Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Völvuspá Vantrúar fyrir 2005

Jæja, þá er árið liðið í aldanna skaut og hægt að skoða síðustu spá okkar í ljósi atburðanna. Og þar stenst skuggalega margt.

Skoðið þetta bara sjálf, það eru komnar einhverjar athugasemdir við ýmis atriði sem segja má að hafi staðist (sumt með góðum vilja). Og þetta með hörmungarnar í Kína. Má ekki bara segja að Völvan hafi hitt naglann á höfuðið en bara staðsett þetta aðeins vitlaust? Og Bandaríkjamenn hafa gerst þaulsætnir í Írak þrátt fyrir loforð um annað. Hvernig gat Völvan vitað þetta?

Skoðið svo þetta hér. Þetta er samantekt á því sem virtir og frægir miðlar og sjáendur hafa spáð um árið 2004. Öllu tókst þessu fólki að missa af jarðskjálftanum í Indlandshafi, svo dæmi sé tekið, en spáði aftur á móti fyrir um helling sem ekki hefur komið fram.

Til að trúa á svona bull þarf greinilega að hafa heilabú sem er fljúgandi fært í valkvæmri hugsun.

En þá er að spáin fyrir 2005. Þetta er auðvitað bara samansafn líklegra og ólíklegra atburða í bland við fyrirsjáanlega þróun. Þannig gerir Völva Vikunnar þetta líka. Og þannig vinna allar völvur:

Af innlendum vettvangi

Nú styttist í síðasta kipp Suðurlandsskjáftahrinunnar. Hann mun eiga upptök sín einhversstaðar á milli Hveragerðis og Þorlákshafnar. Gott ef það verður ekki a.m.k. eitt mannslát þessu tengt.

Forsendur spádóms: Jarðfræðingar töluðu um að það „vantaði“ skjálfta á þessum slóðum, eftir þessa tvo árið 2000. Spáin um mannslátið helgast af því að þetta gætir orðið sæmilegasta bomba og það mjög nálægt byggð. Fyrri Suðurlandsskjálftar hafa skv. annálum alltaf jafnað við jörðu einhverja bæi í námunda við Þorlákshöfn og slíkt gæti eflaust gerst nú. Taka skal þó fram að þessi vöntun á skjálfta á þessum slóðum getur alveg haldist næstu 20 árin.

Mótmæli við Kárahnjúkavirkjun og Íraksstríð færast í aukana þegar líður að vori og á tímabili verður stöðug mótmælastaða við Stjórnarráðið eða Alþingishúsið. Til ryskinga kemur á milli mótmælenda og lögreglu, en forsætisráðherra reynir að fara huldu höfði og vinnur meira heima hjá sér.

Forsendur spádóms: Sjáið Fólkið.net. Þarna fer fólk sem búið er að standa fyrir framan Alþingishúsið í hádeginu vikum saman nú í nóvember og desember. Þeir sem skráð hafa sig inn á póstlistann þeirra geta sagt sér það sjálfir að þessi vaska sveit mótmælenda mun halda þessu áfram um leið og þing kemur saman eftir jól. Ryskingarnar eru þarna bara til að gera spádóminn meira krassandi, þetta er jú skemmtilesning.

Ég sé fyrir mér stórbruna á Suðurlandi eða Suðurnesjum. Blómlegt fyrirtæki verður þar eldi að bráð, en eigendur láta það ekki á sig fá og framleiðslan kemst á fullan skrið á ótrúlega skömmum tíma.

Forsendur spádóms: Öll tölfræði segir okkur að stórbrunar verði nokkrum sinnum á ári hverju. Völva Vantrúar orðar þetta svona vegna þess hve líklegt er að það standist. Suðurland og Suðurnes eru nefnilega víðfemt og fjölmennt svæði og mikið af blómlegum fyrirtækjum. Við vonum að sjálfsögðu að þetta standist ekki og helst viljum við ekki sjá neina bruna framar. En það er auðvitað barnaleg óskhyggja.

Menn munu á árinu hafa áhyggjur af aukinni mengun í stöðuvötnum landsins. Einnig koma vöflur á Austfirðinga þegar þeir loksins átta sig á umhverfisþáttum virkjunarinnar. Grútskítugt Lagarfljót verður uppspretta öflugrar mótmælahrinu fyrir austan. Til umræðu kemur að hætta við virkjunina en reisa í staðinn nokkur hundruð vindmyllur að danskri fyrirmynd til að sjá álverinu í Reyðarfirði fyrir orku.

