Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trú er einkamál

Við fæðumst öll trúlaus. Það er ekki fyrr en með kvöldbænunum, sunnudagaskólanum, kristinfræðikennslunni og fermingarfræðslunni sem við fáum að vita að við eigum að trúa á eitthvað sem enginn getur útskýrt. Þannig er því „að trúa“ troðið af algjöru miskunnarleysi inn í vitund ómálga barna og þau svo keypt til þess að játa trú sína með veisluhöldum og gjöfum.

Börn geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Þau hafa ekki vitrænan þroska til þess að velja og er þeim eðlilegt að trúa því sem fullorðnir segja. Fullorðnir, aftur á móti, hafa fulla ábyrgð á lífi sínu þannig að þegar fullorðinn segist vera trúaður er það hans val. Að velja að trúa á yfirnáttúrulega hluti er persónulegt val hvers manns. Slík lífsskoðun á að vera einkamál og þar erum við komin að kjarna málsins því margir trúaðir hafa það fyrir markmið sitt í lífinu að flagga trú sinni og bókstaflega „klína“ trúarumfjöllun á alla mögulega hluti – s.s. eins og siðræna hegðun mannsins. Eins og hún komi trúarbrögðum við.

Þannig hefur þeim sem hafa valið að trúa tekist að búa til stofnun í þjóðfélaginu sem mergsýgur það og treður sér inn í alla þætti þess. Það má ekki reisa opinbera byggingu án þess að prestur sé fenginn til þess að “blessa” hana; Í ríkisútvarpinu er beðnar bænir kvölds og morgna fyrir utan heilu messurnar; Allt skólastarf barna upp í framhaldsskóla er gegnsýrt trúboði; Fjölskylduhátíðir eins og nafngift barns og gifting eru orðnar verkefni þessara trúarlegu stofnana þannig að þótt fólk sé ekki trúað hefur hin trúarlega stofnun kirkjan engu að síður þau tök að fólk velur að láta hana sjá um athöfnina. Ekki má gleyma útförunum. Þar hefur kirkjan nánast einokunarvald og margir halda að það verði að vera prestur sem sér um minningarathöfn og hún verði að fara fram í kirkju – annað sé ólöglegt.

Það er knýjandi að gerður verði aðskilnaður ríkis og kirkju því trú er einkamál.

Jórunn Sörensen 01.11.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Lárus Páll Birgisson - 01/11/04 03:05 #

Eru einhverjar rannsóknir sem sýna fram á það að börn fæðist trúlaus?

Eru einhverjar rannsóknir sem sýna fram á það að börn sem eru "ómenguð" af trúarbrögðum rækti ekki með sér einhverskonar "trúarhugmyndir" þegar fram líða stundir?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 03:16 #

Komm on Lárus Páll, ekki fæðast þau kristin? Kristnin er ekki nema 2000 ára gömul, á hvað trúðu nýfædd börn fyrir tíma Jesú?

Börn fæðast trúlaus af þeirri einföldu ástæðu að þau hafa engar hugmyndir um veröldina þegar þau fæðast. Rannsóknir sýna m.a.s. að ekki er hægt að fara að tala um að barn hafi sjálfsvitund fyrr en á öðru æviári.

Það er ekki verið að segja að börn fæðist skeptíkertar, heldur einungis að þau hafa enga hugmynd um guði fyrstu æviárin. Það er ekki fyrr en þeim er innrætt slíkt að sú hugmynd byrjar að lifa með þeim. Það sýnir best sú nauðsyn sem þið þjóðkirkjumenn teljið að sé á að mæta til þeirra strax á leikskólaaldri og troða í þau þessum ömurlegu lygum ykkar. Ef börn fæddust trúuð þyrftuð þið þess alls ekki.

Til að trúa á guð(i) þarf að þekkja til hans/þeirra. Og sú þekking kemur með boðuninni og fræðslunni. Ef þú ætlar að halda því fram að guðshugmyndin sé á einhvern hátt meðfædd þarftu að færa fyrir því sterk rök.


Lárus Páll Birgisson - 01/11/04 03:53 #

Í upphafi pistilsins þá leggur þú mér orð í munn Birgir, ég hef hvergi talað um kristni.

Þetta er bara rökvilla hjá þér sjá: nizkor.org

Annars eru þessir pistlar hlaðnir hugmyndum sem ekki eru studdar á neinn vísindalegan hátt.

Og ekki hafið þið svarað spurningum mínum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 04:00 #

Það sem ég átti við er það að jafnvel þótt börn myndu fæðast með hugmyndir um guðdóm í hausnum, hefði það ekkert með réttmæti trúarbragða þinna að gera. Þú ert því ekkert betur settur með að halda því fram að svo sé.


Lárus Páll Birgisson - 01/11/04 04:07 #

Þannig að þú útilokar ekki þann möguleika að börn geti fæðst með hugmyndir um einhverskonar guðdóm?

