrum endanum þjáist af velmegunarsjúkdómum og klórar sér í bakinu með bakklórum úr fílabeini, þá lepur fólk dauðann úr skel og sveltur til bana á hinum endanum.

En þetta er ekki bundið við auð. Sama má nefnilega segja um vitneskju. Vér menn búum yfir feiknalega mikilli vitneskju, en henni er misskipt. Meðan fólk á öðrum endanum brýtur heilann um skammtafræði, stjarneðlisfræði og erfðafræði, þá veltir fólk á hinum endanum sér upp úr þjóðsögum og ævintýrum, standandi í þeirri meiningu að um (bókstaflega) heilagan sannleika sé að ræða.

Hvernig stendur á þessu? Hvernig getur staðið á því að vitneskjunni sé svona misskipt? Hvernig má það vera, að sumt fólk geti verið snautt að þekkingu, meðan höfuðskeljar bókabéusa svigna undan allri þekkingunni og bókasöfn eru mæld í hillukílómetrum?

Dæmi um þetta, sem því miður er allt of algengt, er þrákelkni hjátrúarmanna þegar uppruni heimsins og lífsins er annars vegar. Sko, vér vitum ekki hvert einasta smáatriði, en vér höfum nokkuð skýrar og rækilega rökstuddar hugmyndir um margt. Eitt af því sem er mjög vel rökstutt er þróunarkenningin sem Darwin setti fram og seinni tíma menn hafa skotið fleiri stoðum undir. Já, vér menn erum komnir af öpum. Um það er engum blöðum að fletta.

Í Dover í Pennsylvania-fylki í Bandaríkjunum hefur skólastjórnin ákveðið í að þess verði krafist, að gamla þjóðsagan um „vitræna hönnun“ („intelligent design“) verði kennd samhliða þróunarkenningunni. Nú er útlit fyrir að skólastjórninni verði ekki stætt á þessu fyrir rétti, en engu að síður er þetta uggvænlegt umhugsunarefni. Hvernig getur 2000+ ára gamalt þjóðsagnasafn verið í sókn gegn betri vitneskju? Hvað er að klikka?

Þarna er á ferðinni vandamál sem vindur upp á sig, sem heldur sér við og ágerist af sjálfu sér. Ef vísindi eru látin vera úti á gafli í skólakerfinu, er þá von að upp vaxi fólk sem áttar sig á mikilvægi þeirra og út á hvað þau ganga? Vex þá ekki einmitt upp fólk sem leitar í trúarbrögð eftir svörum þegar betri svör standa þeim til boða, vegna þess að það hreinlega veit ekki betur? Vegna þess að það áttar sig hreinlega ekki á því að það er til áreiðanlegri þekking en Biblían? Það er slæm byrjun á þekkingarleit, að byrja á að gefa sér að Biblían skuli tekin bókstaflega.

Nú á trú sér fleiri en eina orsök, og fjarri fer því, að ég saki alla trúmenn um að vera bókstafstrúarmenn. Út af fyrir sig get ég, fyrir mitt leyti, vel skilið að margt fólk vilji leita til æðri máttar eða hugsa sér almáttugan huggara eða vin sem hlustar alltaf. Í sjálfu sér er það ekki alvarlegt vandamál, í mínum augum, að fólk skuli í einrúmi trúa á guð, þótt hann sé ekki til. Það ER hins vegar alvarlegt vandamál þegar fólk byrjar að ganga á rétt og frelsi annarra og réttlætir það með því að það sjálft trúi á gamlar goðsögur.

Fullkomin afhelgun ríkisvaldsins þarf að komast á dagskrá, takk.

Vésteinn Valgarðsson 07.01.2005
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Hreinn - 07/01/05 12:56 #

Nú verður gaman að sjá hvort Birgir leiðréttir þig því "Já, vér menn erum komnir af öpum" er ekki rétt, við ERUM apar. ;) Annars mundi ég nú frekar kenna "un-intelligent design".


Sævar (meðlimur í Vantrú) - 07/01/05 15:40 #

Ef vísindi eru látin vera úti á gafli í skólakerfinu, er þá von að upp vaxi fólk sem áttar sig á mikilvægi þeirra og út á hvað þau ganga?

Ekki aðeins í skólakerfinu. Fjölmiðlar standa sig mjög illa í að miðla vísindaþekkingu til fólksins, en standa sig þeim mun betur í að miðla gervivísundum og dulspeki til fólks, samanber Fréttablaðið í gær. Annað dæmi er um meinta fljúgandi furðuhluti sem Mexíkóski herinn tók innrauðar myndir af. Dæmið var leyst, þ.e. menn komust að því hvað var um að ræða, en það var aldrei minnst á það í fréttum.


Sævar (meðlimur í Vantrú) - 07/01/05 15:41 #

Svo ekki sé minnst á fréttir um meint kraftaverk, sem eru svo alls engin kraftaverk, t.d. tár á styttum af Maríu mey; birting sömu konu í gluggum og veggjum!? og þannig mætti áfram telja.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 07/01/05 16:20 #

Hver var skýringin á þessum dularfullu ljósum í Mexíkó?


