Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sagan hans Jóla

Í dag er 24. desember og það er hamingjudagur um alla veröld vegna þess að við fögnum fæðingu Jólasveinsins. Jólasveinninn fæddist í helli í Rússlandi árið 1004 þannig að nú verður hann eittþúsund ára gamall! En kallinn lætur ekki á sjá og færir börnum um allan heim gjafir á afmælisdeginum sínum. Á þessum tímamótum er viðeigandi að rifja upp sögu jólasveinsins.

Móðir Jólasveinsins, hún Grýla, var á ferð um Rússland ásamt sænskum væringjum sem höfðu fallið fyrir töfrum hennar. Þegar hún var á ferð um Rússland hafði Grýla hitt gamla gyðingaguðinn Jehóva. Eftir að hafa drukkið töluvert af vodka þá lögðust þau saman, hún kallaði hann leppalúðann sinn en hann nýtti tækifærið til að fylla hana af heilögum anda.

Níu mánuðum síðar var Grýla í miðri Síberíu þar sem hún hitti nokkra Kósakka. Kósakkarnir sáu á henni að hún væri að fara að eiga og buðu henni í hellinn sinn. Hellirinn var kaldur og rakur en það varð að duga. Að kvöldi til þann 24. desember spratt Jólasveininn í heiminn. Kósakkarnir gáfu Grýlu og jólasveininum gall, ilmkerti og myntu í virðingarskyni. Svona voru fyrstu jólin, þau voru kannski fátækleg en minningin um þau lifir í hjörtum mannkyns.

Jólasveinninn óx hratt úr grasi og varð þekktur fyrir hraða sinn. Þegar hann var aðeins 14 ára þá gat hann hlaupið svo hratt að hann sökk ekki þó hann færi út á sjó. Þá ferðaðist hann til Spánar og drap naut sem ógnaði íbúm Barcelona. Öll mold sem blóð nautsins snerti varð frjósöm. Þetta skapaði gullöld á Spáni sem lauk ekki fyrren kristnir menn náðu þar völdum.

Eftir þetta hvarf Jóli og sást ekki í mörg ár. Mikið hefur verið rætt um þetta tímabil í lífi Jólasveinsins, þöglu árin, en enginn veit með vissu hvað gerðist á þessum tíma. Sumir segja að hann hafi farið að finna pabba sinn sem var þá farinn að dúlla sér með gyðingastelpum eins og hann hafði gert svo oft í gegnum tíðina. En við vitum öll hvað gerðist þegar Jólasveinninn sneri aftur. Já, hann kom til Kaupmannahafnar og bjargaði mörgum af verðmætustu handritum Árna Magnússonar úr eldi. Eftir þetta ferðaðist Jóli norður á bóginn.

Það var síðan í Norður-Noregi sem Jólasveinninn umturnaði lífi sínu. Hann dvaldist í mörg ár meðal Sama og lærði þar shamanisma þó faðir hans væri því ekki samþykkur. Sveinki lærði allt um sveppina frægu sem geta aukið skynjun fólks. Það var hjá Sömum sem hann byrjaði að nota rauða búning sinn (sem er einmitt rauður til heiðurs sveppunum). Þegar Jóli fékk loks svarta beltið í shamanisma var það stærsta stund lífs hans. Hann tók næst til við að hjálpa hreindýrum sem höfðu lent í einelti og þar hitti hann Rúdolf sem varð lífsförunautur hans.

Þegar líða tók á nítjándu öldina fór Jóli til Bandaríkjanna og tók þátt í sköpun frægasta drykks veraldar, Kóka-Kóla. Sveinki tók líka þátt í auglýsingaherferðinni sem gerði Kókið frægt. Á öllum blaðamannafundum sem Jólasveinninn tók þátt í fyrir hönd Kóka-Kóla fyrirtækisins var hann spurður hvort leyniefnið í drykknum sívinsæla væri komið úr ofskynjunarsveppum. Við þessarri spurningu var líka alltaf sama svarið, Jóli brosti, barði sér á bumbu og blikkaði auganu.

Nú er Jóli orðinn frekar aldraður, hættur að koma fram nema í kringum afmælið sitt en það bregst ekki að á hverjum jóladagsmorgni vakna börn út um allan heim með berserkjasvepp undir koddanum.