Seinni hluti svars þíns er rökvilla þar sem ég hef hvergi á þessum þræði haldið á lofti "réttmæti trúarbragða minna" fram yfir önnur trúarbrögð.


darri (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 09:26 #

Þannig að þú útilokar ekki þann möguleika að börn geti fæðst með hugmyndir um einhverskonar guðdóm?

Fyrirgefður lalli, en láttu ekki eins og fífl, þá verður bara hætt að hlusta á þig.

Ef sýnt væri fram á að börn fæddust með einhverjar "hugmyndir um guðdóm" (hvað er nú það og hvernig dettur þér það í hug?) þá hvað? Myndi það sanna fyrir þér tilvist guða? Hvert ertu að fara með þessu?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 09:31 #

Hvað bendir til þess að börn fæðist trúuð? Ekkert og þarf leiðir eru þau trúlaus. Börn sem ekki eru alin upp í trú verða ekki trúuð. Krefst trú ekki sjálfsvitundar?

Og þú þarft að fara að skoða þessar rökvillur betur ef þú ætlar að nota þær, Biggi lagði bara fyrst fram spurningu fyrir þig, hann var ekki að leggja þér orð í munn. Skilurðu muninn á því? Hefði hann spurt "Þú segir sem sé að börn fæðist kristin?" þá hefði hann verið að leggja þér orð í munn.

Í seinni póstinum er hann bara að útlista hvað hann átti við með fyrri póstinum af því þú misskyldir það og að þá mistúlkaðirðu seinni póstinn líka. Þú lætur einsog hann hafi sagt að þú teljir trúarbrögð þín réttari en önnur þegar hann gerði það ekki.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 09:44 #

Það væri yfirhöfuð merkilegt ef börn fæddust með einhverjar hugmyndir.


Daníel - 01/11/04 12:49 #

Fyrst hér er verið að biðja um vísindalegar rannsóknir er hægt að benda á tvennt:

1) Á miðöldum var því trúað að fólk fæddist með innbyggt tungumál guðs í hausnum. Þetta var byggt á sögunni af Babelsturninum. Það væri hins vegar "mengun" frá umhverfinu sem olli því að börn færu að tala tungumálið í umhverfinu. Þetta var kannað á þann hátt að skoskur kóngur (man því miður ekki nafnið). Lokaði tvö börn inni í turni rétt eftir fæðingu og bjóst við að þau færu að tala hið guðlega tungumál þegar þau kæmust á þann aldur. Það var hugsað um börnin en enginn mátti tala í nálægð þeirra. Börnin urðu að sjálfsögðu hálf geðveik og ekkert örlaði á tungumáli guðs.

2) Mörg dæmi eru til um börn sem hafa verið yfirgefin og alin upp af dýrum (helst þá úlfum). Þegar þessi börn hafa fundist komin á unglingsár hafa þau hagað sér og upplifað sig sem dýr. Þau hafa átt erfitt með að verða "mennsk" og flest dáið ung að árum. Aldrei hefur örlað á trú hjá þeim.

Þessi tvö dæmi ættu að sýna vísindalega að við fæðumst án trúar.


darri (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 13:10 #

Takk.


urta (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 14:04 #

Það er eiginlega með ólíkindum að það skuli fyrirfinnast einstaklingur - fullorðinn einstaklingur - á Íslandi árið 2004 sem varpar þeirri spurningu fram hvort til séu rannsóknir sem sýni fram á að börn fæðist trúlaus. Maðurinn hlýtur að vera að grínast!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 14:30 #

Aðeins áfram með tungumálið. Í bók sinni The Language Instinct færir Steven Pinker sannfærandi rök fyrir því að heili okkar er víraður fyrir tungumál, að í gegnum þróunarsöguna hafi þessi eðlisávísun orðið til. Þetta eðli okkar tekur síðan mið af því hljóðkerfi og setningarskipan sem ríkir í umhverfi okkar með svo afgerandi hætti að þegar næmiskeiði okkar er lokið eigum við í stökustu vandræðum með að ná hljóðkerfi annarra tungumála. Þannig heyra t.d. Íslendingar illa öll s-hljóðin í t.d. þýsku og pólsku um leið og útlendingar sem hingað flytja þurfa að láta benda sér á aðblásturinn sem heyrist þegar samhljóðarinir pp, tt og kk eru bornir fram. Og allir hafa heyrt um hljóðarugl austurasíubúa þegar kemur að málhljóðunum r og l.

Það má svosem vel ímynda sér að mannkynið búi að einhverju trúarinnstínkti líka, en ég veit ekki til þess að nokkur rök hafi verið færð fyrir því. Í mínu huga er þetta ekki hvötin til að trúa heldur þörfin fyrir að vita.

Með þessum rannsóknum sínum á málvél mannshugans hefur Pinker komist gríðarlega nálægt því að útskýra mannshugann. Með því að rannsaka hvernig við lærum óreglulegar sagnir hefur honum tekist að draga upp mjög sannfærandi módel af vélvirkni hugans. Við erum bókstaflega „digital“, eins og kemur fram í bókinni Words and rules. Mæli líka með How the Mind Works eftir hann, um leið og ég vísa á bug þeirri lífseigu trúmannamýtu að vísindin viti enn sem komið lítið um hvernig (ekki hvort) hugur okkar er alfarið afrakstur heilastarfsins.

