Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hið óútskýrða og hið óútskýranlega

Það er eitt atriði umfram önnur sem ýtir undir trú á hið dulræna og yfirnáttúrulega. Þetta atriði er árátta manna að hugsa "ég get ekki skýrt þetta, þetta er óútskýranlegt". Þarna vantar að fólk hugsi augnablik "veit ég í raun nógu mikið til að dæma þetta óútskýranlegt?".

Það er margt í kringum okkur sem við vitum ekkert um án þess að við gerum ráð fyrir að það sé eitthvað dularfullt á ferð. Tækni er eitt af þessum atriðum. Hvað vita margir raunverulega hvernig hægt er að senda myndefni í gegnum loftið þannig að það endi í sjónvarpstæki heimilisins? Við vitum um einhverjar bylgjur sem eru þarna á ferðinni en hvernig í ósköpunum senda myndir með þessum bylgjum? Ég skil ekki einu sinni hvernig er hægt að senda myndefni með snúrum frá myndbandstæki yfir í sjónvarp! Ég hef ekki grænan grun um hvernig þetta virkar í raun en mér finnst samt ekkert dularfullt við að sjá mynd á sjónvarpsskjá. Við vitum að þetta er skýranlegt og þess vegna erum við ekkert að æsa okkur yfir þessu.

Tunglið togar í sjóinn á Jörðinni og þess vegna skiptast á flóð og fjara. Þetta vita flestir en hverjir vita raunverulega hvernig þessir kraftar virka allir saman? Sérfræðingarnir væntanlega. Ef þig langar að vita hvað er á seyði þá geturðu skrifað fyrirspurn á Vísindavefinn og látið sérfræðinga svara. Dæmin sem ég nefndi eru sem betur fer ekki á fræðasviði guðfræðingana sem skrifa þar þannig að væntanlega er hægt að fá betri svör en "af því Guð vill það".

Þegar miðill nær að koma fram með ótrúlega nákvæmar upplýsingar (eða þegar Þórhallur miðill kemur með ótrúlega ómerkilegar upplýsingar) um ókunnugt fólk þá virðast svo vera að margir ákveði að hér sé eitthvað á ferðinni sem sé óskýranlegt með öllu. Svo er ekki, þarna er nefnilega á ferðinni aðferð sem kallast háttlestur (á ensku cold reading). Háttlestur er notaður bæði af miðlum og töframönnum til að gera fólk agndofa, töframaðurinn viðurkennir að þetta sé bragð á meðan miðillinn segir að hér sé eitthvað dulrænt á ferðinni (og jafnvel trúir miðillinn því sjálfur). Þegar maður hefur kynnt sér háttlestur þá verður manni ljóst að þetta bara hæfileiki einsog hver annar, nær allir geta lært þetta en fáir verða sérfræðingar (flestir verða samt betri en Þórhallur miðill).

Sumir lenda í því að vakna um miðja nótt þannig að þeir geta hvorki hreyft sig né tjáð sig. Í þessu ástandi verður fólk oft vart við einhverja "návist" í herberginu. Það er erfitt fyrir fólk að átta sig hvað veldur þessu ef það hefur ekki lært um svefnlömun. Flestir verða einhvern tímann fyrir svefnlömun en sumir oftar en aðrir. Einfalda skýringin er sú að þarna er fólk í ákveðnu millibilsástandi milli svefns og vöku. Fólk hefur ekki fulla stjórn á sjálfu sér og það er fullkomlega eðlilegt að þetta rugli þá sem verða fyrir þessu.

Það er einfaldlega þannig að það er afar fátt sem er óútskýranlegt. Þegar fólk flokkar atburði eða fyrirbrigði sem dulræn eða yfirnáttúruleg þá er það yfirleitt af því það þekkir ekki hvað er þarna raunverulega að baki. Réttu viðbrögðin í svona aðstæðum er að lesa sér aðeins til um málin. Mikilvægast er að leyfa sér ekki að flokka hluti sem ótútskýranlega án þess að hafa leitað skýringa. Sumt er líka þannig að það hefur ekki verið útskýrt af vísindum en það er yfirleitt er það bara tímaspursmál frekar en óyfirstíganlegt vandamál. Sumir sem lesa þetta vilja væntanlega gera mér upp blinda trú á vísindin en staðreyndin er einfaldlega sú að vísindin eru eina aðferðin sem við höfum til að skýra heiminn og þessi aðferð hefur komið okkur lengra á þekkingabrautinni en bjartsýnustu menn hefðu getað vonað. Reyndar hafa vísindin hingað til svikið okkur um flugbíla, við skulum gefa því tíma.

