Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Munurinn á kenningu og tilgátu

Ég tek ansi oft eftir því í samræðum mínum við bæði trúmenn og aðra að menn gera ekki alltaf greinarmun á hugtökunum kenningu og tilgátu. Í ljósi þess að þeir telja þetta eitt og sama fyrirbærið tekst þeim svo að gera lítið úr rækilega rökstuddum vísindakenningum á þeim forsendum að þetta séu nú eftir allt "bara kenningar".

Það er stór munur á þessu tvennu:

Tilgáta er staðhæfing sem sett er fram án nokkurs rökstuðnings. Í vísindaheiminum er stöðugt verið að setja fram prófanlegar (hrekjanlegar) tilgátur, enda eru þær ekkert annað en þær frjóu hugmyndir sem rannsakendur kasta fram í þeim tilgangi að láta á þær reyna.

Tilgátur mætti þess vegna líka kalla spurningar.

Þegar búið er að setja fram tilgátu er hún tekin og prófuð. Gerðar eru að henni afsönnunaratlögur með beinum tilraunum ef það er hægt, annars er notast við óbeinar prófanir. Ef tilgáta stendur af sér afsönnunaratlögur með þolanlegum hætti og hægt er að sýna með sterkum rökum fram á líkindi fyrir því að hún sé, að hluta eða í heild sinni, sönn er hún sett fram sem vísindakenning. Það þýðir einfaldlega að hún innihaldi nógu mikil sannindi til að kenna megi hana sem slík.

Þar til annað kemur í ljós.

Sjaldnast er það þannig að vísindakenningar útskýri allt, séu endanlegar. Iðulega tekst mönnum að finna á þeim galla og tefla fram betri og sannari útgáfu en fyrri niðurstöður sýndu. Þetta ferli liggur einfaldlega í eðli vísindanna og er burðarásinn í allri framþróun og þekkingu mannkynsins.

Innan trúarbragðanna eru jafnan settar fram staðhæfingar sem eru óhrekjanlegar. Þar af leiðir að slíkar fullyrðingar, sem oft eru í daglegu tali kallaðar kenningar án þess þó að vera það, geta aldrei talist neitt meira en tilgátur.

Ærið oft er það borið upp á menn, þegar þeir láta uppi að þeir aðhyllist vísindakenningu, að þeir trúi á hana, rétt eins og trúmaður kaupir trúar"kenningar" í blindni. Þannig er því þó ekki farið, heldur er nær að kalla þetta rökstudda sannfæringu. Og slík sannfæring hefur það að auki til síns ágætis að um leið og nýjar rökstuddar upplýsingar berast sem uppfæra fyrri kenningar, eða jafnvel kollvarpa þeim, þá taka menn því fagnandi, því um leið vita þeir aðeins meira um heiminn en fyrr.

Vona að einhver sé nú upplýstari um þessi hugtök, kenningu og tilgátu.

Birgir Baldursson 06.12.2004
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Steindór J. Erlingsson - 06/12/04 02:20 #

Það er gott að þú berð muninn á tilgátu og kenningu í tal því mjög algengt er að þessu tvennu sé ruglað sama. Ég fjallað nýlega um þetta atriði á Vísindavefnum er ég svaraði spuringunni Er þróunarkenningin bara kenning eða er hún staðreynd? og fleiri tengdum spurningum.


Andrés - 06/12/04 14:19 #

Vel sagt, ég hef einmitt staðið mig að því að útskýra þetta sama í sífellu á hinum ýmsu spjallsíðum á netinu, þá aðallega í viðræðum við ameríska sköpunarsinna.


Þorsteinn Bragason - 06/12/04 21:49 #

Eins og góður maður sagði.; EFIST UM ALLT Sókrates. um 460 fk


Rökkvi - 11/12/04 00:42 #

Gott hjá ykkur að koma með þennan punkt. Til dæmis er þróunarkenningin kenning, því hún er rökstutt líkan sem að minnsta kosti virðist ganga upp. Þróunarkenningin hefur líka þann kost að hafa forspárgildi um vissar aðstæður.

Sköpunar"kenningin" er ekki kenning. Hún er bara staðhæfing án nokkurs rökstuðnings eða skýringa um hvernig kerfið virki, eða hvað það hugsanlega leiði af sér í framtíðinni.


Julio - 21/12/04 17:23 #

Það er gaman að rekast á þessa umræðu hér um muninn á tilgátu og kenningu. Það kemur mér reyndar á óvart að þessi skilningur sem hér birtist á hugtökunum (og virðist nokkuð yfirvegaður og rökstuddur) gengur nokkuð í berhögg við þær skilgreiningar sem ég las og tamdi mér í háskóla.

Samkvæmt mínum skilningi er kenning ekki annað en hugmynd um heiminn, rökstudd eða órökstudd, hversdagsleg eða fræðileg. Tilgátur (gjarnan prófanlegar) eru settar fram til að renna stoðum undir kenningu, en almennt er talið að ekki sé hægt að "sanna" kenningu, aðeins renna sífellt fleiri stoðum undir hana (þið heyrið t.d. aldrei vísindamenn tala um að e-ð sé "vísindalega sannað" - slíkt heyrist helst í auglýsingum). Hins vegar er hægt að afsanna kenningu, en slíkt verður þá tilefni til nýrrar kenningar.

Helsta áskorun vísindamanna, ekki síst í félagsvísindum, er að setja fram prófanlegar tilgátur, sem tengjast raunverulega þeirri kenningu sem þeir vilja renna stoðum undir. Ég gæti t.d. sett fram þá kenningu að Jón laðaðist að karlmönnum, sett svo fram þá "prófanlegu" tilgátu að ef ég kæmist í náttborðið hans rækist ég á hommaklámblöð. Þetta myndi renna stoðum undir kenninguna, en það þyrfti mikið fleiri tilgátur til að gera hana mjög trúverðuga (hann gæti t.d. hafa verið að geyma þau fyrir bróður sinn).

Nóg í bili.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/12/04 02:11 #

Það virðist vera einhver önnur skilgreining á kenningu innan félagsvísindanna en raunvísindanna. Vísindakenning er aldrei órökstudd hugmynd, heldur alltaf niðurstaða prófaðrar tilgátu (tilgátna jafnvel). Sjá t.d. þetta svar á Vísindavefnum, þetta fer ekkert á milli mála.

Þannig mynd hugdetta þín um kynhneigð Jóns í dæmi þínu ekki flokkast undir kenningu innan raunvísindanna, heldur tilgátu. Og tilgáta þessi er hrekjanleg og því hægt að prófa hana.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.