En það er efni í aðra umræðu.


Hreinn Hjartahlýr - 01/11/04 14:41 #

Já, nú erum við komnir "off topic" en það er ekki endilega rétt hjá Pinker að tungumál sé eins og eðlisávísun, sjá bókadóm eftir Michael Tomasello "Language is not an instinct" í tímaritinu Cognitive Development 10, bls. 131-156 (1995). (Þú finnur þetta blað gegnum hvar.is) Og það er ekki trúmannamýta að vísindin viti enn sem komið lítið um hvernig (ekki hvort) hugur okkar er alfarið afrakstur heilastarfsins.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 15:07 #

Víst er það trúmannamýta. Það er nú þegar á hreinu að hugarstarfið er alfarið afrakstur heilastarfs. Ótal rök styðja það. Og rannsóknir þær sem Pinker fjallar um í bókum sínum hafa skilað okkur töluverðri innsýn í það á hvaða átt þetta gerist.

Nei, það er ekki endilega rétt hjá Pinker að um sé að ræða eðlisávísun á sama hátt og t.d. kynhvöt, en borðleggjandi er að við fæðumst með ákveðna næmni fyrir tungumáli, næmni sem síðan skolast smám saman af okkur. Og ef niðurstaðan sem Pinker teflir fram, að ekki þurfi nema 460 „taugræna“ rofa til að við getum lært öll blæbrigði þátíðarmynda sagna sem hafa sterka beygingu, þá er út í hött að halda því fram að eðli hugarstarfsins sé enn einhver mystería.

Þetta er komið af sviði ráðgátna yfir á svið þess sem kalla má viðfangsþrautir - leysanleg vandamál. Pinker er kannski ekki búinn að ljúka upp hausamótunum á okkur, en aðferðir hans eru svo sannarlega að skila einhverju.

Við skulum fara með þetta á spjallborðið, ef þú vilt taka þetta lengra, Hreinn.


Lárus Páll Birgisson - 01/11/04 15:43 #

Nei Urta mín, þetta er ekkert grín. Síðast þegar ég gáði þá er bara skynsamlegt að spyrja spurninga sem maður veit ekki svarið við.


urta (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 15:47 #

Lestu Skinner svona til að byrja með...


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 16:16 #

Skinner?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 16:17 #

Ahh, Skinner. Góð hugmynd. Trúarástundun er auðvitað lítið annað en afrakstur virkrar skilyrðingar.


urta (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 16:22 #

Jess...


Davíð - 01/11/04 17:12 #

Ef trú er einkamál er trúleysi það líka, eru við þá ekki komin með tabú sem ekki má ræða? Ætti að loka þessum vef, gospel.is sidmennt.is, kirkjan.is, krossinn.is o.s.f Ég tel reyndar að allir menn fæðist með þörfina að trúa, sumir bæla hana aðrir ekki. Það sem ég nota til að rökstyðja þá hugmynd mína er það að við höfum margbrotin og ólík trúarbrögð og svo virðist trúleysi oftast þróast út í ofur trú á manninn og það mannlega.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 17:23 #

Það sem ég nota til að rökstyðja þá hugmynd mína er það að við höfum margbrotin og ólík trúarbrögð og svo virðist trúleysi oftast þróast út í ofur trú á manninn og það mannlega.

Þetta er klisja sem er að mínu viti algerlega ósönn. Ég skrifaði einmitt grein um þetta um daginn, kallaðist Maðurinn í miðjunni? Þar varpaði ég meðal annars þeirri staðhæfingu að trúarbrögðin væru mun frekar að setja manninn í miðjuna heldur en trúleysið. Ef þú vilt ræða þetta frekar þá væri gaman að gera það í athugasemdum þeirrar greinar.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 17:30 #

Ég tel reyndar að allir menn fæðist með þörfina að trúa, sumir bæla hana aðrir ekki.

Þetta er ein mýtan sem er troðið inn á fólk af kirkjunnar mönnum og öðrum kollegum þeirra. Hver kannast ekki við að heyra frasann: "það hafa allir einhverja trú, það þurfa allir að trúa á eitthvað".

Þetta er bara rakalaust þvaður í mínum eyrum.

Ef trú er einkamál er trúleysi það líka, eru við þá ekki komin með tabú sem ekki má ræða?
Að sjálfsögðu má ræða um hluti sem teljast vera einkamál. Það á bara ekki að vera troða þeim inn á annað fólk sem vill ekkert með þá hafa. Engir hlutir ættu að vera tabú.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 01/11/04 23:08 #

Davíð: Það er verið að tala um einkamál í merkingunni: "ekki mál hins opinbera/ríkisins". En ekki í merkingunni "kemur engum við nema þér"

Amk, held ég það.


urta (meðlimur í Vantrú) - 02/11/04 13:27 #

Nei - það á ekki að banna svona vef eins og vantru.net - ekki heldur neina aðra slíka vefi. Ekki heldur kirkjur, moskur, hof o.s.frv. Það sem málið snýst um er að það á ekki að blanda saman stjórn ríkisins og einum af trúarhópunum. Hver trúarhópur á að vera sjálfstæður og sjálfbjarga. Þannig á t.d. ekki að kenna ákveðna trúarkenningu í skólum. Hver trúarhópur hefur sinn skóla og sinnir þeim sem honum tilheyra.