Jóli, þú ert sannkölluð guðsgjöf.

Gleðileg jól öllsömul!


Rétt er að taka fram að það er enginn boðskapur í ofangreindri sögu. Sannleiksgildi sögunnar er í lágmarki, í raun inniheldur hún svívirðilegar rangfærslur (eins og til dæmis Jólasaga Prúðuleikaranna og Biblían). Goðsögulegar vísanir eru hins vegar þó nokkrar og því gæti það verið skemmtilegur jólaleikur fyrir lesendur okkar að benda á þær hérna í athugasemdakerfinu.

Óli Gneisti Sóleyjarson 24.12.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


johannes - 24/12/04 11:07 #

Versta við þetta er að þetta er ekki einu sinni fyndið. Sem það hefur eflaust átt að vera.


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 24/12/04 12:46 #

Hér er ráðist á heiður Jólasveinsins en hann er fæddur á Íslandi :)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 24/12/04 12:48 #

Takk johannes, einmitt viðbrögðin sem ég vildi fá frá þér.


Kalli - 24/12/04 12:54 #

Já, þú gerir soldið lítið úr jólasveininum, hann er nú annars besti vinur barnanna!


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 24/12/04 13:49 #

En ætlar enginn að taka þátt í jólaleiknum mínum? Það eru ótal goðsögulegar tilvísanir í textanum. Það er til dæmis hægt að leita vísbendinga í grein dagsins á Múrnum.


ThorvaldurJo - 24/12/04 14:25 #

Aumkunnarvert hvað þið gerið lítið úr fæðingu frelsarans Jesú Krist. Þið eruð einnig að gera lítið úr milljónum manna um víða veröld sem vita sitt líf best að trúa og lofa Jesú. Jesús er tugum milljónum manna allt í lífinu, einnig er hann allt í mínu lífi.
Gleðileg jól allir saman og Guð blessi ykkur.


Kalli - 24/12/04 16:57 #

"...milljónum manna um víða veröld sem vita sitt líf best að trúa og lofa Jesú. Jesús er tugum milljónum manna allt í lífinu, einnig er hann allt í mínu lífi."

Þetta er m.a. það sem við erum að reyna að berjast gegn. Ég vil í sjálfu sér ekki segja fólki hvernig það á að lifa lífi sínu, en ef það er sjálft ekki viss þá má það kíkja hingað og velta því fyrir sér. Eitt af því sem það myndi komast að er að Jésú greyið hefði ekkert með jólin viljað hafa, það var ákvörðun kirkjunnar og vissi án efa ekki sjálfur hvenær hann fæddist í þennan jarðneska heim sem honum þótti svo vænt um.


Friðrik Dýrfjörð - 24/12/04 23:20 #

Haha!

Þetta var góð saga, ég verð að sýna einhverjum hana...


Friðrik Dýrfjörð - 24/12/04 23:21 #

Haha!

Þetta var góð saga, ég verð að sýna einhverjum hana...


Friðrik Dýrfjörð - 24/12/04 23:37 #

Afsakið, þetta átti ekki að koma tvisvar og ég hefði átt að troða þessari spurningu í sama póst, en:

Með goðsögulegum vísunum ertu þá að tala um t.d. þegar Grýla hittir Kósakkana sé tilvísun í kóngana þrjá?


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 25/12/04 02:15 #

Ég er nú feginn að uppáhaldið mitt skuli rata inn í þetta, en það eru sveppirnir. Þeir spila stærri rullu í þessu leikriti en flestir kæra sig um að vita.


lalli - 28/12/04 04:14 #

?


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 28/12/04 08:57 #

Ég er bara að vísa til þess hvernig ofskynjunarsveppir gegndu veigamiklu hlutverki í helgihaldi til forna, þegar menn komu sér í "tengsl við guðdóminn", þ.e.a.s. vímu. Þótt menn séu almennt hættir að fara í sveppavímu á jólunum, þá eimir eftir af ýmsu tengdu sveppunum. Má þar nefna jólasokka, ýmislegt jólaskraut, litaval (rautt+hvítt, litir berserkjasveppa) og ýmislegt fleira. Áhugaverðar pælingar og ótrúlega margt sem fólk áttar sig almennt ekki á að á rætur að rekja til sveppaáts galdramanna á fornöld.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.