Forsendur spádóms: Ekkert segir okkur að menn muni hafa meiri áhyggjur af mengun stöðuvatna, en eitthvað verður eflaust skrifað um væntanlega drullu Lagarfljóts. Þessi spádómur mun því vart standast og alger heppni ef eitthvað verður rætt um vötnin okkar með þessum hætti. Já, Völvan treystir á heppni líka, rétt eins og hún gerði í fyrra þegar hún spáði því að Steven Hawking og Tony Blair myndu látast eða veikjast á árinu. Það gekk þannig séð eftir. Verst að hafa ekki nefnt Christopher Reeves sem nú er ekki lengur til. En svona skot út í loftið geta alveg skilað sínu, enda treyst á valkvæma hugsun lesandans.

Verðhækkanir nú um áramótin valda áhyggjum og í upphafi árs verður mikið talað um verðbólgudrauginn.

Forsendurnar: Nýlega var látið uppi í fréttum að verðhækkanir yrðu um áramót. Völvur heimsins halda öllu svona til haga og treysta á að múgurinn sé heimskur og gleyminn. Í þessum fréttum var einmitt minnst á verðbólguna sem gæti rifið sig upp í kjölfar hækkana og því ekki ólíklegt að einhver blaðaskrif verði um þessi mál í janúar og jafnvel febrúar.

Miklar sviptingar verða á fjármálamörkuðum og umskipti í starfsmannahaldi. Þaðan má jafnvel búast við óvæntum fréttum áður en langt um líður.

Forsendur: Þetta með starfsmannahaldið er auðvitað skoðað út frá nýlegum fréttum. Það eru alltaf sviptingar á þessum vettvangi og mannaráðningar tíðar. Það væri undarlegt ef þessi spádómur gengi ekki eftir.

Óvinsældir Halldórs Ásgrímssonar færast í aukana á árinu og munu menn og konur jafnt tiltaka óvinsælar ákvarðanir hans og skort á persónutöfrum þegar spurt er um ástæður. Einhverjir munu kalla eftir vantrausti á ríkisstjórnina og nýjum kosningum. Það gerist þó auðvitað ekki og stjórnin mun í lok ársins standa sterkari eftir en áður.

Forsendur: Hér þarf enga spádómsgáfu. Forsætisráðherran okkar er einfaldlega rúinn öllum töfrum, hefur engan eldmóð og fáar hugsjónir. Hann er spilltur kvótaeigandi og mun á árinu skara frekari eld að köku sinni og sinna. Og alltaf eru einhverjir til að gagnrýna með þessum hætti og engar líkur á að þetta gangi ekki eftir.

Þið sjáið hvernig þetta gengur fyrir sig. Treyst er á að algengir atburðir endurtaki sig, að fólk ástundi valkvæma hugsun og þess á milli skotið út í bláinni. Hvað getum við sagt meira?

  • Pólitískur órói í R listanum.
  • Mörg verkefni hjá vegagerðinni frestast vegna þenslu.
  • Mótorhjólamenn verða handteknir á Íslandi.
  • Miklar deilur um DV og umrót á ritstjórn.
  • Sjóslys.
  • Flugslys.
  • Vinnuslys við Kárahnjúka, gott ef ekki mannsbani.
  • Voveiflegir atburðir gerast í undirheimum Reykjavíkur.
  • Stjórnarskráin verður á döfinni.
  • Hlýtt sumar í vændum en ekki með afbrigðum hlýtt.
  • Davíð mun segja eitthvað heimskulegt.

Hvað eigum við að segja að gerist á erlendum vettvangi, svona í stuttu máli?

Erlent

  • Bush-stjórnin heldur áfram að sæta harðri gagnrýni (en ekki hvað).
  • Flóð í Bangladesh.
  • Óöld einhversstaðar í Afríku.
  • Ferðamannaiðnaður hrynur ekki í Tælandi eins og þó var óttast.
  • Bandaríkjamenn herja stíft í Írak.

Og svo framvegis og svo framvegis. Þið náið meiningunni. Munið að skoða Völvuspár alltaf eftirá og með gagnrýnu hugargfari. Hvað stóðst hjá Völvu Vikunnar fyrir síðasta ár og hve mikið af því var eitthvað sem menn gátu sagt sér sjálfir?

