Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Oft fá vond mál vænar stoðir

Úti í hinum stóra heimi óttast margir foreldrar mjög um börnin sín, vegna ýmissa hremminga er þau kann að henda. Í mörgum borgum Bandaríkjanna má t.a.m. víða sjá skilti með þessum skilaboðum til foreldra: "Komið er kvöld - veistu hvar börnin þín eru?". Þetta er náttúrulega til þess ætlað að foreldrar axli ábyrgð og gæti barna sinna. Ég ætla mér að koma á framfæri endurskoðaðri útgáfu þessarar þarflegu áminningar, sem á einkar vel við um þessar mundir: "Komið er árið 2004 - veistu hvað börnin þín læra í skólanum?". Þessari spurningu geta fæstir Íslenskir foreldrar svarað játandi, en taka hins vegar undir um mikilvægi menntunar og þess hve beri að hlú að æskunni, sem landið skal erfa.

Þjóðkirkjan, með biskup í broddi fylkingar er aftur á móti ekki í vafa um hvert skuli stefna. Kirkja allra landsmanna, sem flestir vilja reyndar að sé það ekki, ætlar sér stóra hluti í menntamálum þjóðarinnar næstu misserin. Fyrir kirkjuþingi liggur nú hernaðaráætlun varðandi framkvæmdina. Þar segir m.a. annars: "Að auki þarf Þjóðkirkjan sem elsta uppeldisstofun landsins að eiga samræður við stjórnvöld og skóla um grunngildi skólastarfs og mótun menntastefnu til framtíðar. Það verk hlýtur Þjóðkirkjan að láta sig varða.". Er engum brugðið við svona yfirlýsingar? Reiðist enginn svo grófri aðför að mannréttindum á Íslandi?

Nú þegar eru tengsl skóla og ríkiskirkju óheilbrigð. Kirkjan boðar trú á Jesú í einu lagi eða þrennu. Annað ekki. Það er því ekkert sem kirkjan getur lagt skynsamlegt til málanna í skólum landsins. Til að skýla sér við gagnrýni hefur kirkjan sveipað sig skikkju heimspeki og vísinda með flærðarlegum hætti. Hvenær varð t.d. almennt siðgæði, virðing fyrir náunganum og samkennd manna í millum prívat uppfinning kristninnar? Það er álíka gáfulegt að halda að Jesú hafi fundið upp kærleikann, eins og að segja að Darwin hafi fundið upp DNA, eða Newton þyngdarlögmálið. Hvernig getur prestur í Neskirkju haldið því fram kinnroðalaust að kristnin sé drottning vísindanna?!? Eina "vísindaritið" sem kirkjan leggur til grundvallar er biblían, sem er nú ekki beint til rökræðu fallin. Það er blátt áfram hneyksli að Háskóli Íslands skuli svo taka þátt í þessum skrípaleik með því að þjálfa starfsmenn kirkjunnar. Guðfræði ætti í besta falli að vera kennd sem undirgrein í félagsfræði og er vonandi að nýr rektor sjái sóma sinn í að úthýsa þessum sértrúarsöfnuði.

Það verður ekki lengur unað við yfirgang og frekju stofnunar sem lifir og hrærist í heimi tvöþúsund ára gamals ævintýris. Kirkjan hefur fengið þúsund ár hér í landi til að grafa um sig líkt og illkynja krabbamein í þjóðarlíkamanum og enn mun harðna sóttin. Kirkjan sogar milljarða króna árlega út úr sameiginlegum sjóðum landsmanna til að bjóða upp á sama leikritið í hundruðum leikhúsa ár eftir ár, öld eftir öld. Boðskapurinn hefur ekkert breyst og umgjörðin er jafn dapurleg og endranær. Ég krefst þess að kirkjan haldi sig fjarri menntastofnunum landsins og láti af trúboði sínu í skólunum. Það geta allir lesið sér til um þessi firn á vefsíðu kirkjunnar og eru hér með hvattir til að gera það nú þegar. Jafnframt varpa ég fram þeirri spurningu til lögspekinga þessa lands hvort kristniboð í ríkisreknum skólum stangist ekki á við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og einnig hvort Mannréttindadómstóllinn hafi ekki eitthvað við þessa árás á lýðréttindi að athuga.

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu þann 25. október 2004

Guðmundur Guðmundsson 25.11.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Snæbjörn - 28/11/04 19:38 #

Rosaleg grein.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.