Óli Gneisti Sóleyjarson 02.12.2004
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Ásgeir - 02/12/04 02:50 #

"Sumir sem lesa þetta vilja væntanlega gera mér upp blinda trú á vísindin en staðreyndin er einfaldlega sú að vísindin eru eina aðferðin sem við höfum til að skýra heiminn ..." - eina aðferðin? Ef þetta er ekki trúaryfirlýsing þá veit ég ekki hvað. Hvað með heimspeki, listir, já, og bara heilbrigt mannlegt innsæi? Hugsanlega er allt skýranlegt þó við séum ekki enn búin að skýra það en ekki láta þig dreyma um að það verði sami hugsunargangurinn (vísindalegur eða annar) sem muni svara öllum heimsins spurningum. Það er hreinn barnaskapur


urta (meðlimur í Vantrú) - 02/12/04 08:13 #

Hvað er "að skýra heiminn"? Það er ekki skrýtið að tveir menn fái tvö ólík sjónarhorn á þýðingu þess orðasambands þegar þeir leggja svona gjörólíka merkingu í það. Ásgeir þarf að leggja það á sig að sjá að Óli Gneisti er ekki að gera lítið úr þýðingu listum, heimspeki og þaðan af síður mannlegu innsæi. En það er til nokkuð sem heitir vísindaleg aðferðafræði og með henni má gera endurteknar tilraunir - sem geta leitt í ljós það sem sannara reynist. Að gera sér þetta ljóst, Ásgeir, er ekki trúarbrögð. Það er ótrúlega einkennilegur hugsunarháttur að reyna ævinlega að klína því upp á þá sem eru lausir við trú á guð, guði eða önnur yfirnáttúrleg fyrirbæri að þeir trúi samt!


Ásgeir - 02/12/04 09:43 #

Þetta er einmitt kjarni málsins; auðvitað er eðlilegt að tveir menn leggi mismunandi merkingu í það “að skýra heiminn” því það er svo stórt og umfangsmikið verkefni að jafnvel þó stór hluti tilveru mannkynsins um aldir hafi farið í einmitt það verkefni að svara þessari spurningu þá er því langt í frá lokið og verður sjálfsagt aldrei. Og til þess að skilja heiminn, mismunandi hluta hans, þarf ótal aðferðir, vísindalega aðferðin er vissulega þar á meðal – en hún skýrir ekki nærri því allt. Vísindaleg aðferð getur leitt í ljós það sem sannara reynist, þar sem hún á við. Stundum hjálpar ekki neitt að gera endurteknar tilraunir til þess að komast að sannleikanum um hlutina. Ég nota ekki vísindalegar aðferðir til þess að komast að því hvort ég geti treyst fólki, hvort mér finnst einhver stelpa falleg eða hvort mér finnist eitthvað réttlátt eða óréttlátt. Og það er ekki síður mikilvægur þáttur í því að skilja heiminn heldur en að vita hvernig myndin kemur frá myndbandstækinu uppí sjónvarpið.


urta (meðlimur í Vantrú) - 02/12/04 10:51 #

"Ég nota ekki vísindalegar aðferðir til þess að komast að því hvort ég geti treyst fólki, hvort mér finnst einhver stelpa falleg eða hvort mér finnist eitthvað réttlátt eða óréttlátt."

