Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er konan þín til?

Jón GnarrJón Gnarr talar um trú í Fréttablaðinu þann 16. desember. Þar notar hann gamalt bragð trúmanna að líkja trú við ást. Þetta er að sjálfssögðu blindgata hjá Jóni en gefum honum orðið:

Mér finnst trúin vera eins og kærleikurinn. Það er ekki hægt að rökræða um þau. Fyrir mér sem trúuðum manni er trúin persónuleg reynsla mín eins og hjónaband mitt. Ég get ekki rifist við einhvern í fjölmiðlum um það hvort ég elski konuna mína eða hvort ég sé hálfviti að treysta henni. Ég elska konuna mína. Einhver sem elskar hana ekki getur ekki skilið það. Við værum ekki að ræða um það sama.

Gallinn við þessa líkingu Jóns er sú að konan hans er til (nema að hann sé skrýtnari en ég hélt) og allir geta fullvissað sig um það ef þeir hafa áhuga á því. Spurningin um trú er allt annars eðlis. Ég er viss um að Jón segir satt þegar hann talar um að elska konuna sína og ég er viss um að hann trúir á guð. Trú er til, ást er til og konan hans Jóns er til en guð er ekki til. Þetta er semsagt ekki spurningin hvort trúin eða ástin sé raunveruleg.

Til að þess að sýna hvers vegna það er munur á því að trú á guð og elska konuna sína þá er gott að vitna í þann fróðleiksbrunn sem bandarísk dægurmenning er. Í einum Friendsþætti þá byrjaði Joey að vinna á sama stað og Chandler vinur hans. Af einhverjum ástæðum fór Joey að búa til karakter til að nota í vinnunni. Þessi karakter var kallaður Joseph, hann átti konu og börn. Það fór fljótt þannig að Joseph fór að verða til vandræða. Chandler ákvað að lokum að losna við þessar leiðindalygar Joey og sagðist hafa sofið hjá eiginkonu Joseph. Þrátt fyrir að Chandler hefði einungis logið því að hafa sofið hjá ímyndaðri konu þá særði hann Joey með orðum sínum. Vissulega er þetta bara bjánalegur sjónvarpsþáttur en þarna var Joey eiginlega farinn að trúa eigin lygum og minnti því óneitanlega á trúmann.

Chandler fór ekki þá leið að spyrja Joey hvort hann elskaði þessa ímynduðu konu sína í alvörunni því það kom málinu ekkert við, það er ekki heilbrigt að bera raunverulegar tilfinningar til ímyndaðrar veru.

Óli Gneisti Sóleyjarson 18.12.2004
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Friðrik Dýrfjörð - 18/12/04 14:40 #

Hver er það sem ákveður hvað er til og hvað ekki? Ef ég get snert það, er það raunverulegt? Hefuru heyrt talað um heilan í krukkuni?

Í því dæmi er það gefið að geimverur hafa numið þig á brott, tekið úr þér heilan og sett í krukku, síðan tengja þær allt taugakerfið við einhverskonar nema, sem geta skapað algjöran raunveruleika handa þér svo þegar þú vaknar tekur þú ekki eftir neinu, þú bara veist ekki að þú ert heili í krukku.

Hvernig getum við verið viss að staðan sé ekki þessi?

Atli Harðarson (prófessor við HÍ) hefur reyndar hrakið þetta dæmi nokkuð oft og vel, en það fær man til að hugsa hvort þú getir treyst eigin skynfærum. Er það sem þú skynjar raunverulegt?

Segjum að svo sé, þá er móðir mín líklegast raunverulegt, því ég get séð hana. En hvernig veit ég að ást hennar er raunveruleg (þar sem ég sé ekki eða skynja ást beint, ef maður getur orðað það þanneig)? Það er alls ómögulegt að vita. Sama hversu oft hún segir það eða sýnir í verki, þá gæti hún verið að ljúga ekki satt?

Ekki það að okkur detti í hug að nokkur persóna nenni að leggja slíkt á sig, þetta er bara dæmi.

