Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

„Ég vona að honum líði illa“

Þetta sagði náungi við mig um daginn. Þessi „hann“ sem hann talaði um var náungi sem við könnumst báðir við. Ég tók nú dræmt í þetta og maldaði í móinn: Það gerði engum gott að einhverjum liði illa. Fyrir utan það að vanlíðan er slæm í sjálfu sér, þá er sá sem líður illa líklegri til að láta öðrum líða illa líka, og þannig vindur vanlíðanin upp á sig og smitar út frá sér. Viðmælandi minn hristi hausinn: Umfjöllunarefnið væri svo mikill hálfviti og vondur við minni máttar, leiðinlegur, heimskur, hrokafullur, sjálfumglaður og svo framvegis að hann ætti skilið að líða illa.

Ég hef hugsað svolítið um þetta. Á einhver skilið að líða illa? Einhver spekingur sagði að ef allir vissu allt um alla, þá væri engin misklíð og engin úlfúð milli manna. Fólk sem hefur skilning á stöðu hvers annars á auðveldara með á láta sér lynda.

Þannig að hvað býr að baki bölbænum í annars garð? Ætli það sé ekki skilningsleysi? og þá er komið að því sem ég vildi sagt hafa: Hvað kemur fólki til að óska öðru fólki eilífrar dvalar í logum helvítis? Sá sem talar um helvíti í bókstaflegri merkingu – að það sé í alvöru til „staður“ sem illvirkjar og fúlmenni fara á eftir dauðann til að þola píslir og píningu til efsta dags – er ekki beinlínis að leggja sig fram um að skilja aðstöðu annarra.

Ég trúi ekki á illmenni. Ég trúi ekki því sem sumir fullyrða, að sumir „séu bara þannig“ að þeir geri öðrum illt. Þessir sleggjudómar skjóta reglulega upp kollinum þegar ógæfuverk hafa verið unnin og fólk þykist kunna einfaldar skýringar á þeim. „Hryðjuverk eru unnin vegna þess að hryðjuverkamenn eru vondir menn.“ „Íbúar Norður-Kóreu hafa það skítt vegna þess að Kim Jong-il er vondur maður.“ „Óhæfuverk nasista í Seinni heimsstyrjöld má skýra með því að Hitler var vondur maður.“

Það eru til illvirki, því neita fáir, og sá sem fremur illvirki er skv. skilgreiningu illvirki sjálfur. En vond manneskja? Ég trúi því ekki. Það er til veikt fólk, það eru til fíklar, það er til örvæntingarfullt fólk, heilaþvegið fólk og fólk í geðshræringu eða múgæsingu. Það er til hrætt fólk og reitt fólk og svo framvegis. „Vondu fólki“ hef ég hins vegar aldrei kynnst.

Ógæfuverk eiga sér skýringar. Fólk sem vinnur þau er sjaldan meðvitað að leggja á ráðin um að gera heiminn verri -- þótt að sú geti orðið niðurstaðan. Fólk sem á við vandamál að etja þarf á úrræðum að halda, lausnum á vandamálunum. „Þótt náttúran sé lamin með lurk leitar hún út um síðir“ var kveðið ... refsingar leysa ekki vandamál í alvörunni ef þau á annað borð eru fyrir hendi.

Þegar fólk er stimplað „vont“ er það yfirleitt til þess að óvinir þess hafi skálkaskjól til að formæla því, úthúða eða refsa, eða til að hafa af því eigur þess, mannréttindi eða jafnvel lífið. Það er til fólk sem þarfnast hjálpar og ætti þá að fá hana. En vont fólk trúi ég ekki að sé til.

Vésteinn Valgarðsson 02.01.2005
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


útlenska - 02/01/05 13:44 #

Góð grein, Vésteinn.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 02/01/05 19:22 #

Einmitt, verst að algóður Jehóva skuli ekki sjá þetta þannig. Hann drap alla á jörðinni, börn og ófrískar konur meðtalin í Syndaflóðinu af því einhverjir menn höfðu verið "vondir". Svo brenndi hann til dauða alla íbúa Sódómu og Gómórru afþví þar voru nokkrir "vondir" menn. Svo ætlar hann líka að brenna til eilífðar í eldsofnum alla menn og konur sem hafa verið "vond". Guð þarf að fara í háskóla og læra félagssálfræði!

93


Karl Birkir - 03/01/05 00:46 #

Góð grein.

Ég veit ekki hvort þetta sé réttur staður, en ég er forvitinn hvað þessi "93" neðst í svarinu þínu merkir, Aiwaz. Einhver flókin og skemmtileg skýring á því, eða er þetta bara svona '42' ? :)


Ormurinn - 03/01/05 10:07 #

Skemmtilegar pælingar.

Antisocial Personality disorder (http://www.mentalhealth.com/icd/p22-pe04.html)

held ég að komist nálægt því sem fólk mundi kalla vonda manneskju. En það fellur væntanlega undir það sem þú kallar veikindi.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 03/01/05 12:02 #

Karl Birkir,

Hér reynir á speki. Sá sem skilning hefur reikni.

