Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Komið til móts við trúarbrögðin?

Í Fréttablaðinu 18. nóvember , bls. 6, er sagt frá því, að í Þýskalandi hefði einn þingmaður Græningja, Hans-Christian Ströble verið að stinga upp á að Þjóðverjar lögfestu íslamskan helgidag sem þjóðarfrídag, til viðbótar við þá kristnu helgidaga sem þegar væru lögfestir.

Uppástungan vakti, skiljanlega, mikil viðbrögð. Fyrst ber að geta mikillar andúðar við hana í öllum flokkum, og er haft eftir Angelu Merkel, leiðtoga Kristilegra demókrata: „Með fullri virðingu og umburðarlyndi, Þýskaland er land með vestrænar og kristnar rætur.“ Aðrir, svo sem Jürgen Trittin umhverfisráðherra, lýstu sig „opna fyrir umræðu um hugmyndina.“ Í Bild, sem ku vera söluhæsta dagblað Þýskalands, var sagt að Trittin hefði tapað glórunni.

Það er kannski rétt hjá þeim á Bild. Hvers vegna í ósköpunum ættu Þjóðverjar að taka upp íslamskan helgidag sem lögfestan þjóðarfrídag? Til að koma til móts við milljónir múslima í landinu? Til að vega upp á móti kristnum helgidögum? Til að gæta sanngirni?

Hvað með aðra trúflokka? Hvað með hindúa? Búddista? Gyðinga? Það hlýtur að gefa auga leið að ekki er hægt að gera öllum til hæfis. Borgaralegir þýskir stjórnmálamenn hafa ekki framsækna lausn í handraðanum. Þeim eru settar skorður hins borgaralega þjóðfélags. Þær fela m.a. í sér pólítískt kórréttan tepruskap og að ýmis vandamál séu ekki leyst í alvörunni heldur skotið á frest eða dregið úr þeim með málamiðlunum.

Vandamálið er: Kristnir menn eiga sína hátíðisdaga og þeir eru, frá fornu fari, lögbundnir þjóðarfrídagar. Múslimar eiga ekki lögbundna þjóðarfrídaga á sínum helgidögum. En hafa þeir eitthvað tilkall til forréttinda trúarbragða sinna vegna? Eða, réttara sagt, hefur einhver tilkall til forréttinda, trúarbragða sinna vegna?

Lausnin er auðvitað sú að hætta að hafa hina kristnu helgidaga lögbundna þjóðarfrídaga!

Sú lausn mundi hins vegar mæta mótspyrnu, samanber mótbárur Angelu Merkel: „Þýskaland er land með vestrænar og kristnar rætur.“ Þýskaland er fyrst og fremst land með vestrænar og borgaralegar, kapítalískar rætur. Hin ríkjandi stétt mótar þjóðfélagið í sinni mynd.

Þarna virðist vera á ferðinni hreint lýðskrum hjá hr. Ströble. Það verður ekki betur séð en hann sé með þessari uppástungu að sýna hvað hann sé pólítískt kórréttur, sennilega í von um fleiri atkvæði í næstu kosningum. Um leið og mótbárumennirnir hafa rétt fyrir sér, út af fyrir sig, þá eru átyllurnar sem flestir þeirra bera fyrir sig bæði kjánalegar og vandræðalegar. Sérstakir íslamskir helgidagar eiga ekki að vera lögfestir af ríkinu, og ekki kristnir helgidagar heldur. Ríkið á að vera afhelgað (sekúlar) og skipta sér ekki af trúarbrögðum fólks. Þannig fá öll trúarbrögð jafna stöðu fyrir lögum, hvergi er hallað á mannréttindi og óviðeigandi ríkisafskiptum fækkað um eitt.

Lausnin er, með öðrum orðum, ekki fólgin í meiri trú heldur minni trú.

Vésteinn Valgarðsson 19.11.2004
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/11/04 01:20 #

Ég var að gaufast með einhverjar hugmyndir um breytingar á helgidagalöggjöfinni einhverntíma í fyrra. Held að það sem ég sting upp á þarna væri strax framför.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 19/11/04 11:37 #

Hmmm... hreint ekki svo galnar hugmyndir.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 19/11/04 12:02 #

Mér finnst bara að menn ættu að fá auka frídaga sem myndu jafngilda þessum trúarfrídögum og síðan getur hver og einn tekið sér frí þegar hann vill. Þ.e. þeir sem vilja halda páskana hátíðlega taka sér frí en aðrir sem nenna þessu kjaftæði ekki myndu njóta þess að vera í vinnunni á meðan.

Þess má geta að ég hef samið við vinnuveitandann minn um að fá extra frí í staðinn fyrir þessa páska frídaga. Ég mun vinna þá með bros á vör þar sem ég sé fyrir mér að vera gera eitthvað skemmtilegt næsta sumar með þá.