Málið er að það er alveg fáránlega mikil launhæðni sem felst í því að trúa ekki, því sá sem trúir ekki getur engu treyst. Er þetta frekar hörð fullyrðing? Það finnst mér ekki, við trúum á tilveru okkar, við trúum að þeim sem okkur þyki vænt um elski okkur, við trúum að við lifum ekki í tilgangsleysi, við trúum að fólk sé almennt gott o.s.frv.

Spurninginn "Er konan þín til?" er reyndar afar góð spurning. Þegar efahyggjan hefur rifið frá þér skynjun og ekkert er eftir nema hugsun þín, geturu lítið gert nema að trúa.

Á hinn boginn geturu náttúrulega kosið að trúa ekki á efahyggjumannninn. En er þetta þá ekki bara spurning um mismunandi trúarbrögð?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/12/04 15:21 #

Já ég hef heyrt um heilann í krukkunni og svipaðar pælingar, vandinn er að þær eru bara bjánaskapur.

Það gæti verið að við séum bara horklessa upp í nösinni á risavöxnu trölli og það gæti verið að guð sé til en það er bara einstaklega ólíklegt. Það er hins vegar líklegt að heimurinn sé bara mjög svipaður því sem hann virðist vera.

Það er ekki á nokkurn hátt hægt að líkja saman fjarstæðukenndum kenningum og hversdagslegum sannindum.


Ormurinn - 18/12/04 16:26 #

Einn vinur minn er heillaður af Matrix myndunum. Í hans augum er heilmikla lífsvisku að finna í þeim myndum.

Mér hefur alltaf fundist hann svolítið ruglaður greyið.

Það er svosem alltaf hægt að búa til einhverskonar scenario um veröldina og það sem er fyrir utan. En afhverju ættum við frekar að vera reiðubúin að leggja trúnað okkar í einhverja fjarstæðukenndan ímyndunarveruleika heldur en það sem blasir við okkur???


ThorvaldurJo - 18/12/04 16:49 #

Trú er til, ástin er til, og Guð er til. Fullvissa mín um tilvist Guðs byggi ég á innri sannfæringu, snertingu Hans inni í mitt líf, og rökhugsun. Ég byggi líf mitt ekki á tilfinningum heldur á Orði hans. Jesús lifir og hann dó fyrir ykkur og elskar ykkur.


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 18/12/04 17:13 #

Gagnaugablöð heilans eru til og þar fer fram sterk trúarupplifun fólks. Með því að örva þessi svæði má auðveldlega kalla fram draumlegar kenndir um nærveru ýmissa huldu heima. Hulduheima móttaða af því samfélagi sem við erum alin upp í. Ákveðnir geðsjúkdómar kalla líka fram sterka upplifun svo sem raddir og ofsjónir, þar sem Jesú spjallar við fólk eða aðrir þjóðsögu vættir. Einnig má kalla fram ofskynjanir með neyslu lyfja. Þannig ætti sterk trúarupplifun aðeins að vera aðvörun um eigin líðan, líferni eða heilsufar.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 18/12/04 17:37 #

Atli Harðarson er reyndar aðstoðarskólameistari FVA, ekki prófessor í HÍ.

Jesús lifir og hann dó fyrir ykkur og elskar ykkur.

Herra Thorvaldur, þetta er ekki vettvangur fyrir þig til að tjá ást þína á Krissa. Eins og Óðinn segir í Hávamálum.

Ósnotur maður er með aldir kemur, það er best að hann þegi. Engi það veit að hann ekki kann, nema hann mæli til margt. Veit-a maður hinn er vætki veit, þótt hann mæli til margt.

Friðrik - 18/12/04 18:06 #

Óli Gneisti, þú sem sagt ert ekki hérna til að hugsa málinn, þú ert hérna bara til þess að vera með áróður og kalla allt annað en þín orð bjánaskap og fjarstæðukenndar kenningar.

Helduru að fólk nenni að ræða við svona fólk?

Gleðileg jól.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/12/04 19:18 #

Finnst þér í alvörunni það ekki vera fjarstæðukennd kenning að við séum heilar í krukku? Finnst þér það raunverulega ósanngjarnt af mér að kalla það bjánaskap? Ég hef kynnt mér þessar pælingar og mér finnst ákaflega lítið til þeirra koma.