En vegna þess hve kirkjan er yfirþyrmandi og treður sér inn í hvern krók og kima samfélagsins - eru svona vefir eins og vantru.net til. Þeir eru að benda á þetta misrétti, þennan átroðning. Óþarfa og óheppilegan átroðning sem kostar okkur skattborgarana gífurlega mikla peninga.


Davíð - 02/11/04 17:07 #

Ég ætla nú að reyna að koma með svör og athugasemdir við það sem á undan hefur farið. Þó svo að skoðun mín á að maðurinn fæðist með trúhneigð sé hin "almenna" kristna þá hefur henni ekki verið troðið upp á mig, frekar en skoðun þinni Lárus sem er almenn meðal trúleysingja. Þau svo að sú mynd sjáist ekki alltaf glögglega í kirkjustarfi gerir kristin trú ráð fyrir gagnrýninni hugusun. Biblían hvetur til persónulegrar trúar, menn eiga að taka því með fyrirvara sem leiðtogar tala og reyna orð þeirra með eigin þekkingu. Óli Gneisti: Kristin trú gengur út á viðurkenningu þess að hið mannlega er fallvalt, þess vegna þurfum við frelsara. Inntakið er ekki að elska sjálfann sig fyrst og fremst heldur Drottinn sinn og náungann. Réttilega bendir þú á að maðurinn er talin algjörlega æðri öðrum dýrum jarðarinnar hvað andlega hugsun og nánd varðar. Það breytir þó ekki því að hinu mannlega fylgja hömlur. Við erum ekki æðst. Fyrst við erum farin að nefna hrokann hér á vefnum, þá langar mér að nefna þann hroka sem ég verð oft var við hjá trúlausum. Þeir telja sig oft á tíðum æði skarpari en trúað fólk. Finna sig knúna til að tala niður til þess o.s.f.
Þess vegna langar mig að lokum að spyrja teljið þið í alvörunni að trúleysi sé merki um yfirburðargreind sem trúað fólk hefur ekki til að bera?


Davíð - 02/11/04 17:15 #

Mig langar líka að fagna því að ég miskildi það hvort mætti ræða trúmál eða ekki. Ég var farin að óttast aðgerðir sem myndu skerða mál/trúfrelsi okkar. En að lokum önnur forvitnisspurning. Hver er munurinn á yfirgang trúlausra yfir trú, en yfirgang trúaðra yfir trúlausa. Við sjáum þætti í sjónvarpi og heyrum skoðunina Guð er til, en skoðunin Guð er til má ekki heyrast. Þó telst 95% þjóðarinnar til kristinna safnaða og manni fyndist undarlegt ef ekkert sjónvarps eða útvarpsefni væri til þess markshóps. Vona að þið skiljið spurninguna.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 02/11/04 18:46 #

En það er ekki nema brot af þjóðinni kristin, vel innan við helmingur ef ég man rétt.


darri (meðlimur í Vantrú) - 02/11/04 18:46 #

Svarið við þessari spurningu færðu með því að lesa það efni, sem nú þegar er til á þessum vef.

Aðrir geta kannski komið með vísanir á greinar við hæfi...


Davíð - 02/11/04 20:41 #

Þó svo að einungis 10% þjóðarinnar væru krisnir sem eru þeir sem standa í kristnum söfnuðum utan þjóðkirkju. Þá væru þau ca.27.000 það stór markhópur að það væri einkennilegt ef þeirra trúar eða menningarmál rötuðu ekki á öldur ljósvakans. Þá værum við með þjóðfélag þar sem sýnileg menning væri ekki í takt við þá innri vegna fórdóma.


Davíð - 02/11/04 20:43 #

Rétt innan við helmingur er samt langtum stærsti þátturinn í trúar eða trúleysikökunni.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 02/11/04 20:59 #

Ég sagði "vel innan við helmingur". Stærsti hópurinn er trúaður en fellur ekki að neinum trúarbrögðum.

Ef þú ætlar að kvarta eitthvað undan hroka trúleysingja þá bendi ég á að það er mun meiri hroki í að telja sig hafa sérstaka þekkingu á heiminum einsog á við um trúaða. Kíktu síðan á greinina Þið eruð ekki fífl.


Carlos - 05/11/04 13:07 #

Sæl verið þið, athyglisverður þráður, stenst ekki mátið að blanda mér í umræðuna:

Við fæðumst öll trúlaus. Það er ekki fyrr en með kvöldbænunum, sunnudagaskólanum, kristinfræðikennslunni og fermingarfræðslunni sem við fáum að vita að við eigum að trúa á eitthvað sem enginn getur útskýrt.