Hverju missti hún af? Flóðinu á Indlandshafi? Líkfundarmálinu? Manninum sem fékk öxi í höfuðið á veitingahúsi í Hafnarfirði? Hermanninum sem var myrtur í Keflavík? Sinnepsgasinu sem Íslendingar fundu í Írak og Halldór fagnaði svo stíft? Friðargæsluliðinu sem allt í einu dúkkaði upp í fréttum frá Afganistan? Kínversku sendinefndinni sem kom í ljós að hafði týnst á Íslandi? Fjölmiðlalögunum sem forsetinn skrifaði ekki undir? Hitametunum sem féllu unnvörpum í ágúst? Hinu langvinna kennaraverkfalli?

Sjáum hvernig þessi spá heldur. Gleðilegt ár!

Ritstjórn 31.12.2004
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Ormurinn - 31/12/04 12:11 #

Hvaða hvaða..

Er þetta nú ekki meira til gaman gert heldur en hitt. Auk þess held ég að völva vikunnar sé ritsjórninn en ekki fenginn einhver miðill út í bæ.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 31/12/04 13:42 #

Gamans xmamans! Hvort sem þetta er ritstjórnin eða manneskja sem telur sig hafa spádómshæfileika þá er verið að telja fólki trú um heimurinn virki öðruvísi en hann gerir, að yfirnáttúrlegir hæfileikar séu til. Og fullt af fólki kaupir það gagnrýnislaust.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/01/05 18:58 #

Svei mér þá! Á visir.is í dag er þessi frétt:

Mikil ólga innan Íslandsbanka Ekki er útilokað að frekari breytingar verði meðal starfsmanna Íslandsbanka í kjölfar uppsagnar aðstoðarforstjóra hans. Heimildarmenn Stöðvar 2 segja mikla ólgu meðal þeirra og að deilan snúist um forstjóra bankans. Ástæðan sem gefin var upp fyrir uppsögn Jóns var sú að hann hefði ráðið Svein Hannesson útibússtjóra í Lækjargötu. Bankaráð bankans var kallað saman til aukafundar í gær þar sem málið var rætt. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 klofnaði ráðið í tvennt í afstöðu til málsins. Úlfar Steindórsson var á móti uppsögn Jóns en Einar Sveinsson formaður og Karl Wernersson fylgjandi og fylgdu Jón Snorrason, Steinunn Jónsdóttir og Róbert Melax þeim að málum. Heimildir innan bankans telja ákvörðun Bjarna að segja Jóni upp tengjast presónu Bjarna og hann hafi viljað losa sig við Jón. Ýmsir innan bankans telja þetta ekki endalokin á hreinusunum innan Íslandsbanka og telja jafnvel að fleiri eigi eftir að fjúka. Þá telja menn ekki útlilokað að ýmsir starfsmenn bankans hugsi sér til hreyfings.

Maður gæti næstum haldið að völvan okkar væri skyggn í alvöru ;)


Hr. Pez - 03/01/05 13:34 #

Hvað er þetta! Er klikkað á því annað árið í röð að spá fyrir um eldgos? Hvernig er það hægt?!

Hvernig væri eitthvað svona:

Ég sé fyrir mér eldgos hér á Íslandi á árinu, sem mun vekja heimsathygli. Mér sýnist sem það verði undir jökli, en ekki er loku fyrir það skotið að neðansjávargos undan ströndum landsins dragi til sín athygli fjölmiðla utan úr heimi.

(Forsendur: Kommon, það gýs einhversstaðar á skerinu með uþb ársmillibili. Flestar eldstöðvar eru undir jöklum, Grímsvötn eru þeirra virkust og gætu þessvegna gosið strax aftur, en einnig er kominn tími fyrir Kötlugos. Og ef það gýs, þá kemur það pottþétt í fréttum einhversstaðar.)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/01/05 14:36 #

Rétt hjá þér :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/01/05 19:25 #

Miklar deilur um DV og umrót á ritstjórn.

Strax byrjað að gerast. Hvernig er með þessa spá, ætlar allt að rætast strax fyrsta mánuðinn?


Snæbjörn - 31/12/05 03:13 #

Mjög góðir punktar. Þetta með eldgosið bendir til skuggalega lítillar spáhæfni ef ekki bara einskærri óheppni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.