Það er líka gott hjá þér að fullyrða svona að ég sé að "kalla allt annað en [m]ín orð bjánaskap og fjarstæðukenndar kenningar", það er nefnilega svo augljóslega ósatt. Þetta er fáránleg alhæfing sem er í fullkomnu ósamræmi við raunveruleikann.


Friðrik - 19/12/04 16:14 #

Óli Gneisti, mér finnst verulega ósanngjarnt að kalla þessa kenningu bjánaskap án þess að hugleiða restina af því sem ég var að segja. Ég trúi því alls ekki sjálfur að ég sé heili í krukku, hvað sem því líður; Ég var bara að spá í því hvernig við gætum vitað þessa hluti með vissu og hvort það sem að við teljum okkur vita sé ekki bara eitthvað sem við trúum. Þér kann kannski að finnast það eðlilegast og best að draga ekki það í efa sem þú sérð og heyrir. En er það rangt af mér að hugleiða möguleikan, að ekki sé allt sem sýnist, eða að ekkert sé eins og það sýnist?

Þegar að fólk virðist svarar mér án þess að íhuga orð mín og kalla þau bjánaskap (sem átti þó líklegast bara við kenninguna) er ekkert óeðlilegt að ég svari að sama skapi.

Og aftur finnst mér leiðinlegt að heyra „Finnst þér í alvörunni það ekki vera fjarstæðukennd kenning“, eins og að ég geti ómögulega haft rétt fyrir mér og þín orð séu merkilegri en mín. Kannski ekki það sem þú átt við, en þetta er leiðinglegt orðalag.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 19/12/04 16:22 #

Einsog þú segir sjálfur þá var ég að kalla kenninguna bjánalega og fjarstæðukennda, mér finnst fullkomlega eðlilegt orðalag. Ég hef kynnt mér þessar kenningar og mér finnst þær ekki einu sinni áhugaverðar. Þú hins vegar stökkst strax á orðalagið án þess að skoða það sem ég sagði.

Það er ekki hægt að líkja saman fjarstæðukenndum kenningum og hversdagslegum sannindum.


Snær - 19/12/04 17:21 #

Áhugaverð eða ekki, þá hefur "heila í krukku" tilgátan og aðrar tengdar ekkert með aðra umræðu hér að gera.

Ég og aðrir vantrúarseggir erum með opna heimsmynd. Við trúum ekki, heldur reynum við að komast að rökstuddum niðurstöðum, sem má telja til bráðabyrgða (annars teldumst við ekki hafa opna heimsmynd).

Tökum dæmi:

Ef meira benti til þess að álfar væru til heldur en ekki, og tilgáta sú gerðist þannig sannanleg (og að sama mati afsannanleg), þá þætti mér rökmætt að komast að þeirri niðurstöðu að þeir væru að öllum líkindum til.

Það er mögulegt að einhverskonar almáttug yfirnáttúruvera sé til. Þó það sé mögulegt, er það ekki sennilegt.

Sama gildir um tilgátuna er varðar "heila í krukku".

Það getur verið skemmtilegt til styttri tíma að íhuga hvernig veruleikinn gæti á einhvern tiltekin máta verið öðruvísi en við skynjum hann, en ekki praktískt til lengri tíma ef ekkert bendir til þess.


útlensk - 19/12/04 22:20 #

"Það er mögulegt að einhverskonar almáttug yfirnáttúruvera sé til. Þó það sé mögulegt, er það ekki sennilegt."

Snær, hvað ákvarðar það hvort guð eða einhver almáttug vera sé sennilega (ekki) til? Hvað/hver ákvarðar hvað er sennilegt? Er það yfir höfuð viðfangsefni vísinda?

"Það getur verið skemmtilegt til styttri tíma að íhuga hvernig veruleikinn gæti á einhvern tiltekin máta verið öðruvísi en við skynjum hann, en ekki praktískt til lengri tíma ef ekkert bendir til þess." Tek undir þetta en bendi um leið á að skynjun er langt frá því að vera einsleit.

Bestu kveðjur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/12/04 23:15 #

Skynjun okkar ein og sér stoðar lítið við að komast að því hvenrig veruleikinn er samsettur. Markviss athugun með ströngum aðferðum sýnir sig að gefa bestu niðurstöðurnar.