93


Julio - 04/01/05 16:31 #

Illska finnst mér vera guðfræðilegt hugtak, og sem slíkt harla tómt. En siðleysi er það ekki. Er kannski hugmyndin hér að engin breytni sé siðferðislega ámælisverð? Við skulum gera okkur grein fyrir því að allar gerðir eiga sér orsakir og oft ástæður/skýringar, en það má vera ávísun á nauðhyggju um siðferði mannsins. Ef frelsi viljans er tekið af manninum, sama hvaða sögu hann hefur, hefur hann ekki aðra stöðu sem siðferðisvera en hvert annað dýr - eða vélmenni.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 04/01/05 19:32 #

Það er nú hægt að gera eitthvað sem er siðferðislega ámælisvert án þess að vera "vondur" fyrir vikið.


Karl Birkir - 05/01/05 03:08 #

Ég bið ykkur að afsaka þetta innlegg, þar sem það tengist ekki umræðunni, og ég verð ekkert sár ef því verður eytt. :)

En þessari spurning eru beint til Aiwaz: er þessi '93' útafþví að 93 er gildi orðsins/nafnsins 'Aiwaz' í Qabalah?

Kv. Karl


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/01/05 04:22 #

Karl Birkir sjáðu kommentin undir þessari grein. Þar virðist sem Aiwaz og Guðmundur nokkur séu byrjaðir á einhverju dulspekilegu 93/93 handsjeiki sem okkur muggunum stendur ekki til boða að skilja :)


S.Sigur - 06/01/05 10:41 #

Þetta er ákaflega athyglisverð spurning sem að grein Vésteins veltir upp. Eru til vondir menn?

Ég vil reyndar breyta spurningunni og spyrja "hvað merkir að vera vondur?"

Rétt eins og illska tel ég að vonska sé til. Vonska er t.d. að myrða manneskju að yfirlögðu ráði. Sá sem að verknaðinn fremur er því vond manneskja. Þessi stimpill er ekki endilega trúarlegs eðlis. Þetta er siðferðisleg lýsing á manneskju sem hefur framið alvarlegan glæp. Ég tel að siðferðisreglur hafi orðið til því að við mennirnir höfum fundið út að það sé sársaukaminnst, hagkvæmast og farsælast að hjálpast að í lífinu og virða frelsi einstaklinga svo framarlega sem að ekki gengur á rétt annarra. Við fæðumst með stórt "ego", þ.e. við byrjum á því að taka það sem við þurfum án þess að hugsa um aðra þegar við erum ungabörn. Þessa hvatvísi þarf að temja og kenna okkur siðfræðilega þroskaða hugsun og gerðir í uppeldinu. Hins vegar fer stundum margt úrskeiðis hjá fjölskyldum og heilu þjóðfélögunum og því ganga ansi brenglaðir einstaklingar um götur alla tíð. Inn í þetta blandast líka líffræðilegt ójafnvægi á heilastarfsemi í sumum tilvikum en það sjúkdómsferli er mjög lítið vitað um enn sem komið er. Hlekkurinn sem Ormurinn gaf upp hér að ofan varðandi Antisocial Personality disorder vísar á mjög gagnlega lesningu til þess að komast nær því að skilja hvað einkennir "vonda" manneskju.

Ég er því ekki sammála Vésteini nema að því leyti að ég tel að engin manneskja sé fædd vond. Maðurinn hefur átt í mikilli baráttu við náttúruöflin alla sína tíð og það hefur verið styrkur homo sapiens að hjálpast að. Við erum hins vegar ekki lengra komin en svo að hin frumstæðari öfl í okkur sem að lúta að eigingjarnri sjálfsbjargarhvöt, öðru nafni GRÆÐGI er enn mjög áberandi.

Þættir eins og greind sem er að hluta til líffræðilega ákvörðuð spilar stórt hlutverk og oftast til batnaðar en e.t.v. verða stærstu slysin þegar illmenni með háa greind láta greipar sópa. Lærum við ekki að hemja þessi "element" betur munum við enn um langa framtíð verða fyrir barðinu á vondu /illu fólki hér á jörð. (kannski best að flytja til Mars) ;-)


Hr. Pez - 06/01/05 15:36 #

Við fæðingu er maðurinn hvorki góður né illur: hann er ósnortinn af siðmenntun og gildismati og því í raun ekki annað en dýr. Maður segir ekki að ljón séu vond í eðli sínu, né kanínur góðar. Vonska og gæska eru eiginleikar sem ekki er hægt að eigna einstaklingum og gjörðum þeirra fyrr en þeir hafa öðlast siðvit til að greina þar á milli - eru orðnir að þeim tamda prímata sem í daglegu tali kallast maður.

Athugið að ég aðgreini einstaklinginn frá gjörðum hans. Morð er illskuverk. En það gerir ekki þann sem það fremur sjálfkrafa að illum einstaklingi. Það gæti verið framið í örvæntingu, til dæmis, eða eiturvímu (en þó "að yfirlögðu ráði"), af annars dagfarsprúðum einstaklingi. Mér finnst því ekki réttlætanlegt að segja að sá sem hefur framið alvarlegan glæp sé vond manneskja. Ekki sem siðferðileg lýsing á manneskjunni.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 06/01/05 16:50 #

Ég samþykki alveg að gjörðir fólks séu kallaðar góðar eða vondar. Það er hárrétt athugað að greina einstaklingin frá gjörðum hans. Gjörðir fólks eru stundum ekki í samræmi við hvað því gengur til.