Ég held, Urta, að trúin kviknar á fósturstígi og nærist á tengingu móður og barns fyrst, og síðan bætist við fólkið sem hefur áhrif á það hvernig sú trú þróast. Hún er m.ö.o. ekki kognítíf stærð trúin heldur tengsl og tilfinning sem getur verið hvort heldur sem er lífsfagnandi eða svartsýn á lífið, eftir því hvernig atlæti einstaklingurinn fær. Kognítíva formið, sem trúin fær við félagsmótun og með kennslu kemur síðar og á stundum til að keppa við þennan organíska trúargrunn.

Dæmi um slíkt væri t.d. erfiðleikar þess "að frelsast", sem kostar oft ágreining við umhverfið. Einstaklingurinn þarf oft að tileinka sér trúarlærdóma sem eru honum eða henni ekki "eðlislægir" eða í samræmi við (trúar)gildi umhverfisins.

Trúarástundun er auðvitað lítið annað en afrakstur virkrar skilyrðingar.

Sammála, Birgir, en ekki eingöngu. Ef ekki væri fyrir þennan móttækileika sem myndast með tengslum einstaklings við fjölskyldu sína væri varla hægt að skilyrða einstaklinginn til trúar ... nema að til komi einskonar heilaþvottur.

Heilaþvottur þarfnast hinsvegar utanaðkomandi, virkra áreita til að viðhaldast og stjórnaðs umhverfis, ekki satt? Spurning hvort félagsmótun samfélags sem byggir á menntun og lýðræðislegum gildum sé nógu öflugt til að veita þetta aðhald.

Svo er náttúrlega spurningin hvort einstaklingar geti almennt viðhaldið "trúarprógramminu" í sér, heilaþvegið sjálfa sig. En lendum við þá ekki í vandræðum með Myers-Briggs, sumt fólk er nógu introvert til að geta það, en hvað með alla extravertana? Spyr sá sem ekki veit.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/11/04 15:00 #

Ég held, Urta, að trúin kviknar á fósturstígi og nærist á tengingu móður og barns fyrst...

Af hverju heldurðu það? Hefurðu einhver rök fyrir þessu?


Carlos - 05/11/04 23:52 #

Þroskasálfræðilegar glefsur sem ég las í tengslum við uppeldisfræðikúrs sem ég tók fyrir ári síðan, fyrirlestur hjá Jane I. Clarke, Að alast upp aftur. Ég man ekki hvaða sálfræðing hún vitnaði í og man ekki hvað ég gerði við glósurnar. Eldri rannsóknir sem Hjalmar Sundén vitnaði í (Religionspsychologie) töluðu líka um þetta. Því miður er það líka týnt en ég man þetta í smábútum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/11/04 00:41 #

Ahh, ég held ég spotti vandamálið hér. Þú ert væntanlega að tala um trú í merkingunni traust, eins og er í tísku í trúarlífsfélagsfræði eða hvað þetta póstmóderndót heitir. Kennd trúnaðartrausts til móður vaknar í móðurkviði, vex í nánu samneyti móður og afkvæmis og svo koma prestarnir og víkka þetta út. Er það þetta sem þú meinar?

Má ég þá benda þér á að traust ungabarnsins til móðurinnar er EKKI trú, því hægt er að færa sönnur á að móðirin er til. Barnið þarf ekki að trúa því, það veit það. Þegar svo prestalýðurinn kemur og yfirfærir þetta á ósýnilegar andaverur eru þeir að gengisfella þessa kennd og yfirfæra yfir á eitthvað sem enginn getur vitað hvort sé til og engin skynsamleg rök hníga að að sé til.

Mér þykir það eiginlega jaðra við glæpsamlegt athæfi, þú verður bara að fyrirgefa.

Ég held að þessi trúarlífsfélagsfræði ætti að hætta að kalla traust trú og um leið hætta að kalla trúleysingja trúmenn. Þetta er fullkomin pervertun á orðinu og veldur misskilningi og óþægindum.


Carlos - 06/11/04 19:17 #

Kennd trúnaðartrausts til móður vaknar í móðurkviði, vex í nánu samneyti móður og afkvæmis ... Ég held að þessi trúarlífsfélagsfræði ætti að hætta að kalla traust trú og um leið hætta að kalla trúleysingja trúmenn. Þetta er fullkomin pervertun á orðinu og veldur misskilningi og óþægindum.

Gott og vel, trúnaðartraust eða trúnaðarvantraust þá eftir því hvort einstaklingurinn hefur jákvæðar eða neikvæðar væntingar til umhverfisins. Trú fyrir þau okkar sem að auki trúa á Guð og svo máttu mín vegna fylla í eyðurnar.

Merkilegt hvað þú getur ekki setið á þér og rökrætt kurteisislega, allt í einu er maður lýður og nei, mér finnst ég ekki þurfa að fyrirgefa þér, sem ekki biður um fyrirgefningu. Þú ert með ókurteisari mönnum sem ég hef hitt á spjallborðum. Ertu kannski þurs? Læturðu svona við alla eða bara þá sem eru ekki sammála þér í trúmálum, Birgir?