Snær - 20/12/04 00:57 #

útlensk skrifaði: "Snær, hvað ákvarðar það hvort guð eða einhver almáttug vera sé sennilega (ekki) til? Hvað/hver ákvarðar hvað er sennilegt?"

Ég myndi segja almenn skynsemi, ef það væri ekki svona mikill skortur af henni. Þannig að ég myndi þá segja skynsamt fólk (lesið: ég :) )

En af fullri alvöru, tilvist guðs er ó(af)sannanleg tilgáta, og beinhörð rökvísin kennir okkur það að taka slíkt ekki af alvöru.

Annars væri það næst á dagskránni að taka trú á mínótára, ósýnilegan bleikan einhyrning, fljúgandi svín... þarf ég nokkuð að halda áfram.

"Er það yfir höfuð viðfangsefni vísinda?"

Ef ég skil það rétt, þá er það viðfangsefni rökfræðinnar, og þar með vísinda.


urta (meðlimur í Vantrú) - 20/12/04 14:40 #

Munurinn á konu Jóns Gnarr og guði er sá að ALLIR geta séð konu Jóns Gnarr - ekki bara sá/þeir sem elska hana. Guð er "raunverulegur" í hugum þess sem velja að trúa á hann. Hvernig væri að þeir hinir sömu veltu því fyrir sér af hverju ALLIR sjá hann þá ekki?


Julio - 20/12/04 16:55 #

Birgir sagði: "Skynjun okkar ein og sér stoðar lítið við að komast að því hvenrig veruleikinn er samsettur. Markviss athugun með ströngum aðferðum sýnir sig að gefa bestu niðurstöðurnar"

"Strangar aðferðir" (væntanlega aðferðir raunvísinda) geta aðeins brugðið ljósi á heiminn eins og hann er gefinn okkur, þ.e. á fyrirbæri. Við getum heldur ekki borið "bestu niðurstöðurnar" saman við sannleikan um heiminn, enda er hann ekki gefinn.

Góðar pælingar hér.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/12/04 19:30 #

En bestu niðurstöðurnar gefa heilsteyptustu vísbendingarnar um hver sannleikurinn er, þær eru okkar besta nálgun við hann. Getgátur og óskhyggja skila okkur aftur á móti engu.


Pétur G - 25/12/04 17:15 #

Ég á lítinn ósýnilegan vin sem við getumm kallað "Gumma" t.d! fyrir mér er hann raunverulegur og samband mitt við hann er ákaflega innihaldsríkt og gefandi!

þótt einhverjum plebbum út í bæ kunni að finnast það ólíklegt og jafnvel fjarstæðukennt að þessi "Gummi" sé yfir höfuð til, þá rækta ég samaband mitt við hann af alúð og skyldurækni!

Er það ekki bara allt í lagi? eru þessir svokölluðu vantrúarmenn í heilögu stríði gegn því sem þeim kann að finnast á einhvern hátt óTRÚlegt?

ef allt væri í heimi svart eða hvítt þá væri þetta allt saman auðveldara viðureignar en þangað til það gerist þá þykja mér svona spekúleringar á ákaflega lágu plani!

Góðar Stundir!


Bjoddn - 25/12/04 23:45 #

Ef Gummi vinur þinn er til í þínum huga, þá værir þú álitinn eitthvað skrítinn. Ef Gummi vinur þinn segði þér að gefa 10% af laununum þínum til kattholts í hverjum mánuði, þá væru flestir sáttir við þá tilhögun að þú yrðir settur á einhver lyf.

En skiptu Gumma út fyrir guð og kattholti út fyrir Fíladelfíu og þá er þetta voðalega eðlilegt eitthvað.

díngalíng

Það sem er hinsvegar á lágu plani er sú staðreynd að ég þarf að borga í áhugamannaklúbb hvort sem mér líkar betur eða verr. Ef ég fer þá leið að skrá mig úr þjóðkirkjunni get ég lækkað þessa greiðslu um helming en fæ samt að borga restina bara eitthvað annað.

