Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Harry Houdini og miðlarnir

Harry Houdini er óumdeilanlega frægasti töframaður sem uppi hefur verið. Houdini varð fyrst frægur með undankomubrögðum sínum, að leysa sig úr handjárnum og úr rammgerðum klefum. Hann stofnaði líka nokkur félög töframanna og hafði gífurleg áhrif innan stéttar sinnar með áherslu sinni á heiðarleika, það að enginn sjónhverfingarmaður skyldi halda því fram að töfrabrögð sín væru eitthvað meira en bara brögð.

Í um tuttugu ár gerði Houdini áhorfendur sína um allan heim agndofa með brellum sínum. Til að vekja athygli á sýningum sínum í nýrri borg tók hann sig til og kastaði sér handjárnuðum fram af brú fyrir framan mannfjölda, aldrei leið langur tími þar til hann kom upp á yfirborðið ófjötraður. Harry tók ótal áskorunum, smíðuð voru fyrir hann sérstök handjárn og sérstakir kassar sem hann leysti sig jafnharðan úr. Houdini var lokaður inn í ótal fangaklefum víðs vegar um heiminn og sjaldan tók það hann meira en örfáar mínútur að komast út.

Áður en Houdini varð frægur þá hafði hann sýnt brögð sín fyrir lágar fjárhæðir í litlum leikhúsum víðsvegar um Bandaríkin. Þegar hann var hvað fátækastur var honum boðið að koma fram sem miðill sem hann gerði í nokkurn tíma. Hann notaði svipuð brögð og þegar hann kallaði sig töframann. Hann blekkti áhorfendur sína en fékk slíka andúð á þessu að hann hætti þessum sýningum sínum þó þær gæfu betur af sér en heiðarleg töfrabrögð. Þessi reynsla hans af miðlastarfinu kom sér vel seinna meir.

Houdini var mjög náinn móður sinni og var nær óhuggandi þegar hún dó. Harry ákvað að reyna á það hvort hægt væri að ná sambandi við anda móður sinnar og fór í því skyni á fjölmarga miðilisfundi. Þó Houdini kæmi þessa fundi með opnum hug þá varð hann sífellt fyrir vonbrigðum, hann þekkti brögð miðlana og gat sjálfir endurtekið þau. Þegar andúð hans á þessum miðlum jókst fór hann að afhjúpa svik þeirra. Houdini bauð verðlaun hverjum þeim sem gæti sýnt fram á yfirnáttúrulega hæfileika en enginn vann til þeirra. Harry tók þátt í ýmsum rannsóknum vísindamanna á miðlum og þá kom vel í ljós hve mikilvægt er að hafa einhvern í þessum rannsóknum sem þekkir til sjónhverfinga. Sumir miðlar gátu platað vísindamenn en enginn þeirra gat blekkt Houdini.

Houdini fór í fyrirlestraferðir um Bandaríkin þar sem hann sagði frá aðferðum miðlana, hann endurtók brögð þeirra á sviði. Stundum fóru þessar sýningar þannig fram að töframaðurinn setti miðilsfund á svið. Hann fékk nokkra áhorfendur með sér upp á svið og plataði þá með brögðum sínum. Þeir áhorfendur sem í salnum voru fengu hins vegar að sjá hvernig brögðin fóru fram. Eiginkona Houdini var alla tíð trúnaðarmaður hans varðandi töfrabrögðin, hún notaði sína þekkingu líka þegar hún heimsótti miðla undir dulnefni (séra F. Raud) og afhjúpaði þá.

Það má velta því fyrir sér hvort spíritistahreyfingin hefði ekki dáið út ef Houdini hefði lifað lengur, afhjúpanir hans á bandarískum miðlum urðu án efa til þess að hreyfingin þar í landi missti trúverðugleika sinn að mestu. Því miður lést Harry Houdini árið 1926, þá var hann 52 ára. Á meðan hann lifði hafði hann samið við ýmsa menn um að þeir skyldu heilsa upp á hann ef þeir myndu falla frá, enginn gerði það. Sjálfur hafði Houdini skipulagt svipaða tilraun með konu sinni, fyrir dauða sinn lýsti hún því yfir að eiginmaður hennar hefði ekki haft samband við sig úr andaheiminum.

Heimildir
Kellock, Harold Houdini: ævisaga hans: úr endurminningum og skjölum Beatrice Houdini 1950. Pétur Sigurðsson þýddi.
Encyclopedia Brittanica

Óli Gneisti Sóleyjarson 04.01.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 04/01/05 12:51 #

Houdini var mjög náinn móður sinni og var nær óhuggandi þegar hún dó. Harry ákvað að reyna á það hvort hægt væri að ná sambandi við anda móður sinnar og fór í því skyni á fjölmarga miðilisfundi.
Einnig gaman að rifja upp þegar Artur Conan Doyle og Mary eiginkona hans heimsóttu Houdini og Beatrice eiginkonu hans. Eftir matinn vildi Mary miðla móður Houdini frá andaheimum. Houdini samþykkti það tregur og Mary fór í trans og móðir Houdini tók yfir líkama hennar - spjallaði Houdini aðeins við móður sína í gegnum Mary en þótti samtalið ekki sannfærandi.

Vandamálið var að móðir Houdini talaði við Houdini á ensku í gegnum Mary - en í lifanda lífi kunni hún ekki stakt orð í því máli og þau höfðu alltaf talað saman á móðurmáli hennar - ungversku. Houdini var of kurteis til að benda Mary á þetta.

Fólk gerir sér stundum ekki grein fyrir því að "afrek" miðla hafa dregist stórkostlega saman síðustu hundrað árin. Fyrir einn öld mynduðu miðlar allskonar fyrirbæri, útfrymi, sem birtust öllum sem mættu á miðilsfundi. Persónur birtust gjarnan í gegnum miðla sem féllu þá í djúpt trans. Í dag stama þeir einhver nöfn og segja fólki að það verði að hugsa betur um fjármálin.

Trúgirni Doyle hjónanna er sérstakur kapítuli útaf fyrir sig eins og sagan um Cottingley álfana sýnir rækilega - en það er önnur umræða.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 04/01/05 17:40 #

Harry Houdini er óumdeilanlega frægasti töframaður sem uppi hefur verið.

Hmm...´óumdeilanlega frægasti töframaður? Hvað með Merlín? Hvað með Ésú?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/01/05 18:07 #

Umdeilanlega þá, en rökin eru með Óla Gneista þarna. Gæti orðið erfitt að sýna fram á tilvist þessara tveggja sem þú tiltekur.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 04/01/05 19:31 #

Sá sem hefur trúarsannfæringu þarf ekki önnur rök.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.