Davíð - 19/11/04 17:13 #

Hvernig væri að hafa svona lögbundna fjölskyldu/trúarfrídaga. Kannski svona 12 daga á ári mönnum er í sjálfvald hvenær þeir taka þá. Þó svo kannski mætti bara taka að hámarki 2 í mánuði. Þá gætu allir tekið þessa frídaga þegar þeir vilja. Meðan tímanum yrði þá þróunin að maður gæti haldið heilög jól, laus við mammonísku kaupmannastefnuna. Þetta væri að mínu mati sanngjörn leið. Vottar Jehóva til dæmis meiga ekki halda upp á þjóðhátíðardag né kirkjudaga. Ættu þá sína fjölskyldudaga þegar slíkt hentar.


Davíð - 19/11/04 20:49 #

Jón Magnús í fljótfærni, þá sá ég ekki þitt "comment" var nánast það sama.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 19/11/04 21:18 #

Nýtt kerfi þyrfti að sjálfssögðu að taka tillit til þess að mikill meirihluti þjóðarinnar hefur engan áhuga á að vinna 24. og 25. desember. Sama á við um áramótin. Ég held að það séu annars engir aðrir frídagar sem eru "heilagir" í augum fólks.

Mér finnst líka að allir ættu að fá frí í vinnunni á afmælinu sínu.


Davíð - 20/11/04 08:18 #

24 og 25 eru ekki heilagir í augum allra. Hafa enga þýðingu fyrir Votta Jehóva, þá sem tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni o.s.f. Til þess að gæta fyllsta sanngirnis yrðu allir dagar að fara eða engir.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 20/11/04 10:13 #

Ég sagði ekki að þeir væru heilagir í huga allra, þeir hafa hins vegar þá stöðu að það væri ekki hægt að líta á þá sem hvern annan vinnudag. Þetta er bara spurning um pragmatisma. Ef það væri bara gert ráð fyrir að fólk geti bara tekið tvo frídaga í mánuði þá myndi kerfið falla í desember því það er svo stór hópur sem vill fá þessa þrjá daga.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/11/04 13:02 #

Ég held að það sé ekki vænlegt að vera að festa frídagana niður á mánuði, heldur leyfa hverjum og einum að raða frídögunum sínum niður á hvaða daga ársins sem er. Inn í þetta mætti taka sumarfríin líka og menn gætu þess vegna tekið alla frídaga sína í einu, fengið langt sumarfrí.

En 24. (frá hádegi) og 25. des verða eiginlega að vera lögbundnir, því það eru svo fáir sem ekki halda jól að það gengi varla að halda vinnustöðum opnum fyrir þá þessa daga. Auk þess myndi varla nokkur notfæra sér þjónustuna sem í gangi væri.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 20/11/04 16:52 #

Það má nú samt hugsa sér að fyrirtækin séu fullfær um að meta það sjálf hvort þau hafa opið eða ekki, er það ekki? Ef það vinna 100 manns hjá Landsbankanum og þar af er einn sem heldur ekki upp á jólin og hefur ekki áhuga á fríi á aðfangadag, þá er náttúrulega ekki verið að halda bankanum opnum til þess eins að hann geti verið í vinnunni. Þetta væru bara ákvarðanir sem fyrirtækin yrðu að taka sjálf, væntanlega í samráði við starfsmenn sína og þannig.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 20/11/04 17:21 #

Ég held að það þyrfti allavega að hafa aðlögunartímabil, með jólin og áramótin.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 21/11/04 13:20 #

Mér finnst þetta aðallega koma niður á frelsi einstaklingsins til að velja en ekki vera skipað til að taka frí á einhverjum dögum sem hann kærir sig ekkert um.

En Róm var víst ekki byggð á einum degi svo við tökum hvert lítið skref í rétta átt sem góðu skrefi. Vonandi verð ég ekki dauður áður en dagar eins og Uppstigningardagur, Föstudagurinn langi, annar á Páskum o.s.frv. verða ekki lögbundnir frídagar.

Við skulum heldur ekki gleyma því að margt hefur breyst. Ég man nú eftir því þegar ALLT var lokað á helstu trúarfrídögunum. Núna er þó hægt að fara í velvandar búðir ef maður gleymid t.d. að kaupa eitthvað í matinn. Ég veit t.d. af því að Bónus Videó er ekki með lokað nema 2 daga á ári, Jóladag og Páskadag þannig að þetta er allt að koma. Verst að ég verð kannski kominn á eftirlaun þegar þetta verður komið almennilega :S (~40 ár)


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 22/11/04 00:24 #

Hmm ... maður hlýtur að leiða hugann að því hvort margir leigi sér vídeóspólur á gamlárskvöld?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.