Á sama hátt innheimtir RÚV af mér afnotagjöld þó svo að ég eigi ekki sjónvarp eða útvarp og skilar afrakstrinum til kattholts*... finnst þér það ekki bara eðlilegasta mál í heimi?

*þetta er lýgi


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/12/04 00:19 #

Er það ekki bara allt í lagi? eru þessir svokölluðu vantrúarmenn í heilögu stríði gegn því sem þeim kann að finnast á einhvern hátt óTRÚlegt? ef allt væri í heimi svart eða hvítt þá væri þetta allt saman auðveldara viðureignar en þangað til það gerist þá þykja mér svona spekúleringar á ákaflega lágu plani!

Herrar mínir og frúr. Hér sáuð þið dæmigerða röð af strámönnum. Njótið vel.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 26/12/04 00:43 #

Almennt er að þannig að fólk sem á svona ósýnilega vini er sett á geðdeild.


Árni - 26/12/04 03:06 #

Nei, ég held að reglan sé að ef fleiri en 50 manns (man ekki þessa tölu núna) hafa sömu ósýnilegu vini þá mega þeir stofna félagsskap í kringum ósýnilega vininn. Ef þú nærð ekki þessum kvóta, þá ertu settur á geðdeild.


Pétur G - 26/12/04 03:28 #

En af hverju má fólk ekki eiga sína trú í friði? af hverju þurfa trúleysingjar að predika sinn sannleika af því er virðist meiri af meiri eldhug en Jesúhopparar?

p.s undirritaður fellur hvorki í hóp vantrúarmanns né jesúhoppara!


Pétur G - 26/12/04 03:30 #

Afsakið illa ritað mál mitt ég átti að sjálfsögðu við "af hverju þurfa trúleysingjar að predika sinn sannleika að því er virðist af jafnvel meiri eldhug en Jesúhopparar?"


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 26/12/04 12:44 #

Af hverju bloggar þú Pétur? Af hverju ertu stundum að segja að fólk hafi rangt fyrir sér?

Spurningum þínum er svarað í greininni Upphafning sinnuleysis.

Ástæðan fyrir þessari grein er ekki sú að Jón Gnarr hafi talað um konuna sína heldur vegna þess að hann líkti ást á konu sinni við trú. Við höfum fjallað um ástina: Trúin og ástin.


Pétur G - 26/12/04 13:39 #

þetta er stórskemmtilegt allt saman!


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 26/12/04 13:48 #

Af hverju ertu að tuða hér yfir því að við séum að skipta okkur af skoðunum annarra? Megum við ekki gera það sem við viljum?

Hvað ert þú að prédika yfir okkur?

;-)


Ormurinn - 28/12/04 11:17 #

Pétur G - 26/12/04 03:28 # En af hverju má fólk ekki eiga sína trú í friði? af hverju þurfa trúleysingjar að predika sinn sannleika af því er virðist meiri af meiri eldhug en Jesúhopparar? p.s undirritaður fellur hvorki í hóp vantrúarmanns né jesúhoppara!

Af því að trúsleysingjar hafa þurft að hlusta á bullið úr prestum og predikurum alla ævi.

Af því að ríkið veitir skattpeningum okkar til að styðja þessa sömu bullukolla svo þeir geti m.a. haldið áfram að predika yfir börnumum okkar og fylla hausinn á þeim með bulli.

Þetta eru bara 2 ástæður af mörgum.


Auður - 29/12/04 17:36 #

Hahahahaha, þetta er rosaleg síða. Rakst óvart inná hana útfrá link hjá dr.gunna á grein eftir Bigga Baldurs og hélt þetta væri bloggið hans. Tjáði mig e-ð voða um þá grein en nei, ekki nenni ég að taka þátt í svona fram og til baka umræðum, úff.

Ég kýs að hafa það þannig að ég trúi á allt þar til það er afsannað eða:

"I believe in everything until it's disproved. So I believe in fairies, the myths, dragons. It all exists, even if it's in your mind. Who's to say that dreams and nightmares aren't as real as the here and now? Reality leaves a lot to the imagination." - John Lennon

ég er alveg rosalega sammála!


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 29/12/04 17:49 #

Mér finnst þetta afar heimskuleg ummæli hjá Lennon, ætli hann hafi verið að reykja gras þegar hann sagði þetta?