Lalli (meðlimur í Vantrú) - 07/11/04 13:36 #

Merkilegt hvað þú getur ekki setið á þér og rökrætt kurteisislega, allt í einu er maður lýður og nei, mér finnst ég ekki þurfa að fyrirgefa þér, sem ekki biður um fyrirgefningu. Þú ert með ókurteisari mönnum sem ég hef hitt á spjallborðum. Ertu kannski þurs? Læturðu svona við alla eða bara þá sem eru ekki sammála þér í trúmálum, Birgir?

Birgir hefur verið málefnalegur og sjálfum sér samkvæmur í þessum umræðum. Hins vegar virðist svo vera að Carlos sé einn af þeim fjölmörgu sem gera ekki greinarmun á því að gagnrýna skoðun manna eða persónu þeirra. Hann er farinn að taka því persónulega að Birgir gagnrýni hans skoðanir og svarar með uppnefningum.

Þetta er nákvæmlega það sem Vésteinn skrifaði um hér fyrir skömmu. Skortur á debattmenningu háir mörgum.

Það er siður þeirra sem verða uppiskroppa með rök að byrja á því að einblína á persónur andstæðingsins og reyna að draga þær í svaðið (ad hominem). Að lokum hrökklast þeir burt með skottið á milli lappanna. Þetta mynstur er orðið velþekkt hér á þessum vef.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/11/04 15:10 #

Ég skreyti jafnan mál mitt til blæbrigða, finnst það nauðsynlegt til að lífga upp á lesmálið og til að túlka betur kenndir þær sem á bak við liggja. Ef það að kalla prestastéttina lýð er nægileg ókurteisi til að þú yfirgefið samkvæmið í fússi þá hefðirðu ekki enst lengi með „ruddunum“ Halldóri Laxness og Þórbergi Þórðar. Sjáðu t.d. þessar efnisgreinar hér úr ritgerð Þórbergs Á guðsríkisbraut:

Meginerfiðleikarnir í að koma fyrir yður vitinu eru fólgnir í þeirri óráðvendni hugarfarsins, að þér viljið láta blekkjast, þráið að láta ljúga að yður. Þér hafið verið að mynda ykkur hinar og þessar skoðanir. En skoðanir yðar eru venjulega ekki ávöxtur af þolinmóðri leit og ráðvandlegri íhugun. Þær eru ekki reistar á þekkingu, og þær eru fyrir utan og neðan allar staðreyndir. Skoðanir yðar eru að eins afkáraleg hugsanaform, flöktandi stemningar eigingjarnra óska. Þér spyrjið ekki að því, hvernig hlutirnir séu, heldur fullyrðið þér harðsvírað, að svona séu þeir, af því að þér viljið hafa þá svona. Þér eruð með öðrum orðum ekki að leita sannleikans, heldur eruð þér á þindarlausu spani eftir þægilegum trúarbrögðum. Þér eruð alt af að reyna að falsa hina gullnu mynt tilverunnar til þess að tryggja höfðustól eiginhagsmunanna, efnahag, álit, völd, sáluhjálp. Til þess svo að styrkja yður í öllu þessu hugmyndarugli, sem ekki á sér aðra undirstöðu en yðar eigingjörnu óskir, flýið þér undir verndarvængi alls konar kennivalda og falsspámanna, og þér eruð svo andlega lítilsigld (þótt þið kunnið að standa ykkur vel í líkamlegum slagsmálum), að þér takið fegins hendi við hverri þeirri blekkingu og hverjum þeim ósannindum, sem staðfesta óskir yðar og skoðanir. Síðan leggið þér alt kapp á að telja sjáfum yður trú um, að þetta hljóti að vera satt, af því að þér viljið að það sé satt. Þannig verðið þér smám saman ánauðugir þrælar kennivaldanna, týnið þeim göfuga hæfileika að geta gert mun á staðreynd og ímyndun, forherðist og neitið blákalt stálhörðum staðreyndum, og hugsun yðar staðnar og fausknar upp innan himinhárra múra af óhugsuðu orðaglamri, sem þér tyggið upp eins og hálfvitar eftir kennivöldum yðar. Og ef þetta kennivaldið hættir að fullnægja óskum yðar, hlaupið þér yfir til hins næsta, og þannig flýið þér úr einni prísundinni í aðra, þar til dauðinn gerir enda á þrældómi yðar með því að herleiða yður undir áþján nýrra kennivalda. Eftir að þessi kennivöld yðar og drottinvöld hafa náð tangarhaldi á smædd yðar, verða þau að vaka yfir yður eins og óþægum búsmala, skríða fyrir yður, skjalla yður, hræsna fyrir yður og ala yður á látlausum lygum og blekkingum til þess að missa ekki fylgi yðar. Þau lifa í hvíldarlausum ótta við það að þér umgangist hættulega menn, verðið fyrir óhollum áhrifum, smitist af skaðlegum skoðunum, lesið skynsamlegar bækur, svíkið þau síðan og strjúkið undir önnur kenni- og drottin-völd. Og ef þau sjá fram á, að þau missi samt sem áður taumhald á hjarðareðli yðar, hefta þau yður með ströngum lagasetningum, umgirða yður með vopnuðum ríkislögreglum, einangra yður frá hættulegum skoðunum, banna útgáfu hættulegra blaða yðar vegna, brenna fyrir yður hættulegum bókum, tjóðra yður við fáránlegar trúarhugmynir, hóa yður saman á torg og gatnamót til þess að skálma undir fíflalegum fánaveifingum, láta yður belja kjánalega ættjarðarsöngva og steyta yður upp í morð og styrjaldir "fyrir Guð og föðurlandið". Þannig halda þau áfram að útjaska yður eins og ótemjum, þar til þau hafa upprætt með rótum þann veika vísi til sjálfstæðs hugsunar- þroska, sem byrjaður var að blómgast innra með yður. Og þér fallið fram í nekt einfeldninnar og tilbiðjið þessa kúgara yðar eins og frelsara og guði.

Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 07/11/04 15:27 #

Carlos, er þér ómögulegt að ræða málin? Af hverju gerirðu ekki tilraun til að svara gagnrýni og rökstyðja mál þitt í staðinn fyrir það að kvarta bara og kveina?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 07/11/04 16:32 #

Hvað með Lúther, hann var einhver orðljótasti höfundur sem ég hef lesið, hvers vegna mátti Lúther vera með skítkast þegar við megum ekki einu sinni vera harðorðir? Hvers vegna Carlos?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/11/04 17:30 #

Já Carlos, settu nú á þig smá skráp og helltu þér út í skemmtilegar rökræður við okkur!


Jonna - 11/11/04 23:26 #

Sæl öll! Hér er verið að deila um hvort við fæðumst trúuð eða trúlaus.... Biblían sjálf segir að við fæðumst með syndugt eðli, það er eðlislægt manninnum að syndga. ER þá ekki þannig í pott búið að maðurinn sé trúlaus. Síðan kemur að því að hann velur hvort að hann taki trú eða ekki. Að segja það það sé verið að troða skoðunum í börn um guð og æðri máttarvöld séu mistök, þá spyr ég eigum við að þegja? er þá ekki óþarfi að segja börnum sögur...Ég tel að þeir sem telja sig trúleysingjar ættu að koma með svar á móti hvað á að kenna börnum ef ekki má segja neitt við þau.

við vitum öll og líka (trúleysingar) að ef eitthvað bjátar á og við sjáum ekki út úr augum þá ósjálfrátt hrópum við á eitthvað og biðjum´um hjálp..... í 99% tilfella er hrópið GUÐ kv Jonna


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/11/04 23:36 #

Úff, hvílík rökvillusúpa, Jonna. Af hverju dregurðu þá ályktun að fyrst ekki skuli fylla barnshugann af lygum um goðmögn, þá megi ekki segja þeim sögur? Lýgur þú því að börnunum þínum að ævintýrin um Hans og Grétu og Rauðhettu séu sannar sögur? Ekki það? Það ætti þá að svara þessar spurningu.

„Biblían sjálf segir...“ mæ ass! Hvað veldur því að þú tekur orð Biblíunnar gagnrýnislaust upp á arma þína? Þú ert undir áhrifum prestalygi þarna, vegna þess einfaldlega að þú þjáist af hugsanaleti og hefur því aldrei látið þér detta í hug að fullyrðingar þeirra megi gagnrýna.

Hugsaðu fyrir sjálfa þig og spurðu þig um sannleiksgildi fullyrðinga prestanna og Biblíunnar. Losaðu þig undan þessu fáránlega „Biblían sjálf segir...“ og líttu hlutina gagnrýnum augum, svo þú hljómir ekki svona kjánalega.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 12/11/04 01:16 #

Það er líka annar möguleiki. Hann er síðri en flestir velja hann samt af því hann er auðveldari. Hann er sá að hrista bara hausinn yfir okkur guðs-afneiturunum og breiða sængina uppfyrir haus svo áleitnar spurningar okkar nái ekki á áfangastað.


Arnþór Jónsson - 12/11/04 01:57 #

Í sál lífverunnar er gróðursett lífrænt fyrirbrigði sem fær hana til að hrópa á ljós þegar örlagamyrkrið nær hámarki. Þetta “ljós” hefst með angistarveinum hinna æðri dýra þegar þau eru í yfirvofandi lífshættu. Þetta vein er í sjálfu sér hættumerki, hróp á hjálp. En hvert er þessu hrópi beint? Rándýrið, sem hremmir dýr er gjörsamlega ónæmt á angistarveini fórnarlambsins og jafnvel veiðimaðurinn, fiskimaðurinn og slátrarinn eru jafn ónæmir á vein fórnardýra sinna eða hvern þann hátt sem dauðaskelfing þessara dýra kemur fram. Dýrin geta yfirleitt ekki hjálpað dauðadæmdum félögum sínum í neyð. Sjálf flýja þau hættuna að öllum jafnaði. Þrátt fyrir það rekur hvert dýr upp vein í yfirvofandi lífshættu, ef það á annað borð hefur rödd til þess.