Nei - einmitt, Ásgeir þá notar þú annars vegar tilfinningar þínar og hins vegar siðferði þitt. Og það dugar þér auðsjáanlega líka þegar þú ert að skoða ýmis fyrirbæri eins og t.d. svefnlömun sem er illskiljanleg þeim sem ekki veit hvað er að gerast. Eða fyrirbæri búið til af mönnum t.d. hugmyndir um að til sé yfirnáttúrlegur guð. Í báðum þessum tilvikum duga vísindalegar aðferðir ágætlega.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/12/04 10:57 #

Ég nota ekki vísindalegar aðferðir til þess að komast að því hvort ég geti treyst fólki, hvort mér finnst einhver stelpa falleg eða hvort mér finnist eitthvað réttlátt eða óréttlátt.

Útúrsnúningur. Hér er verið að tala um þekkingu á eðli og gerð veraldar. Þar má innsæi síns lítils. Þú sérð nú hvert það hefur leitt mannskepnuna: Flöt jörð, fílaguðir, regndans, mannfórnir, draugahræðsla, blóðdrykkja, andafundir, pyntingar...

Ekki reyna að gera okkur það upp að við séum í því að meta t.d. fegurð kvenna út frá mælistikum vísindalegrar aðferðar. Hins vegar geta þær mælistikur útskýrt fyrir okkur hvers vegna okkur þykir sumt í fari þeirra aðlaðandi og sumt ekki. Það er mikill munur á þessu tvennu.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 02/12/04 13:09 #

Hvernig skýrir listinn heiminn? Þó eitthvað gangi upp í heimi skáldsögunnar til dæmis þá þarf það ekki að ganga upp utan hennar. Hvaða raunverulegu svör fáum við úr listunum Ásgeir?

Hvernig getur heimspeki skýrt heiminn? Til þess að heimspeki geti raunverulega skýrt heiminn þá þyrfti að vera einhver aðferð sem raunverulega aðskilur sannar heimspekikenningar og ósannar. Aðferð heimspekingana skilar ekki raunverulegum niðurstöðum. Skýringar á heiminum byrja á því að vera á trúarstiginu, færast yfir á heimspekistigið og síðast komast þær á vísindastigið. Vísindin get ólíkt heimspekinni og trúnni sannreynt kenningar eða afsannað þær. Þess vegna er vísindaleg aðferð eina leiðin til að skýra heiminn sem virkar.

Sástu þáttinn "The Human Face" eða hvað hann hét með John Cleese? Þar var tekið nokkuð vel fyrir hvað það er í fari fólks sem gerir það fallegt í augum annarra. Punkturinn er náttúrulega sá að fegurð er ekki töfrum lík heldur er hún útskýranleg með vísindalegri aðferð.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 02/12/04 13:53 #

Góð grein ... en ein spurning: Svefnlömun, er það það sama og er kallað katatónía á erlendum málum?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 02/12/04 14:02 #

Nei, á ensku er þetta sleep paralysis. Gleymdi að setja linkinn þarna inn. Reyndar talaði vinur minn einu sinni um þetta á blogginu sínu: Svefnlömun.


Snær - 02/12/04 14:50 #

Stærðfræði: fræði með óteljandi reglur en engin ákveðin lokamarkmið.

Heimspeki: fræði með ákveðin lokamarkmið en engar teljandi reglur.

Fann þennan brandara einhvern tíma fyrir löngu, finnst hann eiga sæmilega vel við umræðuna sem áður hefur komið.


Hrafnkell Stefánsson - 02/12/04 14:56 #

Góð grein hjá þér Óli. Mér þykir þó sem heimspekin fari nokkuð halloka í umfjöllun þinni og í því sem á eftir hefur fylgt. Vísindaleg aðferðafræði hefur allt frá upphafi, og eðli málsins samkvæmt, verið samofin heimspekinni, þ.e þekkingafræði, rökfræði og fleiri undirgreinum hennar. Án heimspekinga á borð við Karl Popper vissum við til að mynda lítið um mikilvægi þess að kenningar verði að vera afsannanlegar (aðrir hafa gagnrýnt kenningar Poppers en það er önnur saga). Svona mætti áfram telja. Vísindin væru ekki neitt án heimspekilegra hugsuða og þerra aðferða sem heimspekin notar. Einnig má í þessu samhengi nefna að þekkingu mannkyns hefur fleygt fram á sviðum þar sem raunvísindalegum aðferðum verður illa eða hreinlega alls ekki fyrirkomið (hagfræði, merkingafræði, fagurfræði, félagsfræði, stjórnspeki etc.)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 02/12/04 15:40 #

Ég held að ég hafi nú ekki gert neitt sérstaklega lítið úr heimspekinni (né listum), hún hefur sitt hlutverk.