Hver stærir sig af því að nenna ekki að taka þátt í "svona fram og til baka umræðum". Þetta heita rökræður. Á þennan hátt skiptist fólk á skoðunum, kemst að því hvort það hefur rétt fyrir sér og lærir jafnvel eitthvað í leiðinni.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 29/12/04 17:51 #

Þannig að ég get haldið því fram að í einhverri manneskju sé illur andi sem muni eyða heiminum nema að þessi manneskja sé drepin? Ætlarðu að hjálpa mér að drepa þessa manneskju eða viltu kannski átta þig á að skynsemi og rökhugsun er nauðsynleg.


Auður - 29/12/04 22:12 #

Já já, þetta er rétt hjá ykkur. Sorrí gæs


Auður - 29/12/04 22:58 #

Fram og til baka umræður eins og ég kallaði það, eða rökræður gera mig bara ringlaða og ég bara veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga. Ég kýs þá bara að taka ekki þátt í þeim, kann heldur ekkert að færa rök fyrir máli mínu. Ætli það geri mig að einni af þessum ignorant manneskjum útí bæ? býst við því. En ég átta mig alveg á því að skynsemi og rökhugsun er nauðsynleg. Hún getur þó verið hundleiðinleg skynsemin og rökhugsunin í of miklum mæli. Það finnst mér bara, hef engin rök fyrir því. Gott að hafa ímyndunarafl.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 29/12/04 23:05 #

Ég held einmitt að rökhugsun og skynsemi sé miklu skemmtilegri.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/12/04 23:06 #

Gagnrýnin hugsun úthýsir ekki ímyndunaraflinu, síður en svo. En við ákveðin skilyrði verðum við að taka rökin fram yfir ímyndunina, t.d. þegar við reynum að meta raunveruleikann.

Þú getur huggað þig við það, Auður, að gagnrýna hugsun má læra. Fyrsta skrefið er að efast.


Julio - 30/12/04 11:35 #

Þetta er rétt hjá Birgi með efann. Sá maður sem hefur haft einna sterkust hugmyndafræðileg áhrif á hina vestrænu hugsun (þrátt fyrir kristnina?), og er almennt talinn með skýrustu mönnum sem sagan kann að greina frá, útskýrði á sínum tíma að ef satt væri að hann væri vitrastur allra, eins og sumir héldu þá þegar fram, væri það vegna þess að hann vissi - öfugt við aðra - að hann vissi ekki neitt. Þetta var auðvitað meistari Sókrates. Gagnrýnin hugsun er runninn undan rifjum Sókratesar og lærisveinum hans, Platón sérstaklega. Honum eiga Vantrúarmenn mikið að þakka, og ættu raunar að finna einhvern farveg til að heiðra arfleifð hans - en vefurinn sjálfur er kannski slíkur farvegur..


Auður - 30/12/04 16:36 #

Stundum finnst mér ég efast of mikið reyndar. Ég tek öllu með fyrirvara og gef öllu "the benefit of a doubt." Doldið ýkt stundum.


Auður - 30/12/04 16:40 #

Ég mundi sjaldan eða aldrei segja: "Þetta er svona, punktur!" , ég segi frekar: "Ég held að þetta gæti verið svona."


Guðmundur2 (meðlimur í Vantrú) - 30/12/04 16:43 #

Var Sókrates til?


Snær - 30/12/04 18:05 #

"Ég held að þetta gæti verið svona."

Þetta er þá líklega einskonar tilgreining á möguleika.

Trú nokkurn veginn svona, að því er mér sýnist:

  1. "Ég er fullviss um að þetta sé svona."
  2. "Ég sé skýrar sannanir fyrir því" og/eða "Sannanir eru aukaatriði."

Rökstudd bráðabyrgðaniðurstaða, sem ég og aðrir ástunda, væri þá líklega einhvernmegin á þessa vegu:

  1. "Ég held að þetta sé líklega svona, vegna þess að rökin benda frekar í þá átt."
  2. "Ef ég sé betri rök fyrir öðrum möguleika og/eða fyrri rök eru hrakin, skipti ég um skoðun."

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.