Eianr Steinn - 06/06/05 16:46 #

Mjög góð grein hjá þér, bróðir minn.Það má e.t.v. líta á illsku sem safnheiti yfir það sem þú taldir upp, ásamt öðru, t.d. grimmd, kaldrifjun og siðblindu. En um leið einfaldar þetta hlutina og sýnir þá svart/hvíta og menn forðast að líta í eigin barm og sjá breiskleika sinn og annara og getu allra mann til að gera illt, ef við kjósum að nota það orð.


mofi - 06/06/05 17:02 #

Það er nóg til að illsku í þessum heimi og enginn skortur á vondu fólki. Hvað sáum við í fréttunum um daginn þar sem ungir menn ef ekki unglingar voru leiddir til einhvers heppilegs staðar og skotnir og þeir sem skutu hlóu á meðan þeir gerðu þetta.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 06/06/05 20:38 #

mofi, það eru til næg dæmi um tilgangslaust ofbeldi, kvalalosta og grimmd, en það er bara barnalegt að láta eins og ástæðan fyrir því sé einhver "illska" - ástæðurnar geta verið ýmsar: firring, heilaþvottur, fordómar, geðtruflanir og svo framvegis.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 09/06/05 11:05 #

Við skulum heldur ekki gleyma því að áður höfðu birst myndir af hinum múslímsku serbum hlæjandi að skera varnarlausar konur og unglingspilta á háls. Hinir kristnu serbar heilaþvegnir af brjálæði stríðsins hafa haft allt aðra sýn á þessi morð sem við sáum.

Ég sá athyglisverðan þátt um baráttu IRA og loyalista á Norður-Írlandi þar sem gamlir virðulegir menn sögðu frá því án þess að blikka að þeir sæju ekki eftir né hefði það nein áhrif á þá að hafa drepið heilu fjölskyldur kaþólskra á sínum tíma. Sama sögðu IRA mennirnir. Þetta var stríð og óvinurinn hafði gert enn "verri" hluti. Sennilega verður maður að lenda í þessu til að geta skilið heiftina. Á meðan er þetta bara súrrealísk vitfirring, óskiljanleg þeim sem ekki eru innviklaðir í málið.


mofi - 09/06/05 11:55 #

Ég sá athyglisverðan þátt um baráttu IRA og loyalista á Norður-Írlandi þar sem gamlir virðulegir menn sögðu frá því án þess að blikka að þeir sæju ekki eftir né hefði það nein áhrif á þá að hafa drepið heilu fjölskyldur kaþólskra á sínum tíma. Sama sögðu IRA mennirnir.

Og er þetta ekki dæmi um illsku? Að menn skuli geta orðið svo kaldir að þeir geta drepið konur og börn og það hreyfir ekki einu sinni við þeim? Engin spurning að stríð geta eyðilagt sálir og það hljómar eins og þessir menn voru orðnir steindauðir að innan, hvernig sem þeir svo sem voru í upphafi.


Þórður Sveinsson - 09/06/05 12:38 #

Það væri vissulega gott ef vont fólk væri ekki til. En ég held að það lýsi fullmikilli bjartsýni að halda slíku fram. Þó að vissulega sé enginn alvondur – það hrærist nú eitthvað gott í okkur öllum – þá er vissulega til siðblint fólk (psýkópatar) sem ekki sér hætishót eftir því þó að það fremji hræðilega glæpi, t.d. morð. Ég get ekki séð að rangt sé að kalla slíkt fólk vont. Hins vegar treysti ég mér ekki til að fullyrða að mannvonska þess sé meðfædd.

En hvað sem því líður hika ég ekki við að halda því fram að Hitler, Stalín, Ratko Mladic, Théoneste Bagosora, Maó, Pol Pot, Himmler og aðrir af svipuðu kalíberi hafi verið vondir menn. Það merkir auðvitað ekki að ég telji þessa menn hafa verið gersneydda jákvæðum, mannlegum tilfinningum. Hitler var til dæmis góður við hundinn sinn og það fólk sem næst honum stóð og það gildir ábyggilega um flesta þessa menn að þeir hafi verið góðir við konuna sína og börnin sín. En í heildina litið voru þeir svo samviskulausir og siðblindir – og ófærir um að sýna öðru fólki hluttekningu – að ekki er annað hægt en að kalla þá illmenni.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 09/06/05 12:49 #

Ég skil alveg að þú viljir kalla þá vonda, en ég tel ekki að ástæðan fyrir vonzkuverkum sé mannvonzka. Mönnum gengur einatt eitthvað annað til að að láta illt af sér leiða. Psýchópatar eru ágætt dæmi, ég hef kynnst þeim nokkrum sjálfur í vinnu minni á geðdeild. Þeir eru ekki illmenni, þeir eru lasnir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.