Árni - 02/12/04 16:15 #

Góð grein hjá þér Óli.

Ég hef sjálfur upplifað svefnlömun, og verð að segja að það er ekki mjög skemmtileg lífsreynsla. Hvað ætli fólk í gamla daga hafi annars kallað stöðurafmagn?

Flugbílar? Skoðaðu www.moller.com


Hrafnkell Stefánsson - 02/12/04 16:22 #

Tja, þú segir t.d: "Aðferð heimspekingana skilar ekki raunverulegum niðurstöðum. Skýringar á heiminum byrja á því að vera á trúarstiginu, færast yfir á heimspekistigið og síðast komast þær á vísindastigið. Vísindin get ólíkt heimspekinni og trúnni sannreynt kenningar eða afsannað þær."

Þú virðist ekki átta þig á því að það sem þú kallar "vísindi" og virðist þar eiga við raunvísindi í nokkuð þröngum skilningi hefur fyrir tilstilli heimspekinar þróast mikið í áranna rás. Vísindin væru ekki neitt án þekkingarfræðinnar en hún er auðvitað ekkert annað en hrein og klár heimspeki. Það sem þú nefnir um afsannanleika vísindalegra kenninga var t.d ekki þekkt fyrr en um miðja síðustu öld með verkum Karls Poppers. Vísindin fæddust ekki fullsköpuð einn góðan veðurdag og vísindaleg aðferð mun trúlega halda áfram að þróast.

Útskýring þín á því hvernig þekking færist frá því að vera trúarleg, yfir í það að vera heimspekileg og endar loks á vísindastíginu er í besta falli barnaleg þvæla. Vísindin og heimspekin eru samofin.

Að lokum: Hafa greinar eins og merkingafræði, rökfræði, stærðfræði, siðfræði og hagfræði ekki hjálpað okkur að skilja veröldina?


AndriÞ - 02/12/04 16:34 #

"Vísindi eru kerfisbundnar rannsóknir, greining gagna, fræðileg hugsun ásamt rökföstu og gagnýnu mati á röksemdafærslum og niðurstöðum með því markmiði að þróa þekkingu innan ákveðins sviðs."

Ekki ljúga skólabækurnar þannig ég fæ ekki séð annað en að þessi dæmi sem Hrafnkell nefndi falli undir skilgreininguna vísindi enda byggjast vísindin á fræðilegri hugsun.


Árni - 02/12/04 18:33 #

Ég held þú sért að misskilja þetta eitthvað Hrafnkell, nema ég sé að því... Það sem hann á við hér er að þegar óþekkt fyrirbæri koma fyrst til sjónar fólks, þá sé þeim fyrst komið fyrir innan ramma trúar eða heimsspeki. Reynt er að öðlast skilning á fyrirbærinu með því að koma með heimspekilegar vangaveltur um það. Þangað til fyrirbærið er orðið skiljanlegt, og þar af leiðandi hægt að sanna eða afsanna kenningarnar með rökfræði.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 02/12/04 21:28 #

Árni náði þessu ágætlega, verst að ég man ekki hver sagði þetta.


Hreinn Hjartahlýr - 02/12/04 21:32 #

Ég hef reyndar mikla reynslu af þessari svefnlömun, en vissi ekki að þetta væri vel þekkt fyrirbæri. Það merkilega við mína svefnlömun er að þó að ég geti ekki hreyft neina útlimi þá hef ég vissa stjórn á önduninni og get hrotið viljandi nógu hátt til að konan vakni og vekji mig. Aldrei hefur mér þó dottið í hug að um dulræna hluti væri að ræða.


Árni - 02/12/04 22:36 #

Óli, kíktu aftur á umræður okkar við Hættulegur Hugsunarháttur, þar erum við að rökræða um þetta.