Veran er því gædd lífseðli sem tekur til starfa af sjálfu sér þegar hún lendir í lífshættu. Það er þetta lífeðli eða þessi hæfileiki sem smám saman þróast með manninum upp í það sem við nefnum hæfileikann til að “biðja Guð!”. Bænin eða það að biðja til Guðs á því ekki rót sína í neinu mannlegu uppátæki, heldur í meðfæddum lífrænum eiginleika, sem tengir veruna guðdóminum eilíflega. Það breytir alls ekki þessu lögmáli, hvort veran er sjálfri sér meðvitandi um þetta óhaggandi kosmíska samband við guðdóminn eða ekki. Dýrið sem hljóðar af skelfingu eða rekur upp dauðavein, veit ekki um neinn guðdóm. Það veit ekki hvern það hrópar á, en eigi að síður æpir það í neyð sinni á óþekktan aðila. Þar sem öll tjáning byggist á kosmískum, lífrænum, eilífum hæfileika og ekki tímabundnum hæfileika mynduðum af reynslu og skilningi, tilheyrir hann hinum eilífu eðilisþáttum í yfirvitund verunnar, eins og frumþráin, örlagavakinn, lögmál hæfileikakjarnanna og hinn eilífi hluti sköpunarhæfileikans.


urta (meðlimur í Vantrú) - 12/11/04 13:53 #

Það sem við eigum að kenna börnum er að bera ábyrgð á sjálfum sér og gerðum sínum, að vera kurteis og nærgætin við annað fólk, að vera góð við dýr, að sýna náttúrunni virðingu og þannig má lengi telja. Það sem við eigum hins vegar alls ekki að kenna börnum er að trúa á eitthvað sem er hugarburður.


Angela - 14/01/05 14:43 #

Mér finnst að trú ætti ekki að vera kennd í skólum og að það ætti ekki að "klína" trú inná fólk. Allir ættu að vera trúlausir þangað til að maður getur fundið sjálfur hvað maður trúir á.

Ég fermdist síðasta vor en ég er samt ekki viss um hvort ég trúi á guð. Það var ekki spurt mig hvort ég vildi fermast og ég fór ekki að pæla í því fyrr en eftir á. Ég er ekki að segja að ég trúi ekki á Guð en ég er bara ekki viss. Hvernig átti ég að vita að ég gæti "ekki fermst" og farið að trúa á einhvað annað? Ég fór ekki að pæla í þessu fyrr en ég hafði aldur til þess, þótt fermingin mín hafi farið fram fyrir ekki einu sinni ári síðan, þá hef ég þroskast, breyst og farið að "pæla" í meiru. Eins og trú minni.

Svo eru ekki allir í sömu trú, svo mér finnst það fáránlegt að það sé verið að kenna trúarbrögð í skóla. Fólk getur bara kynnt sér málið fyrir sig, farið til einhverns sem þekkir trúarbrögð og getur kennt.


urta (meðlimur í Vantrú) - 14/01/05 14:51 #

Haltu bara áfram að efast, Angela. Þú kemst brátt að því - ef þú hugsar um trúarbrögð á gagnrýnin hátt eins og allt annað - að það er enginn guð - engir guðir.


Árni Árnason - 17/01/05 11:39 #

Ég er mjög hissa á að fjöldi fólks telur trú ekki meðfædda. Auðvitað er trú genetísk. Fólk sem ættleitt hefur reyfabörn frá asíulöndum hefur fengið að kynnast því að það er ekki heiglum hent að ná úr þeim búddismanum, eða hindúatrúnni. Börn foreldra af sitthvorri trú eru alla tíð í endalausu sálarstríði þar sem þau eru kannski hálf lútersk og hálf búddísk, jafnvel þó að þau séu alin upp af kaþólikkum frá blautu barnbeini.

Það varð uppi fótur og fit á einni afskekktri suðurhafseyju þegar allt í einu fæddist þar rammkaþólskt barn. Það uppgötvaðist ekki fyrr en barnið fór að predika að einhverjum árum áður hafði mann í löskuðum björgunarbát rekið þar á land og hann átt mök við innfædda stúlku þennan eina dag áður en þyrlan sótti hann.

Þar sem átök eru milli þjóða vegna trúarbragða eru oft gerðir út "undercover" flugumenn til að laumast yfir landamærin og sá sæði sínu með "réttri" trú meðal andstæðinganna og brjóta þannig niður trú þeirra.

Þetta hélt ég nú að allir vissu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/01/05 13:54 #

Jahhá! Áttu í fórum þínum einhverjar rannsóknarniðurstöður eða önnur rök fyrir þessu? Eða heldurðu að það dugi bara að koma með flökkusögur og annan vitnisburð til að bakka upp þessa endemis vitleysu?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 17/01/05 14:18 #

Birgir, innlegg Árna er væntanlega háð ;-)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/01/05 14:22 #

Úbbs :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.