Sævar (meðlimur í Vantrú) - 07/01/05 17:48 #

Þetta voru víst olíuborpallar í fjarska og gasið sem steig upp frá þeim sást ekki nema í innrauðu ljósi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/01/05 18:57 #

Við erum 100% apar, komnir af 100% öpum, Hreinn. Við erum líka 100% menn (simpansar eru ekki nema 99% menn) og því ekkert að því að segja að við séum menn komnir af öpum.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 07/01/05 19:50 #

Sævar: Er þetta ekki skýringin sem stjórnvöld gáfu fyrst upp? Ekki að hún þurfi endilega að vera röng fyrir það, en er þessi skýring traust og trúverðug?


Sævar (meðlimur í Vantrú) - 07/01/05 21:39 #

Þetta er skýring sem birtist í tímariti CSICOP, Skeptical Inquirer. Ég treysti því blaði mjög vel.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 07/01/05 21:43 #

Jamm, ég veit svosem ekki hvað olli þessu, en mér finnst þessi gas-skýring hljóma það einkennilega að ég vil sjá færð rök fyrir henni áður en ég samþykki hana. Það er vel þekkt að þegar stjórnvöld vita ekki hvað þau eiga að segja, þá er það ekki oft sem þau viðurkenna vanþekkingu sína.


Sævar (meðlimur í Vantrú) - 08/01/05 00:25 #

Þessi sem ég las voru alla vega frá Robert Shaeffer, miklum efahyggjumanni sem hefur ritað margar bækur um FFH og annað bull og rannsakað það vel.

Sjá hér: http://www.csicop.org/si/2004-09/campeche.html


Arnþór Jónsson - 08/01/05 02:15 #

Ofstækisseggir í trúmálum eða stjórnmálum fylgja ekki Kristi. Að þvinga fram byltingu eða á annan hátt gera skynditilraun til þess að skapa betra ástand mun mistakast. Slíkar breytingar gerast hvorki með kraftaverkum né alræði. Mannkynið er statt í stórkostlegri þróunardeiglu og lifir nú sem stendur endalok heimsmenningar og fæðingu nýrrar. Óratíma hefur þurft til að þróast frá jurt í dýr og frá dýri til núverandi ástands mannkyns á jörðu hér. Þróunin fram til heimsfriðar eða “hins sanna mannríkis” mun heldur ekki gerst í einu vetfangi. Óhjákvæmilega verður mannkynið að fara í gegnum þau umskipti eða þróunarstig og hljóta þá reynslu sem því er nauðsynleg ef friðarheimurinn á að verða veruleiki.

Kreddur og trúarofstæki munu ekki breyta heiminum heldur aðeins sú rökhyggja sem byggist á alheims lögmálum eða bróðurkærleikanum. Heimsfriður verður aðeins skapaður gegnum breytni einstaklinganna. Án slíkra breytinga er alls ekki friðar að vænta í heiminum. Vinnudeilur, dýrtíð , atvinnuleysi og fátækt, neyð og eymd, hatur og beiskja mun enn um hríð vera gildandi erfðavenja í þessum heimi og að nokkru hindra það að gleði og friður og hið sanna mannlega ljós nái að skína. En því meir sem hver einstakur maður reynir að gefa heildinni sköpunargetu sína, lífsgleði og ástúð án þess að hugsa fyrst og fremst um hvað hann fái sjálfur fyrir, því fremur kemst hann eða hún á sömu öldulengd og grunntónn alheimsins og mun skynja þann mikla sannleika sem liggur að baki orða Krists: “ Það sem ég geri það geri ég ekki af sjálfum mér heldur faðirinn í gegnum mig.”

Það er augljós staðreynd að ákveðin blöndun vissra efna mun óhjákvæmilega framleiða einn og sama árangur, alveg án tillits til þess hvort einn eða fleiri fást við þessa blöndun. Maðurinn getur sjálfur öðlast fullkomið líf í friði og samræmi, þótt ekki þekki allir menn um víða veröld lögmál lífsins og hlýði því. Það er fullkomlega nóg að uppfylla þetta lögmál sjálfur. Það verður ekki uppfyllt fyrir nokkra lifandi veru aðra. Hver og einn verður sjálfur að framkvæma uppfyllingu þessa lögmáls og efnin sem hann hreinsar í deiglunni eru hans eigin tilfinningar og hugsanir. Hann verður að stjórna bráðlyndi sínu, sigrast á eigingirninni en hafa til að bera fórnfýsi í ríkum mæli og jafnvægi tilfinninga og íhugunar.


Árni - 16/02/05 02:26 #

"Að þvinga fram byltingu eða á annan hátt gera skynditilraun til þess að skapa betra ástand mun mistakast."

Ég held einmitt að leiðin til að skapa betra ástand í heiminum gerist væntanlega ekki nema með gjörbyltingu til að breyta viðhorfum fólks, það þarf einhverja mikla sameiginlega upplifun til að breyta viðhorfum fólks í miklum mæli:

"Óhjákvæmilega verður mannkynið að fara í gegnum þau umskipti eða þróunarstig og hljóta þá reynslu sem því er nauðsynleg ef friðarheimurinn á að verða veruleiki."

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.