Ásgeir - 03/12/04 02:06 #

Biggi: þekkingu á eðli veraldar? Hefur Íraksstríðið eitthvað með það að gera? Og tekur maður afstöðu þar byggða á siðferði eða vísindalegri aðferð? Vissulega geta allar aðferðir í röngum höndum leytt til óttalegrar vitleysu en það er mannleg ófullkomnun sem engin aðferð mun koma í veg fyrir. Óli: The Human Face og sambærilegir þættir eru einmitt gott dæmi um hve vísindin eru þrátt fyrir allt takmörkuð aðferð til skilnings á heiminum, vissulega fá þau einhverja niðursstöðu um almennt fegurðarmat en ekki um fegurð sem slíka. Sumt hefur verið svipað í gegnum aldirnar og annað hefur breyst, sumt er persónubundið og hefur því ósköp lítið með vísindi að gera. Hvernig skýrir listin heiminn? Jú, þar sem listin þarf ekki að burðast með að sanna eitt né neitt og þarf ekki að hengja sig í staðreyndir sem oft eru á reiki getur listin oft komið auga á sannleika sem annars hefði verið falinn. Hún hefur leyfi til þess að vera óforskömmuð eða órökrétt, nokkuð sem stundum er nauðsynlegt. Sérstaklega þar sem svo margt í lífinu er órökrétt, sérstaklega það sem mannskepnan aðhefst. Þar að auki veltir listin upp öllum mögulegum heimum, sem og mögulegum útgáfum á okkar heim. Á meðan vinir Kafka skrifuðu pólitísk verk þá skrifaði hann verk sem virtust við fyrstu sýn hafa lítið með heiminn að gera – en var svo einhver besta lýsing á alræði kommúnismans eftir stríð. Þá er sjaldgæft að gagnrýni á aukið eftirlit með borgurunum sé gagnrýnt án þess að vitna í Stóra bróður Orwells. Og þetta eru bara augljósustu dæmin. Óli virðist takmarka sig við það að skilja heiminn eftir einhverjum algildum sannleika fyrst hann hafnar heimspeki á þeim forsendum að hún gefi engin endanleg svör, það er ástæðan fyrir því að ég fullyrði að hér sé um trú að ræða (ekki traust, ekki koma með þann útúrsnúning í enn eitt skiptið) – það eina sem virðist skipta máli eru fræði sem skila endanlegum niðurstöðum og allt annað er fúsk eða í besta falli dægradvöl sem skiptir ekki máli í þessu samhengi.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/12/04 02:14 #

Ég er ekki alveg að skila hverju þú ert að reyna að vera ósammála hérna Ásgeir, þú ert fyrst og fremst að tala um hlutina á allt öðrum forsendum en ég.

Hvenær hef ég hafnað heimspekinni? Ég hélt nú að þú vissir að ég er einmitt mikill áhugamaður um heimspeki og stefndi lengi vel á að stúdera hana í Háskólanum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/12/04 03:33 #

Kannski er þörf á smá samantekt hérna.

  • Ég hafna ekki heimspeki og það er alveg rétt að hún er að vissu leyti óaðskiljanleg frá vísindum.

  • Ég hef aldrei sagt að listir séu einskis virði til að skilja heiminn.

  • Vísindaleg aðferð er ekki bundin við raunvísindi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/12/04 03:54 #

Biggi: þekkingu á eðli veraldar? Hefur Íraksstríðið eitthvað með það að gera? Og tekur maður afstöðu þar byggða á siðferði eða vísindalegri aðferð?

Siðferði. Af hverju spyrðu? Er hér aftur kominn þessi strámaður sem ég varaði við þegar ég sagði:

Ekki reyna að gera okkur það upp að við séum í því að meta t.d. fegurð kvenna út frá mælistikum vísindalegrar aðferðar.

Ekki reyna að gera mér það upp að ég meti viðbjóð Íraksinnrásar út frá mælistikum vísindalegrar aðferðar. Ef þú fattar ekki af hverju skal ég útskýra það betur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.